Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2025
Haldinn í Apótekinu, Hafnarborg, 3. apríl k. 20.00
Boðað var til fundarins með með auglýsingu á Facebook, félagsmenn fengu sent fundarboð í tölvupósti og fundurinn var auglýstur á Rúv.
Áætlaður fjöldi fundargesta um 35.
1. Setning fundar
Formaður félagsins Sigurður Einarsson setti fundinn og óskaði eftir að Gunnar Svavarsson taki að sér fundarstjórn og óskaði jafnframt eftir að Hallgrímur Jónasson ritaði fundargerð. Var það samþykkt. Gengið var til dagskrár.
2. Skýrsla um störf félagsins undanfarið ár.
Sigurður Einarsson formaður félagsins flutti eftirfarandi skýrslu.
Maður er ítrekað minntur á hversu mikilvægur skógurinn er.
Nýlega var sýndur í sjónvarpi RUV, franskur þáttur sem á Íslensku fékk heitið – Náttúruáhrif .
Við höfum heyrt um áhrif þess að faðma tré – þarna greindi japanskur vísindamaður frá því að við það að faðma tré – áreitur þú það og það gefur frá sér efni sem er varnarefni gegn skordýrum en eru holl manninum. Svokallaðar ilmkjarnaolíur trjánna hafa jákvæð áhrif á streytuhormón líkamans. Einkum örva þær drápsfrumur sem eru varnar-mekanismi líkamans gegn t,d krabbameini.
Hann talaði líka um mjög jákvæð áhrif sem skógarböð hafa á líkamann.
Virknin á drápsfrumurnar mældist halda í allt að 30 daga eftir skógarböðin.
Ég var á Akureyri með Birnu fyrir viku og skelltum við okkur í Skógarböðin. Þar hitti ég kollega minn sem nýlega tók við ráðherraembætti menningar-, nýsköpunar- og háskólamála sem skiptir svo sem ekki máli í samhenginu. Við sátum þarna og létum líða úr okkur og ræddum auðvitað fagið okkar arkitektúr. Við vorum sammála því að í allri flóru heilsubaða á landinu eru skógarböðin einhver þau best heppnuðu. Hönnunin er ekki bara faglega útfærð, fallegar byggingar og vel heppnað form baðlaugarinnar, heldur skiptir umhverfið verulegu máli. – Það er einhver leyndur máttur sem fylgir skóginum sem eykur á vellíðanina. Notaleg stund sem við áttum þarna með konunum undir trjánum.
Aftur að franska þættinum. Rannsóknir sýna að skógurinn hefur mikilvæg áhrif á fyrirbyggjandi lækningar.
Ef horft er á skóg lækkar blóðþrýstingur hraðar en þegar horft er á þéttbýli. Þannig er umhverfi skógarins endurnærandi og náttúran dregur úr þáttum sem orsaka þunglyndi. Þeir sögðu beint út að það minnkar lyfjanotkun sjúklinga ef þeir geta horft á náttúru, sér í lagi skóg. Því var niðurstaðan að nauðsynlegt væri að rækta skóga inni í borgunum líka.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar verður 80 ára á næsta ári og hver veit hvað afmælisárið ber í skauti sér.
Þá aðeins að stöðunni hjá okkur.
Eftirfarandi annáll ársins er að venju úr smiðju Árna Þórólfssonar.
Eins og undanfarin ár unnu starfsmenn skógræktarfélagsins að grisjun skóganna fyrstu vikur síðasta árs. Unnið var að grisjun í Gráhelluhrauni, Höfðaskógi og í Selhöfða. Sverustu trjábolirnir voru bútaðir og klofnir í eldivið en þeir grennri kurlaðir en sala á trjákurli hefur aukist með hverju árinu hjá okkur.
Talsvert snjóaði í janúar og febrúar en skógræktarfélagið er með samning við Hafnarfjarðarbæ um ruðning á helstu göngustígum í upplandinu þannig að því þurfti að sinna myndarlega.
Við lukum í vor að klæða verkstæðishús félagsins með lerkiklæðningu og lokaúttekt byggingarfulltrúa gat farið fram.
Um sumarið var skipt um klæðningu á suðurgafli starfsmannahússins – þarft viðhald þar.
Við héldum áfram með byggingu tveggja gróðurhúsa og náðist að koma plastdúk á annað húsið og stefnt er að því að setja plastdúk á hitt í sumar.
Meðal annarra framkvæmda má nefna að settar voru glærar pólíkarbonat-plötur á pergóluna á sölusvæðinu og hafist handa við að reisa aðra pergólu á svæðinu. Þessar pergólur eru kærkomið þak yfir sölusvæðið og hluta plöntuframleiðslunnar auk þess að jólatrjáasalan nýtur sérstaklega góðs af þeim.
Síðasta sumar var Straumsvíkurlína sett í jörðu frá Hamranesi að Kaldárselsvegi. Þetta var mikil framkvæmd þar sem m.a. reyndist nauðsynlegt að fella fjölda trjáa á því svæði sem grafa þurfti fyrir línunni. Samkvæmt þjónustusamningi sem er í gildi á milli skógræktarfélagsins og Hafnarfjarðarbæjar þá á félagið rétt á bótum fyrir þau tré sem þarf á fella á svæðum félagsins vegna framkvæmda eins og þessarar. Jökull Gunnarsson starfsmaður skógræktarfélagsins sá um að fella þessi tré en tré sem fella þurfti reyndust talsvert fleiri og stærri en reiknað hafi verið með. Að auki reyndist nauðsynlegt að fella fjölda trjáa undir loftlínunni í Gráhelluhrauni. Bæturnar sem Landsnet greiddi skógræktarfélaginu voru þess vegna talsverðar.
Við fengum einnig það verkefni að fella nokkurn fjölda trjáa syðst í Gráhelluhrauni vegna framkvæmda við nýja göngubrú yfir reiðveginn.
Fyrstu sumarstarfsmennirnir hófu störf í lok maí. Meðal helstu verkefni á útivistarsvæðunum var að slá gras og lúpínu meðfram göngustígum. Önnur helstu verkefni voru að flytja trjáboli úr Selhöfða eftir grisjun starfsmanna skógræktarfélagsins í janúar og febrúar en auk þess aðstoðuðu þau við byggingu gróðurhúsanna m.a. við málningarvinnu.
Á síðasta ári voru gróðursettar rúmlega 19 þúsund trjáplöntur á skógræktarsvæðum félagsins. Meirihluti þeirra voru plöntur sem félagið fékk úthlutað frá Landgræðsluskógum eða rúmlega 18 þúsund plöntur. Mest gróðursetta trjátegundin var stafafura eða rúmlega 6.700 plöntur, 4.000 sitkagreni og 3.500 birkiplöntur.
Jólatrjáasala skógræktarfélagsins gekk mjög vel og seldust talsvert fleiri jólatré en árið áður en rúmlega 40% trjánna komu úr skógum félagsins. Að vanda kom nokkur fjöldi sjálfboðaliða að sölunni og framreiðslu veitinga.
Eins og sést í reikningum félagsins sem lagðir verða fram hér á eftir er rekstur félagsins mjög öflugur og í góðum höndum. Við stöndum enn í nokkrum framkvæmdum en afkoman stendur vel undir þeim.
Við þurfum áfram að halda á lofti mikilvægi okkar verkefnis fyrir lýðheilsu landsmanna. Fólkið þarf að fanga orku trjánna – þ.e. ilmkjarnaolíurnar sem hafa áhrif á ónæmi okkar. Orka trjánna er máttur sem vinnur gegn þunglyndi og streitu. Skógurinn er ekki bara gagnlegur – hann er lífsnauðsynlegur.
Þetta þurfum við að kenna börnunum okkar, en nokkrir leikskólar sýna þessu mikinn skilning og mæta reglulega með börnin í skóginn.
Einn af rannsóknarmönnunum fyrrgreinds þáttar sem rætt er við sagðist vera sannfærðar um að í framtíðinni munu læknar oft ávísa ferð í skóginn frekar en lyfseðli.
Skógar eru því nauðsynlegur hluti af farsælli framtíð. Ég vil þakka öllum félagsmönnum og velunnurum félagsins fyrir dásamlegt ár – félagið okkar er á frábærum stað – höldum því.
Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri flutti eftirfarandi skýrslu.
Við byrjuðum árið á grisjunarvinnu í Gráhelluhrauni, Höfðaskógi og í norðanverðum Selhöfða. Veturinn í fyrra var í meðallagi hvorki sérstaklega harður né áberandi mildur. Snjóalög voru þó viðvarandi í janúar og febrúar. Sumarið aftur á móti var óvenjulega blautt og fremur kalt. Einnig komu nokkrir hvassir sumardagar. September var hvað sólríkastur. Snemma í október kólnaði verulega og snjóaði. Þannig að í minningunni var sumarið ansi lítilfjörlegt. Nóvember og desember voru tiltölulega góðir og veður yfirleitt heppilegt til útivinnu. Einn sunnudagurinn á aðventu skar sig þó úr með grenjandi rigningu og roki svo hlaðið við Þöll var allt á floti.
Sníkjudýr og sjúkdómar voru ekki áberandi í skógum félagsins. Einn lítill gróðureldur kom upp í apríl við vesturenda Hvaleyrarvatns en náðist ekki að breiðast út vegna göngustíga allt um kring en einnig mætti slökkviliðið á staðinn.
Margar tegundir trjágróðurs blómguðust óvenjumikið og mikið var af aldinum um haustið. En fræþroski var almennt ekki góður. Hvað olli þessari miklu blómgun er ekki að fullu ljóst en ekki er ólíklegt að saltrokið mikla í lok maí árið á undan spili þar eitthvað inn í en blómvísar eyðilögðust í stórum stíl vorið 2023.
Nokkur ungmenni kostuð af Landsvirkjun störfuðu hjá félaginu í fyrra. Þetta voru þau Dagur Sölvi, Elsa Björg, Freyja Rún, Helena, Hugrún Hlíðkvist og Valentin En því miður var þetta síðasta árið sem Landsvirkjun styður félagið með þessum hætti eftir 25 ára samstarf. Ég vil því nota tækifærið og þakka Landsvirkjun kærlega fyrir samstarfið í gegnum árin og vonandi mun Landsvirkjun einhvern tíman aftur bjóða félaginu sumarstarfsfólk á þeirra vegum. Þessi góði hópur sá m.a. um að sækja grisjunarvið út í skóg og flytja upp í stöð, hreinsa upplandið, gróðursetja, laga göngustíga og slá meðfram þeim.
Valentin var einnig hjá okkur sumarið 2023 en í fyrra var kærasta hans, Ariel, með og störfuðu þau hjá félaginu í júlí og ágúst.
Einnig starfaði hópur á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar hjá okkur í fyrra flest á fimmtánda og sextánda aldursári. Flokkstjórar voru þau Guðrún Sunna og Þórir.
Í september lést Arnar Helgason félagi okkar. Hann stóð ávalt vaktina í sjálfboðavinnu í jólatrjáasölu félagsins til fjölda ára. Hann tók alltaf vel á móti fólki og sló á létta strengi. Hans verður sárt saknað.
Helstu viðburðir á vegum félagsins í fyrra voru eftirfarandi.
Aðalfundur félagsins var haldinn hér í Hafnarborg 11. apríl. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum flutti Daði Már Kristófersson auðlindahagfræðingur og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra erindi sem hann nefndi „Framlag skóga til velsældar“.
Fuglaskoðun félagsins var 20. apríl. Við Hannes vorum leiðsögumenn.
Fjölskyldudagurinn “Líf í lundi” var haldinn hátíðlegur þann 22. júní. Pálmar Örn kom og spilaði og söng. „Pop up“ kaffihús var í boði Pallett Kaffikompaní sem David vinur okkar kom og setti upp. Félagar í Rimmugýg mættu á svæðið. Boðið var upp á grillaðar pulsur og safa í boði Fjarðarkaupa. Sett var upp blómaverkstæði fyrir yngstu kynslóðina. Skógargetraunin var á sínum stað og síðast en ekki síst buðu Ellen og Pálmar upp á salsadanssýningu og -kennslu. Þrátt fyrir rigningu mætti þó nokkur hópur fólks til að taka þátt og njóta. Félagið hlaut menningarstyrk frá bænum til að halda þessa hátíð.
Sjálfboðaliðadagur félagsins var laugardaginn 21. september. Gróðursett var í hlíðarnar skammt frá Hamranesi eins og undanfarin ár en þarna voru sorphaugar bæjarins hér áður fyrr. Gróðursettar voru um 600 trjáplöntur 2-3 ára af ýmsum tegundum. Um tuttugu manns mættu og tóku þátt í góðu haustveðri. Boðið var upp á heita gúllassúpu í Þöll að gróðursetningu lokinni.
Ljósaganga félagsins og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins fór fram þriðjudagskvöldið 29. október. Eins og undanfarin ár var þema göngunnar hrekkjavaka. Undirbúningshópur hafði hist áður og lagt á ráðin. Eins og árin á undan lánaði Daníel Erlingsson alla sína hrekkjavökumuni eins og líkkistur, krossa og syngjandi og hlæjandi beinagrindur. Aldrei áður hafa eins margir mætt í þessa kvöldgöngu eins og í í fyrra. Talið er að rúmlega 400 manns hafi mætt. Allt gekk vel þrátt fyrir þennan mikla mannfjölda.
Jólatrjáasala félagsins var að venju opin alla daga í desember fram að jólum. Um helgar kom fjöldi sjálfboðaliða og tók þátt í jólatrjáasölunni.
Formlegar heimsóknir voru nokkrar á síðastliðnu ári. Auk þess komu ýmsir til að sinna landnemaspildum sínum eða bara til að gróðursetja með kolefnisbindingu í huga.
Nemendur í Leikskólanum Hvammi komu um vorið í heimsókn og gróðursettu tré í skóginum í leiðinni.
Félagar í Rótrýklúbbnum Straumi hreinsuðu og báru á í landnemaspildu klúbbsins í nyrst í Langholti um vorið.
Starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækisins „Travel Connect“ komu og gróðursettu í Hamranesinu í byrjun júní.
7. bekkingar í Víðistaðaskóla komu í júní og gróðursettu yrkjuplöntur í landnemaspildu sína norður af Kjóadal.
Félagar í Rótarýklúbb Grafavogs heimsóttu okkur um miðjan júní.
Útskriftarnemar ásamt kennurum í Leikskólanum Norðurbergi komu í júní og gróðursettu nokkur tré í skóginum. Þess ber að geta að nemendur og kennarar í Norðurbergi komu nokkrum sinnum yfir árið í skóginn og notuðu skóginn til útikennslu. Fengu þau svo aðstöðu í bækistöðvum félagsins til að hita súpu, komast á salerni og þess háttar.
Samson Bjarnar lektor og nemendur við Landbúnaðarháskóla Íslands heimsóttu okkur í september til að fræðast um starfsemi félagsins, skóginn og fleira.
Jónatan var með leiðsögn um skóginn fyrir starfsmenn Hafró um haustið.
Félagar í Rótarýklúbb Hafnarfjarðar fengu aðstoð við að grisja í landnemaspildu klúbbsins í Klifsholti. Einnig gróðursettu klúbbfélagar talsvert um haustið.
Nemendur og kennarar í Skarðshlíðarskóla komu um miðjan september og gróðursettu trjáplöntur í Hamranesi.
Fleiri félög, skólar og einstaklingar komu einnig á árinu og huguðu að landnemaspildum sínum á síðastliðnu ári.
Hafist var handa við gerð göngubrúar syðst í Gráhelluhraunsskógi í fyrrahaust samkvæmt samþykktu deiluskipulagi. Verðum hún fljótlega tilbúin.
Í byrjun október komu vinir okkar þau Wilhelm og Melanie Eitzen, Wolf og Marion Dick og fleiri frá Cuxhaven og gróðursettu 100 trjáplöntur í Cuxhavenlundinn við Hvaleyrarvatn. Stjórn vinabæjarfélagsins hér heima tók einnig þátt. Sérstakur gestur var Clarissa Duvigneau sendiherra Þýskalands á Íslandi. Bauð félagið upp á hressingu í Þöll að gróðursetningu lokinni. Bauð sendiherrann síðan öllum í móttöku á hótel í Reykjavík daginn eftir, 3. október, í tilefni þjóðhátíðardags Þjóðverja.
Laugardaginn 16. nóvember komu svo að hluta til aftur sömu vinir okkar frá Cuxhaven í heimsókn í tengslum við afhendingu jólatrésins sem sett var upp á klettinn á móts við Thorsplan. Auk þjóðverjanna, mætti stjórn vinabæjarfélagsins. Bauð félagið upp á léttan hádegisverð. Haldnar voru ræður og skipst á gjöfum.
Í aðdraganda jóla komu nemendur og kennara nokkurra leikskóla í bænum í heimsókn, völdu sér jólatré með aðstoð sveinka og þáðu síðan kakó og kökur í bækistöðvum félagsins. Gjarnan sungu börnin í þakklætisskyni í lok heimsóknar.
Félagið styrkti Kvenfélag Fríkirkjunnar á þann hátt að gefa þeim alls kyns greinar sem kvenfélagskonur nýttu til fjáröflunar með gerð leiðisgreina. Einnig færði félagið Karmelsystrum greinar og blóm fyrir jólin en blómin skaffaði Grænn Markaður.
Hvítasunnuhlaup skokkhóps Hauka fór fram annan í Hvítasunnu. Eins og venjulega var hlaupið frá Ásvöllum, gegnum Hádegisskarð og upp og niður Vatnshlíð og um Höfðaskóg og til baka. Eins og áður styrkti Almenningsíþróttadeild Hauka félagið í tengslum við þetta vinsæla utanvegahlaup enda gegna skógarstígarnir sem skógræktarfélagið hefur lagt mikilvægu hlutverki í þessu hlaupi.
Skíða- og skautafélag Hafnarfjarðar sporaði gönguskíðabraut á ísilögðu Hvaleyrarvatninu nokkrum sinnum yfir vetrarmánuðina. Félagið hefur fengið að geyma kerru með snjósleða við Þöll. Sveinbjörn Sigurðsson forsvarsmaður skíða- og skautafélagsins hitti stjórn félagsins í fyrra og lýsti yfir áhuga á lagningu gönguskíðabrautar inn í Seldal. Stjórn skógræktarfélagsins tók vel í málið.
Erlend stórmynd um orrustuna við Hastings, Englandi á elleftu öld var að hluta til tekin upp í Seldal í sumar þrátt fyrir stanslausa rigningu allan tíman. Var dalurinn að þeim sökum lokaður í nokkra daga.
Nokkrir úr stjórn ásamt undirrituðum sóttu fulltrúafund skógræktarfélaganna í Gunnarsholti kaldan laugardag í byrjun apríl. Boðið var upp á fróðleg erindi og skoðunarferð um svæðið. Flutti ég þar erindi um ýmsar spennandi tegundir trjáa sem nýta mæti til skógræktar.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var svo haldinn á Neskaupsstað í lok ágúst. Nokkrir fulltrúar félagsins sóttu fundinn sem haldinn var af skógræktarfélögunum á Eskifirði, Neskaupsstað og Reyðarfirði.
Nú þess má geta að Árni og ég vorum tilnefndir til hvatningarverðlauna skógræktarinnar í fyrra. Hafnfirðingurinn Sigurður Arnarson bar sigur úr bítum og er það sannarlega verðskuldað. Svo var það vinur okkar Pálmar Örn Guðmundsson formaður Skógræktarfélags Grindavíkur sem hlaut verðlaunin í ár.
Félagið sér um alla hreinsun í upplandinu þar með talið losun á ruslaílátum við Kaldársel, í Gráhelluhrauni, við Hvaleyrarvant og víðar. Einnig sér félagið um að hreinsa almenningssalernin við Skátalund. Einnig sjáum við um að tína rusl meðfram vegum í upplandinu og við áningarstaði. Félagið er með sérstakan samning til eins árs í senn við bæinn hvað varðar hreinsun eða umhverfisvakt og skilar skýrslu til „Umhverfis- og framkvæmda“ mánaðarlega. Sérstakur samningur er svo um snjóruðning og söltun á helstu gönguleiðum í upplandinu.
Ég vil minn á heimasíðu félagsins skoghf.is. Þar eru komin drög að helstu dagskrárliðum á þessu ári. Næst er það Jarðarblót 22. apríl í samstarfi við Ásatrúarfélagið. Svo er það fjölskyldudagurinn „Líf í lundi“ laugardaginn 21. júní.
Skráðir félagar í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar eru rúmlega þúsund talsins. Nú er félagsskírteinið rafrænt. Ef þið hafið ekki virkjað rafrænt félagsskírteini þá endilega sendið okkur tölvupóst og við sendum ykkur slóð svo þið getið virkjað skírteinið sem þið geymið svo í veskinu í símanum ykkar. Flestar gróðrarstöðvar á landinu og fleiri fyrirtæki veita félögum afslátt gegn framvísun félagsskírteinis.
Ég vil í lokin þakka stjórn félagsins, endurskoðanda, skoðunarmönnum reikninga og samstarfsfólki öllu fyrir þeirra framlag og góða samvinnu. Landsvirkjun, Vinnuskólinn og Fjarðarkaup fá sérstakar þakkir fyrir þeirra stuðning við félagið. Allir sjálfboðaliðar sem hafa lagt félaginu lið á einn eða annan hátt fá sérstakar þakkir. Ég í vil í því sambandi sérstaklega nefna Magnús Helgason, Vigfús, Línu, Önnu, Kalla, Önnu Stínu, Stefán, Gunna og Hadda og stjórnarmenn sem tóku þátt í jólatrjáasölu félagsins og fleiru. Pálmar og Ellen ásamt David á Pallett og Ásgeiri fá sérstakar þakkir fyrir að gera fjölskyldudaginn svona skemmtilegan. Einnig vil ég þakka félögum í Rimmugíg, Haffa Haff, Danna, Skúla, Anniku, Hannesi og Bryndísi fyrir að skapa svona flotta upplifun í tengslum við ljósagönguna. Skógræktarfélagi Íslands og starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar vil ég þakka samstarfið.
3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins til kynningar og samþykktar.
Árni Þórólfsson gjaldkeri félagsins dreifði eintaki af ársreikningi félagsins fyrir árið 2024 áritaða af skoðunarmönnum félagsins. Hann fór yfir helstu áherslur í reikningunum. Vakti hann athygli á góðri stöðu félagsins, en á árinu voru tekjur meir en árin á undan en það kemur til að sérstökum verkefnum sem féllu til á árinu. Reikningar félagsins eru hér meðfylgjandi.
4. Lagabreytingar.
Fyrir liggur tillaga um að í stað þess að vera með lög félagsins, verði lögin nefnd “samþykktir”.Þessi breyting er gerð til að félagið komist á almannaheillaskrá, sem er skattalegt hagræði fyrir félagsmenn.
Tillagan samþykkt samhljóða.
5. Kosningar til stjórnar.
Gyða Hauksdóttir og Hallgrímur Jónasson eiga að ganga úr stjórn. Þau gefa bæði kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu til næstu þriggja ára. Áframhaldandi seta þeirra í stjórn var samþykkt samhljóða.
Gerð var tillaga um að árgjald félagsins verði 5000 kr. Samþykkt samhljóða.
6. Kjör skoðunarmanna.
Tillaga var gerð um skoðunarmenn, Gunnar Þórólfsson og Þorkel Þorkelsson. Samþykkt samhljóða.
7. Önnur mál.
Jónatan Garðarsson formaður Skógræktarfélags Íslands ávarpaði fundinn.
8. Kaffihlé
9. Fræðsluerindi
Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur flutti erindi sem hann nefnir „Rauða genið og kynbætur birkis“.
Þorsteinn hefur í áratugi unnið að plöntukynbótum í þágu landbúnaðar, skógræktar og garðyrkju. Hann hefur unnið í sjálfboðavinnu að kynbótum á íslensku ilmbjörkinni sem hefur skilað sér í yrkjunum ‘Embla’ og ‘Kofoed’. Rauðblöðóttu yrkin ‘Hekla’ og ‘Dumba’ eru einnig afrakstur af kynbótastarfi hans með það að markmiði að fá fram rauðblaða birki fyrir íslenskar aðstæður. Þorsteinn vinnur enn með birkið og rakti hann meðal annars í sögulegu samhengi hvernig hann og fleiri stóðu að því að þróa ný yrki með að nota innlent og erlent erfðaefni. Erindi Þorsteins var mjög áhugavert og auk þess skemmtilegt.
Fundarlok, Kl. 22.15.