Seldalur er suðvestur af Hvaleyrarvatni og umlukinn hálsum og höfðum. Selhöfði er norðan við dalinn og Stórhöfði suðvestan hans. Þar á milli er annarsvegar Seldalsháls og hinsvegar ónefndur háls sem tengir saman Stórhöfða og Langholt. Dalurinn var mjög illa farinn þegar Skógræktarfélagið tók hann til ræktunar árið 1990. Uppgræðsla dalsins var hluti af Landgræðsluskóga átaki sem hleypt var af stokkunum í tilefni af 60 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands þeta sama ár. Seldalur leit ekkert sérstaklega vel út þegar ræktunarstarfið hófst. Á vetrum safnaðist vatn í dalbotninn og leirkenndur jarðvegurinn var mjög rokgjarn á sumrin í mestu þurrkum. Meðlimir Skotveiðifélags Hafnarfjarðar höfðu verið með aðstöðu til skotæfinga í dalnum um frá 1968 til 1988 og þar var mikið magn af brotnum leirdúfum, högglum og örðu sem minnti á veru félagsmanna þar.
Fyrsta verkið fólst í að hreinsa dalinn, stinga niður rofaborð, bera áburð, grasfræ og lúpínufræ í flögin og freista þess að hefta uppblástur og fok. Síðan var hafist handa við að gróðursetja harðgerðar trjátegundir eins og birki, víði, furu, greni og alaskaösp. Alls voru gróðursettar 50 þúsund trjáplöntur fyrsta kastið í þenna rúmlega 20 hektara dal sem var varla árennilegur sem ræktunarsvæði. Mikil vinna hefur verið lögð í búa svo um að trjágróðurinn fái sem best skilyrði til að vaxa og hefur landið hreinlega tekið stakkaskiptum. Það voru því mikil vonbrigði þegar eldur var borinn að þurrum gróðrinum í dalnum seinnihluta marsmánaðar 2010. Kveikt var í rusli sem þar var skilið eftir og líka borinn eldur að þurrum gróðuri á fleiri en einum stað. Þetta orsakaði það að 4-5 hektarar, eða fjórðungur svæðisins, fuðraði upp á skömmum tíma. Mikilvægt verður að planta aftur út í brunasvæðið eins fljótt og auðið er núna í sumar því græða verður dalinn upp áður en uppblástur hefst þar á nýjan leik.
Björnslundur í Seldal
Björn Árnason var bæjarverkfræðingur Hafnarfjarðar frá 1968 til 1995. Hann sinnti trjárækt og landgræðslu af miklum áhuga og hafði brennandi áhuga á útvist. Eftir komuna til Hafnarfjarðar varð hann þess áskynja hversu illa uppland bæjarins var farið af ofbeit og uppblæstri og vildi setja aukinn kraft í uppgræðslu landsins. Björn gaf kost á sér til setu í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og átti þar sæti frá 1996 til 2004. Einu ári áður en hann tók sæti í stjórninni keypti hann jörðina Mykjunes í Holtum í Rangárvallasýslu. Hóf hann umfangsmikla skógrækt í Mykjunesi og helgaði krafta sína þessu áhugamáli sínu af fullum krafti næstu árin. Naut hann dyggrar aðstoðar barna sinna, barnabarna og annarra við ræktunarstarfið og hafði áorkað gríðarlega miklu þegar hann kvaddi þessa jarðvist austur í Mykjunesi vorið 2007.
Árið 1989 þegar Hólmfríður Finnbogadóttir formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var ráðin í fullt starf sem framkvæmdastjóri var eitt fyrsta verkið að leita samninga við Hafnarfjarðarbæ um viðbótar landsvæði til ræktunar. Gengið var frá nýjum samningi í mars 1990 og stuttu seinna hófst verkefnið „Landgræðsluskógar – átak 1990“ í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands. Átakið var styrkt með framlagi úr ríkissjóði og tók Skógræktarfélag Hafnarfjarðar þá ákvörðun að leggja sitt af mörkum til að átakið tækist sem allra best. Björn lagði til að félagsmenn hæfu landgræðsluátakið með uppgræðslu í Seldal milli Selhöfða og Stórhöfa. Þessi 20 ha dalbotn var illa farinn af uppblæstri og landeyðingu og full ástæða til að snúa þróuninni við. Næstu tvö sumur voru 80 þúsund trjáplöntur gróðursettar í Seldal og unnið þar að meiriháttar landbótum. Dalurinn breyttist smám saman úr auðn í fallegan gróðurreit.
Vorið 1991 var lögð fyrir skipulagsnefnd Hafnarfjarðarbæjar tillaga Þráins Haukssonar landslagsarkitekts að heildarskipulagi útivistarsvæða í grennd við Hvaleyrarvatn. Þráinn vann skipulagstillögu sína í náinni samvinnu við Björn Árnason bæjarverkfræðing og Jóhannes S. Kjarval skipulagsstjóra Hafnarfjarðar. Helstu markmið tillögunnar voru að stuðla að skynsamlegri og varfærnislegri meðferð og nýtingu svæðisins, vernd einstakra náttúrufyrirbæra, aukinni uppgræðslu og skógrækt og að bæta möguleikana á fjölbreyttri útivist. Jafnframt var lögð áhersla á að tryggja góð tengsl byggðarinnar við útivistarlöndin með bættu umferðarkerfi. Vegaslóðarnir sem lagðir voru í framhaldinu voru fyrst og fremst hugsaðir til að auðvelda ræktunarfólki að fara um upplandið, en þeir hafa nýst til gönguferð og hverslags umferðar um Höfðana eins og landið nefnist einu nafni. Björn kom að þessu máli með beinum hætti þar sem það var í hans verkahring að tryggja fjármagn til vega- og stígagerðar. Þetta tókst þrátt fyrir að þungt væri fyrir fæti framanaf. Núna spyr enginn hvers vegna svona erfiðlega gekk að fjármagna gerð vegaslóðanna, þar sem þeir þykja alveg sjálfsagður hluti af svæðinu í dag og enginn vill án þeirra vera.
Andlát Björns kom félögum hans í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar á óvart enda var hann heilsuhraustur fram á síðasta dag. Fljótlega kom upp sú hugmynd að minnast Björns með viðeigandi hætti en hann var einn af heiðursfélögum Skógræktarfélagsins. Var samþykkt að reisa honum minningarstein austarlega í Seldal. Grágrýtissteini með koparplötu var fundinn staður í fallegum hlíðarslakka og var steinninn afhjúpaður á Skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar laugardaginn 19. júlí 2008. Fjöldi félagsmanna ásamt afkomendum Björns voru viðstaddir þegar börn hans, þau Kristín, Árni Björn, Sigríður og Björn Ágúst, afhjúpuðu minningarsteininn með formlegum hætti. Umhverfis steininn var fjöldi fjölbreyttra skógarplantna gróðursettar sem munu mynda fallegan ramma um minningarsteininn með tíð og tíma.