Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson skipaverkfræðingur og siglingamálastjóri og eiginkona hans Else Sörensen Bárðarson létu eftir sig miklar eignir en þau áttu enga afkomendur. Else lést 28. maí 2008 en Hjálmar tæplega ári seinna 7. apríl 2009. Létu þau eftir sig eignir og fjármuni sem þau ánöfnuðu nokkrum aðilum. Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður hlutu 30% af eigum þeirra hvert um sig, en það sem eftir var skiptist jafnt milli Fuglaverndarfélags Íslands og þriggja safna.
Hjálmar óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að fénu sem rann til Landgræðslusjóðs yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“. Stofnaður var minningarsjóður um hjónin sem starfa mun í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og í landgræðsluskógrækt með lúpínu. Jafnframt var Hjálmarssjóður settur á laggirnar sem veitir styrki til landgræðsluverkefna. Hjálmarssjóður hefur m.a. gert samning við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns þar sem áður var berangur en lúpínan hefur breytt svæðinu í vænlegt ræktunarland.
Ætlunin er að útbúa minningarreit um Hjálmar og Else í Vatnshlíðinni og vinnur Þráinn Hauksson landslags arkitekt að hönnun reitsins.
Gróðursetning í Vatnshlíð hófst með formlegum hætti laugardaginn 17. september 2011 þegar um 30 sjálfboðaliðar mættu kl. 10.00 að morgni og plöntuðu stálpuðum trjám fram til kl. 14.00 um daginni. Að gróðursetningunni lokinni þáðu sjálfboðaliðarnir kaffi og meðlæti í Selinu í Höfðaskógi. Hjálmar var mikill áhugamaður um náttúru Íslands og kunnur ljósmyndari. Fuglaljósmyndir hans skipuðu stóran sess í lífsstarfinu og þessvegna var lögð sérstök áhersla á að gróðursetja berjarunna, reynitré og fleiri tegundir sem hafa sérstakt gildi fyrir fugla. Næstu sumur verður haldið áfram að planta út fjölbreyttum trjágróðri í lúpínubreiðurnar í Vatnshlíðinni og skapa þar sælureit. Ætlunin er að koma upp ljósmyndahúsi við Hvaleyarvatn með tíð og tíma til að auðvelda fuglaljósmyndurum að ná góðum fuglamyndum og bæta aðstöðuna við vatnið. Svæðið er mjög vinsælt meðal þeirra sem stunda fuglaljósmyndun enda fuglalíf í skóginum við Hvaleyrarvatn sérstaklega fjölbreytilegt.
Hjálmar Rögnvaldur bjó lengi við Álftanesveg skammt frá norðurbæ Hafnarfjarðar en hann fæddist árið 1918 á Ísafirði og ólst þar upp. Hann tók fjölmargar ljósmyndir á heimaslóðum og gaf út merka ljósmyndabók um Vestfirði sem margir kannast við. Hjálmar fékk fyrstu myndavélina í fermingargjöf frá afa sínum og ömmu en vildi ekki kalla sig ljósmyndara þar sem hann var sjálfmenntaður í faginu. Hann lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1939 og útskrifaðist sem skipaverkfræðingur frá Tekniske Højskole í Kaupmannahöfn árið 1947 en faðir hans var fyrsti menntaði skipaverkfræðingur landsins. Hjálmar fetaði þar með í fótspor föður síns, en hann eyddi meginhluta starfsævinnar sem skipasmiður á Torfnesi á Ísafirði. Hjálmar varð skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri og gegndi starfinu til ársins 1985. Var hann þekktur um allan heim fyrir störf sín á vettvangi öryggismála sjófarenda og vörnum gegn mengun sjávar og hlaut Alþjóða siglingamálaverðlaunin, auk margra annarra viðurkenninga.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er stolt af því að Landgræðslusjóður og stjórn minningarsjóðsins hafi falið félagsmönnum að sinna þessu merka ræktunarstarfi og heiðra þannig minningu hjónanna Hjálmars R. og Else S. Bárðarsonar.
Minningarreitur og hólmar í Hvaleyrarvatni
Framkvæmdir við minningarreit um Hjálmar Rögnvald Bárðarson skipaverkfræðing og siglingamálastjóra og eiginkonu hans Else Sörensen Bárðarson í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn gengur vel. Reiturinn er hannaður af Þráni Haukssyni landslagsarkitekt og það eru Kristján Ingi Gunnarsson og Bjarni Sigurðsson sem hafa séð um framkvæmdina. Þeir hafa jafnaframt útbúið þrjá hólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni. Hólmarnir voru rétt mátulega tilbúnir þegar fyrstu farfuglarnir komu til landsins og voru vað- og andfuglar fljótir að átta sig á þessum nýju hólmum. Vatnsstaða hefur verið óvenju há í Hvaleyrarvatni seinni hluta vetrar og setti það aðeins strik í reikninginn en nú er vatnshæðin að ná stöðugleika og það verður spennandi að fylgjast með fuglalífinu í og umhverfis hólmana í sumar.
Hjálmar og Else arfleiddu m.a. Landgræðslusjóð af hluta eigna sinna og vildu að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“ . Minningarsjóður var stofnaður um hjónin sem mun starfa í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðslusjóður heldur einnig utan um Hjálmarssjóð og veitir styrki úr sjóðnum sem eru hugsaðir til að efla landgræðsluskógrækt þar sem lúpína hefur breytt gróðusnauðu landi í ákjósanlegt skógræktarland.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gerði samning við Minningarsjóðinn um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns í landi sem var áður örföka en lúpínan hefur breytt landinu þannig að nú er það alveg kjörið til gróðursetningar og trjáræktar.
Haustið 2011 var gróðursetning hafin með formlegum hætti í Vatnshlíð og stuttu seinna var hafist handa við að útbúa dvalarflöt þar sem minningarskildi um Hjálmar og Else Bárðarson verður komið fyrir á veglegum steindrangi.
Hjálmar var kunnur áhugamaður um ljósmyndun og lagði sig mjög fram um að ná góðum ljósmyndum af fuglum. Það vill svo vel til að skógræktarsvæðið umhverfis Hvaleyrarvatn er kjörinn vettvangur fyrir fuglaljósmyndara sem hafa margir náð afar merkum ljósmyndum af sjaldgæfum gestum sem og staðbundnum fuglum á svæðinu. Skógræktarfélaginu er umhugað um þessa vængjuðu skógarvini og hefur gert ýmislegt til að laða þá að svæðinu. Skógurinn er dvalarsvæði fjölmargra fugla og stöðugt bætast nýir í hópinn. Má þar til dæmis nefna glókollinn sem er minnsti í hópi nýju landnemanna hér á landi. Glókollahreiður hafa fundist í skógarlundi í Höfðaskógi nokkur ár í röð.