Skammt fyrir vestan Hvaleyrarvatn er svokallaður Cuxhaven-lundur. Lundurinn er í umsjón vinabæjarfélagsins Cuxhahvan – Hafnarfjörður.
Fyrst var gróðursett í lundinn árið 1998. Lundurinnn er merktur.
Það er hefð fyrir því að gestir frá Cuxhaven sem hingað koma heimsækja lundinn og gróðursetja ef færi gefst. Í mörg ár hefur sendinefnd frá Cuxhaven komið og heimsótt félagið fyrstu helgina í aðventu í tengslum við afhendingu þjóðverjanna á jólatré til bæjarins sem staðsett er á Thorsplani.
Minningarskjöldur Jónasar Guðlaugssonar
Föstudaginn 6. júlí komu nokkrir félagar úr Vinabæjarfélaginu Cuxhaven – Hafnarfjörður ásamt nokkrum góðum gestum frá Þýskalandi saman í Cuxhaven lundinum við Hvaleyrarvatn. Tilgangur samfundarins var afhjúpun minningarskjaldar um Jónas Guðlaugsson fyrrverandi rafveitustjóra og formann félagsins til margra ára. Ekkja Jónasar Dóróthea Stefánsdóttir afhjúpaði skjöldinn sem komið var fyrir á látlausum steini sem er skammt frá minningarsteini um Rolf Peters, en þeir voru miklir mátar. Að afhjúpun lokinni voru gróðursett 30 tré sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gaf til minningar um Jónas, en hann var alla tíð dyggur stuðningsmaður Skógræktarfélagsins. Síðan héldu allir viðstaddir í Selið, höfuðstöðvar Skógræktarfélagsins, þar sem bornar voru fram veitingar.
Jónas Guðlaugsson fæddist á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum 21. apríl 1929 og lést 30. júlí 2009. Jónas var ekki nema 13 ára þegar hann setti upp vindmyllu við heimili sitt sem var tengd rafgeymi og lagði rafmagn í bæinn. Það kom engum á óvart þegar hann hóf nám í rafvirkjun á Selfossi og seinna í Reykjavík. Hann hélt síðan til Hamborgar í Þýskalandi til að læra rafmagnstæknifræði og lauk prófi árið 1959. Á Þýskalands árunum kynntist hannDórótheu Stefánsdóttur frá Siglufirði og gengu þau í hjónaband og eignuðust fjögur börn.
Jónas starfaði við raflagnateikningar eftir að hann sneri aftur heim til Íslands og var verkstjóri á teiknistofu Rafmagnsveitu Reykjavíkur í eitt ár en kenndi einnig við Iðnskólann á Selfossi áður en hann réðst sem tæknifræðingur til Rafveitu Hafnarfjarðar árið 1962. Þar gat hann sér gott orð og var gerður að rafveitutstjóra árið 1969. Hann var rafveitustjóri til ársins 1999 þegar hann lét af störfum.
Jónas og Rolf Peters frá Cuxhaven áttu mikinn þátt í þeim góðu samskiptum sem mynduðust milli vinabæjanna Hafnarfjarðar og Cuxhaven í Þýskalandi eftir að stofnað var til þeirra árið 1988. Þetta leiddi til þess að árið 1993 var stofnað félag í Hafnarfirði um vinabæjarsamstarfið og tók Jónas strax sæti í stjórn félagsins. Hann var formaður félagsins á árabilinu 1999 til 2007 og voru stjórnarfundir gjarnan haldnir á heimili hans og Dórótheu. Jónas var jafnan í fararbroddi þegar gesti frá Þýskalandi bar að garði og sá til þess að þeir nytu þess besta sem Hafnarfjörður hafði upp á að bjóða. Þegar Jónas ákvað að láta af stjórnarsetu vegna heilsufarsástæðna árið 2007 voru þau hjón gerð að heiðursfélögum í Vinabæjarfélaginu. Þetta var ekki eina viðurkenningin sem Jónasi hlotnaðist því borgaryfirvöld í Cuxhaven veittu honum heiðursorðuna ,,Schloss Ritesbüttel“ árið 2002 og Johannes Rau forseti Þýskalands sæmdi hann heiðursorðunni ,,Das Verdienstkrauz 1. Klasse“ árið 2003.