Undirhlíðar eru bólstrabergshæðir sem liggja frá Kaldárbotnum í norðaustri að Vatnsskarði í suðvestri og spanna um 7 km. Beggja vegna eru hraun frá sögulegum tíma, ásamt eldri hraunum. Undirhlíðaleið lá með norðanverðum hlíðarfætinu en sunnan við Undirhlíðar var Dalaleið. Hvorutveggja voru fornar þjóðleiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Móskarðshnúkar nefnast móbergshæðir ofan við Stóra-Skógarhvamm með fallega mótaðri skál sem snýr opi mót norðri. Það er vel þess virði að ganga upp að hnúkunum og skoða þessa náttúrusmíð sem lítur út eins tröll hafi útbúið þar hásæti sitt. Þegar horft er af hæstu hnúkum blasa Undirhlíðar við til beggja handa. Í norðurátt má greina Kaldársel, Gjárnar, Klifsholt, Vífilsstaðahlíð, Móskarðshnúka, Esjuna, Skarðsheiði, Akrafjall og fleiri fjöll.
Ef skyggni er gott sést Snæfellsnesfjallgarðurinn í öllu sínu veldi í hyllingum. Neðan hlíðanna eru Óbrinnishólahraun og Óbrynnishólabruni en fjær eru Höfðarnir, Ásfjall og byggðin sem teygir sig í suðvestur út í hraunin. Þegar horft er í vesturátt blasir Bruninn við eins og Kapelluhraun, eða Nýjahraun nefnist við upptök sín næst Undirhlíðum. Nokkru vestar er Hraunaskógar í Almenningi og lengra í burtu sést greinilega í Keili, einkennisfjall Reykjanesskagans ásamt Fagradalsfjalli, Trölladyngju, Grænudyngju, Grænavatnseggjum, Fjallinu eina, Sandfelli og Sveifluhálsi sem teygir sig til suðvesturs í beinu framhaldi af Undirhlíðum. Þegar horft er í suðurátt má greina Kleifarvatn í fjarska, en nær er Vatnshlíðarhorn, Fagirdalur og Fagradalsmúli ásamt Lönguhlíðum. Nær eru Breiðdalur og Breiðdalshnúkur, Kjóadalirnir vestari og eystri og Slysadalir milli Undirhlíða og Leirdalshöfða. Handan höfðans myndast tjarnir á veturnar sem nefnast Leirdalshöfðatjarnir. Þegar horft er til austurs sjást Bollarnir eða Grindaskarðahnúkar ásamt Þríhnúkum og Kristjánsdalahorni, en í fjarska bera Vífilsfell og Hengill við himinn og í góðu skyggni sjást Skálafell, Botnsúlur og fleiri fjöll. Á láglendi er fjöldi hrauna frá ýmsum tímum, t.d. Tvíbollahraun, Skúlatúnshraun, Þríbollahraun, Rjúpnadyngjuhrau og Húsfellsbruni.
Beitiland sem var friðað vegna birkikjarrsins
Undirhlíðar tilheyrðu Garðakirkju á Álftanesi frá alda öðli, en Hafnarfjarðarbær keypti hluta kirkjulandsins 1912. Undirhlíðar voru vaxnar kjarri og kröftugum fóðurgrösum og töldust helstu bithagar búpenings Garðaklerka og leiguliða þeirra. Selfarir lögðust af í Kaldárseli um 1866 þegar Þorsteinn Þorsteinsson reyndi þar fasta búsetu, sem lánaðist illa. Landgæðum hrakaði í kjölfar langvarandi harðinda á seinni hluta 19. aldar sem stóðu fram undir annan áratug 20. aldar með tilheyrandi landrofi, uppblæstri og gróðureyðingu. Við þetta ástand bættist ríkjandi eldiviðarskortur þegar kol bárust ekki til landsins vegna stríðsátakanna í Evrópu 1914-18. Hafnfirðingar höfðu vanist á að sækja sér hrís og lyng til eldiviðar í Undirhlíðar og Gjárnar, en hrístakan bættist ofan á vetrarbeitina sem gekk nærri gróðrinum. Árið 1917 var vinnuflokkur að störfum við vatnsrennu sem leggja átti frá Kaldárbotnum að Sléttuhlíð. Þegar færi gafst leituðu mennirnir að runnagróðri nærliggjandi gjótum og hlíðum. Hrísið var slitið upp með rótum, eða sargað sundur við rót. Þegar fregnin af viðartökunni barst bæjaryfirvöldum til eyrna var Einar Sæmundsen skógarvörður beðinn um að gera úttekt á málinu. Niðurstaða hans var sú að búið væri að spilla stórum gróðurspildum á milli Gjánna, í Undirhlíðum og víðar svo að stór hluti af grónu landi var nær ónýtur. Einar brást við aðstæðunum með því að skipuleggja skynsamlega grisjun til að stöðva rányrkjuna. Fjórir menn voru þjálfaðir til verksins og grisjuðu þeir rúmlega 30 hestburði – tvö og hálft tonn af eldiviði – en síðan var landið friðað.
Agner F. Kofoed Hansen skógræktarstjóri lagði til við bæjarstjórn 1926 að friða þá skógarrunna sem eftir voru í Undirhlíðum. Girðinganefnd tók sér góðan tíma áður en ákveðið var að girða af einn hvamm þar sem uppblástur og skemmdir voru minnstar.
Vorferðir Barnaskólanema í Skólalund
Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar. Fjáreigendur tóku að sér að annast viðhald allra girðinga í upplandinu, en þrátt fyrir samninginn töldu þeir sig ekki hafa efni á að viðhalda skógræktargirðingunni. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri ritaði bæjarstjóra bréf 1948 og óskaði eftir því að girðingin væri endurnýjuð. Sumarið áður hafði sauðfé gert sig heimakomið í Skólalundi og skemmt birkikjarrið mikið og bitið stöku skógarfurur og grenitré.
Stóri-Skógarhvammur bætist við ásamt Kúadölum
Girðingamálið stóð í stappi í nokkur ár en þegar séra Garðar Þorsteinsson tók við sem formaður félagsins komst skriður á málin. Árið 1958 fékk félagið leyfi bæjaryfirvalda til að girða 56 ha svæði umhverfis Stóra-Skógarhvamm. Þar mátti enn finna skógarkjarr en sumarið 1959 hófst Húsdýraáburður úr Krýsuvíkurbúinu var einnig notaður til að bera á blásna mela og allt þetta starf skilaði góðum árangri. Skógarreiturinn hefur nánast verið sjálfbær frá 1964 og hefur aðlagast landsháttum og veðurfari svæðisins ótrúlega vel. kraftmikið ræktunarstarf innan girðingarinnar á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Piltar í vinnuskólanum í Krýsuvík fengu það verkefni að planta út barrtrjám undir stjórn Hauks Helgasonar forstöðumanns vinnuskólans. Gengið var rösklega til verks og næstu fimm árin plöntuðu piltarnir út þúsundum trjáplantna innan girðingarinnar. Fjöldi fyrirtækja og stofnana í bænum studdu ræktunarstarfið með fjárframlögum og aðstoð við áburðarkaup.
Einnig var bætt við 30 hektara svæði í norðaustur frá Skólalundi árið 1961 þegar Kúadalur bættist við ræktunarsvæðið. Gróðursetningastarfið í Undirhlíðum naut forgangs, en mikil vinna fór í viðhald á girðingunni. Þegar nýtt árþúsund gekk í garð þótti ástæðulaust að halda í gömlu girðingarnar og voru þær teknar niður.
Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.
Sumarið 2006 var sett upp skilti með loftmynd við Skólaund og skógurinn formlega opnaður almenningi. Sumarið eftir voru gömlu girðingarnar teknar niður umhverfis Stóra-Skógarhvamm og var hann opnaður almenningi með formlegum hætti 25. ágúst 2007 með því að nokkrum trjám var plantað þar út.
Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum, en meðal annarra tegunda sem dafna ágætlega má nefna sitkabastarð, rauðgreni, blágreni, stafafuru, fjallafuru, bergfuru og fjallaþin, auk birki- og víðikjarrs. Á hverju sumri er fjölda trjátegunda plantað út í Undirhlíðum til að auka tegundavalið.