Þessa dagana eru starfsmenn félagsins að grisja skóginn í norðurhlíðum Selhöfða sunnan við Hvaleyrarvatn. Þar er aðallega furuskógur sem gróðursettur var á níunda áratug síðustu aldar. Mest er þetta stafafura af svokölluðu „Skagway“ kvæmi en einnig stafafura frá „Bennet Lake“ og víðar. Einnig er þarna sitkagreni, lerki og fleira.
Efniviðurinn sem fellur til er notaður í eldivið og kurl. Eftir grisjun eykst undirgróðurinn nokkuð fljótt. Þannig sjáum við á eldri reitum sem búið er að grisja þarna skammt frá þeim stað þar sem við erum núna að störfum.
Hæð trjánna þarna er svona 12 – 13 m að meðaltali. Sum tré ná allt að 15 m hæð.