Haldinn fimmtudaginn 11. apríl kl 20.00 í Apótekinu, Hafnarborg
Áætlaður fjöldi fundarmanna á bilinu 35 til 40.
Formaður félagsins Sigurður Einarsson setti fundinn og óskaði eftir að Gunnar Svavarsson taki að sér fundarstjórn og að Hallgrímur Jónasson ritaði fundargerð. Var það samþykkt. Gengið var til dagskrár.
- Skýrsla um störf félagsins undanfarið ár (hér að neðan er samandregið efni formanns Sigurðar Einarssonar og framkvæmdarstjóra Steinars Björgvinssonar)
Nokkrir fulltrúar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar tóku þátt í skemmtilegum fundardegi Fulltrúafundi skógræktarfélaganna 6. apríl s.l.. Hann var haldinn í Gunnarsholti í velvild Ágústs Sigurðssonar forstöðumanns nýrrar stofnunar Lands og skógar, sem stofnuð var þegar Skógræktin og Landgræðslan gengu í eina sæng. Formaður félagsins sagði að af þeim erindum sem þar voru haldinn fór Steinar framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar á kostum í erindi sem hann kallaði „Skógakrydd – aukin tegundafjölbreytni í útivistarskógum“. Erindið var skemmtilegt og fræðandi fjallaði um hvað við höfum gert og getum gert í okkar skógum í Hafnarfirði varðandi fjölbreytni tegunda. Annað erindi vakti vakti sérstaka athygli formanns, en þar flutti Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor í félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, erindi sem hún kallaði „Stjórnun og hvatning sjálfboðaliða. Hvað segja fræðin?“, en erindið vakti formanninn til umhugsunar um mikilvægt starf sjálfboðaliða, í starfi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, starfið undanfarin 78 ár þar sem starf sjálfboðaliða hefur verið kjarninn í starfinu. Félagið hefur fært út kvíarnar síðastliðin ár meðal annars með trjásölu og fl. hin síðari ár. Minnti hann á það mikla Grettistak sem félagar hafa lyft og sést þegar genginn er hringurinn í kring um Hvaleyrarvatn.
Formaður velti upp hvað það er sem drífur fólk áfram í slíku sjálfboðastarfi. Benti á landnemaspildurnar sem eru lýsandi dæmi um hversu gífurleg gróska er í gangi. Fram kom að hann er þátttakandi í gróðursetningu í 3 spildum í 3 mjög mismunandi hópum.
- Í Rótarýfélagi Hafnarfjarðar er aðal drifkrafturinn að vera umhverfisvæn, græða landið og gera fallegan útivistaskóg.
- Í Batteríinu Arkitektum er ástríðan að koma saman úti í náttúrunni með fjölskyldum starfsmanna, kenna börnunum skógrækt og í leiðinni láta gott af sér leiða.
- Í útivistahópnum Njóta eða Þjóta er stórt atriði að kolefnisjafna mikla ferða- og útivistagleði meðlima.
Frábært og óeigingjarnt sjálfboðastarf hefur verið innt af hendi af öflugu félagsfólki – sjáið árangurinn – allt þetta fólk sem nú flykkist að vatninu, skóginum og stígunum allt um kring – stórkostlegt. Þetta hafa félagsmenn Skógræktarfélagsins gert – „þetta getur Ísland“ – og vitnaði þá í Ágúst Sigurðsson forstöðumann Lands og skógar á fulltrúafundinum.
Fyrstu mánuði síðasta árs var veðrið einstaklega óhagstætt sem gerði alla útivinnu erfiða og nánast ómögulega. Janúar var einn sá kaldasti frá upphafi mælinga en þó komu dagar með smá rigningu sem leiddu til fyrirbæris sem nefnist spillibloti – sjaldnotað orð. Spillibloti er það kallað þegar rignir ofan í snjó en frystir aftur áður en snjórinn nær að bráðna að ráði. Þetta var eitthvert óvinsælasta veðurlag á Íslandi fyrr á öldum og er það svo enn í dag. Þá fáu daga sem veður leyfði var unnið við grisjun í skóginum í Vatnshlíð þar sem Kristinn Skæringsson átti á sínum tíma land. Síðan var unnið að grisjun í furuskóginum nyrst og vestast í kringum Selhöfða. Efniviðurinn var nýttur í eldivið og kurl. Einnig var klippt og sagað meðfram vegum og stígum.
Í febrúar hlýnaði talsvert þannig að hann endaði á að verða einn sá hlýjast frá upphafi mælinga enda var asahláka stóran hluta mánaðarins þannig að allt fór á flot.
Í mars skall síðan á brunagaddur sem varð til þess að þetta var einn kaldasti marsmánuður frá upphafi mælinga. Þrátt fyrir mikið frost og klaka var unnið við að stinga græðlingum í potta inni í stóra gróðurhúsinu og síðan í potta og bakka úti á plönum. Veðrið hélt áfram að vera erfitt þannig að ekki var hægt að stinga upp hnausplöntur í skóginum fyrr en 18. apríl og síðasti snjóruðningur á göngustígum var 27. apríl.
Það voraði ágætlega framan af en veðrið hélt áfram að gera ræktendum lífið leitt, aðfaranótt 23. maí gerði mjög hvassa suðvestanátt með mikilli saltákomu sem olli miklum skemmdum á nýlaufguðum trjám og ýmsum viðkvæmum barrviðum, trjágróður náði sér vart á strik aftur fyrr en upp úr miðju sumri. Fyrir vikið varð blómgun trjáa lítil sem engin og þar af leiðandi lítið sem ekkert af trjáfræi um haustið. Þetta erfiða veðurfar yfir veturinn og nánast fram á sumar olli miklum skemmdum á trjágróðri og þar á meðal trjáplöntum í uppeldi í gróðrarstöðinni Þöll sem staðið höfðu úti við í körmum yfir veturinn sem sýndi best þörfina á nýjum gróðurhúsum sem nú eru í byggingu. Minna bar á sníkjudýrum í trjágróðri í fyrra en mörg undanfarin ár. Trúlega spilar óhagstætt tíðarfar þar inn í. Birkiryð fór þó illa með birki í uppeldi síðsumars.
Í lok apríl var plöntusalan undirbúin en gróðrarstöðin opnaði formlega sjötta maí.
Sem betur fer slapp félagið alveg við gróðurelda í fyrra enda maí ekki eins þurr eins og svo algengt var hér áður fyrr.
Annars var unnið við að klára verkstæðisbygginguna, bræða þakpappa, klæða með íslensku lerki að utan og setja upp vinnuborð, hillur og skúffur fyrir verkfæri. Í maí var vinna hafin við að reisa tvö 180 fermetra gróðurhús. Því verki stjórnaði Daníel Erlingsson smiður. Þessari smíði er enn ekki lokið en stefnt er á að taka þessi nýju gróðurhús í notkun í sumar. Auk þessa verkefnis var lokið við að steypa stétt framan við stóra gróðurhúsið.
Eins og undanfarna vetur þá var skógræktarfélagið með samning við Hafnarfjarðarbæ um snjóruðning á ákveðnum göngustígum í upplandinu. Þar sem talsvert snjóaði þessa fyrstu mánuði þurfti að ryðja snjó nokkuð oft sem gat verið mjög erfitt þegar blotaði í snjónum sem gerði hann þungan og erfiðan að ryðja. Vegna erfiðar færðar var ekki hægt að flytja mikið af trjábolum úr skóginum.
Ein mesta breyting á starfsemi félagsins átti sér stað í fyrra þegar Landsvirkjun tilkynnti að fyrirtækið myndi hætta að bjóða félaginu sumarstarfsfólk í tvo mánuði eins verið hefur síðastliðin 25 ár. Undanfarin ár og áratugi hefur skógræktarfélagið fengið 20 til 30 manna vinnuflokka frá Landsvirkjun ásamt flokkstjórum og pallbíl. Á síðasta ári tilkynnti Landsvirkjun félaginu að þessu samstarfi yrði hætt en til þess að milda áhrifin greiðir Landsvirkjun félaginu fjárhæð sem duga á til að ráða sex ungmenni í tvo mánuði árin 2023 og 2024. Þetta er sannarlega mikill missir fyrir félagið, en í raun fyrir Hafnfirðinga og það fólk sem nýtir sér skógana okkar, því þessir starfsmenn hafa á síðustu áratugum unnið stóran hluta af því sem gert hefur verið á svæðunum okkar. Eins og undanfarin sumur unnu þessi ungmenni ýmis fjölbreytt störf. Þau unnu nokkra daga í gróðrarstöðinni við að hreinsa illgresi og potta trjáplöntur, en einnig handlang við gróðurhúsabygginguna. Þau unnu marga daga við að slá gras, lúpínu og kerfil meðfram göngustígum, laga stíga og hreinsa útivistarsvæði. Þau aðstoðuðu starfsmenn félagsins við að raða eldivið í poka og moka trjákurli í poka. Fyrstu sumarstarfsmennirnir komu til starfa í lok maí. Réð því félagið 6 ungmenni á aldrinum 16 – 18 ára í fyrra og leigði pallbifreið fyrir styrkinn frá Landsvirkjun. Verður sami háttur hafður á í ár, en svo er þessu samstarfi lokið. Landsvirkjunar-starfsfólkið sá m.a. um að sækja grisjunarvið út í skóg og flytja upp í stöð, gróðursetja, lagfæra stíga og hreinsa útivistarsvæðið.
Svo starfaði hópur á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar hjá okkur í fyrrasumar. Flokkstjórar voru þau Guðrún Sunna og Þórir.
Í maí í fyrra störfuðu í tæpar tvær vikur hjá okkur í sjálfboðavinnu þrír ungir nemar við “Friends Academy” í New York. Þetta voru systkinin Sidney og Richard Wang ásamt Richard Zhu. Til að útskrifast þurfa nemarnir að sinna samfélagsþjónustu / sjálfboðavinnu af einhverju tagi og kynna svo upplifun sína og segja frá við hvað þau fengust þegar heim er komið. Milligöngu um komu þeirra hafði vinur okkar Edward Dugger. Móðir systkinanna Ling og Wang var einnig með í för og færði hún félaginu að gjöf setbekk sem komið var fyrir í skóginum og ber hann áletrun Wang-fjölskyldunnar.
Ungur maður frá Frakklandi, Valentine, starfaði hjá okkur í júlí og fram í ágúst. Starfaði hann við hvers konar skógar- og garðyrkjustörf ásamt verkstjórn.
Þar sem skógræktarfélagið gat ekki fengið afhentar Landgræðsluskógarplöntur fyrr en í lok september var ákveðið að taka ekki við þeim plöntum síðasta sumar. Þess vegna var mun minna gróðursett síðasta sumar en ella. Alls voru gróðursettar 1.629 trjáplöntur en af þeim var langmest af alaskaösp eða 1.350 plöntur en allt voru þetta pottaplöntur. Vinnuflokkurinn á vegum Landsvirkjunar aðstoðaði við að gróðursetja 480 af þessum plöntum en annað var gróðursett af starfsmönnum skógræktarfélagsins og sjálfboðaliðum, langmest á sjálfboðaliðadaginn 16. september eða 1.054 plöntur.
Í ágúst tilkynnti Hafnarfjarðarbær að til stæði að fara í framkvæmdir við lokaáfanga á nýja göngu- og hjólastígnum upp að Kaldárseli en þessi stígur er hluti af Grænastígnum svokallaða. Þarna þurfti að fara með stíginn í gegnum talsvert þéttan skógarreit þar sem fella þurfti fjölda trjáa. Þegar vinnan hófst við fyrsta áfangann fyrir nokkrum árum þá komust Hafnarfjarðarbær og skógræktarfélagið að samkomulagi um að félagið fengi bætur fyrir hvert tré sem fella þyrfti eftir tegund og hæð og auk þess fengi félagið greitt fyrir vinnuna við þessa trjáfellingu. Starfsmenn skógræktarfélagsins unnu þetta verk í lok ágúst. Þetta reyndist mun meiri og erfiðari vinna en leit út við fyrstu sýn, því bæði var þetta mjög þéttur skógarreitur og trén talsvert stór. Lagningu stígsins er nú lokið frá kirkjugarði og upp að Kaldárseli sem eru samtals um sex kílómetrar.
Framkvæmdarstjóri fór yfir helstu skipulögðu viðburðir á vegum félagsins í fyrra.
Aðalfundur félagsins fór fram 23. mars í Hafnarborg. Gunnar Svavarsson var fundarstjóri. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum og kaffihléi flutti Brynja Hrafnkelsdóttir sérfræðingur hjá Skógræktinni erindi um meindýr á trjágróðri.
Fuglaskoðun félagsins fór fram laugardaginn 22. apríl. Aðal – leiðsögumaður var Hannes Þór Hafsteinsson. Alls sáust 17 fuglategundir en gengið var um Höfðaskóg og niður að Hvaleyrarvatni. Viðburðurinn var hluti af dagskrá bæjarhátíðarinnar “Bjartra daga”.
Á Jónsmessu, laugardaginn 24. júní var svo fjölskyldudagurinn “Líf í lundi” haldinn hátíðlegur við bækistöðvar félagsins og Þallar. Mörg hundruð manns mættu. Fjöldinn var meiri en nokkru sinni áður. Haffi Haff skemmti, boðið var uppá andlitsmálningu og ratleik fyrir yngstu kynslóðinu. Grillaðar voru pulsur. Hoppukastali var á hlaðinu. Pop up kaffihús í boði David á Pallett. Boðið var upp á skógargöngu með leiðsögn Jónatans Garðarssonar. Listahópur Vinnuskóla Hafnarfjarðar og Larpið stóðu fyrir leikjum og listsköpun í skóginum. Tókst viðburðurinn mjög vel.
9. ágúst var boðið upp á fræðslugöngu um trjá- og rósasafnið í Höfðaskógi í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Um 50 manns mættu í gönguna þetta síðdegi.
Laugardaginn 26. ágúst hittust ættingjar Hólmfríðar Finnbogadóttur fyrrum formanns- og framkvæmdastjóra félagsins og gróðursettu trjáplöntur til minningar um frænku sína í minningarlund þeirra hjóna Hólmfríðar og Reynis í hrauninu suður af Sléttuhlíð.
Sjálfboðaliðadagurinn fór fram laugardaginn 16. september. Um tuttugu sjálfboðaliðar mættu þrátt fyrir rok og rigningu. Alls voru gróðursettar um 1000 trjáplöntur þennan dag og dagana í kring af öðrum sjálfboðaliðum og starfsmönnum félagsins. Gróðursett var í hlíðarnar á móts við Hamranesflugvöll þar sem öskuhaugar bæjarins og síðan jarðvegstippur voru áður.
Ljósaganga félagsins og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins fór fram 24. október. Allt var með hrekkjavöku-sniði. Um 100 manns mættu. Þótti viðburðurinn heppnast einstaklega vel. Daníel Erlingsson átti stóran þátt í því en hann lánaði félaginu safn sitt af alls kyns verum og hlutum sem hafa skírskotun til hrekkjavöku. Undirbúningshópur var stofnaður í aðdraganda göngunnar sem hafði hist viku áður, skorið út grasker og lagt á ráðin um skipulag göngunnar. Framkvæmdarstjóri þakkar öllum sem lögðuð fram vinnu við að gera hrekkjavöku-gönguna svona ógleymanlega.
Eitt nýtt skilti var sett upp við Vatnshlíðarlund þar sem minningarlundur Hjálmars og Else Bárðarson er. Það var Magnús Helgason sem sá um gerð skiltisins en hann vann það og fleira fyrir félagið endurgjaldslaust.
Talsvert var um formlegar heimsóknir í fyrra. Nemendur og kennarar við blómaskreytingabraut Garðyrkjuskólans heimsóttu félagið í febrúar og fræddust um notkun á efni úr skóginum til skreytinga.
Nemendur í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands heimsóttu félagið í byrjun mars til fræðast um allt er tengist birki.
Um 40 nemendur Garðyrkjuskólans ásamt kennara heimsóttu okkur í mars til að fræðast um hvers konar trjágróður í garðyrkju og skógrækt.
Hópur barna í leikskólanum Hvammi heimsótti félagið í maí og gróðursettu tré í leiðinni. Nemendur í 4. bekk Sjálandsskóla, Garðabæ komu í heimsókn s.l. vor til að fræðast um umhverfismál.
Nemendur 1. og 2. bekkjar Waldorfskólans, Lækjarbotnum komu einnig í heimsókn s. l. vor til að fá fræðslu og gróðursetja tré.
Nemendur í skógfræði og umhverfisskipulagi heimsóttu svo félagið s. l. haust til að fræðast um trjágróður.
Meðlimir Trjáræktarklúbbsins komu í heimsókn um miðjan september og skoðuðu gróðrarstöðina og trjásafnið og versluðu í leiðinni.
Hópur kvenna í Kvenfélagi Fríkirkjunnar heimsóttu félagið í byrjun október og fékk fræðslu um starfsemi skógræktarfélagsins og slógu upp veislu í Þöll. Skógræktarfélagið gaf kvenfélagskonum síðan efni til leiðisgreinagerðar fyrir jólin.
Laugardaginn 18. nóvember heimsóttu svo vinir okkar frá Cuxhaven félagið ásamt stjórn vinabæjarfélagsins og velunnurum og þáðu veitingar í Þöll. Ræður voru haldnar og skipst á gjöfum. Heimsóknin var eins og venjulega í tengslum við afhendingu vinabæjartrésins frá Cuxhaven sem sett var upp og tendrað óvenju snemma í fyrra.
Á aðventunni komu svo börn úr nokkrum leikskólum bæjarins í heimsókn og völdu sér jólatré í skóginum, hittu jólasveininn og fengu svo kakó í lokin og þökkuðu svo fyrir sig með söng.
Leikskólinn Norðurberg kom nokkrum sinnum yfir vetrarmánuðina með nemendur sína til að nýta skóginn til útikennslu og útiveru. Þau hafa svo fengið að nota aðstöðuna okkar til að matast og komast á salerni. Útskriftarnemendur Norðurbergs komu svo s.l. vor og gróðursettu nokkrar trjáplöntur í rjóðrinu sínu.
Starfsmenn félagsins sóttu nokkra fundi og ráðstefnur á árinu. 14. febrúar var boðið upp á fræðslufund fyrir skógræktendur um gróðurelda, forvarnir og skipulag í Kríunesi við Elliðavatn sem Almannavarnir stóðu fyrir.
Starfsmenn og stjórn félagsins sóttu ráðstefnu í byrjun mars um Græna stíginn sem fór fram í Arion banka, Borgartúni að frumkvæði skógræktarfélaganna og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
13. apríl sóttu starfsmenn félagsins smáráðstefnu á Mógilsá á vegum Norræna genabankans um áskoranir og vandamál við framleiðslu skógarplatna í stórum gróðrarstöðvum.
Einnig sóttu starfsmenn og sumir stjórnarmenn fundi um nýtt deiliskipulag skógarins í Gráhelluhrauni á árinu.
Undirritaður flutti erindi um starfsemi félagsins á morgunfundi Rótarýklúbbsins Straums en klúbburinn tók í fóstur landnemaspildu nyrst í Langholtinu í fyrra.
Nemendur í 7. bekk Víðistaðaskóla og 8. bekk Öldutúnsskóla komu síðastliðið vor og gróðursettu yrkjuplöntur í landnemaspildur skólanna sem liggja saman við Seldalsháls.
Nemendur við Áslandsskóla héldu uppteknum hætti og gróðursettu í grenndarskóg í Áslandi. Nemendur 5. bekkjar Skarðshlíðarskóla gróðursettu sínar yrkjuplöntur í brekkurnar á móts við Hamranesflugvöll um haustið.
Ennfremur komu nemendur NÚ og gróðursettu í sína spildu við gamla Kaldárselsveginn.
Félagar í Rótarýklúbbnum Straumi gróðursettu í byrjun júní í nýja landnemaspildu klúbbsins nyrst í Langholti.
Starfsmenn Colas Ísland söfnuðu liði í júni og gróðursettu í landnemaspildu fyrirtækisins skammt norður af Fremsta-höfða.
Starfsmenn Batterísins Arkitekta og fjölskyldur þeirra hittust og gróðursettu í spildu Batterísins sunnan við Seldal.
Félagar í Rótarýklúbb Hfj. gróðursettu í landnemaspildu klúbbsins í Klifsholtum s.l. haust.
Nokkrir starfsmenn Íslandsbanka komu svo gróðursettu í sjálfboðavinnu í hlíðarnar á móts við Hamranesflugvöll nokkrum dögum fyrir sjálfboðaliðadaginn.
Í september komu félagar í “Njóta og þjóta” saman og gróðursettu í landnemaspildu klúbbsins við Buga norðan við Kaldárhraun.
Félagar í félaginu Þýsk – íslenska tengslanetinu gróðursettu í sína spildu í fyrra í Klifsholtum.
Einnig voru ýmsir einstaklingar sem eru með landnemaspildur til umráða duglegir við gróðursetningu og umhirðu.
Hvítasunnuhlaup Hauka fór fram 29. maí, annan í hvítasunnu. Hlaupið var frá Ásvöllum og um Höfðaskóg. Mikill fjöldi fólks tók þátt. Í kjölfarið styrkti almenningsíþróttadeild Hauka félagið enda stígarnir sem hlaupið er eftir við vatnið og um skóginn haldið við af skógræktarfélaginu.
Starfsmenn félagsins luku gerð göngustígs í spildu Rótarýklúbbs Hfj á árinu samkvæmt samningi. Stígurinn liggur í gegnum skógræktarland klúbbsins og upp á Syðra-Klifsholt.
Eins og venjulega færðum við Karmelsystrum blóm og greinar í aðdraganda jóla. Blómin voru gjöf frá Grænum markaði.
Strax í byrjun nóvember hófst undirbúningur fyrir jólavertíðina með söfnun skreytingarefnis og fellingu jólatrjáa fyrir jólaþorpið, Strandgötuna og jólatrjáa sölu félagsins. Skógræktarfélagið hefur smátt og smátt verið að byggja upp umgjörðina fyrir söluna en í ár smíðaði Daníel smiður stóra pergólu á sölusvæði félasins, þar sem hægt er að hengja upp jólatré. Jólatrjáasalan gekk mjög vel og seldust talsvert fleiri jólatré og svokölluð tröpputré úr skógum félagsins en síðustu ár. Jólatrjáa- og skreytingasala félagsins fór fram alla daga í desember fram að jólum og gekk vel. Meira var höggvið og selt af trjám úr okkar eigin skógum samanborið við undanfarin ár. Pálmar Örn Guðmundsson formaður Skógræktarfélags Grindavíkur kom tvisvar á aðventunni og lék á gítar og söng jólalög og þótti takast einstaklega vel til að skapa sannkallaða jólastemmningu.
Frisbígolfsamband Íslands og Frisbígolffélag Hafnarfjarðar ásamt Geir Bjarnasyni íþrótta- og tómstundafulltrúa komu að máli við félagið snemma á árinu varðandi uppsetningu á 18 holu frisbígolfvelli í skóginum. Þessar umræður voru þegar hafnar í fyrrahaust. Haldnir voru nokkrir fundir á árinu með ýmsum er málið varðar. Heimsóttum við m.a. frisbígolfvöll í Grafarholti ásamt Íþrótta- og tómstundanefnd Hfj um vorið í boði Frisbígolfsambands Íslands. Einnig hittust fulltrúar félagsins og frisbígolfhreyfingarinnar og skoðuðu hugsanlega legu frisbígolfvallar norðan við og í vesturhlíðum Selhöfða og út í Selhraunið. Skemmst er frá því að segja að stjórn félagsins leyst engan vegin á hugmyndir frisbígolfmanna og stakk frekar upp á velli út í Selhrauninu. Frisbígolfurum leyst ekkert á þá hugmynd. Stjórn félagsins lagði jafnframt áherslu á að staðsetning vallarins verði unnin í samræmi við framtíðarskipulag bæjaryfirvalda á svæðinu.Nýlega fréttist svo að verið væri að skoða af hálfu bæjarins og frisbígolfhreyfingarinnar og koma upp velli í skóginum við Ástjörn og upp í norðurhlíðar Ásfjalls. Helst voru það skemmdir á trjám sem hvarvetna má sjá í kringum frisbígolfvelli sem liggja í skógum, trjáfellingar í tengslum við gerð valla og umgengnismál sem ollu því að stjórn félagsins og framkvæmdastjóra leyst illa á hugmyndir um frisbígolfvöll inni í 40 ára gömlum, grisjuðum skógi sem frisbígolffólkið horfði hýru auga til og mest var til umræðu.
Varðandi nýtt deiliskipulag Gráhelluhrauns og nágrennis er búið að samþykkja það að hálfu bæjarins. Búið er að koma fyrir bílastæði við Kaldárselsveginn fyrir gesti Gráhelluhraunsskógar og leggja göngustíg frá stæðinu og tengja hann skógarstígnum í gegnum hraunið. Nýja deiliskipulagið felur m.a. í sér tvö mislæg gatnamót gangandi og ríðandi umferðar og gönguhringleiðar í skóginum ásamt öðru bílastæði við suðurenda Gráhelluhraunsskógar og tengingar yfir í Höfðaskóg fyrir gangandi umferð. Hollvinasamtök Gráhelluhrauns með Magnús Helgason í broddi fylkingar eiga þakkir skildar fyrir að koma því til leiðar að gerð bílastæðis væri hraðað áður en deiliskipulagið var samþykkt og framkvæmdir hæfust. Félagið sendi umsögn um um deiliskipulagið inní Skipulagsgáttina.
Umgengni um almenningssalerni við Skátalund sem opnað var fyrir þremur árum hefur almennt verið góð. Reyndar er bara annað salernir opið þar sem skemmdir voru unnar á hurðinni að hinu en það stendur til bóta.
Félagið sér um alla hreinsun í upplandinu þar með talið losun á ruslaílátum í Kaldárseli, við Hvaleyrarvatn, í Gráhelluhrauni, Vatnshlíð og víðar. Fer oft mikil vinna í að hreinsa sérstaklega þegar snjóa leysir á vorin og þegar mest er af fólki á svæðinu um páskana og á sumrin.
Félagið fékk svokallaðan “vorviðar-styrk” frá Skógræktinni í fyrra til trjáplöntukaupa vegna gróðursetningar í hlíðarnar á móts við Hamranesflugvöll.
Einnig hlaut félagið rekstrarstyrk frá Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.
Félagið fékk bætur frá bænum vegna trjáa sem felld voru vegna síðasta hluta Græna stígsins upp í Kaldársel sem lagður var með bundnu slitlagi í fyrra.
Sveinn Sigurjónsson félagi okkar og vinur lést í mars í fyrra. Sveinn kom iðulega og spilaði á harmonikkuna á aðventunni í tengslum við jólatrjáasölu félagsins ásamt því að spila á öðrum viðburðum á vegum félagsins. Hans verður sárt saknað en hann átti stóran þátt í því að skapa það skemmtilega andrúmsloft sem einkennir jólatrjáasölu félagsins.
Í september lést Þórólfur Þorgrímsson á 95. aldursári en Þórólfur var dyggur stuðningsmaður og styrktaraðili félagsins.
Í nóvember lést Sigurbergur Sveinsson í Fjarðarkaup sem einnig var dyggur styrktar og stuðningsmaður félagsins.
Framkvæmdarstjóri þakkaði í lokin stjórn félagsins, endurskoðanda, skoðunarmönnum reikninga og samstarfsfólki öllu fyrir þeirra framlag og góða samvinnu. Landsvirkjun og Vinnuskólinn fá sérstakar þakkir fyrir þeirra framlag ásamt Fjarðarkaup. Ekki má gleyma öllum sjálfboðaliðunum, kærar þakkir fyrir ykkar vinnu. Ég vil í því sambandi sérstaklega nefna Magnús Helgason, Vigfús, Vilhjálm Bjarnason, Gunna og Hadda Þórólfssyni, Línu, Önnu, Kalla, Önnu Stínu, Möggu Siggu og stjórnarmenn sem tóku þátt í jólatrjáasölu félagsins. Einnig sérstakar þakkir í til Bjarkar og Sölva, til Davids á Pallett til félaga í Larpinu og Listahóp Vinnuskólans.
Framkvæmdarstjóri minnti á heimasíðu félagsins skoghf.is. Þar eru komnir inn helstu dagskrárliðir ársins hjá félaginu um fyrirvara um breytingar. Félagið er einnig á facebook. Nú eru félagsskírteinin rafræn. Allir gildir félagar eiga að hafa fengið sendan tengil til niðurhals í tölvupósti. Félagsskírteinið er geymt í veskis-smáforritinu í símanum. Nánari upplýsingar um virkjun félagsskírteinis eru á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands, skog.is. Félagar í Skógræktarfélagi Hfj eru um þúsund talsins.
Fuglaskoðun félagsins er 20 aprí næstkomandi og “Líf í lundi” 22. júní í sumar.
Eins og sést í reikningum félagsins, er rekstur félagsins enn öflugur og í góðum höndum en í honum má þó sjá að miklar og kostnaðarsamar framkvæmdir hafa átt sér stað á árinu eins og boðað var á síðasta aðalfundi með góðan hagnað frá árinu 2022. Félagið gerir ráð fyrir að geta tekið nýju gróðurhúsin í gagnið í sumar og að gróðurhúsin muni efla enn frekar framleiðslu á trjám til góða fyrir rekstur félagsins. :Þessir nýju innviðir til viðbótar þeim sem eldri eru munu verða lykill að enn kraftmeira skógræktarstarfi.
Í lokin áréttaði formaðurinn að félagið vill og ætlar að vera áfram í fararbroddi í skógrækt. Hann þakkaði öllum félagsmönnum og velunnurum félagsins fyrir dásamlegt ár og minnti á að Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar er svona öflugt vegna starfs sjálfboðaliða og trúir því að svo muni áfram verða um ókomna framtíð.
1. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
Árni Þórólfsson, gjaldkeri félagsins las upp ársreikninginn fyrir 2023, sem lá fyrir áritaður af stjórn og framkvæmdarstjóra, afriti var dreift til fundarmanna (sjá í meðfylgjandi)
Gjaldkeri lagði áherslu á trausta fjárhagsstöðu félagsins, en árið 2023 einkenndist af miklum framkvæmdum, byggingu verkstæðishúss, gróðurhúsa og kaupum á verkfærum og fl.
2. Lagabreytingar.
Engar tillögur að lagabreytingu lágu fyrir fundinum.
3. Kosningar samkvæmt 6. grein félagslaga.
Stjórn félagsins skipa sjö menn. Skulu þeir kosnir á aðalfundi og skiptir stjórnin með sér verkum. Sé einn formaður, annar ritari, þriðji féhirðir, fjórði varaformaður og þrír meðstjórnendur. Kjörtími er þrjú ár og ganga tveir úr stjórn í senn tvö árin, en þrír hið þriðja. Úr stjórn eiga að ganga Jónatan Garðarsson og Magnús Gunnarsson, gáfu þeir báðir kost á sér til stjórnarsetu áfram. Kosning þeirra var staðfest með lófataki
Tillaga kom fram um Gunnar Þórólfsson og Þorkel Þorkelsson sem skoðunarmenn og var það samþykkt.
4. Önnur mál, sem fram eru borin.
Engin önnur má komu fram.
Kaffihlé
Daði Már Kristófersson, prófessor við Háskóla Íslands, fjallaði um hagræna stöðu skógarauðlindar á Íslandi. Hann benti á að skógrækt snúist langt í frá bara um framleiðslu skógarafurða. Og fjallaði um hvernig meta megi framlag náttúrunnar, svokallaða vistkerfaþjónustu, til fjár. Vistkerfisþjónusta skóga er margvísleg, timburafurðir, aðrar skógar- afurðir, útivist og náttúruupplifun, skjól, vatnsbúskapur, jarðvegsmyndun og kolefnisbinding, svo nokkuð sé nefnt af því efni sem Daði Már fjallaði um í erindi sínu.
Nokkur umræða átti sér stað eftir erindið.
Fundir lokið um kl. 22.00