Eins og mörg undanfarin ár töldu Hannes Þór Hafsteinsson og framkvæmdastjóri félagsins Steinar Björgvinsson uppland Hafnarfjarðar nú í byrjun árs 2019. Svæðið kallast "Hafnarfjörður austan Reykjanesbrautar".
Mest sást af svartþresti, skógarþresti, stara, auðnutittling og krossnef. Einnig sáust nokkrir hrafnar, rjúpur, stokkendur og grágæsir. Tveir smyrlar sáust, annar við Kaldársel og hinn við Hvaleyrarvatn. Músarrindill sást við Kaldá. Tveir glókollar sáust annar við Kaldá en hinn við Þöll. Einn gráþröstur sást í Setbergshverfi.
Engir hrossagaukar sáust né aðrar snípur sáust á svæðinu. Líklega er það vegna þess hve hlýtt hefur verið og ekkert frost í jörðu sem þýðir að þeir fuglar dreifast meira en venjulega á þessum árstíma þegar þeir eru gjarnan bundnir við læki og uppsprettur.
Myndin sýnir auðnutittling. Ljósmyndari: Björgvin Sigurbergsson.