Laugardaginn 16. janúar töldu Hannes Þór Hafsteinsson, Einar Þorleifsson og Steinar Björgvinsson fugla á svæði því sem nefnt er "Hafnarfjörður austan Reykjanesbrautar". Talningar sem þessi hafa farið fram í áratugi á landinu og heldur Náttúrufræðistofnun Íslands utan um gögnin sem fást og skipuleggur vetrarfuglatalningu ár hvert. Umrætt svæði hefur verið talið í um 15 ár en flest talningarsvæði eru við ströndina ólíkt því sem hér um ræðir. Megináherslan er á Höfðaskóg, Sléttuhlíð, Kaldá, Lækjarbotna, Hamarkotslæk og Ástjörn. Eftirtaldar fuglategundir sáust: Stokkendur, urtendur, gulendur, grágæsir, álft, gráhegri (við Kaldá), hrossagaukar, skógarþrestir, svartþrestir, starar, snjótittlingar, auðnutittlingur, músarrindill, glókollar, krossnefir, hrafn og smyrlar. Miklu minna var af auðnutittling en áður. Einnig var frekar lítið um snjótittlinga. Spor sáust við Hamarkotslæk sem líklega eru eftir keldusvín en keldusvín hefur stundum sést á þeim slóðum. Glókollar voru fáir. Myndin sýnir auðnutittling.