Árið 2007 var útbúið útikennslusvæði í Höfðaskógi skammt frá húsinu Höfða og þar hafa hópar grunnskólabarna og leikskólabarna leitað skjóls innan um hávaxin tré um leið og þau hafa fræðst um skóginn og náttúruna. Ámóta svæði er í undirbúningi í Gráhelluhrauni skammt ofan við Lækjarbotna og hesthúsasvæðið í Hlíðarþúfum. Skógurinn í Gráhelluhrauni er í næsta nágrenni við efstu húsin í Áslandi og Setbergi og alls ekki svo langt frá leikskólanum Hlíðaranda. Gróðursetning í hrauninu hófst af miklum krafti í lok sjötta áratugar 20. aldar og hefur útikennslusvæðinu verið valinn staður í skjólgóðum krika þar sem hraun og tré skapa ákjósanlegt skjól. Þar verður komið fyrir þekju úr borðum sem unnin verða úr trjávið sem fellur til við grisjun. Þekjan er eingöngu hugsuð sem skjól fyrir regni en einnig verða gerðir einfaldir bekkir úr skógarviði sem komið verður fyrir undir þekjunni.
Annað verkefni sem unnið er að veturinn 2011-2012 er minningarreitur í Vatnshlíð um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson sem áttu ekki neina afkomendur og eftirlétu Fuglaverndarfélagi Íslands, Landgræðslusjóði og tveimur söfnum allar eignir sínar. Einnig er verið að útbúa göngustíga um Vatnshlíðina svo að auðveldara verði að fara þar um. Verkið sækist ágætlega en vinnan ræðst af veðrinu sem hefur verið nokkuð rysjótt í vetur. Næsta sumar er ætlunin að koma fyrir steini með málmskildi á staðnum og taka reitinn í notkum með formlegum hætti. Þessu til viðbótar er unnið að því að útbúa þrjá fuglahólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni en fjöldi vaðfugla og andfugla hafa viðkomu á vatninu á sumrin. Hugmyndin um að útbúa varphólma í vatninu hafa verið í umræðunni í rúmlega tvo áratugi en nú hefur verið ákveðið að hrinda henni í framkvæmd. Skógarsvæðin umhverfis Hvaleyrarvatn laða að sér fjölbreyttar fuglategundir og er svæðið mjög vinsælt meðal fuglaljósmyndara og þeirra sem hafa áhuga á að skoða fugla í nærumhverfi sínu.
Landgræðsluskógaverkefnið hófst árið 1990 og stendur enn. Landgræðsluskógasvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er í Seldal skammt sunnan við Hvaleyrarvatn. Markmið landgræðsluskóga er að græða upp lítt gróið og rofið land þar sem lokatakmarkið er kjarr- og skóglendi. Þúsundir trjáplantna hafa verið gróðursettar í Seldal af fjölmörgum tegundum. Einnig hafa rofabörð verið stungin niður og áburði og grasfræi dreift. Samstarfsaðilar skógræktarfélaganna í Landgræðsluskógum landsins eru Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins og Landbúnaðarráðuneytið.