Laugardaginn 3. maí 2008 var formlega tekin í notkun útikennslustofa í fallegum lundi við Húshöfða, á athafnasvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
Hjónin Hörður Zóphaníasson og Ásthildur Ólafsdóttir gáfu Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar peningagjöf á 60 ára afmæli félagsins árið 2006. Gjöfinni fylgdi sú ósk þeirra hjóna að hún yrði notuð til að fræða ungt fólk um gildi skógræktar og uppgræðslustarfs og til að sýna hversu fjölbreytt not má hafa af skógum.
Með þetta að leiðarljósi hafa starfsmenn og stjórn félagsins unnið að því að þróa og móta þetta verkefni.
Gróðurfar er fjölskrúðugt í Höfðaskógi og þar þrífst margbreytilegt dýralíf sem vert er að gefa gaum. Margar tegundir fugla hafast við í skóginum, þ.á.m. hinn smávaxni Glókollur sem hefur numið hér land. Skógurinn er til margra hluta nýtilegur og kjörinn vettvangur umhverfisfræðslu og tómstundarstarfs af ýmsum toga.
Ásthildur Ólafsdóttir var viðstödd þegar séra Bára Friðriksdóttir þáverandi prestur í Ástjarnarsókn blessaði reitinn. Útikennslustofan var síðan tekin í notkun með formlegum hætti og hefur gagnast vel til allskonar kennslu síðan. Leikskólabörnum finnst afar skemmtilegt að koma í þennan sælureit sem og grunnskólabörnum sem hafa komið á vorin til að gróðursetja í skólareitina. Eldri krakkarnir á Norðurbergi hafa mætt vikulega í Höfðaskóg ásamt fóstrum sínum og notið þess sem skógurinn hefur upp á að bjóða.
Opnun útikennslustofunnar var fyrsti atburðurinn af mörgum sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar stóð fyrir árið 2008 í tilefni 100 ára kaupstaðarafmælis Hafnarfjarðar.
Unnið er að því að útbúa samsvarandi útikennslustofu í Gráhelluhrauni og verður nánar greint frá henni þegar þar að kemur.