Sextán manna hópur mætti í skoðunarferð sem farin var um Áslandshverfi á fyrsta degi vetrar, 24. október. Það var stillt og gott veður en frekar kalt, um 2 gráður, sem kom ekki að sök þar sem vind hreyfði ekki. Lagt var af stað frá Áslandsskóla og fyrst staldrað við í Erluási þar sem nokkrar áhugaverðar trjátegundir voru skoðaðar. Síðan var farið í Lóuás, þar sem litið var inn í þrjá garða. Mikill fjölbreytileiki er í trjágróðrinum í garði Guðrúnar Jónsdóttur frá Skuld og Hilmars Gunnarssonar enda hafa þau stundað trjárækt og sölu um árabil. Þau hafa ennfremur ræktað fallegan trjáreit á Ásjörðinni, en þar hófu þau gróðursetningu árið 1983. Síðan var farið yfir götuna og garður hjónanna Aðalheiðar Svönu Sigurðardóttur og Bjarka Bárðarsonar skoðaður. Þau hafa lagt mikla rækt við garðinn sinn eins og hjónin Rósa Sigurbergsdóttir og Jónatan Garðarsson formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, en allir þessir garðar eru í sömu götunni. Það er reyndar nokkuð eðlilegt að þessi gata hafi orðið fyrir valinu þar sem þetta er elsti hluti hverfisins, flest húsin byggð um og eftir 2000 og garðarnir kláraðir stuttu seinna. Síðan var gengið um opna svæðið milli Spóaáss og heimajarðarinnar Áss en mikill fjöldi trjátegunda var gróðursettur á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar á þessum slóðum milli 1983-1985. Þessu næst var gengið um ræktunarreit Guðrúnar og Hilmars á heimajörðinni Ási. Þaðan var haldið aftur í áttina að Áslandsskóla með viðkomu í Gauksási þar sem litið var í einn garð til viðbótar.