Annar í röðinni að gróðursetja tré var Franz Siemsen sýslumaður. Árið 1886 byggði hann sýslumannshúsið og árið eftir 1887 eða þar um bil gróðursetti hann reyniviðartré þau sem enn standa við suðurgafl hússins. Það var Gísli bóndi Einarsson í Stekk í Garðahreppi sem færði Franz sýslumanni reyniviðarangana, en þau hjón munu hafa gróðursett þá. Reyniviðaranga þessa sótti Gísli suður í Almenning. Tré þessi standa enn.
Samkvæmt frásögn Ólafs Böðvarssonar.
Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjaðar.
Reyniviðartrén voru við suðurgafl Sýslumannshússins þar sem embættið var til húsa þar til það flutti á efstu hæð hússins sem Oliver Steinn bóksali byggði við Strandgötu. Þar er verslun Pennans Eymundsson í dag. Bifreiðaeftirlitið var í suðurhluta Sýslumannshússins um árabil en þegar bílastæði var útbúið við húsið voru trén flutt á Sýslumannstúnið norðan við húsið og sunnan við Hafnarfjarðarkirkju. Þar var útbúinn skrúðgarður með trjágróðri og blómabeðum ásamt grasflötum. Göngustígur var lagður skáhalt í gegnum garðinn og þar var komið fyrir bekkjum þannig að fólk gat sest þar niður á góðviðrisdögum og notið þess sem garðurinn hafði upp á að bjóða. Á Sýslumannstúninu var brjóstmynd af Þórði Edilonssyni lækni sem fimm hafnfirskar konur fengu Ríkarð Jónsson til að gera og var upphaflega á Thorsplani en seinna á Sýslumannstúninu. Styttan er núna við Heilsugæslustöðina á Sólvangi.
Þegar fyrsta skóflustunga var tekin að safnaðarheimilinu Strandbergi og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar haustið 1992 var Sýslumannstúninu fórnað og enginn virðist vita nákvæmlega hvað varð um trén sem þar höfðu verið gróðursett. Nokkrum dögum seinna var Sýslumannshúsið flutt yfir Suðurgötuna þar sem það var gert upp á lóðinni nr. 11. Nú er það íbúðarhús eins og það var í öndverðu og sómir sér vel á nýja staðnum og þar hafa verið gróðursett falleg tré rétt eins og í gamla daga.