Fundarstjóri, heiðursfélagar, kæru félagar og gestir.
Það voraði vel í fyrra og sumarið var hlýtt en ekki of þurrt. Haustið var sérlega millt og langt og vorum við t.d. að gróðursetja í lok nóvember enda ekkert frost í jörðu.
Þöll opnaði plöntusölu sína fyrr en ella eða í byrjun maí og stóð hún langt fram eftir hausti.
Sem betur fer kviknuðu engir eldar í skóglendum félagsins í fyrra.
Skógar félagsins voru almennt heilbrigðir á síðastliðnu ári. Talsvert var þó um asparglyttu sem helst sækir í viðju og ösp. Asparglyttan dregur úr vexti trjánna en er ekki vandamál þegar aspir hafa náð tiltekinni hæð þar sem bjallan fellur til jarðar ef mikið blæs um hana. Er hún því aðallega á ferli og veldur trjóni á ungum,lágvöxnum trjám og runnum af víðiætt.
Í byrjun árs unnu starfsmenn félagsins við grisjun og snyrtingu í skógum félagsins. Í janúar grisjuðum við í skóginn meðfram Kaldárselsveginum þ.e.a.s. í Beitarhúsahálsi, Bláberjahrygg og að Hlíðarþúfum.
Í febrúar fluttum við okkur í Undirhlíðarnar eða í svokallaða „Kúadalsgirðingu“. Þar vorum við aðallega við störf í syðsta hluta hennar sem í daglegu tali nefnist Skólalundur en þar hófst skógrækt árið 1930, þ.e.a.s. áður en skógræktarfélagið var stofnað, fyrir tilstilli Ingvars Gunnarssonar barnaskólakennara sem fór með nemendahópa þangað til gróðursetningar á fjórða áratug síðustu aldar. Talsvert var grisjað og snyrt í Skólalundi og nágrenni en félagið fékk kr. 550.000,- króna styrk í verkefnið frá Landgræðslusjóði.
Einnig var grisjað í Höfðaskógi t.d. í kringum Systkinalund og víða klippt og sagað meðfram vegum í upplandinu.
Fjöldi ungmenna starfaði hjá félaginu síðastliðið sumar. Landsvirkjun lagði félaginu til um 20 manna vinnuhóp á aldrinum 16 – 20 ára. Starfaði hópurinn hjá félaginu í júní og júlí. Yfirskrift þessa samfélagsverkefnis Landsvirkjunar er „Margar hendur vinna létt verk“. Það var árið 2002 að þetta samstarf Landsvirkjunar og félagins hófst og hefur það staðið yfir á sumrin óslitið síðan og skipt miklu máli fyrir starfsemi félagsins. Yfirmaður Landsvirkjunarhópsins í fyrra eins og árið á undan var Sunna Kristín Óladóttir.
Um 30 unglingar auk flokkstjóra störfuðu hjá félaginu í fyrrasumar á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar og störfuðu þau hjá okkur í um 4 vikur. Flokkstjórar frá Vinnuskólanum voru Rannveig Tera Þorfinnsdóttir, Ísak Steinsgrímsson og Charlie Falagan. Flokkstjórarnir störfuðu hjá félaginu í rúmar 6 vikur. Charlie var svo ráðinn til starfa hjá félaginu og Þöll út október.
Amanda Persson frá Svíþjóð starfaði hjá okkur í júlí og fram í ágúst en hún kom hingað til lands í gegnum Nordjobb og var ráðin af bænum.
Sjálfboðaliðastarf hefur alltaf skipað stóran sess í starfsemi félagins. Fjöldi sjálfboðaliða kom að jólatrjáasölu félagins og undirbúningi hennar. Einnig hjálpuðu sjálfboðaliðar til við grisjun, fræsöfnun, fræverkun, viðhald og fleira. Þorkell var eins og svo oft áður iðinn við fræsöfnun. Sigurjón Ingvarsson, Einar Óskarsson, Friðrik Bergsveinsson og Gunnar Þórólfsson hjálpuðu til við endurbætur og viðhald.
Tveir sjálfboðaliðar frá Íslandsbanka störfuðu með okkur einn dag í maí þær Ingunn Bernburg og Guðbjörg Jónsdóttir.
Gústaf Jarl Viðarsson hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur kom einn dag í fyrra á dráttarvél með kurlara og kurlaði niður með okkur heil mikið fjall af efni sem hafði fallið til við grisjun fyrr um árið.
Snemma í júlí komu 12 ungir skátar frá Belgíu og unnu í sjálfboðavinnu fyrir félagið part úr degi. Meðan þau dvöldu hér í Hafnarfirði gistu þau í tjöldum við Skátalund við Hvaleyrarvatn. Hópurinn var hér í vinnu- og skemmtiferð.
Ingvar Viktorsson ritstýrði afmælisblaði félagsins, Þöll, sem gefið var út í júní og borið út í öll hús í bænum. Ég vil þakka honum kærlega fyrir alla hans vinnu við gerð blaðsins og auglýsingasöfnun. Einnig vil ég þakka auglýsendum og styrktaraðilum sem gerðu útgáfu blaðsins mögulega. Eintök af Þöll liggja hér frammi.
Ég vil þakka Fjarðarkaupum sérstaklega fyrir allan stuðninginn.
Félagið fagnaði 70 ára afmæli í fyrra og af því tilefni var boðið upp á fleiri og stærri viðburði en oft áður.
Aðalfundur félagisns var haldinn hér í Hafnarborg laugardaginn 9. apríl. Að aðalfundi loknum stóð félagið fyrir ráðstefnu sem nefndist „Notagildi upplandsins og framtíð skógræktar í bæjarlandinu“. Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs byrjaði á því að ávarpa fundinn. Fyrirlesarar voru þeir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Þráinn Hauksson landslagsarkitekt og Pétur Svavarsson hlaupari. Um 60 manns mættu á fundinn og ráðstefnuna. Fundarstjóri var Lúðvík Geirsson. Í lok ráðstefnu færðu þeir Pétur og Anton Magnússon félaginu kr. 150.000,- frá Almenningsíþróttadeild Hauka til uppbyggingar á stígum í upplandinu sem nýtast munu m.a. til hlaupaiðkunar.
Laugardaginn 23. apríl var boðið upp á skógargöngu frá Kaldárseli, um Undirhlíðaskóg og inn í Skólalund og til baka. Leiðsögumaður var Jónatan Garðarson. Gangan var hluti af dagskrá bæjarhátíðarinnar „Bjartra daga“.
Hvítasunnuhlaup Hauka fór fram um miðjan maí en m.a. er hlaupið um skóglendi félagins. Hlaupið hefur verið kosið eitt allra besta utanvegahlaup landsins.
Fuglaskoðun félagsins var 28. maí. Leiðsögumenn voru Hannes Þór Hafsteinsson og undirritaður.
Sjómannadagshelgina 4. og 5. júní bauðst okkur að kynna starfsemi félagsins á opnu húsi í Íshúsinu við Strandgötu en félagið átti í góðu samstarfi við innanbúðarfólk í Íshúsið á árinu ekki hvað síst í tengslum við Listalund. Isabella og Jökull tóku að sér að standa vaktina og kynntu í leiðinni Listalund og Þöll.
Laugardaginn 25. júní var svo formleg opnun á „Listalundi“ sem var aðal-afmælisverkefni félagsins í fyrra. Fjöldi listamanna, handverksfólks og hönnuða innlendir og erlendir tóku þátt í verkefninu. Þátttakendur sköpuðu hver og einn verk í skóginum sem á einn eða annan hátt höfðu tengingu við umhverfið. Boðið var upp á göngu með leiðsögn um skóginn þar sem listamennirnir kynntu hver og einn verk sín. Félagið bauð svo til veislu á hlaðinu við Þöll og öllum listamönnunum var afhentur smá þakklætisvottur. Hljómlistarfólk lék ljúfa tóna og eldgleypar léku listir sínar. Þetta var sannarlega stórkostlegur dagur. Gefin var út sérstakur bæklingur um Listalund ásamt umfjöllun um verkefnið í afmælisriti félagsins. Sett voru upp 3 skilti í skóginum með korti og leiðbeiningum hvar verkin væri að finna í skóginum ásamt vasa með umræddum bækling. Bæjarráð Hafnarfjarðarbær styrkti félagið sérstaklega um kr. 300.000,- til þessa verkefnis.
Næstu helgi nánar tiltekið þann 3. júlí var boðið upp á tvær göngur um Listalund kl. 14.00 og 17.00 og mætti þó nokkur hópur í fyrri gönguna.
Isabella Praher á mikið hrós skilið fyrir allan undirbúning í tengslum við Listalund og Jökull líka en reglulegir fundir voru haldnir með þátttakendum frá ársbyrjun og fram að opnun. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að verkefninu Listalundur. Sérstakar þakkir fá Ólafur Gunnar Sverrisson, Anthony Bacigalupo, Sigurður Einarsson og Marselína Pálsson. Einnig kærar þakkir til Gildisskáta fyrir afnot af skátaskálunum.
Óhætt er að segja að verkefnið Listalundur hafi vakið athygli. Sýningin stóð fram á haust en fjöldi gesta sem kom í skóginn til að njóta Listalundar hleypur á einhverjum hundruðum.
Hin svokallaða „Fegrunarnefnd“ var endurvakin á síðastliðnu ári og fór afhending „fegrunarverðlaunanna“ fram við bækistöðvar félagsins í lok ágúst að ósk fegrunarnefndar. Um 50 manns mættu og auðvitað voru trjáplöntur í verðlaun.
Sjálfboðaliðadagur félagsins var haldinn laugardagsmorguninn 24. september. Rúmlega 30 sjálfboðaliðar mættu þrátt fyrir grenjandi rigningu. Gróðursettar voru rúmlega 1.700, 1 – 5 ára trjáplöntur ofarlega í Vatnshlíð í svokallaðan Vatnshlíðarlund til minningar um Hjálmar og Else Bárðarson en félagið fékk styrk úr minningarsjóði þeirra hjóna til verksins.
Þriðjudagskvöldið 4. október stóð félagið fyrir ljósagöngu um skóginn í samstarfi við Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar. Samsvarandi göngur hafa verið farnar nokkur undanfarin ár. Gestir mæta með vasaljós og luktir enda skollið á myrkur. Þessi ganga var þó ólík hinum að því leyti að hópur fólks undir stjórn Þóru Sverrisdóttur hafði skipulagt dálítið óvænt sem fólst í því að álfar og afturgöngur höfðu komið sér fyrir í skóginum og skutu göngufólki skelk í bringu. Leiðsögumaður var Frank Steinn. Þóra, Emil, Annika, Kaj Skúli, Charlie Falagan, Jökull og Guðrún Ástvaldsdóttir fá sérstakar þakkir fyrir undirbúning og þátttöku í ljósagöngu. Tugir manns mættu og þótti uppátækið heppnast sérlega vel. Boðið var upp á heitt súkkulaði og kleinur í Þöll að göngu lokinni.
Afmæliskaffi félagsins var svo haldið í Hafnarborg laugardaginn 5. nóvember. Þorkell Þorkelsson var gerður að heiðursfélaga við þetta tækifæri. Myrra Rós kom og flutti nokkur hugljúf lög. Haraldur Haraldsson bæjarstjóri, Sigrún Magnúsdóttir fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra og fleiri héldu ræður og fluttu félaginu árnaðaróskir. Garðyrkjufélag Íslands og Skógræktarfélag Garðabæjar færðu félaginu bókagjafir. Umhverfis- og Auðlindaráðuneytið styrkti í kjölfarið félagið um kr. 50.000,-.
Fyrr þennan sama dag afhjúpaði Hólmfríður Finnbogadóttir bautastein með áletruðum skildi í landnemaspildu þeirra hjóna Reynis og Hólmfríðar við Kaldárselveg sem félagið lét útbúa en Hólmfríður hóf störf hjá félaginu 1980, sat í stjórn, var formaður og síðar framkvæmdastjóri til ársins 2013. Hjónin Sölvi Steinarr Jónsson og Björk Bjarnadóttir gáfu stuðlabergssteininn sem skildinum var komið fyrir á og komu steininum fyrir. Gunnar Þórólfsson sá um að festa skjöldinn.
Jólatrjáasala félagsins stóð svo yfir á aðventu eins og vera ber. Sveinn Sigurjónsson kom og skemmti gestum með harmonikkuleik og systkinin Marteinn Sindri og Katrín Helena Jónsbörn léku hugljúf jólalög.
Undirritaður sótti námskeið í ágræðslu austur á Reykjum í janúar. Árni Þórólfsson og undirritaður sóttu fagráðstefnu skógræktarinnar sem haldin var á Patreksfirði í mars. Meðal viðfangsefna ráðstefnunnar voru loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim, gæði íslensks timburs og notagildi, tækni og notkun landupplýsinga og fleira. Árni sótti kynningu á viðarmagnsúttekt á Vesturlandi í maí. Undirritaður sat fundi „stýrihóps um yndisgróður“ á árinu en vinna hópsins snýr að skilgreiningu og lýsingu á úrvalsyrkjum trjágróðurs.
Föstudag einn í byrjun mars tóku starfsmenn félagsins ásamt Þorkatli þátt í söfnun furuköngla í Danílslundi í Borgarfirði að ósk Skógræktarinnar.
Eins og svo mörg undanfarin ár kom Leikskólinn Norðurberg með elstu nemendur sína reglulega í skóginn allan veturinn og fengu þau afnot af bækistöðvum félagsins til að næra sig í hádeginu. Krakkar úr Leikskólanum Hvammi komu í heimsókn í júní.
Ferðaþjónustufyrirtækið „New Moments“ kom með hóp franskra ferðamanna í lok mars sem allir pottuðu einu tré sem starfsmenn félagsins gróðursettu svo í landnemaspildu fyrirtækisins í Klifsholtum.
Nemendur úr Áslandsskóla og Lækjarskóla heimsóttu félagið um vorið og fengu fræðslu um félagið, fuglana og skóginn.
Nemendur úr 8. bekk Öldutúnsskóla komu og gróðursettu Yrkju-plöntur í landnemaspildu skólans á Kjóadalshálsi og nemendur úr 7. bekk Hvaleyrarskóla gróðursettu Yrkjuplöntur í spildu skólans við Gamla Kaldárselsveginn. Nemendur úr Fjölgreinadeildinni gróðursettu einnig í sína spilda í fyrra.
Starfsmenn HS-veitna og Gámaþjónustunnar gróðursettu í landnemaspildur fyrirtækjanna í Klifsholtum og starfsmenn Batterísins Arkitekta voru með vinnukvöld í sinni spildi í Langholti.
50 manna hópur félagsmanna Garðyrkjufélags Íslands heimsótti félagið í ágúst í tengslum við árlega skemmti- og fræðsluferð Garðyrkjufélagsins.
Nemendur frá LbhÍ komu í vettvangsferð í ágúst.
Sendinefnd frá Cuxhaven heimsótti félagið fyrstu helgina í aðventu ásamt stjórn Hafnarfjörður-Cuxhaven vinabæjarfélagsins. Voru þau hingað komin til að afhenda bænum vinabæjartré Cuxhaven, glæsilegan nordmannsþin, sem settur var upp að venju við Flensborgarhöfn. Var gestunum boðið í bröns í bækistöðvum félagsins að hætti Hólmfríðar og voru ræður fluttar og gjöfum dreift.
Fyrir jólin komu nemendur leikskólanna; Stekkjarás, Víðivellir, Hlíðarberg og Hvammur, í heimsókn og völdu sér jólatré í skóginum. Krakkarnir tóku lagið og allir fengu kakó og piparkökur í bækistöðvum félagins áður en haldið var heim með tréið. Ennfremur kíktu nemendur í 6. bekk Hvaleyrarskóla í heimsókn fyrir jólin ásamt fjölgreinadeildinni. Skógræktarfélagið gaf fjölgreinadeildinni og Meðferðaheimiliu Krýsuvík sitt hvort jólatréið. Jökull fór einnig í Ráðhús Hafnarfjarðar, Umhyggju, Karmelklaustrið, Konukot og Þjónustumiðstöð og færði viðkomnandi eitt tröpputré að gjöf frá félaginu sem þeir Árni útbjuggu og voru til sölu fyrir jólin.
Undirritaður flutti erindi um félagið og lífið í skóginum í Hraunseli, félagsheimili eldri borgara, í janúar og fyrir félaga í Rótarýklúbb Hfj í landspildu þeirra í Klifsholtum um sumarið og hjá Oddfellowum í nóvember.
Upplifun okkar hjá Skógræktarfélagi Hfj er sú að útivistarsvæðið í upplandi bæjarins verði bara vinsælla og vinsælla. Fólk notar svæðið til alls kyns útivistar. Aukinni notkun fylgir aukið álag. Fólk gengur, skokkar og hjólar um svæðið. Svæðið er mikið notað til útreiða og umsvifamikil hestaleiga er á svæðinu. Upplandið er mikið notað til að viðra hunda. Eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins fer þar fram um Hvítasunnuna. Íslendingar af erlendum uppruna nota skóginn mikið til útivistar og berja- og sveppatínslu. Höfðaskógur er landsþekkt fuglaskoðunarsvæði.
Félagið hefur átt í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld og starfsmenn bæjarins. Í fyrra setti bærinn upp tvö ný grill í Sandvíkinni við Hvaleyrarvatn en þau sem voru fyrir voru úr sér gengin. Að jafnaði er fljótt brugðist við ef við óskum eftir því að Hvaleyrarvatnsvegur sé heflaður. Verksamningur milli bæjarins og félagsins um umhverfisvakt í upplandinu var endurnýjaður í byrjun árs en samkvæmt honum sér félagið um alla hreinsun og losun ruslaíláta við Hvaleyrarvatn, í Gráhelluhrauni og í Kaldárseli. Yfir sumartímann þarf gjarnan að fara tvisvar á dag til að losa ruslaílát við Hvaleyrarvatn ekki hvað síst um helgar. Er því alltaf einhver á bakvakt frá félaginu allan ársins hring. Almennt er umgengnin góð. Stundum kemur þó fyrir að fólk losi sig við alls kyns rusl í vegköntum og inn í skóg. Plast og þess háttar frá hesthúsahverfum á svæðinu er stundum áberandi hér og þar t.d. upp í trjám eftir hvassviðri. Svo eru það þessir sem henda dósum, flöskum og öðru út um bílglugga. Þeir eru enn til! Félagið sendir skýrslu til starfsfólks „Umhverfis og framkvæmda“ mánaðarlega og hálfsmánaðarlega yfir sumartímann um það hvað var gert og hvenær í tengslum við umhverfisvakt félagsins.
Samningur Skógræktarfélags Íslands og hins opinbera um landgræðsluskóga rennur út á næsta ári en Skógræktarfélag Hfj hefur verið með frá upphafi landgræðsluskógaátaksins árið 1990.
Áfram verður unnið að gróðursetningu í Vatnshlíð, Seldal og víðar. Í eldri skóga félagsins munum við gróðursetja tré og runna af óhefðbundnari tegundum til að auka fjölbreytnina. Unnið verður að bótum og viðhaldi stíga í skógum félagsins og við vatnið. Mikil vinna fer í hreinsun sérstaklega yfir sumarmánuðina og munum við áfram kappkosta að halda svæðinu hreinu. Stefnt er að grisjun í Stóra-Skógarhvammi á árinu og ef til vill víðar.
Boðið verður upp á skógargöngur, fuglaskoðun, ljósagöngu og sjálfboðaliðadagurinn verður á sínum stað í haust. Næsta ganga á vegum félagsins verður laugardaginn 22. apríl kl. 13.00. Við ætlum að ganga um skóginn í Gráhelluhrauni en 70 ár eru liðin frá því að fyrsta trjáplantan var gróðursett í hrauninu á vegum félagsins. Þessi ganga er hluti af dagskrá Bjartra daga. Endilega fylgist með viðburðum á heimasíðu félagsins skoghf.is.
Mig langar í lokin að þakka öllu því fólki sem lagt hefur félaginu lið á einn eða annan hátt. Sérstakar þakkir vil ég færa sjálfboðaliðum, styrktaraðilum, bæjaryfirvöldum, starfsmönnum bæjarins sem hafa aðstoðað okkur, samstarfsfólki mínu hjá félaginu og Þöll, stjórn félagsins, stjórn Þallar, endurskoðanda, skoðunarmönnum reikninga, þátttakendum í Listalundi, undirbúningsnefnd Ljósagöngu og starfsfólki Skógræktarfélags Íslands. Ég vil færa ykkur mínar bestu þakkir fyrir hönd Skógræktarfélags Hfj og Þallar fyrir óeigingjarnt starf og stuðning við félagið.
Takk fyrir.