Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar
28.apríl 2022
Fundastjóri og ágæta samferðafólk.
Eftir hinn hvimleiða kórónuveirufaraldur sjáum við sem betur fer aftir til sólar – og loks getum við haldið okkar aðalfund á lögboðnum tíma við eðlilegar aðstæður en síðasti aðalfundur félagsins var haldinn seint vegna samkomutakmarkana – eða 29.október s.l.
Já – lífið heldur áfram en eðli þess samkvæmt falla gamlir og góðir félagar frá. Mig langar sérstaklega að minnast Ásdísar Konráðsdóttur – Blóma Dísu eins og við flest vorum vön að kalla hana. Viðunefnið átti við vel við þennan blómelskandi kvenskörung sem á árum áður boðaði sumarkomuna stjórnandi fengulegum stúlknaflokk á kafi í blómabeðum bæjarins að leggja grunn að blómstrandi bæ. Dísa var mjög virk í starfsemi skógræktarfélagsins, skoðunarmaður reikninga í áraraðir og lagði ósjaldan hönd á plóg í hvers kyns sjálboðastarfi fyrir félagið.
Það er með miklu þakklæti fyrir ómetanlega samfylgd og störf á þágu félagsins sem við stjórn og starfsmenn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar kveðjum Dísu.
Ég vil biðja fundarmenn að minnast Ásdísar Konráðsdóttur og allra okkar ágætu félagsmanna sem fallið hafa frá á starfsárinu með því að rísa úr sætum.
Og þá að annál líðandi árs sem að vanda birtist hér með dyggri aðstoð Árna Þórólfssonar.
Árið 2021 hófst með miklum umhleypingum þar sem skiptist á með snjókomu, slyddu og kalsarigninu. Þetta stóð yfir fyrstu þrjár vikur ársins en þá stytti upp með froststillum og algeru úrkomuleysi til loka maímánaðar. Þessar froststillur komu sér vel fyrir útivinnuna en var ekki eins hagstætt gróðrinum þar sem mikil afföll urðu á nýgróðursetningum og að auki var skóglendið mjög viðkvæmt fyrir gróðureldum. Við sluppum við gróðurelda þar til 11. maí þegar einhver kjáni kveikti eld í spildu Árna í suðurenda Langholts þar sem brann um einn hektari af vöxtulegum skógi þar sem í voru tveggja til fjögurra metra há tré, mest sitkagreni og alaskaösp. Við erum jafnan spurð um verðmat á tjónum þegar skógar verða eldi að bráð. Svo vildi til að Steinar var að störfum þarna rétt hjá ásamt starfsmönnum okkar þeim Natani og Stefáni þar sem þeir voru að stinga upp sitkagreni til að selja í gróðrarstöðinni, svokallaðar hnausaplöntur sem bundnar eru í strigapjötlur. Á því svæði sem brann hafði Árni og hans fjölskylda gróðursett sitkagreni vísvitandi mjög þétt í þeim tilgangi að þar væri hægt að koma síðar og stinga upp hnausplöntur. Árið áður voru stungin upp nokkur sérlega falleg sitkagreni úr þessum reit. Framangreindur bruni eyddi meira en 150 sitkagrenitrjám sem voru að mati Steinars mjög frambærileg til sölu. Sitkagreni í hnaus seljast á háu verði enda mikil eftirspurn eftir þeim. Meðalverð þessara trjáa er nærri 15.000 krónur þannig að þarna brunnu upp tré sem hægt hefði verið að selja fyrir rúmar tvær milljónir króna.
Eins og ég gat í síðasta annál var hafist handa við að reisa verkstaæðishús félagsins í september 2020 og lauk þeirri vinnu að mestu síðastliðið vor og var húsið þá strax tekið í notkun. Enn eigum við eftir að klára smá frágang að innan og utan svo sem að klæða það að utan með íslensku lerki frá Hallormstað.
Á meðan Árni og Jökull voru í byggingarvinnu verkstæðishússins voru Steinar og Stefán Þorgrímsson garðyrkjunemi sem verið hefur hjá okkur í starfsnámi að grisja skógarreiti í Höfðaskógi, Selhöfða, Selhrauni og Seldal. Þeir voru í þessari grisjunarvinnu fram í marsmánuð en þá tók við vinna í gróðrarstöðinni sem fyrst fólst í því að klippa græðlinga og stinga í potta og bakka. Eftir það var sáning á trjáfræi undirbúin og síðan farið í að stinga upp hnausplöntur og gera plöntusöluna klára.
Fyrstu sumarstarfsmennirnir mættu til starfa í lok maí en þegar mest var voru um 20 frá Vinnuskóla Hafnarfjarðar, 16 frá atvinnuátaki bæjarins og 20 manna vinnuflokkur frá Landsvirkjun. Þegar mest var í júní voru þannig alls 60 manns að störfum hjá félaginu og í gróðrarstöðinni að meðtöldum starfsmönnum félagsins þannig að óhætt er að segja að þröngt hafi verið á þingi. Þrátt fyrir að hafa svo fjölmennt starfslið þá var enginn skortur á verkefnum. Eins og undanfarin sumur voru starfsmennirnir frá vinnuskólanum mestan tímann að vinna í gróðrarstöðinni við illgresishreinsun, pottun og priklun. Hluti atvinnuátaksins var við vinnu í gróðrarstöðinni en annars var mestur hluti þess hóps að vinna við endurbætur á göngustígum en einnig var lögð sérstök áhersla á að stika helstu gönguleiðir í upplandinu ásamt því að slá gras og lúpínu á þeim leiðum. Landsvirkjunarhópurinn vann við illgresishreinsun úr beðum í gróðrarstöðinni, viðhald göngustíga í Höfðaskógi ásamt slætti meðfram stígum og vegum. Byrjað var á að leggja nýjan 350 metra langan göngustíg frá Selhöfða ofan við Skátaskálann og niður að veginum í gegnum Seldalinn. Þessi nýi stígur er hugsaður sem eldvarnarhólf. Þannig verður hlutverkið tvíþætt; að koma í veg fyrir að eldur berist um allan skóginn og bæta aðgengi slökkviliðs og björgunarsveitar ef til gróðurelda komi. Af þeirri ásæðu er stígurinn hafður talsvert breiðari en aðrir stígar. Vegna bilana í tækjum í malarnámunni tókst ekki að klára verkið á síðasta ári en stefnt er að því að ljúka við þennann stíg í sumar. Í stígstæðinu var talsvert stórgrýti sem var rutt úr vegi með handafli og járnköllum en auk þess var spilið á sexhjólinu og Avant liðléttingurinn notaður sem og við aðflutning á möl í stíginn. Hafist var handa við annan stíg á landi skátanna í samvinnu við þá.
Frá árinu 1990 hefur skógræktarfélagið fengið úthlutað skógarplöntum í verkefni á vegum Skógræktarfélags Íslands sem kallast Landgræðsluskógar. Þessar plöntur hafa síðan verið uppistaðan í allri gróðursetningu félagsins. Síðasta sumar voru gróðursettar rúmlega 40 þúsund plöntur úr þessu verkefni í Seldal og við Stórhöfða. Mest var gróðursett af stafafuru eða tæplega 23 þúsund plöntur, birki voru 10 þúsund plöntur, alaskaösp rúmlega 5 þúsund plöntur og sitkabarstaður tvö þúsund plöntur. Plönturnar voru gróðursettar af starfsmönnum Landsvirkjunar og atvinnuátakinu en aðeins fóru fimm dagar í gróðursetninguna enda fjölmennur hópur að verki. Auk þessara skógarplanta úr fjölpottabökkum voru gróðursettar rúmlega eitt þúsund plöntur úr tveggja til fjögurra lítra pottum. Flestar plönturnar voru gróðursettar í Hamranesi á sjálfboðadaginn eða rúmlega 700 plöntur af ýmsum tegundum en þó mest alaskösp og ýmsar víðitegundir.
Starfsmenn vinnuskólans luku flest störfum um miðjan júlí, Landsvirkjun lauk stöfum um mánaðarmót júlí og ágúst en atvinnuátakið lauk stöfum í byrjum ágúst.
Mikil sala var í gróðrarstöðinni Þöll og mikil eftirspurn eftir trjáplöntum af öllum tegundum og stærðum.
Um haustið tóku við hefðbundin haustverk eins og fræsöfnum og haustsáningar en þar sem veðrið um sumarið var ekki hagstætt var ekki mikið um fræ. Í nóvember byrjaði undirbúningur jólatrjáasölunar með söfnun á skreytingarefni og síðan að saga niður tré fyrir þjónustumiðstöðina til að nota til skreytinga í jólaþorpinu og á Strandgötunni. Þrátt fyrir nokkra óveðursdaga í desember tókst jólatrjáasalan vel og seldust tæplega 700 jólatré og þar af voru rúmlega 150 tré úr skógum félagsins. Önnur tré komu frá fjórum skógræktarfélögum auk nokkurra tráa frá Skógræktinni. Erfitt reyndist að fá keypt jólatré af ræktendum og þá sérstaklega blágreni. Það er miður að víða er kunnáttuleysi í jólatrjáaækt, ekki síst meðhöndlun trjánna frá fellingu til flutnings til kaupanda. Skreytingasalan eykst með hverju árinu og ekki síst salan á tröpputrjám sem hefur nærri þrefaldast á þremur árum.
Skógræktarfélag Íslands hélt 86. aðalfund sinn í fyrirlestrarsal Arion banka þann 2.október 2021. Þar voru fjöldi fundarmanna af landsbyggðinni á fjarfundi en fulltrúar okkar félags fjölmenntu á fundinn og tóku virkan þátt að vanda.
Á síðasta stjórnarfundi okkar fyrir þennan aðalfund var ákveðið að kaupa varanlega klæðningu á stóra gróðurhúsið okkar Höfðaborg, en risjótt veður hafa valdið starfsmönnum andvökunóttum með ótta um stórtjón ef vindur næði sér inn í gegnum veika plastklæðninguna. Ákveðið var að kaupa polykarbónat plötur sambærilegar og eru í öflum gróðurhússins og setja á húsið nú í sumar.
Ekki síst vegna góðrar fjárhagslegrar afkomu félagsins var á sama fundi einnig ákveðið að leyta tilboða í stálgrindargróðurhús sem samkvæmt skipulagi má reisa vestan við Höfðaborg. Hugmyndin er að nýja húsið verði af sambærilegri stærð og núverandi hús. Markmið með nýja húsinu er að fullnægja sístækkandi eftirspurn og sölu gróðrarstöðvarinnar sem og að bæta til muna rætingaraðstöðuna.
Ofangreind markmið teljum við styðja vel við markmið félagsins um að efla og auka áhuga almennings á skógrækt til framtíðar sem einnig er liður í kolefnishlutlausu Íslandi.
Í lokin langar mig að nefna það að ég sit í stjórn Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Nýlega fékk klúbburinn 500þús kr styrk frá móðursamtökunum og við hyggjumst nota hann til stígagerðar og skógræktar í landnemaspildu okkar við Klifsholt. Njóta eða þjóta er útivistarhópur sem ég starfa í og hefur nýlega gert samning við Skógræktarfélagið um stóra landnemaspildu neðan við Fremstahöfða og hyggur á öfluga trjáræktun. Og að síðustu – við hjá Batteríinu Arkitektum förum jafnan á vorin og gróðursetjum í okkar landnemaspildu í suðurhlíð Langholts um leið og við grillum og gerum okkur og afkomendunum glaðan dag og innrætum lífsgæðin sem felast í skógrækt eins víða og við getum.
Góðar stundir
SE