Skýrsla formanns Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fyrir árið 2020
Árið 2020 hófst með miklum óveðrum þannig að ekki var hægt að vinna neitt úti við. Þann 13. janúar gerði skógræktarfélagið samning við Hafnarfjarðarbæ um snjóruðning á helstu göngustígum á svæðinu. Þessi samningur náði yfir fyrstu fjóra mánuði ársins og var til reynslu. Vegna mikillar snjókomu og erfiðar veðráttu reyndist þessi samningur vera afar óhagstæður fyrir skógræktarfélagið þar sem ryðja þurfti tvo til þrjá daga í hverri viku og suma daga voru Árni og Jökull báðir uppteknir við þessa vinnu allan daginn. Það voru mjög tíðir skafbylir en þeim fylgdi síðan rigning og bloti sem gerði snjóinn mjög þungan og í raun mikið þyngri en tæki skógræktarfélagsins ráða við. Eftir rigninguna gerði síðan frost þannig að upp hlóðst klaki sem tækin réðu engan veginn við. Þegar ekki var þörf á snjóruðningi var unnið við grisjun á stafafuruskóginum í Selhöfðanum en þar er um 40 ára gamall skógur sem hefur verið grisjaður af og til á síðustu 20 árum en þá meira til að ná í jólatré en að um markvissa grisjun hafi verið að ræða. Þessi vinna við snjóruðning og grisjun stóð fram í byrjun aprílmánaðar. Vegna þess hve mikill tími fór í snjóruðninginn fékk skógræktarfélagið hjálp frá Orra Frey Finnbogasyni og Hákoni Aðalsteinssyni frá garðyrkjufyrirtækinu Trjáprýði. Vegna ófærðar reyndist ekki unnt að flytja trjábolina úr skóginum fyrr en um sumarið. Veðrið hélt áfram að gera okkur lífið leitt þannig að suma dagana var ekkert viðlit að vinna úti við vegna mikils hvassviðris og úrkomu. Um mánaðarmót mars og apríl var komið að vorverkunum í gróðrarstöðinni. Byrjað var á að stinga ýmsum tegundum af skrautrunnum í potta og koma fyrir á gólfinu í stóra gróðurhúsinu. Vegna þess hve veðurfarið var leiðinlegt reyndist sú vinna erfiðari en oftast áður þar sem mold, molta, vikur og sandur sem notaður var við moldarblöndunina var oftast frosin þannig að við neyddumst oft til þess að aka moldarblöndunni inn á gólfið á gróðurhúsinu með Avantinum til þess að láta hana þiðna. Einnig þurfti að stinga græðlingum af ösp og víðitegundum í potta og fjölpottabakka utan húss. Á sama tíma var trjáfræi sáð í fjölpottabakka og sáðbakka á gólfinu í stóra gróðurhúsinu. Talsverð vinna fór síðan í að stinga upp hnausplöntur úr trjábeðum í gróðrarstöðinni en einnig sitkagreni, birki, stafafuru, bergfuru, fjallafuru og lindifuru úti í skógi. Í byrjun maí voru vetrarskýlin rifin ofan af timburkörmunum þar sem trjáplönturnar eru geymdar yfir veturinn og þeim komið fyrir á sölusvæðinu. Fyrstu sumarstarfsmennirnir komu til starfa í loka maí. Eins og undanfarin ár þá fékk skógræktarfélagið vinnuhóp frá Vinnuskóla Hafnarfjarðar og annan frá Landsvirkjun. Ofan á þetta bættist síðan atvinnuátak námsmanna sem félaginu bauðst með litlum fyrirvara. Þar sem ljóst var að starfsmannaaðstaðan var alls ekki nóg og þá ekki síst hvað varðar sóttvarnir vegna Covid-19 var drifið í því að gera húsgáminn sem félagið fékk að gjöf á síðasta ári frá Sölva og Björk nothæfan með því að koma fyrir rotþró og tengja hann við kalt vatn. Í gámnum var þannig pláss fyrir þá 14 starfsmenn frá atvinnuátakinu. Eins og undanfarin ár fór mikil vinna í viðhald og endurbætur á göngustígum. Þar sem við fengum þennan hóp frá atvinnuátaki námsmanna var ákveðið að leggja áherslu á endurbætur á stígum í Höfðaskógi. Nokkrir þeirra voru breikkaðir verulega og til þess verks voru m.a. sexhjólið og Avantinn notuð til að létta verkið. Auk þess voru öll þrep og tröppur í skóginum endurbyggð og lokið við að aka möl í stíg í gegnum land skátanna sem byrjað var á sumarið 2019. Í stígagerðina fór óvenju mikið af möl eða yfir 600 tonn. Áfram reyndist erfitt að fá skógarplöntur í gegnum Landgræðsluskóga en félagið fékk úthlutað tæplega 17 þúsund bakkaplöntur en auk þess voru gróðursettar tæplega 2.200 pottaplöntur. Lang mest var gróðursett af alaskaösp eða um 8 þúsund plöntur, um 6 þúsund af sitkagreni og tæplega 3 þúsund stafafurur. Um haustið í september og október fór tíminn m.a. í fræsöfnun og fræverkun en talsvert var safnað af sitkagrenifræi og fjallaþin ásamt ryðelri og blæelri. Einnig var safnað mikið af berjum af ýmsum reynitegundum og öðrum trjám og skrautrunnum. Eftir það var hafist handa við að ganga frá plöntum fyrir veturinn og koma fyrir skýli yfir þær. Skógræktarfélagið hefur selt talsvert af sitkagreni og stafafuru í hnaus fyrir jólin og hefur salan aukist með hverju árinu. Strax í október var mikið spurt um þannig tré bæði frá einstaklingum og verktökum. Við tókum þess vegna upp mun meira af þessum trjám en áður. Þann 18. september var byrjað að grafa fyrir sökklum á nýrri verkstæðisbyggingu skógræktarfélagsins sem reyndist vera meira verk en reiknað var með því talsvert dýpra reyndist niður á fast berg og þess vegna þurfti að fylla talsvert undir sökklana. Þar sem gröfumaðurinn var upptekinn í öðrum verkum tókst ekki að ljúka verkinu fyrr en 12. nóvember. Í byrjun nóvember voru allar plöntur fluttar út úr stóra gróðurhúsinu og þeim komið fyrir í vetrarskýli. Gróðurhúsið var síðan þrifið og það gert klárt fyrir jólatrjásöluna. Næstu vikur fóru í að saga niður tré fyrir jólaþorpið og á Strandgötuna. Nokkrir dagar fóru í að safna efni í jólaskreytingar og klippa greinar til að selja í blómabúðir og í jólatrjáasölunni. Síðdegis þann 13. nóvember mættu smiðirnir þeir Erlendur Gunnarsson og Gunnar Þórólfsson til þess að festa upp steypumótin og aðstoðuðu þeir Árni og Jökull þá við það verk. Unnið var áfram daginn eftir laugardag fram á kvöld. Á mánudeginum var byrjað að járnabinda og lokið við að gera allt klárt fyrir steypu á fimmtudagskvöldið þann 19. Ákveðið hafði verið að steypa söklana föstudaginn 20. nóvember og fyrsti steypubíll pantaður klukkan 15. Þegar við mættum til vinnu klukkan 8 um morguninn var frostið 15 gráður en það dró hratt úr því þannig að klukkan 14 var það komið niður að frostmarki og þegar fyrsti steypubílinn mætti þá var kominn þriggja gráðu hiti. Strax morguninn eftir var byrjað að losa um steypumótinn og byrjað að háþrýstiþvo þau. Lokið var við að losa steypumótin á mánudeginum á eftir. Þann 2. desember var byrjað að fylla upp að söklunum og því verki lokið daginn eftir. Starfsárinu lauk með jólatrjáasölunni sem hófst formlega laugardaginn 5. desember og var eins og áður lögð áhersla á söluna þrjár síðustu helgar fyrir jólin en vegna ástandsins var fólk að mæta alla daga vikunnar til þess að kaupa sér jólatré. Metsala var á jólatrjám þetta árið en alls seldust 685 jólatré sem komu frá sex aðilum auk skógræktarfélagsins en alls seldust 226 tré úr skógræktarlandi félagsins. Þessu til viðbótar seldust 240 svokölluð tröpputré en til samanburðar seldust 100 þannig tré árið áður. Þrátt fyrir Covid-ástand tókst salan vel með hjálp margra sjálfboðaliða.