Fyrri hluta árs 1910 gáfu prentararnir Jón Helgason og Karl H. Bjarnason út ópólitískt frétta- og sögublað í Hafnarfirði sem hlaut nafnið Skuggsjá. Blaðið átti að koma út 3-4 sinnum í mánuði og tók Helgi Valtýsson kennari við ritstjórninni frá 3. tölublaði. Skuggsjá varð ekki langlíft blað þar sem Prentsmiðja Hafnarfjarðar var seld og flutt til Eyrarbakka. Einvörðungu komu út 11. tölublöð, það síðasta 10. maí 1910, nokkrum dögum áður en prentsmiðjan var tekin niður. Jón og Karl komu prentsmiðunni aftur í gang á Eyrabakka og gáfu út vikublaðið Suðurland.
Vorið 1910 fékk Ungmennafélagið Seytjandi júní þrjá valinkunna Hafnfirðinga til að halda 5 mínútna erindi á fundum eins og venja var. Þeir fengu það verkefni að lýsa Hafnarfirði eins og þeir ímynduðu sér að bæinn að 100 árum liðnum. Ræðumennirnir voru Jón Jónasson skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar, formaður félagsins, Sigurgeir Gíslason vegaverkstjóri, gjaldkeri félagsins og Guðmundur Hjaltason kennari og fræðimaður. Ræðurnar vöktu athygli og nokkra kátínu bæjarbúa. Útgefendum Skuggsjár fannst ástæða til að birta þær í blaðinu með tilheyrandi aðfararorðum: ,,Hér fara á eftir spádómar þeirra, og gerir Skuggsjá sér í hugarlund að einhver muni geyma hana það lengi, að Hafnfirðingar, er þá verða ríkjandi, geti séð hugsjónir forfeðranna í veruleika, eða þá hitt.”
Framkvæmdamaðurinn
Sigurgeir Gíslason var með hugann við vegagerðina og framkvæmdir enda hafði hann starfað sem vegaverkstjóri víða um land í 20 ár. Hann stjórnaði vinnuflokkum sem lögðu vagn- og bílfæra vegi víða um landið og var framsýnn: „Búið verður að byggja bæinn suður að Hvaleyri og vestur að Balakletti, inn að Hraunsholtslæk og upp að Setbergi.” Sigurgeir var tæknisinnaður, skógrækt sá hann fyrir, vildi láta taka til í bænum og losna við ólykt af fjárhúsum, fjósum og grútargryfjur þar sem fiskilifur og slori var safnað í hauga: ,,Búið að setja aflvaka í Hraunsholtslæk til raflýsingar og upphitunar. Allir Víðistaðir með nærliggjandi hraunkrikum orðnir skógi vaxnir. Búið að rífa Linnetsfjósið – og tæma safngryfjuna hjá Ásbúð, og gera Þorlákstún að rennisléttri flöt.” Fjósið stóð þar sem bílastæðið er milli Linnetsstígs og Venusarhússins við Strandgötu 11. Safngryfjan við Ásbúð var skammt frá Flensborgarhöfn en hún er löngu horfin. Þorlákstún sést enn að hluta til sunnan við Vallarbarð og liggur að nokkru leyti undir Reykjanesbraut á móts við Ásvelli.
Sigurgeir reiknaði ekki með að olían yrði notuð til að knýja skipsvélar ef til vill á spádómur hans um rafmagnsskip eftir að rætast. Hann hafði allavega rétt fyrir sér varðandi flugvélar. Sýn hans á handknúna og þráðlausa síma er nokkuð merkileg. Farsímarnir ganga að vísu ekki fyrir aflinu í handleggjunum heldur örsmáum rafhlöðum, sem hann nefnir ílát undir rafurmagn. Sigurgeir var safnaðarfulltrúi og sannspár um Hafnarfjarðarkirkju sem var reist fjórum árum seinna og Víðistaðakirkju sem var tekin í notkun rúmlega hálfri öld eftir að þetta birtist á prenti.
,,Byggja hafskipabryggju fram af Gesthúsaklöppinni, og dýpka höfnina. Enginn kúttari til með handfæri, alt eintóm gufu- og rafurmagnsskip. Menn verða hættir að ganga, en fljúga í þess stað í loftinu með flugvélum. Þá geta menn talað bæja milli með þráðlausu áhaldi, er knýja má með aflinu í handleggjunum. Konur mestmegnis í bæjarstjórn, en karlmennirnir elda grautinn. Búið að byggja steinkirkju í Undirhamarstúninu og ef til vill aðra í Víðistöðum. Slétta mikið til út hraunið og gera um það beinnni vegi en nú eru.”
Þrennt til viðbótar nefndi Sigurgeir sem er áhugavert að velta fyrir sér. Draumsýn hans um Kaldá hefur ræst þar sem vatnið þaðan rennur í vatnspípum í hvert einasta hús í bænum, en rafmagnsbílarnir eru ekki ennþá orðnir algengir. ,,Búið að veita Kaldá niður í Hafnarfjörð. Þá þarf ekki að senda menn til þess að gæta að því, hvað um Kaldá verður! Rafurmagnsvagnar ganga daglega milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, og verður þá oft í flutningum rafurmagn á þar til gerðum ílátum, en því hefir verið safnað í ljósastöðinni hér. Brennivín og aðrir áfengir drykkir þekkjast ekki nema af sögunni. Andleg menning hefir aukist svo mikið að menn selja ekki sannfæringu sína fyrir einn málsverð.”
Ræktunarmaðurinn
Framsýni kennarans Guðmundar Hjaltasonar tengdist fyrst og fremst gróðurrækt. Hann var kunnur jarðræktarmaður, ritaði bækur um ræktun og fór víða til að kenna og halda erindi um gróðurrækt. Erindið kallaði hann: Draumur um jurtarækt í Hafnarfirði að 100 árum liðnum. ,,Þá verður laglegt að líta yfir landið við Hafnarfjörð. Hjá öllum íverustöðum þar verður kominn stærri eða minni skrúðjurtagarður. Í görðum þeim eru þá runnar eða hríslur af reyni, birki og gulvíðir, af lævirkjatré, furu og greni, og ef til vill beykitrjám og öðrum trjám, sem nú vaxa hvergi að ráði nema suður á Eldlandi. Þar verður líka fullt af rifsberjarunnum og eplatrjám, sem þá er búið að landvenja og kynbæta svo, að góðan ávöxt beri. Það verða einnig komnir margir reitir af skrúðblómum. Í þeim eru nú fyrst og fremst íslensk skrúðblóm, svo sem stóra eyrarrósin, jöklasóley og ljósberinn. Er þá búið að úrvelja og kynbæta þau svo, að þau eru orðin miklu stærri og fegri en þau eru nú. Þar eru líka mörg útlend skrúðblóm, sum sunnan frá Eldlandi og syðstu háfjöllum Suður-Ameríku. Er líka búið að íslenska þau eftir þörfum.”
Margt af þessu hefur gengið eftir. Guðmundur átti sér draum um villtan skóg í hraununum umhverfis bæinn. Hann kenndi landsmönnum að rækta matjurtir til að auka fjölbreytileikann í fæðunni taldi að fjöldi matjurtagarða yrði í skjólsælum hraunbollum:
,,Hraunið allt fyrir vestan og norðan bæinn er orðið að fegursta skóglendi. Gróa þar sömu tré og í skrúðgörðunum, en eru í miklu stærri runnum. Innan um þá eru ótal smærri og stærri matjurtagarðar. Í þeim gróa þá allskonar káljurtir, sem líka eru orðnar svo kynbættar, að rófur þeirra eru miklu næringarmeiri en þær eru nú.”
Áhugi á matjurtarækt hefur aftur komist í tíksu, eplatré og önnur ávaxtatré sem hér eru ræktuð gefa ávöxt og akuryrkjan er að styrkjast með hlýnandi veðurfari. ,,Þar er líka sykurrófan, svo bætt og íslenskuð, að hún framleiðir svo mikinn sykur, að margir fara að stofna sykurgerðarsmiðjur. Og ná þar svo smátt og smátt nógu sykri úr henni. Og mörg önnur matjurtin, umbætt og arðsöm, grær þar líka.,Öll holtin og fellin [Svínholt, Mógrafarholt og Höfðarnir kringum Hvaleyarvatn] næstu fyrir austan og sunnan bæinn, ásamt hraunbeltinu [Gráhellu- og Sléttuhlíðarhraun], sem áin [Kaldá] rennur hjá, eru orðin að túnum, skógi og matjurtargörðum. Eða þá ökrum því eitthvert korn verður þá búið að umbæta og íslenska svo að það grói hérlendis með góðum arði. Hæstu fellin verða líka algróin með einhverju. Alténd trjám eða týtuberjalyngi. Því lyng þetta verður þá orðinn aðal lynggróðurinn í mörgu ef eigi öllum byggðahraunum vorum. Ein eða fleiri tegundir fáséðra merkisplantna, ef til vill einnig frá Eldlandi, gróa hingað og þangað innan um hitt. Vekja þær undrun allra jurtafræðinga. Ja, þá veður jurtafræðin í svo miklum metum, að fólk les hana með sömu ákefð og það les rómana nú. Og þá segja þeir: ,,Miklir skrælingjar voru forfeður vorir fyrir 100 árum, þá litu þeir varla við grasafræði, en voru eins og dauðadrukknir af lélegu rómanarusli.”
Skólamaðurinn
Jón Jónasson skólastjóri hélt fyrsta erindið. ,,Eftir 100 ár verður búið að byggja hafskipaklöpp umhverfis allan fjörðinn og geta þá hafskip lagst að henni hvar sem líst og þeim er hentugast. En fjöruna alla fyrir ofan klöppina verður búið að fylla og getur þar þá að líta stórhýsi í samfastri röð meðfram beinum, breiðum og steinlögðum götum. Hefir hraunið verið notað til þess að steypa þessa viðbót við bæjarstæðið, og hefir þá jafnframt verið svo til hagað grjóttökunni, að núverandi bæjarstæði og sá hluti hraunsins, sem þá verður byggður, hefir verið jafnaður og götur gerðar beinar og fagrar. – Þá verða örfá timburhús til í Hafnarfirði, og öll hús verða þá hituð upp með jarðhita.”
Þegar þessi spádómur var settur fram höfðu Bookles bræður látið gera viðlegukant framan við Svendborg og fiskverkunarhúsin sem stóðu þar sem nú er Norðurbakkinn. Lítil bryggja þar sem erlend hafskip gátu athafnað sig á flóði var við kantinn. Lagðist fyrsta hafskipið að brygggjunni 2. apríl 1910 og voru áform um að bærinn léti útbúa þar stæðilega hafskipabryggju. Gekk það eftir og var hafskipabryggjan tekin í notkun þremur árum seinna og þar lagðist Gullfoss að í fyrsta sinn á Íslandi árið 1913. Fiskverkunarhúsin sem stóðu við Krosseyrarmalir eru horfin en fjölbýlishús standa á uppfyllingunni. Bungalowinn sem Bookels bræður létu reisa nokkru seinna stendur enn og er núna móttökuhús Hafnarfjarðarbæjar. Segja má að einskona hafskipaklöpp sé komin umhverfis fjörðinn. Stálþil hafa verið rekin niður norðan og sunnan fjarðarins og beinir grjótgarðar hlaðnir milli þeirra. Landfyllingar hafa stækkað undirlendið og skert sjálfan fjörðinn, hraun hefur verð sléttað, beinar götur lagðar varanlegu stitlagi, timburhúsin eru í minnihluta og öll hús í bænum eru hituð upp með hitaveituvatni eins og Jón lét sig dreyma um. Hann vildi líka sá eftirfarandi gerast, en það varð á annan veg:
,,Búið verður að ,,moka upp” Hvaleyrartjörn og gera að þurrkví handa hafskipum.” Skipasmiðastöðin Bátalón (seinna Skipalón) var seinna stofnsett við Hvaleyrartjörn. Skammt frá er Hvaleyrarhafnar garður með tveimur flotkvíum sem gegna samskonar hlutverki og þurrkvíar annarsstaðar í heiminum.
Jón var hugsjónamaður sem stofnaði Kaupfélag Hafnarfjarðar ásamt félögum sínum árið 1909. Þeir byggðu steinsteypt verslunarhús við Strandgötu, þar sem Súfistinn er til húsa. Kaupfélagið var í samkeppni við erlenda kaupmenn sem höfðu lengi ráðið ríkjum í bænum, en Jón taldi að íbúar bæjarins ættu að annat verslunina og eiga fiskiskipin: ,,Öll skip sem héðan ganga á fiskiveiðar, verða þá eign sjómannanna sjálfra, og engin verslun þrífst þá hér önnur en kaupfélagsveslun, sem bæjarbúar einir eiga og innlendir menn veita forstöðu. Þá verður komið hér fyrir löngu stóreflis bókasafn og búið að byggja yfir það eitt af fegurstu stórhýsum borgarinnar – næst kirkjunni og skólunum að skrauti. Verða þar allir lestrasalir löngum fullir af lesandi fólki, svo sem nú eru danssalir og sölubúðir fullar af iðjulausum mönnum um hávetur. En búðarslórið, með allri sinni spillingu verður þá löngu horfið. Barnaskólarnir verða þá kærustu óskabörn Hafnfirðinga, og verða þeir bæði margir og vel úr garði gerðir. Þar verður lögð alúð við að kenna leikfimi, íþróttir, smíðar, matartilbúning og annað það er öllum er nauðsyn að kunna, eigi síður en bókleg fræði. Þá verða skólarnir aðal matsölustaðir borgarinnar.”
Það væri áhugavert að fá nokkra valinkunna Hafnfirðinga til að setjast niður og skrásetja Framtíðarsýn þessar þriggja manna er afar merkileg og þar af leiðandi rétt að gera örlitla grein fyrir ætt þeirra og uppruna:
Hvaða menn voru þetta?
Guðmundur Hjaltason fæddist 1853 á Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum í Mýrarsýslu en dó 1919. Hann stundaði nám í lýðháskóla í Gausdal í Noregi 1875-77 og í lýðháskólanum í Askov í Danmörku 1877-81. Hann fór í námsför til Svíþjóðar 1880 og til Englands 1881. Hann flutti fjölda fyrirlestra erlendis 1876-1881. stjórnaði alþýðuskóla á Akureyri 1881-82 og 1884-87, kenndi víða á Norðurlandi. Guðmundur flutti um 600 fyrirlestra í æskulýðsfélögum í Noregi 1903-08 og um 120 fyrirlestra í Danmörku 1908-09. Hann bjó í Hafnarfiðri frá 1909 og fór víða til fyrirlestrahalds á vegum ungmennafélaga. Guðmundur vann að jarðarbótum á sumrin og gaf út rit um grasa- og jurtafræði.
Kona hans var Margét Hólmfríður Björnsdóttir og áttu þau þrjú börn.
Jón Jónasson fæddist 1876 í Skógum á Fellsströnd í Dalasýslu, en dó 1914.
Hann var gagnfræðingur frá Flensborgarskóla 1896 og tók kennarapróf frá sama skóla 1898. Jón var kennari við barnaskólann á Álftanesi 1898-1900, skólastjóri unglingaskólans í Búðardal 1900-01, stundakennari við Barnaskóla Reykjavíkur 1902-03 og skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar 1903-12. Hann var ötull íþrótta- og félagsmálamaður og ritstjóri og útgefandi Fjallkonunnar 1907-09. Jón var kvæntur Velgerði Jensdóttur kennara og áttu þau fjögur börn.
Sigurgeir Gíslason fæddist 1868 í Kálfholti í Rangárvallasýslu en dó 1952. Hann ólst upp í Garðahverfi hjá móður sinni og tók gagnfræðapróf frá Flensborgarskóla 1884. Hann var kennari í Vestur-Eyjafjallasveit 1890-93, en bjó í Hafnarfirði eftir það. Sigurgeir vann sem verkstjóri í vegagerð í 20 ár, var gjaldkeri Sparisjóðs Hafnarfjarðar 1929-44, hreppsnefndarmaður í Garðahreppi 1899-05 og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1908-18 og 1920-26. Hann gegndi trúnaðarstörfum á vegum bæjarins og var í framkvæmdanefnd Stórstúku Íslands. Hann var kvæntur Marínu Jónsdóttur og áttu þau tvö börn og tvö fósturbörn.
Hvað gerist næstu 100 árin
Nú ætti einhver að taka sig til að velja þrjá valinkunna Hafnfirðinga af báðum kynjum og fá þá til að hugsa eina öld fram í tímann og skrásetja framtíðarsýn þeirra. Síðan gætu Hafnfirðingar framtíðarinnar skemmt sér við að lesa spádóminn og bera hann saman við raunveruleikann.