Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946, beindu menn sjónum sínum strax að svæðinu austan Hvaleyrarvatns. Bæjaryfirvöld úthlutuðu umbeðnu landi, en þegar til átti að taka vorið 1947 treystu félagsmenn sér ekki til að hefja ræktunarstarf á blásnum melum vegna þess hversu seint voraði. Þessvegna varð nyrsti hluti Gráhelluhrauns fyrir valinu og þar var unnið að uppgræðslu fyrsta árin.
Landsvæðið umhverfis Hvaleyrarvatn hafði verið beitiland Jófríðarstaða, Áss og Hvaleyrar um aldir og var illa farið þegar Skógræktarfélagið hóf starfsemi sína. Það þurfti því dugnað og áræðni til að taka þetta svæði til ræktunar. Reynslan sem brautryðjendurnir höfðu aflað sér með ræktunarstörfum sínum í Undirhlíðum, Sléttuhlíð, Klifsholti og Gráhelluhrauni kom að góðum notum þegar félagið fékk úthlutað 32 hektara landi á Beitarhúsahálsi við Húshöfða 1956. Félagsmenn girtu svæðið af, stungu niður rofabörð og hófu ræktunarstarfið vorið 1958. Sumarið áður hafði Hákon Bjarnason og fjölskylda hans byrjað gróðursetninug í Vatnshlíðinni. Síðan hefur ræktunarlandið verið stækkað í áföngum og þekur nú mestallt Hvaleyrarvatnssvæðið, Höfðana umhverfis Seldal og Kjóadal allt upp að Kaldárseli og landsvæði nærri Sléttuhlíð. Með samningi sem gerður var milli Hafnarfjarðarbæjar og Skógræktarfélagsins 1990 var umsjónarsvæðið skilgreint á nýjan leik og tók til alls upplandsins innan lögsögumarka Hafnarfjarðar, nema þeirra svæða sem þegar höfðu verið látin undir sumarbústaði, æfingasvæði, hesthúsa eða til annarra nota. Nú er verið að vinna að nýjum samningi um hlutverk Skógræktarfélagsins, aðkomu þess að útivistarsvæðum bæjarins og ræktunarstarfi í náinni framtíð.
Það hafði lengi verið baráttumál skógræktarfólks að koma böndum á sauðfjárbeit á öllu Reykjanesi, en það mál er ekki enn komið í höfn. Vorið 1949 sendi stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar sýslunefnd Gullbringusýslu og bæjarstjórn Hafnarfjarðar áskorun um að vinna að friðun Reykjanesskagans. Þetta mál fékk lítinn hljómgrunn í fyrstu og þessvegna var nauðsynlegt að halda við griðingum í kringum ræktunarsvæðin. Margir bæjarbúar stunduðu sauðfjárbúskap og sumarhagarnir voru í svokallaðri bæjargirðingu ofan byggðarinnar. Þegar tekin var ákvörðun um að hætta lausagöngu búfjár að mestu í bæjarlandinu 1963 og færa sumarbeitina í Krýsuvíkurland horfði ræktunarfólk björtum augum fram á veginn. En björninn var ekki unninn því lausaganga búfjár var leyfð í Hraunum, á Vatnsleysuströnd og víðar í nágrenni bæjarins og þessvegna var nauðsynlegt að halda við girðingum og endurnýja þær á hverju vori.
Árið 1978 var ákveðið að girða þvert yfir Reykjanesskagann frá Grindavík í Voga og koma fénu vestan girðingar í sérstök beitarhólf. Rúmlega áratug síðar var komið upp beitarhólfi fyrir sauðfé Hafnfirðinga í landi Stóra-Nýjabæjar sunnan Arnarfells í Krýsuvík. Grindvíkingar eru þeir einu sem ekki hafa samþykkt beitarstýringu og gengur sauðfé þeirra laust á suðvestanverðum skaganum.
Hvaleyrarvatn og næsta nágrenni var gert að skipulögðu útivistarsvæði 1987 eftir að sorphaugunum við Hamranes var lokað. Ákveðið var að tengja landið vestan Hvaleyrarvatns við skógræktarsvæðið, útbúa göngustíg umhverfis vatnið, gera útigrill og sleppa fiski í vatnið. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt vann heildarskipulag fyrir útivistarsvæði bæjarins sem var samþykkt árið 1991. Hann vann nýtt deiliskipulag fyrir Hvaleyrarsvæðið og Höfðaskóg, sem var samþykkt haustið 2001 og tók gildi vorið 2002. Á rúmum áratug hefur verið unnið að því að opna skógræktarsvæðin og taka niður girðingar. Unnið hefur verið að grisjun, útbúin dvalarsvæði í skógarrjóðrum og göngustígar lagðir til að auðvelda aðgengið. Nú geta allir sem áhuga hafa á því notið útivistar við Hvaleyrarvatn, í Höfðaskógi og Gráhelluhrauni.
Á næstunni verður girðingin í Undirhlíðum tekin niður og stígar lagðir svo greiðfært verði um þennan fallega skógarreit, sem er orðinn rúmlega 70 ára gamall.
Jónatan Garðarsson