Tileinkaðir brautryðjendum og velunnurum skógræktar
Í hraða nútímans gleymist stundum að staldra við, líta um öxl og setja sig í spor þeirra brautryðjenda sem tóku sér stöðu á fyrri hluta tuttugustu aldar og ákváðu að leggja ómældar frístundir í að græða upp landið og klæða það trjágróðri á ný. Landið var víða illa farið í nágrenni Hafnarfjarðar enda þótti ekki árennilegt að hefja uppgræðslu á örfoka holtum, ásum, hlíðum, leirflögum og hraunflákum á fyrri hluta síðustu aldar. Engu að síður svöruðu margir kalli tímans þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 og tóku þátt í ræktunarstarfinu af einurð og bjartsýni.
Fjölmargir einstaklingar lögðu á sig umtalsvert erfiði á hverju sumri í landbótastarfinu en eins og oft vill verða í félagsstarfi var meginþunginn borinn uppi af fáeinum einstaklingum. Gróskumiklir skógarlundir í upplandi Hafnarfjarðar bera þögult vitni um þrotlaust starf og ósérhlífni þeirra sem tóku þátt í þessu starfi og lögðu allt sitt í að rækta landið. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur leitast við að minnast á táknrænan hátt nokkurra einstaklinga sem hafa verið í forystu hlutverki í ræktunarstarfinu í gegnum tíðina og tileinka þeim ákveðna skógarreiti með viðeigandi hætti. Einnig hefur félagið látið merkja á látlausan hátt upphafsreit ræktunarstarfsins í norðanverðu Gráhelluhraun við Lækjarbotna, sem hófst með formlegum hætti 27. maí 1947. Þá þegar var einstaklingsbundið ræktunarstarf hafið á nokkrum stöðum í upplandi Hafnarfjarðar.
Ingvarslundur
Fyrsti formaður Skógræktarfélagsins og einn helsti ræktunarmaður fyrri tíðar var Ingvar Gunnarsson barnaskólakennari. Hann fæddist í Skjaldakoti á Vatnsleysuströnd 1886, nam við Flensborgarskóla, tók kennarapróf 1911, en gerðist kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar 1920. Hann var einn af stofnendum Málfundarfélagsins Magna og var gerður að umsjónarmanni og garðyrkjustjóra Hellisgerðis frá 1924. Ingvar átti drjúgan þátt í mótun Hellisgerðis og stundaði þar ræktunarstörf af mikilli alúð til dauðadags 1961. Skógræktarfólk minnist Ingvars ekki síður sem fyrsta formanns félagsins og upphafsmanns skógræktar í Undirhlíðum. Hann fór fyrir hópi manna sem tóku sig til sumarið 1930 og stungu niður rofabörð í Litla-Skógarhvammi og plöntuðu út fjallafuruplöntum ættuðum frá Noregi og sitkagrenitrjám ættuðum frá Danmörku. Fyrir tilstilli bæjaryfirvalda sem létu girða reitinn og samstarfsfólks í Barnaskóla Hafnarfjarðar hófust reglulegar útplöntunarferðir í Undirhlíðar vorið 1934. Undir öruggri stjórn Ingvars gróðursettu nemendur efstu bekkja Barnaskólans mörg hundruð barrtré í Undirhlíðum sem mynda nú hávaxinn og fallegan skógarlund. Börnin voru fljót að nefna ræktunarreitinn Ingvarslund eftir kennara sínum en Ingvar nefndi hann Skólalund. Þar hefur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar reist minnisvarða um þennan merka forystumann í ræktunarmálum bæjarins.
Systkinalundur
Annar forystumaður skógræktarmála á upphafsárum félagsins var Gunnlaugur Kristmundsson kennari og Sandgræðslustjóri. Hann fæddist á Þverá í Núpsdal í Vestur-Húnavatnssýslu 1880. Gunnlaugur tók gagnfræðapróf og síðan kennarapróf frá Flensborg 1905 og kynnti sér sandgræðslumál í Danmörku. Hann vann við kennslu á veturna og sandgræðslu á sumrin frá 1907. Gunnlaugur flutti til Hafnarfjarðar og var kennari við Barnaskólann frá 1914 til 1942, er hann var skipaður Sandgræðslustjóri við stofnun embættisins. Því starfi gegndi Gunnlaugur til 1947, en hann andaðist 1949.
Þegar ljóst var vorið 1947 að ekki yrði hægt að hefja ræktunarstarf í hlíðinni milli Hvaleyrarvatnsenda og Beitarhúsaháls eins og ráðgert var stakk Gunnlaugur upp á því að hefja gróðursetningu í skjólsælum hraunbollum í norðanverðu Gráhelluhrauni og þar með hófst öflugt ræktunarstarf Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
Guðmundur bróðir Gunnlaugs fluttist til Hafnarfjarðar og var bóndi í Sveinskoti til 1949 er hann lést. Ingibjörg systir þeirra var ráðskona Guðmundar um árabil og var eini erfingi bræðra sinna sem voru báðir ókvæntir og hún giftist aldrei. Þegar Ingibjörg andaðist 1952 lét hún eftir sig erfðaskrá þar sem hún gaf stóran hluta eigna sinna til að stofna ,,Skógræktarsjóð Guðmundar og Gunnlaugs Kristmundssona og Ingibjargar Kristmundsdóttur” til að efla skógrækt í Hafnarfirði eða í nágrenni kaupstaðarins.
Sumarið 1989 var afhúpaður minningarsteinn um þessi merku systkini í Systkinalundi í fögrum grenilundi undir suðurhlíðum Húshöfða, sem stúkufélagar Guðmundar Þórarinssonar gróðursettu um 1960.
Guðmundarlundur
Guðmundur Kristinn Þórarinsson var mikill ræktunarmaður og einstaklega ósérhlífinn í störfum sínum fyrir félagið á meðan heilsan leyfði. Hann plantaði út mörg þúsund trjám, fyrst í Hvaleyrarvatnsgirðingunni og síðan í Gráhelluhrauni og víðar í lendum Skógræktarfélagsins.
Guðmundur fæddist í Hafnarfirði 1913, tók kennarapróf 1939 og stundaði kennslu á Stokkseyri og Eyrarbakka áður en hann gerðist kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar 1956. Hann var ráðinn starfsmaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar sumarið 1949 og sama sumar gróðursetti hann rúmlega 7.000 trjáplöntur. Hann lagði ófáar vinnustundir í að græða blásna mela og stinga niður græðlingum og naut auk heldur aðstoðar félaga sinna í góðtemplarareglunni. Hann var manna ötulastur við að leiðbeina unga fólkinu sem kom til starfa fyrir félagið á sumrin og lagði félaginu til jeppabíl sinn endurgjaldslaust um árabil. Guðmundur lét ekki þar við sitja heldur gaf félaginu bifreiðina þjóðhátíðarárið 1974, en árið eftir andaðist þessi mikli öðlingur.
Sumarið 1965 hóf Guðmundur gróðursetningu á stafafuru í Gráhelluhrauni og þar er nú þéttur skógur. Minningarskjöldur hans er á stórri hraunhellu við göngustíginn í miðjum skógræktarreitnum í Gráhelluhrauni rétt hjá furuskóginum sem hann plantaði út.
Ólafslundur
Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson var einn af stofnendum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Hann var kjörinn í varastjórn á stofnfundinum og starfaði með félaginu alla tíð. Hann tók við formennsku árið 1965 og gegndi þeirri stöðu lengst allra eða í 24 ár. Hann var vakinn og sofinn í starfinu og fáir einstaklingar hafa lagt eins mikið af mörkum við ræktunarstarfið og hann. Ólafur var útnefndur heiðursfélagi á 45 ára afmæli félagsins 1991, en tveimur árum fyrr hafði hann látið af formennskunni eftir áratuga farsælt starf. Á ýmsu gekk í formannstíð Ólafs og félagið varð fyrir nokkrum áföllum. Með þrautseigju sinni, æðruleysi og dugnaði tókst Óla Villa að færa alla hluti til betri vegar. Til að minnast þessa mæta forystumanns var útbúinn fjölbreyttur skógarreitur í suðausturhlíðum Húshöfða, sem nefndur er Ólafslundur. Þar stendur minningarsteinn Ólafs Tryggva Vilhjálmssonar.
Ólafur fæddist í Hafnarfirði 17. desember 1915 í Illugahúsi (Kóngsgerði) í vesturbæ Hafnarfjarðar. Hann var lengst af starfsævinni leigubílstjóri og bjó ásamt fjölskyldu sinni að Bólstað í Garðabæ. Ólafur var einn helsti hvatamaður að stofnun Skógræktarfélags Garðabæjar.
Andrésarlundur
Andrés Gunnarsson afhenti Skógræktarfélag Íslands veglega fjárupphæð og arfleiddi félagið að eigum sínum að sér gengnum. Gjöfina á að nota til skógræktar en hún var ekki síst hugsuð til minningar um Aðalheiði Magnúsdóttur eiginkonu Andrésar sem lést 1994 tæplega áttræð að aldri. Sumarið 2000 var stofnað til Andrésarlundar með því að skyldmenni Andrésar, stjórnarmenn Skógræktarfélags Íslands og Hafnarfjarðar gróðursettu 95 tré í Höfðaskógi skammt frá Hvaleyrarvatnsvegi. Þegar Andrés varð 98 ára 29. september 2002 gaf hann félaginu enn eina peningagjöfina, en hann lést vorið eftir tæplega 99 ára. Í júlíbyrjun 2005 afhjúpaði Magnús Jóhannesson formaður Skógrækatarfélags Íslands minningarstein í Andrésarlundi.
Andrés var dæmigerður Íslendingur sem braust til mennta af sjálfsdáðum. Hann fæddist 1904 í Hólmum í Landeyjum og hlaut eingöngu undirstöðumenntun sem fólst í tveggja mánaða námi í þrjá vetur. Hann var staðráðinn í að læra eitthvað meira og lauk vélsmíðanámi frá útibúi vélsmiðjunnar Héðins í Hafnarfirði vorið 1926 og vélstjóranámi 1929. Hann starfaði eftir það sem vélstjóri á skipum, var verkstjóri í vélsmiðjum, Áburðarverksmiðjunni og víðar. Andrés var sannkallaður völundur og uppfinningamaður, sem átti m.a. hugmyndina að smíði skuttogara.
Smalaskáli Jóns í Skuld
Einn öflugsti liðsmaður Skógræktarfélagsins frá upphafi var Jón Magnússon sem var ætíð kenndur við fæðingarheimili sitt Skuld í Hafnarfirði. Þáttur hans í starfseminni er svo margháttaður að ekki gefst rúm til að fjalla um það allt, en við hæfi er að nefna hér ræktunarstarf hans í Smalaskálahvammi í Syðsta-Klifsholti. Þar hafði faðir hans stundum heyjað á sumrin en þegar Jón fékk landinu úthlutað 1945 fyrir sumarbústað var það ekki svipur hjá sjón. Áður hafði landið verið sumar- og vetrarbithagi Kaldársels, en skammt frá Smalaskálahvammi eru Kaldárselshellar sem voru vetrarskjól útigangssauða Garðhverfinga. Þar er einnig skálatóft fjársmala sem hvammurinn dregur nafn sitt af.
Landið var lítið annað en blásnir moldarflekkir, stórgrýtt holt og stöku rofabörð. Jón byrjaði á að stinga niður börðin, hlaða upp kanta til að mynda skjó, sá í landið og stöðva uppblástur. Hann gróðursetti skógarfuru sem lúsin fór illa með, einnig sitkagreni frá Kanada sem hann ræktaði sjálfur, rauðgreni, stafafurur, bergfurur og fjallaþin. Birkið sem var fyrir í landinu var orðið úrkynjað af margra ára áþján, ofbeit og illri meðferð. Það hefur varla náð sé enn, nema þau tré sem Jón klippti að mestu niður. Nú er Smalaskálahvammur gróskumikill skógarreitur sem ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni. Jón Magnússon fæddist í 20. september 1902 í gamla bænum Skuld í suðurhluta Hafnarfarðar, en þar í túninun setti hann seinna á laggirnar samnefnda gróðrastöð. Jón starfaði lengi sem vörubílstjóri og rak um tíma Áætlunarbíla Hafnarfjarðar ásamt bræðrum sínum og vinum, en hann helgaði sig að mestu gróðrastöðinni seinni hluta ævinnar. Jón var á meðal stofnenda Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og stjórnarmaður frá upphafi og var gerður að heiðursfélaga á 40 ára afmæli félagsins 1986. Jón náði háum aldri og andaðist vorið 2002 á hundraðsta aldursári.
Aðrir skógarlundir
Vinalundur nefnist skógræktarreitur í sunnanverðri Vatnshlíð vestan við Vatnshlíðargil og sumarbústað sem Hákon Bjarnason byggði sér. Reiturinn er tileinkaður Cuxhaven, vinabæ Hafnarfjarðar í Þýskalandi og þar hafa erlendir vinir bæjarbúa plantað út trjám í opinberum heimsóknum sínum til bæjarins.
Bænalundur, Prestalundur og Kristnihátíðarlundur eru á fallegum stað neðan Húshöfða, skammt sunnan við húsið Höfða í Höfðaskógi. Trén í þessum tveimur lundum eru enn fremur lítil að vexti, en eiga væntanlega eftir að mynda skjólsæl rjóður þegar fram líða stundir.
Bænalundur er vinalegur reitur sem var vígður 20. júní 2000. Þangað sækja þeir sem vilja kyrra hugann og eiga stund með sjálfum sér eða öðrum í friðsælu umhverfi. Sá siður hefur skapast að hefja Skógar – og útivistardegi fjölskyldunnar sem haldinn er á hveru sumri með látlausri helgistund í Bænalundi.
Prestalundur rekur upphaf sitt til gróðursetningarferðar í tengslum við Prestastefnu sem haldin var í Hásölum Hafnarfjarðarkirkju 1998. Bolli Gústavsson vígslubiskup á Hólum, prestar víðsvegar að frá landinu og fulltrúar Þjóðkirkjunnar sem sóttu stefnuna gróðursettu trén í lundinum í táknrænni athöfn á Jónsmessunni.
Kristnihátíðarlundur varð til þegar hafnfirskir prestar gróðusettu tré í skammt frá Prestalundi við Húshöfða á sjómannadaginn árið 2000 í tilefni þess að Hafnfirðingar fögnuðu 1000 ára afmæli kristni í landinu.
Jónatan Garðarsson
Helstu heimildir:
Saga Hafnarfjarðar III, Ásgeir Guðmundsson, 1984.
Græðum hraun og grýtta mela, Lúðvík Geirsson, 1996.
Forðum gengin spor, Jón Kr. Gunnarsson, 1996.
Minningargreinar, www.mbl.is
Munnlegar heimildir.
www.gardur.is.
Værðarlundur á Húshöfða
Lionsklúbburinn Ásbjörn stóð að gerð hans sumarið 2011, með styrk úr Minningarsjóði Gísla S. Geirssonar.
Minningarreitur um Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson
Verður útbúinn í Vatnshlíð fyrir styrk úr minningarsjóði þeirra hjóna. Sérstök áhersla verður lögð á ræktun í lúpínubreiðum.
Útikennslustofa við Húshöfða
Væntanleg útikennslustofa í Gráhelluhrauni