Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar
Sunnudaginn 27. júlí 2014 – kl. 14.00 – 17.00
Bænalundur, Höfðaskógi (skammt frá Þöll)
Kl. 14.00: Helgistund. Séra Jón Helgi Þórarinsson annast helgistundina.
Kl. 14.30: Ganga með Jónatan Garðarssyni að lokinni helgistund. Gengið verður um nýja göngustíga á Langholti. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund. Lagt af stað frá Bænalundi.
Íshestar, Sörlaskeiði 26
Kl. 15.00 – 16.00: Íshestar bjóða börnum á hestbak í gerðinu við bækistövar sínar.
Þöll/Skógræktarfélag Hafnarfjarðar v Kaldárselsveg
Kl. 15.00: Gjörningar og leikir fyrir börnin í boði ÍTH.
Þórður Marteinsson leikur ljúf lög á harmonikkuna.
Ratleikur fyrir yngstu kynslóðina. Verðlaun veitt kl. 16.30.
Heitt í kolunum á hlaðinu við Þöll. Komið með á grillið.
Heitt á könnunni.
Íshestar ehf
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
Vinnuskóli Hafnarfjarðar
Saga þessa dags:
Fyrsti Skógardagurinn var haldinn 4. júní 1982 og tóku flest öll skógræktarfélög landsins þátt í honum. Megináhersla var lögð á að kynna starfsemi Skógræktarfélagsins og var farið með rútu frá Íþróttahúsinu við Strandgötu í vettvangsferð um upplandið. Byrjað var á því að skoða elsta skógræktarsvæði félagsins í Gráhelluhrauni fyrsta árið. Næstu árin voru fleiri ræktunarsvæði kynnt og erindi flutt um gróðurvernd og uppgræðslu lands. Á sama tíma og önnur skógræktarfélög hættu að halda þennan dag varð þetta fastur liður hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar árið 1987. Síðan þá hefur dagurinn verið haldinn í heiðri á hverju einasta sumri. Um tíma var megin verkefni dagsins fólgið í því að stinga niður rofabörð, sá grasfræi í örfoka mela og flög og gróðursetja trjáplöntur, þannig að þetta var í rauninni gróðursetninga- og ræktunardagur. Slíkur dagur er núna haldinn á haustin á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, enda er ágætt að gróðursetja tré síðla árs.
Árið 1995 var nafninu breytt í Skógar- og útivistardag fjölskyldunnar með áherslu á fræðslu, gönguferðir, afþreyingu, leiki og skemmtilega samveru í Höfðaskóg og svæðið umhverfis Hvaleyrarvatn. Efnt var til samstarfs við ýmis önnur félög og fyrirtæki sem eiga hagsmuna að gæta í upplandi Hafnarfjarðar. Um tíma var Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar með í ráðum ásamt Hestamannafélaginu Sörla, skátafélaginu Hraunbúum og fleir aðilum sem komu að skipulagningu og framkvæmd atburða dagsins með einum eða öðrum hætti. Sú venja skapaðist strax að hefja daginn á stuttri helgistund og síðan var boðið upp á margskonar afþreyingu, leiki og fróðleik. Núna er dagurinn haldinn í samvinnu við Íshesta sem leyfa börnum að stíga á bak hesta í gerðinu við miðstöð fyrirtækisins, auk þess sem Vinnuskólinn og Íþrótta- og tómstundarráð koma að skipulagningu og framkvæmd dagskrárinnar. Skátarnir geta ekki verið með að þessu sinni vegna Landsmótsins sem stendur yfir á Akureyri.
Skógar- og útivistardagurinn setur skemmtilegan svip á starfsemi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar: 555-6455 eða á heimasíðu félagsins: skoghf.is