Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar sem haldinn var sunnudaginn 27. júlí var vel heppnaður. Fjölmenni var í Höfðaskógi og var barn borið til skírnar í Bænalundi í upphafi dagsins. Séra Jón Helgi Þórarinsson sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju flutti stutta hugvekju og síðan var stúlkubarnið skírt og hlaut nafnið Björk Elizabet Mikaelsdóttir. Það var amma barnsins Gyða Hauksdóttir, stjórnarkona í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sem hélt dótturdóttur sinni undir skírn. Langamma barnsins Kristín Þorleifsdóttir tók einnig þátt í athöfninni, sem var einstaklega falleg og setti sérstaklega hátíðlegan svip á daginn.
Að helgistund og skírn lokinni sungu allir viðstaddir íslenska sálminn Ó, Jesú bróðir besti eftir Pál Jónsson við danskt lag sem átti vel við þar sem Harpa Birgisdóttir móðir barnsins sem var skírt er íslensk en faðirinn er Mikael er danskur. Harpa starfaði í Skógræktinni á unglingsárum sínum og fjölskylda hennar er mjög tengd félaginu, þannig að þetta var vel til fundið. Síðan var boðið upp á veislu fyrir ættingja barnsins í Selinu og margt annað var á dagskránni.
Að athöfninni lokinni fór hluti hópsins í göngu og gekk eftir nýjum stíg sem Árni Þórólfsson skógarvörður, Jökull Gunnarsson starfsmaður félagsins og ungmenni á vegum Landsvirkjunar, sem starfa undir heitinu Margar hendur vinna létt verk, hafa lagt. Stígurinn liggur frá Húshöfða, um Langholti og út í skógarsvæðið í Selhöfða þar sem gróðurstetning hófst árið 1980. Gengin var hringleið og þegar komið var til baka í Selið, höfuðstöðvar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar einum og hálfum tíma seinna, beið göngufólksins kaffi og meðlæti. Pylsur og annað góðgæti var grillað og allir nutu dagsins í frábæru veðri.
Íþrótta og tómstundarráð tók virkan þátt í dagsrkánni og bauð upp á leiki fyrir yngri kynslóðina og fjöldi barna nýtti sér að fara á hestbak hjá Íshestum. Fólk safnaðist líka saman við Hvaleyrarvatn og naut veðurblíðunnar í fallegu umhverfi. Skógar- og útivistardagurinn var vel heppnaður í alla staði.