Sala á jólatrjám hefst hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar fyrsta sunnudag í aðventu, 2. desember næstkomandi. Starfsmenn félagsins og sjálfboðaliðar eru á fullu þessa dagana að velja tré og grienar úr skóginum, fella og flytja heim á hlað við Selið í Höfðaskógi. Mikill tími fer í þetta starf endar tekur drjúgan tíma að ganga um skógarsvæðin og velja tré sem til greina koma, fella þau, koma þeim út úr skóginum og aka með þau í höfuðstöðvar félagsins og stilla öllu upp. Hluti trjánna kemur úr skógræktarreitunum við Hvaleyrarvatn, en þó nokkur hluti þeirra fara á fyrirfram ákveðna staði í bænum. Eins og á síðasta ári fær félagið þó nokkuð af trjám austan af Héraði og jafnvel frá öðrum stöðum, en allt eru þetta íslensk jólatré, mest stafafura, en einnig rauðgreni og blágreni og jafnvel fleiri tegundir.
Árni Þórólfsson, Steinar Björgvinsson og Jökull Gunnarsson bera hita og þunga af grisjunarstarfinu í skógarreitum félagsins en þeim til halds og traust eru tveir félagsmenn sem hafa ætíð verið viðbúnir þegar til þeirra hefur verið leitað. Þetta eru Svanur Pálsson og Þorkell Þorkelsson sem hafa lagt félaginu til ómældar vinnustundir í sjálfboðavinnu í gegnum tíðina. Fleiri félagsmenn taka þátt í starfseminni, hvort sem það snýr að því að velja og sækja tré eða standa vaktina við sölu jólatrjánna í desember. Það fólk sem á sæti í stjórn félagsins hverju sinni skiptist á við að sinna sölunni og öðrum verkum sem tengjast þessu starfi, en fleiri koma að þessu mikilvæga verkefni, sem er hluti af fjáröflun félagsins á hverju ári. Á undanförnum árum hafa t.d. Arnar Helgason, Gunnar Þórólfsson, Halldór Þórólfsson, Ásdís Konráðsdóttir, Anna Kristín Jóhannsdóttir, Gyða Hauksdóttir og margir fleiri sinnt þessu verkefni undir dyggri stjórn Hólmfríðar Finnbogadóttur framkvæmdastjóra félagsins sem hefur séð til þess að allt gangi eins og best verður á kosið.
Margir hlakka til þessa tíma og það er fastur liður hjá mörgum fjölskyldum að koma í Selið í Höfðaskógi í desember til að velja saman jólatré og þiggja síðan heitt súkkulaði og smákökur.
Helstu söludagarnir í desember verða um helgar, en einnig verður hægt að koma við í miðri viku og kaupa tré:
Sunnudagur 2. desember kl. 10:00-18:00
Laugardagur 8. desember kl. 10:00-18:00
Sunnudagur 9. desember kl. 10:00-18:00
Laugardagur 15. desember kl. 10:00-18:00
Sunnudagur 16. desember kl. 10:00-18:00
Laugardagur 22. desember kl. 10:00-18:00