Sala á jólatrjám hefst í Höfðaskógi við Kaldárselsveg á sunnudag 2. desember kl. 10.00 og stendur til kl. 18.00. Það er um að gera að vera snemma á ferðinni og velja fallegt jólatré áður en annir jólaundirbúningsins hefjast fyrir alvöru. Opið verður hjá Skógræktarfélaginu alla daga, en um helgar er boðið upp á heitt súkkulaði, kaffi og smákökur í Selinu eins og undanfarin ár. Það er fyrir löngu orðinn fastur liður hjá mörgum fjölskyldum að mæta í Höfðaskóg og njóta þess sem er í boði. Hægt er að kaupa greinar, borðskreytingar, leiðisskreytingar, hurðakransa, köngla og sitthvað fleira sem er algjörlega nauðsynlegt á aðventunni og yfir jólahátíðina.