Um og eftir aldamótin 1900 er Jóhannes Reykdal setti sig hér niður og stofnaði til timuburverksmiðju reksturs, rafveitu og fleira, byggði hann hús í brekkunni [Brekkugötu]í norskum stíl. Mun það hafa verið 1905 eða þar um bil. Vestan til við húsið gerði hann garð og setti þar niður nokkrar reyniviðarhríslur, sem hann mun hafa fengið bæði frá Noregi og eins norðan frá Akureyri. Munu þær hríslur þá vera ættaðar úr Hvammskriðum í Vatnsdal, því þaðan eru flest reyniviðartrén á Akureyri ættuð. Hús þetta keypti síðar Guðmundur skipstjóri Magnússon og hélt hann garðinum og trjánum vel við og þau hjónin. En 1929 brann hús þetta. Síðar reisti Hlutafélagið Dvergur skrifstofuhús á lóðinni, en vestan við það er garðurinn og standa trén enn.
Samkvæmt frásögn Guðmundar Magnússonar og Odds Ívarssonar
Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar