Fundarstjóri, kæru félagar og vinir!
Ýmsir viðburðir voru á vegum félagsins á síðastliðnu ári. Auk þess voru viðburðir haldnir á svæðinu að frumkvæði annarra aðila en í samstarfi við félagið.
Aðalfundur Trjáræktarklúbbsins var haldinn í Selinu 16. mars en Trjáræktarklúbburinn er áhugahópur fólks um hvers konar trjárækt en klúbburinn hefur m.a. flutt inn alls kyns trjáfræ sem meðlimum hefur staðið til boða. Árni Þórólfsson starfsmaður félagsins hefur verið stjórnarmaður í klúbbnum í nokkurn tíma.
Aðalfundur félagsins var haldinn í Hafnarborg þann 18. mars. Að loknum aðalfundarstörfum flutti dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins erindi um rannsóknir og þróun í skógrækt.
Félagar í Rósaklúbbi Garðyrkjufélagsins hittust í Rósagarðinum í Höfðaskógi 3. júní og gróðursettu fleiri rósayrki og hlúðu að þeim rósum sem fyrir eru. Á annað hundruð rósayrki eru nú í Rósagarðinum.
5. júní stóð félagið fyrir fuglaskoðunar-ferð í Höfðaskógi sem haldin var í tengslum við bæjarhátíðina „Bjarta Daga“. Þriðja árið í röð fannst glókolls-hreiður í nákvæmlega sama grenitrénu og undanfarin ár. Leiðsögumenn voru Einar Þorleifsson líffræðingur og starfsmenn félagsins.
Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar var haldinn 17. júlí í samstarfi við Íshesta, Hestamannfélagið Sörla, Stk. Georgsgildið, og Íþrótta- og Tómstundráð. Séra Guðbjörg Jóhannesdóttir prestur í Hafnarfjarðarkirkju flutti hugvekju í Bænalundi við setningu Skógardagsins. Þessi fjölskyldudagur hefur verið haldin árlega í hart nær 20 ár en á sínum tíma voru skógræktarfélögin hvött til að efna til svona daga en í dag er Skógræktarfélag Hafnarfjarðar að því er best er vitað eina félagið sem enn heldur Skógar- og útivistardaginn hátíðlegan.
Fegrunarnefnd Hafnarfjarðar, sem er nefnd á vegum bæjarins, afhenti verðlaun fyrir fegrun og snyrtimennsku í bækistöðvum félagsins 5. ágúst og mættu um 80 gestir. Hlutu verðlauna-hafar plöntur úr Gróðrarstöðinni Þöll í verðlaun.
Fimmtudagskvöldið 19 ágúst var skógarganga þar sem sérstaklega var hugað að hvers kyns berjum og berjanytjum í Höfðaskógi. Sérstaka athygli vöktu hindberin sem vaxa nú orðið á nokkrum stöðum í skóginum og þrífast vel. Leiðsögumenn voru starfsmenn félagsins.
Laugardaginn 25. september var efnt til gróðursetningar-sjálfboðaliðadags í tilefni þess að 20 ár voru liðin frá því landgræðsluskóga-átakið hófst og byrjað var að gróðursetja í Seldal. Um 15 manns mættu og gróðursettu 1.155 trjáplöntur í pottum í grenjandi rigningu í botni Seldals umhverfis leikjagrundir sem þar voru útbúnar síðastliðið sumar. Það voru blautir og kaldir en ánægðir þátttakendur sem þáðu svo hressingu að gróðursetningu lokinni.
Fimmtudagskvöldið 30. september hittust félagar í Krabbameinsfélagi Hafnarfjarðar við Selið og gengu um Höfðaskóg í myrkrinu. Komið hafði verið fyrir bleikum ljós-kösturum í tveimur trjá-lundum, þar sem áð var, sem lýstu upp trjákrónurnar. Formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, Þóra Hrönn Njálsdóttir, flutti ávarp. Sigurður Pálsson skáld flutti eigin ljóð. Steinar sagði frá rannsóknum á heilsusamlegum áhrifum skóga. Var samdóma álit þátttakenda að vel hefði til tekist með þennan viðburð og vonandi verði hann endurtekinn.
9. október hittust Samfylkingarkonur og gróðursettu í landnema-spildu sína. Að því loknu grilluðu þær í Selinu í góðra vina hóp.
14. október bauð félagið til sín í kaffi starfsendurhæfingarhópi eftir göngu í skóginum undir styrkri fararstjórn Jónatans Garðarssonar formanns félagsins.
Aðalfundur Vinabæjarfélagsins Cuxhaven-Hafnarfjörður var haldinn í Selinu 28. október.
Jólatrjáa- og skreytinga-sala félagsins hófst fyrstu helgina í Aðventu sem er einni helgi fyrr en verið hefur. Boðið var upp á íslensk jólatré, aðallega stafafuru, en einnig rauðgreni, sitkagreni og smá fjallaþin. Einnig var boðið upp á jólagreinar af nokkrum tegundum, köngla, hurðarkransa og ýmsar gerðir skreytinga. Boðið var upp á heitt súkkulaði og smákökur í kaupbæti í Selinu. 1273 skrifuðu í gestabók félagsins á meðan á jólatrjáasölunni stóð. Mörgum þykir það ómissandi hluti jólaundirbúningsins að koma í skóginn og velja sér íslenskt jólatré, setjast svo inn í hlýjuna, spjalla við vini og njóta ilmsins af greni í bland við brennandi furu í eldstæðinu.
Fjöldi sjálfboðaliða kom að jólatrjáasölunni, bæði stjórnarmenn og aðrir félagar, og vil ég nota tækifærið og þakka þeim sérstaklega fyrir vel unnin störf.
Árni og Steinar sóttu fagráðstefnu skógræktar sem haldin var í Stykkishólmi 24. mars.
Steinar flutti erindi hjá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og Landssambandi Skógarbænda þar sem hann kynnti lokaverkefni sitt við Landbúnaðarháskólann þaðan sem hann útskrifaðist síðastliðið vor með BS-gráðu í skógfræði. Steinar flutti erindi um birki í garðrækt á ráðstefnunni „Fríða Björk“ sem haldin var í Landbúnaðarháskólanum 5. nóvember og sagði frá starfsemi félagsins á fundi hjá Stk. Georgsgildinu síðasliðið haust.
17. september fór ég ásamt Árna og Steinari austur í Austur-Landeyjar þar sem við gróðursettum trjáplöntur við Gunnarshólma til minningar um bróður minn Magnús Finnbogason sem lést árið 2009.
18. September sóttu Árni og Steinar ráðstefnu til heiðurs Sandy Robertson, sem er skoskur skógfræðingur búsettur á Nýfundnalandi, um skjóláhrif skóga. Sandy hefur margsinnis komið til landsins og haldið hér fyrirlestra um skógrækt og er skógræktendum að góðu kunnur.
Árni og Steinar fóru í ferð Skógræktarfélags Íslands til Færeyja ásamt fleira skógræktarfólki dagana 30. ágúst – 6. september. Skoðaðir voru m.a. skógar og trjárækt í Færeyjum. Þótti ferðin í alla staði heppnast einstaklega vel og fengu íslenskir skógræktendur frábærar móttökur. Steinar flutti síðar erindi á fræðslufundi Skógræktarfélags Íslands 7. október um trjárækt í Færeyjum og hvaða tegundir eru notaðar þar í skóg- og trjárækt. Þó að margar tegundir sem þar eru ræktaðar séu einnig í ræktun hér eru einnig ýmsar sem lítt eru þekktar hérlendis. Á það sérstaklega við allar þær tegundir sem sóttar hafa verið á suðurhvel jarðar en margar þeirra þrífast sérlega vel í mildu loftslagi Færeyja.
Að vanda heimsóttu margir gestir félagið á árinu. Leikskólinn Norðurberg hélt uppteknum hætti og heimsóttu leikskólabörnin skóginn nokkrum sinnum yfir vetrarmánuðina og fram á vor. Venjan er sú að börnin snæða svo hádegisverð í Selinu að lokinni útivist.
10. febrúar heimsóttu nemendur garðyrkju-framleiðslu-brautar félagið og Þöll ásamt kennara sínum til að fræðast um starfsemi félagsins.
Um mánaðarmótin febrúar/mars kom fjöldi fagfólks í blómaskreytinga-faginu í Selið og laggði mat á mismunandi tegundir af afskornum greinum í tengslum við lokaverkefni Steinars við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Gönguhópur íbúa Herjólfsgötu 36, 38 og 40 komu í heimsókn 18. maí og fengu leiðsögn um skóginn.
Séra Bára Friðriksdóttir Ástjarnarsókn kom með fermingarbörn 26. maí og gróðursettu þau í sína landnemaspildu við Kaldárselsveg.
Nemendur úr Áslandsskóla, Hraunvallaskóla, Lækjarskóla, Lækjarskóla – sérgreinadeild, Öldutúnskóla komu á árinu og unnu í landnemaspildum sínum við gróðursetningu og fleira.
Börn úr Leikskólunum Hvammi og Smáralundi komu í heimsókn og gengu í gegnum gróðrarstöðin og síðan út í skóg þar gróðursett var tré eins og venjan er þegar leikskólar heimækja félagið.
Félagar í Bandalagi Kvenna, Kiwanisklúbbnum Eldborg, Lionsklúbbi Hafnarfjarðar og Íslensk/Japanska félaginu komu á árinu til að hlúa að gróðri og gróðursetja í sínar landnemaspildur.
Starfsmenn frá eftirtöldum fyrirtækjum komu og gróðursettu í sínar landnemaspildur á árinu: Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas, Actavis, Gámaþjónustan, VSB-Verkfræðistofa, Batteríið-Arkitektar og Aðalskoðun.
Tvær þýskar stúlkur frá Cuxhaven, þær Stephani og Bettina, komu í heimsókn ásamt stjórnarliðum í Cuxhaven-vinarbæjarfélaginu í sumar. Þær störfuðu hjá félaginu fyrir 10 árum síðan. Var þeim boðið upp á hressingu en gaman var að hitta þær aftur en þær voru með eindæmum duglegir starfsmenn og samviskusamar þegar þær störfuðu hjá félaginu.
Stjórn Vesturlandsskóga og stjórn Skógræktarfélags Árnesinga komu í heimsókn síðastliðið haust til að kynna sér starfsemi félagsins.
25. nóvember komu 12 gestir í heimsókn í skóginn frá Cuxhaven vegna afhendingar á vinabæjartrénu. Daginn eftir komu heiðurs-hjónin Brúnhild og Donner, formaður vinabæjarfélagsins í Cuxhaven, í kaffi í Selið ásamt dætrum sínum. Þau höfðu misst af flugvélinni til landsins deginum áður.
Börn frá flestum leikskólum í bænum heimsóttu skóginn ásamt leiðbeinendum sínum og jólasveininum Stúf fyrir jólin og sóttu sér fallegt jólatré í skóginn. Á eftir fengu börnin hressingu í Selinu og Stúfur stjórnaði fjöldasöng.
Nemendur úr Walddorfskólanum Sólstöfum heimsóttu einnig félagið á árinu og fengu leiðsögn og fræðslu um skóginn og náttúruna.
Fjölmargir aðrir gestir heimsóttu félagið og gróðrarstöðina á árinu til að spjalla, fá ráðleggingar, í viðskipterindum o.s.frv. Er oft glatt á hjalla í Selinu og mikið rætt um allt milli himins og jarðar.
Ekki er hægt að segja annað en að tíðarfarið síðastliðið ár hafi verið einstaklega gott. Ekki gerði nein hret eftir að gróður fór að taka við sér og sumarið var hlýtt og ekki eins þurrt og sumurin þar á undan. Greinilegt er að þessi hlýju sumur undanfarin ár hafa skilað sér í meiri trjávexti en áður tíðkaðist. Þurrkar hafa þó stundum sett strik í reikninginn varðandi ný-gróðursettar plöntur. Ný meindýr og sjúkdómar hafa skotið upp kollinum eða orðið meira áberandi en áður var. Trúlega tengist það breyttu veðurfari að einhverju leyti. Ertuygla, mófeti, kögurvængja og asparglytta eru meindýr á gróðri sem hafa verið að sækja í sig veðrið að undanförnu í skógum félagsins eins og víðar á landinu. Ryðsveppir hafa einnig látið á sér kræla en þó ekki í því magni sem óttast var og ekki valdið því tjóni sem margir garðeigendur hafa lent í.
Félagið var svo heppið eins og undanfarin ár að fá að njóta starfskrafta ungmenna síðastliðið sumar undir kjörorðunum „Margar hendur vinna létt verk“ sem kostuð voru af Landsvirkjun. Þegar mest var störfuðu 23 ungmenni hjá félaginu í gegnum Landsvirkjun.
Um 20 unglingar á aldrinum 14-16 ára störfuðu hjá félaginu í sumar í gegnum Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Auk þess naut félagið starfskrafta 9 ungmenna á vegum bæjarins í viðbót sem voru 17-22 árs. Mörg þeirra hafa unnið hjá félaginu í all mörg ár.
Það var því oft þröng á þingi í Selinu á matmálstímum þegar mest var. Allt gekk þetta þó vel með góðu skipulagi og samtakamætti allra starfsmanna.
Félagið vill þakka öllu þessum ungmennum, bæði frá Landsvirkjun, Vinnuskólanum og bænum sérstaklega fyrir vel unnin störf og gott samstarf á liðnu ári.
Eins og sumarið 2009 starfaði 15-20 manna Atvinnuátaks-hópur í upplandinu á vegum Skógræktarfélags Íslands og Hafnarfjarðarbæjar. Unnið var við merkingu gönguleiða, hreinsun, gróðursetningu og fleira. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar kom að skipulagi og aðstoð á gróðursetningu í skjólbelti milli Áslands 2 og 3 og í manir við Kaldárselsveg og Ásland 3.
Félagið vill færa Landsvirkjun, Hafnarfjarðarbæ og Skógræktarfélagi Íslands sérstakar þakkir fyrir þeirra framlag við skógrækt og við að bæta útivistaraðstöðuna í upplandinu síðastliðið sumar. Sigurjón Ingvarsson fær sérstakar þakkir fyrir alla hjálpsemina.
Í ár er alþjóðlegt ár skóga. Af því tilefni verða svæði félagsins kynnt sérstaklega með skógargöngum í sumar og haust. Drög að dagskrá liggja nú þegar fyrir og eru þau sem hér segir:
Félag eldri borgara verður með handverksýningu í Selinu í maí (Sigurjón Ingvarsson).
Fuglaskoðun verður 4. júní í tengslum við bæjarhátíðina „Bjarta daga“ sem standa yfir dagana 31. maí – 4. júní.
23. júní, Jónsmessunótt, verður kvöldganga um Höfðaskóg.
14. júlí verður gengið inn í Skólalund í Undirhlíðum sem er ein mesta perlan í upplandinu.
Skógar og útivistardagur fjölskyldunnar er áætlaður 13. ágúst en venjan hefur verið sú að halda daginn í júlí en vegna þess hversu margir eru þá ekki í bænum var ákveðið að seinka þessari fjölskylduhátíð fram í ágúst að þessu sinni.
Laugardagsmorguninn 20. ágúst verður gengið um skóginn í Stóra-Skógarhvammi í Undirhlíðum.
Laugardagsmorguninn 17. September verður svo gengið um skóginn í Gráhelluhrauni.
Jólatrjáasalan hefst ef Guð lofar fyrstu helgina í Aðventu.
Reikna má með viðburðum í skóginum í samstarfi við Garðyrkjufélag Íslands, Rósaklúbbinn og ef til vill fleiri aðila.
Viðburðir á vegum Skógrækarfélags Hafnarfjarðar eru venjulega auglýstir í Fjarðarpóstinum, á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands og heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands en vonandi lýtur heimasíða Skógræktarfélags Hafnarfjarðar brátt dagsins ljós!
Ágætu fundarmenn!
Ég vil í lokin þakka það traust sem mér hefur verið sýnt undanfarin ár. Ég vil færa samstarfsfólki mínu hjartans þakkir. Öllum sjálfboðaliðum, stjórn, bókara, bæjarstjórn, bæjarstarfsmönnum og öðrum samstarfsaðilum vil ég þakka gott og farsælt samstarf. Svo og öllum þeim sem auðvelda okkur starfið á einn eða annan hátt. Guð blessi ykkur.