Fundarstjóri, kæru félagar og vinir!
Sem endranær var starfsemi félagsins fjölbreytt á síðastliðnu ári. Aðalfundur félagsins var haldinn í Hafnarborg þann 17. mars 2009. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum flutti Þröstur Eysteinsson sviðsstjóri þjóðskóganna erindi sem hann nefndi „Kröfur til tegunda og ræktenda í skógrækt og trjárækt“.
Laugardagana 6. og 27. júní kynnti Fuglavernd starfsemi sína í bækistöðvum Skógræktarfélagsins og farið var í fuglaskoðunarferðir um Höfðaskóg með leiðsögn fuglafræðinga báða dagana.
Hinn árlegi Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar var haldinn hátíðlegur laugardaginn 18. júlí í samstarfi við Íshesta, Hestamannafélagið Sörla, St. Georgsgildið og Íþrótta- og Tómstundaráð og þótti dagurinn takast sérlega vel. Berja- og sveppaganga var svo farin á vegum félagsins fimmtudagskvöldið 20. ágúst og var hún mjög vel sótt en um 50 manns tóku þátt.
26. ágúst var gengið um Trjásafnið og Rósagarðinn í Höfðaskógi í samstarfi við Garðyrkjufélag Íslands. Laugardaginn 5. september var svo aftur ganga um Trjásýnilund félagsins í Höfðaskógi þar sem gefur að lýta safn um 250 mismunandi tegunda trjáa og runna en safnið var formlega opnað á 50 ára afmæli félagsins árið 1996.
Rósaklúbburinn hittist í Rósagarðinum í Höfðaskógi tvisvar á árinu í júní og júlí. Gróðursett voru fleiri rósayrki og hlúð að þeim rósum sem fyrir eru í garðinum. Nú eru á annað hundrað yrki af rósum í rósagarðinum en garðurinn fagnar fimm ára afmæli í ár.
Laugardaginn 26. september efndi félagið til gróðursetningar-ferðar í Seldal. Þrátt fyrir að gengi á með éljum var ágætis mæting og voru gróðursettar tæplega 2.200 trjáplöntur, aðallega reyniviður og alaskaösp.
Í desember stóð svo félagið fyrir jólatrjáa-sölu í Selinu. Boðið var upp á íslenska stafafuru og rauðgreni. Einnig voru á boðstólum ýmiskonar greinar, könglar, skreyttar leiðisgreinar, hurðakransar, jólavendir o.fl. allt saman gert úr efniviði úr skóginum. Mörgum þykir það orðið ómissandi hluti jólaundirbúningsins að kíkja í Skógræktina fyrir jól og þiggja heitt súkkulaði og smákökur. Fjöldi leikskólabarna kom í heimsókn fyrir jólin til að velja sér jólatré ásamt hurðaskelli sem ók börnunum upp eftir fyrir tilstuðlan Hópbíla hf. Fjöldi sjálfboðaliða úr hópi stjórnarliða og félaga kom að jólatrjáasölunni og fyrir hönd félagsins kann ég þeim mínar bestu þakkir fyrir!
Tíðarfarið á síðast-liðnu ári var á heildina litið afbragsgott. Sumarið var hlýtt en frekar þurrt sem hafði þær afleiðingar í för með sér að minna var gróðursett en ráðgert var um sumarið. Er þetta sama sagan og sumurin 2 þar á undan. Trjávöxtur var almennt góður sérstaklega á stálpuðum trjám. Þrátt fyrir hlýindin gerði næturfrost í júlí sem virtist hafa lítil áhrif á trjágróður þó að séð hafi á allra viðkvæmustu tegundunum í Trjásafninu og Gróðrarstöðinni. Kal á trjágróðri virðist lítið sem ekkert núna og eru sumar tegundir í þann mund að byrja að blómstra eins og víðir og elri enda veturinn verið mildur.
Nemendur úr Öldutúnsskóla, Hraunvallaskóla, Áslandsskóla, Víðistaðaskóla, Lækjarskóla og Setbergsskóla komu í heimsókn í Skógræktina á árinu. Sumir af skólunum gróðursettu og hlúðu að gróðri í sínum landnemaspildum en aðrir létu nægja að ganga um skóginn og þyggja fræðslu frá starfsmönnum félagsins. Því miður hefur þó nokkuð mikið dregið úr þessu starfi í efnahagslægðinni. Vonandi mun það í framtíðinni ná fyrri þrótti!
Heilsuleikskólinn Hamravellir kom í heimsókn í skóginn með útskriftar-nemendur sína í maí. Í júní komu börn úr Leikskólunum Hvammi, Smáralundi og Arnarbergi í heimsókn. Leikskólinn Norðuberg hélt uppteknum hætti og heimsótti skóginn reglulega allan veturinn. Gaman er að geta þess að fermingarbörn úr Ástjarnarkirkju-sókn komu með fjölskyldum sínum síðastliðið vor og gróðursettu ásamt presti sínum séra Báru Friðriksdóttur í sérstaka landnemaspildu við Kaldárselsveg. Nemendur úr Setbergsskóla komu í óvissuferð í skóginn einn desember-morgun með vasaljós og epli handa fuglunum.
Ýmsir aðrir hópar heimsóttu félagið á árinu eins og Lionsklúbburinn Ásbjörn, Frímúrara-stúkan Hamar, Fulltrúar Fjárlaganefndar Alþingis, nemendur frá Landbúnaðarháskóla Íslands, finnskir ferðalangar og stór hópur, um 90 manns, kom í september til að kynna sér starfsemi og skoða svæði félagsins í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu sem nefndist „Skógar efla lýðheilsu í þéttbýli“. Fróðlegt var að heyra álit og ábendingar sérfræðinga í hópnum á sviði skipulags og útivistarsvæða eftir að þeir höfðu farið um svæði félagsins en ráðstefnugestir þáðu í lokin veitingar í Selinu áður en lagt var af stað í bæinn.
Aðalfundur Vinabæjarfélagsins Cuxhaven-Hafnarfjörður var haldinn í Selinu í maí. 13 . júní var svo minningarsteinn um Rolf Peters afhjúpaður í Cuxhaven-lundi ásamt því að gróðursettar voru nokkrar trjáplöntur. Rolf Peters sem lést 13. janúar árið 2006 var formaður Vinabæjarfélagsins í Cuxhaven og kom oft til okkar í Hafnarfjörð.
7. ágúst og 29. nóvember heimsóttu svo nokkrir vinir frá Cuxhaven félagið ásamt nokkrum íslenskum félögum í Vinabæjarfélaginu. Í seinna skiptið var það í tengslum við tendrun vinabæjar-trésins við Flensborgarhöfn.
Í janúar 2009 þáði ég boð um að fara til Cuxhaven í boði Vinabæjarfélagsins í tilefni þess að 20 ár voru liðin frá stofnun þess. Eins og Cuxhaven-búa er von og vísa voru móttökurnar engu líkar og var þetta vel skipulögð og skemmtileg ferð í alla staði í góðra vina hópi.
Starfsmenn Gámaþjónustunnar, Hlaðbæjar Colas og Actavis komu síðastliðið sumar og haust og gróðursettu í landnemaspildur sínar í Klifsholti og Fremstahöfða. Meðlimir í Lionsklúbbi Hafnarfjarðar, Rótarý-klúbbi Hafnarfjarðar og Kiwanis-klúbbinum Eldborg gróðursettu í sínar spildur og hlúðu að fyrri gróðursetningum.
23. júlí komu 36 skátar af 4 þjóðernum ásamt 2 íslenskum foringjum og lögðu stíg í skóginum og var þeim boðið til grillveislu í þakklætisskyni.
11. ágúst fór verðlauna-afhending Fegrunarnefndar Hafnarfjarðar, sem er nefnd á vegum bæjarins, fram í Selinu og mættu um 85 gestir. Fegrunarnefndin veitir verðlaun fyrir fallega garða og götur í bænum. Hlutu verðlauna-hafar plöntur í verðlaun úr Gróðrarstöðinni Þöll.
Félaginu bauðst að taka þátt í garðyrkju- og blómasýningunni „Blóm í bæ“ í Hveragerði í júní. Sökum mikilla anna reyndist starfsmönnum félagsins ekki unnt að fara austur. Þess í stað var útbúið sérstaklega merkt ker með ýmsum sérstæðum og fágætum skrautrunnum úr gróðrarstöðinni sem komið var austur og fékk það að standa í sýningarbás Garðyrkjufélags Íslands á meðan á sýningunni stóð.
Eins og undanfarin ár sótti félagið um að fá að njóta starfskrafta vinnuflokks kostuðum af Landsvirkjun undir kjörorðunum „Margar hendur vinna létt verk“. Fór svo að hjá félaginu störfuðu 23 ungmenni á vegum Landsvirkjunar í sumar. Fólk þetta var á menntaskóla-aldri þ.e.a.s. frá 16 – 20 ára gamalt.
Vinnuskóli Hafnarfjarðar lagði félaginu til 18 ungmenni á aldrinum 14 – 16 ára. Auk þess naut félagið starfskrafta 9 ungmenna á vegum bæjarsins í viðbót sem voru 17 – 21 árs. Allt reyndist þetta unga fólk afbragðs starfskraftar og kann félagið því bestu þakkir.
Atvinnuátaks-hópur starfaði hjá félaginu í sumar fyrir tilstuðlan Skógræktarfélags Íslands. Átak þetta var sérstaklega hugsað handa atvinnulausum vegna ástandsins í samfélaginu. Starfaði hópurinn undir handleiðslu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Um 10 manns á öllum aldri tóku þátt í átakinu sem stóð í 3 mánuði. Einkum var unnið að merkingu gönguleiða í upplandinu en einnig hreinsun, gróðursetningu o.fl. Davíð Arnar Stefánsson veitti hópnum forstöðu.
Félagið vill færa Landsvirkjun, Vinnuskólanum og Skógræktarfélagi Íslands sérstakar þakkir fyrir þeirra framlag síðastliðið sumar.
Við rekstur á heilu útivistarsvæði auk gróðrarstöðvar er í mörg horn að líta og mörgu sem þarf að sinna. Ýmsir aðrir samstarfsaðilar koma að því starfi auk þeirra sem hér voru nefndir á undan. Langar mig í því sambandi að nefna sérstaklega Magna Verktaka sem hafa verið sérstaklega vinveittir félaginu og gert því marga og stóra greiða á síðustu árum.
Steinar Björgvinsson sótti aðalfund „Samtaka náttúru- og útiskóla“ í mars en samtökin voru stofnuð árið 2007. Þess má geta að skógræktarfélagið vígði vorið 2008 útikennslustofu í Höfðaskógi en félagið hefur um árabil annast fræðslu skólabarna, bæði á leik- og grunnskóla-stigi.
Fastir starfsmenn félagsins sóttu svo Fagráðstefnu Skógræktar sem haldinn var í Reykjavík í apríl.
28. – 30. ágúst sóttu 8 fulltrúar og fylgdarlið Skógræktarfélags Hafnarfjarðar aðalfund Skógræktarfélags Íslands á Höfn í Hornafirði.
17. – 19. september sóttu starfsmennirnir Árni og Steinar og formaður félagsins Jónatan Garðarsson ráðstefnuna „Skógar og Lýðheilsa“ sem haldin var í Reykjavík.
7. nóvember sóttu starfsmenn og nokkrir félagar Skógræktarfélagsins Freysteinsvöku sem haldin var í bækistöðvum Skógrækarfélags Reykjavíkur við Elliðavatn.
Formannsskipti urðu á árinu en Níels Árni Lund lét af formennsku eftir að hafa gegnt því embætti í 9 ár. Við formennskunni tók Jónatan Garðarsson sem gengt hafði embætti varaformanns. Vil ég fagna komu Jónatans í embættið. Fyrir hönd félagsins vil ég þakka Níels Árna fyrir farsæla formennsku félagsins og jafnframt lýsa yfir gleði minni með að félagið mun áfram njóta starfskrafta hans þar sem hann hefur lýst því yfir að hann muni áfram sitja í stjórn félagsins.
Steinar Björgvinsson sem er við það að ljúka BS-gráðu í skógfræði frá Landbúnaðarháskólanum var fastráðinn hjá félaginu þann 1. ágúst síðastliðinn. Verður að telja það lyftistöng fyrir félagið og starfsemi þess.
Drög að dagskrá félagsins nú í ár liggur nú þegar fyrir:
Fuglaskoðun verður 5. júní, í tengslum við bæjarhátíðina „Bjarta daga“ sem standa dagana 3. – 6. júní. Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar er áætlaður 17. júlí og berja- og sveppaganga 19. ágúst.
Skógarganga um Seldal, landgræðsluskóga-svæði félagsins, er svo fyrirhuguð 18. september en 20 ár eru liðin frá því að hafist var handa við uppgræðslu í Seldal og verður þess minnst sérstaklega á árinu.
Eins og venjulega fer jólatrjáasala félagins fram í desember. Einnig má reikna með viðburðum í samstarfi við Garðyrkjufélagið og Rósaklúbbinn sem auglýstir verða þegar þar að kemur. Viðburðir á vegum félagsins eru venjulega auglýstir í Fjarðarpóstinum, á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands og heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands en vonandi lýtur heimasíða Skógræktarfélags Hafnarfjarðar brátt dagsins ljós!
Ágætu fundarmenn
Ég vil að endingu þakka það traust sem mér hefur verið sýnt undanfarin ár. Ég vil færa samstarfsfólki mínu hjartans þakkir. Öllum sjálfboðaliðum, stjórn, bókara, bæjarstjórn, bæjarstarfsmönnum og öðrum samstarfaðilum vil ég þakka gott og farsælt samstarf. Guð blessi ykkur.