Fundarstjóri, kæru félagar og vinir.
Óhætt er að segja að starfsemi félagsins hafi verið með fjölbreyttara móti á síðastliðnu ári. Aðalfundur félagsis var haldinn 26. mars í Hafnarborg. Á fundinum flutti Þorbergur Hjalti Jónsson Skógarvörður á Suðurlandi erindi sem hann nefndi “Yndisarður Skógræktar”.
3. maí varð langþráður draumur félagsins að veruleika þegar formlega var opnuð útikennslustofa í Höfðaskógi fyrir gjafafé hjónanna Ásthildar Ólafsdóttur og Harðar Zóphaníassonar. Séra Bára Friðriksdóttir vígði staðinn á sinn fallega og eftirminnilega hátt.
Skógargöngur á vegum félagsins voru fjórar yfir sumarið. Leiðsögumaður í göngunum var Jónatan Garðarsson varaformaður félagsins. Markmiðið með þessum göngum var að kynna skóga félagsins í tilefni af 100 ára afmæli bæjarins. Fyrsta gangan var 31. maí um hinn dásamlega skóg í Gráhelluhrauni þar sem félagið hóf ræktunarstarf sitt árið 1947. Næsta ganga var farinn 19. Júní frá Kaldárseli inn í Skólalund í Undirhlíðum. Skólalundur er sérstaklega fallegur, fjölbreyttur og gróskulegur trjálundur þar sem grunnskólanemendur úr Barnaskóla Hafnarfjarðar hófu ræktunarstarf upp úr 1930 undir handleiðslu Ingvars Gunnarssonar barnaskólakennara og fyrsta. formans félagsins.
Þriðja skógargangan var 3. Júlí en þá var gengið frá Vatnsskarði inn í Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum. Stóri-Skógarhvammur verður að teljast eitt allra fegursta skógræktarsvæði félagsins. Þar skiptast á miklar andstæður milli skógarins og úfins hraunsins, kletta og gilja.
Þann 9. ágúst var svo fjórða og síðasta skógarganga sumarsins. Gengið var um Höfðaskóg og Gráhelluhraun. Í Gráhelluhrauni var afhjúpaður minnisvarði um fjóra brautryðjendur í skógræktarstarfi félagsins, þá Þorvald Árnason, Jón Gest Vigfússon, Jón Magnússon í Skuld og Séra Garðar Þorsteinsson. Séra Gunnþór Ingason blessaði staðinn og Guðrún Jónsdóttir dóttir Jóns í Skuld afhjúpaði minnisvarðann. Jónatan Garðarsson flutti ávarp á staðnum um ræktunarstörf brautryðjendanna
Í samstarfi við Fuglaverndarfélag Íslands og Gróðrarstöðina Þöll var efnt til þemadaga um gróður og fugla helgina 7. – 8. Júní. Kynnti Fuglaverndarfélagið starfsemi sína í Selinu og Gróðrarstöðin stóð fyrir sérstakri kynningu á trjám og runnum sem laða til sín smáfugla. Farnar voru fuglaskoðunarferðir um skóginn undir leiðsögn Einars Þorleifssonar fuglafræðings. Þess má geta til gamans að eitt af örfáum glókollshreiðrum sem fundist hafa hérlendis fannst í annarri fuglaskoðunarferðinni.
19. júní og 16. júlí hittist Rósaklúbburinn og gróðursetti fleiri rósir og sinnti Rósagarðinum í Höfðaskógi. Rósagarðurinn sem fagnar 5 ára afmæli í ár er samstarfsverkefni Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands og Skógræktarfélagsins. Yfir 100 yrki af harðgerðum rósum hafa verið gróðursett í Rósagarðinn í skóginum.
Þann 19. Júlí var hinn árlegi Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar haldinn í tuttugasta sinn. Skógardagurinn var haldinn í samstarfi við Íshesta, hestamannafélagið Sörla, Slökkvilið Hafnarfjarðar , St. Georgsgildið og Íþrótta og Tómstundaráð Hafnarfjarðar. Fjöldi fólks kom og naut dagsins í skóginum og við Hvaleyrarvatn þar sem m.a. var grillað og Þórður Marteinsson lék á nikkuna að vanda.
Að þessu sinni var Skógardagurinn sérstaklega helgaður minningu félaga okkar vinar Björns Árnasonar verkfræðings sem lést árið 2007. Björn var stjórnarmaður og heiðursfélagi í Skógræktarfélaginu. Hófst dagurinn á helgistund með séra Gunnþóri Ingasyni í Bænalundi. Að því loknu var gengið inn í Seldal þar sem Kristín og Sigríður dætur Björns afhjúpuðu minningarstein um föður sinn. Séra Gunnþór Ingason blessaði staðinn og Steinar Björgvinsson minntist Björns í nokkrum orðum. Björn Árnason sat um árabil í stjórn Landgræðsluskóga.
Seldalur er landgræðsluskóga-svæði félagsins þar sem ræktun hófst árið 1990. Þar er nú vaxinn upp fallegur og fjölbreyttur skógur þar sem áður voru gróðurvana melar og rofabörð.
Í desember stóð svo félagið fyrir jólatrjáasölu í Selinu. Boðið var upp á stafafuru- og rauðgrenijólatré úr skógum félagsins. Einnig voru á boðstólum margar tegundir íslenskra köngla, jólakransar ásamt furu- og leiðisgreinum. Öllum gestum var boðið upp á heitt súkkulaði og kökur. Þykir mörgum, ekki hvað síst ungu kynslóðinni, heimsókn í skóginn vera orðinn ómissandi hluti af jólaundirbúningnum. Félagið vill sérstaklega þakka Svani Pálssyni fyrir hans óeigingjarna starf við undirbúning jólatrjáasölunnar í fyrra en hann var hægri hönd Árna Þórólfssonar við fellingu og flutning trjáa. Fjöldi sjálboðaliða kom síðan að sölunni sjálfri og kann félagið þeim öllum bestu þakkir fyrir.
Grunnskólar bæjarins komu með nemendur og gróðursettu í spildur sínar og hlúðu að gróðri á vormánuðum. Einnig komu nokkrir leikskólar í heimsókn og gróðursettu tré. Félagið skipuleggur þessar heimsóknir í samstarfi við skólayfirvöld. Skólaskógræktin er stór þáttur í starfi félagsins enda mikilvægt að kynna fyrir ungu kynslóðinni náttúruvernd og ræktunarstörf. Leikskólinn Norðurberg hefur skipulagt reglulegar heimsóknir í skóginn árið um kring í samstarfi við félagið.
Ýmsir hópar heimsóttu félagið á liðnu ári. Gestir frá vinbæ Hafnarfjarðar Cuxhaven í Þýskalandi í heimsókn félagið í tvígang. Aðrir gestir voru t.d. íbúar í Höfn Sólvangsvegi 1-3, gestir frá Narsjak á Grænlandi, Félag Eldri Borgara, Umhverfissvið Línuhönnunar, Hópur kennara úr Hvaleyrarskóla, starfsfólk Engidalsskóla, Samfylkingarkonar og Lionsklúbburinn Viðar.
6. september funduðu fulltrúar Norrænna Rósafélaga í Selinu og skoðuðu Rósagarðinn í Höfðaskógi. Þann 19. September gróðursettu gestir á bæjarstjóraþingi 100 trjáplöntur í sérstakan lund í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn. Plönturnar voru gjöf Sambands Sveitarfélaga á Höfuborgarsvæðinu til Hafnarfjarðarbæjar í tilefni 100 ára afmælis bæjarins á síðastliðnu ári. 24. September var aðalfundur Vinabæjarfélags Hafnarfjarðar og Cuxhaven haldinn í Selinu og 25. September komu starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í heimsókn eftir gróðursetningu í landnemaspildu sína í Klifsholti.
Í tilefni 100 ára afmælis Hafnarfjarðar-kaupstaðar gaf Skógræktarfélagið bænum nokkur stálpuð tré af sjaldgæfum tegundum sem gróðursett voru í Hellisgerði.
Samstarfssamningur milli Umhverfisvaktar Hafnarfjarðarbæjar og Skógræktarfélagsins vegna hreinsunar á upplandi bæjarins, var undirritaður í febrúar í fyrra. Samningurinn felur í sér að félagið annist alla hreinsun á sorpi í upplandi bæjarins og fylgist með að umgengnis-reglum sé fylgt. Staðreyndin er sú að Skógræktarfélagið hefur um áratuga-skeið séð um hreinsun útivistarsvæðanna ofan bæjarins. Með aukinni umferð fólks um skóga félagsins hefur sorphirða meðfram vegum og losun úr ruslaílátum vaxið jafnt og þétt. Er því samningur þessi við Umhverfisvaktina kærkominn til að tryggja þennan mjög svo nauðsynlega þátt í starfsemi félagins. Öllum má vera ljóst að almenningur kærir sig ekki um að heimsækja útivistarsvæði sem er allt í drasli og sóðalegt. Því er það grundvallaratriði að halda útivistarsvæðinu hreinu.
Skógræktarfélagið varð fyrir miklu áfalli í maí. Ítrekað var kveikt í skógræktarsvæðum félagins við Hvaleyrarvatn og Langholt. 12 hektarar samtals af skógi og öðru grónu landi brunnu til kaldra kola. Nokkrir ungir ógæfumenn voru handsamaðir í tengslum við málið. 3 þeirra játuðu. Engar bætur fengust en gerendur voru dæmdir til skilorðsbundinnar refsingar. Vakti mál þetta mikla athygli enda með mestu skógareldum Íslands í seinni tíð. Þykir mál þetta hafa mikið fordæmisgildi. Tjónið hleypur á tugum milljóna króna. Tjónið er þó ekki síður tilfinningalegt. Hefur mál þetta vakið miklar umræður varðandi varnir gegn skógar- og gróðureldum hérlendis. Strax síðastliðið sumar hófst félagið handa við að endur-gróðursetja í sárin. Verður það aldrei nógu oft brýnt fyrir fólki hversu hættulegt það er að leika sér með eld sérstaklega á vorinn þegar gróður er þurr og mikið magn sinu á jörðu. Félagið vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til Lögreglunnar, Slökkviliðsins og Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.
Talsvert var gróðursett í viðbót af trjátegundum í Trjásýnilund félagsis í Höfðaskógi. Einnig var unnið að viðhaldi á stígum, merkingum á trjám, áburðargjöf og snyrtingu í Trjásýnilundinum. Landgræðslusjóður styrkti framkvæmdir í Trjásýnilundinum. Trjásýnilundurinn er 13 ára í ár en hann var vígður formlega á 50 ára afmæli félagsins 1996. Nú eru um 300 mismunandi tegundir, yrki og kvæmi trjágróðurs í Trjásýnilundinum. Er þetta eitt allra mesta safn trjá- og runna á landinu þó ungt sé.
Landsvirkjun lagði félaginu til 18 starfsmenn yfir sumarið undir yfirskriftinni „Margar hendur vinna létt verk“. Félagið hefur verið svo heppið að fá svona starfsmannahópa undanfarin ár og kann það Landsvirjkun bestu þakkir fyrir. Ennfremur unnu hjá félaginu 24 ungmenni á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Félagið vill ennfremur þakka þessu góða starfsfólki fyrir vel unnin störf.
Starfsmenn félagsins sóttu ýmis endumenntunarnámskeið á árinu. Má þar nefna: Fræðaþing Landbúnaðarins í Reykjavík, fagráðstefnu Skógræktar á Hvolsvelli og Ráðstefnu um eldvarnir í skógi sem haldin var í Þrastaskógi í Grímsnesi. 8 fulltrúar félagsins sóttu síðan Aðalfund Skógræktarfélags Íslands á Ísafirði í ágúst.
Lögð hafa verið drög að dagskrá sumarsins hjá félaginu:
Laugardagana 6. og 27. júní mun Fuglaverndarfélagið kynna starfsemi sýna í Selinu. Farnar verða fuglaskoðunuarferðir um skóginn kl. 10.00 báða dagana með Einari Þorleifssyni fuglafræðing. Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar verður haldinn 18. júlí í sumar. Berja- og sveppaganga verður fimmtudagskvöldið 20. ágúst og laugardaginn 5. september verður gengið um Trjásýnilundinn. Kynningar og tilboð verða einnig í gróðrarstöðinni í sumar í tengslum við Bjarta Daga sem haldnir verða dagana 28. maí – 7. júní.
Ágætu fundarmenn
Ég vil að lokum þakka það traust sem mér hefur verið sýnt. Ég vil færa samstarfsfólki mínu hjartans þakkir. Öllum sjálfboðaliðum, stjórn, bókara, bæjarstjórn, bæjarstarfsmönnum og öðrum samstarfsaðilum vil ég þakka gott og farsælt samstarf. Guð blessi ykkur.