Ræða framkvæmdastjóra SH árið 2013
Fundarstjóri, kæru félagar.
Í dag er alþjóðlegur dagur skóga. Til hamingju með það. Það fer einstaklega vel á því að halda aðalfund félagsins í dag.
Veturinn var ekki eins mildur og margir undanfarnir vetur og talsverður snjór var í byrjun árs. Eftir nokkuð hlýjan apríl fór að kólna í maí með talsverðu frosti sem stóð fram í miðjan maí. Sumarið var engu að síður hlýtt og frekar þurrt. Fyrsta haustfrostið kom strax í ágústlok. Vaxtartíminn var því ekki sérlega langur. Þrátt fyrir þetta bar lítið á kali og vöxtur var almennt góður þó að þurrkar hafi hamlað vexti og jafnvel lifun nýgróðursetninga. Fræþroski var sæmilegur til all góður á ýmsum trjátegundum.
Í Reykjavík er árið það 17. í óslitinni röð ára þar sem árshitinn er yfir meðallagi. Þetta sjáum við ekki hvað síst á auknum vexti ýmissa trjátegunda. Einnig gengur ræktun trjátegunda sem þóttu alveg á mörkum þess að geta þrifist hér áður jafnvel prýðilega í dag. Aftur á móti hefur ræktun sumra tegunda nánast verið hætt í okkar landshluta sökum sjúkdóma sem að minnsta kosti að einhverju leyti má rekja til breytts veðurfars. Sérstaklega á þetta við um síberíulerki.
Meindýr eða sjúkdómar voru ekki til mikilla vandræða í skógum félagsins á árinu. Þó var asparglytta áberandi sums staðar sérstaklega í viðju. Ertuyglu hefur einnig fjölgað undanfarin ár en óvíst er um tjón af hennar völdum þar sem hún herjar aðeins á gróðurinn síðsumars. Ertuyglan er sums staðar áberandi sníkjudýr á lúpínu en legst einnig á trjáplöntur.
Ekki ber mikið á því að tré hafi brotnað í skóglendum félagsins eins og víða hefur gerst á landinu í vetur t.d. í nágrannasveitarfélögunum. Helst eru það birki- og víðigreinar sem sums staðar hafa gefið sig.
Fjölbreytt starfsemi var hjá félaginu eins og endranær og mun ég nú skýra frá því helsta:
Aðalfundur félagsins fór fram hér í Hafnarborg þann 7. mars. Auk venjulegra aðalfundarstarfa flutti Ólafur Njálsson garðyrkjubóndi í Nátthaga erindi um aukna fjölbreytni gróðurs í útivistarskógum. Einnig var heimasíða félagsins formlega opnuð en slóðin er skoghf.is
Afmælisfundur Rósaklúbbsins var haldinn í Selinu í mars en Rósaklúbburinn fagnaði 10 ára afmæli í fyrra.
„Viðar vinir“ voru með handverkssýningu í Selinu þann 19. maí og sýndu útskorna, tálgaða og rennda muni. M.a. voru til sýnis munir úr birki úr Höfðaskógi.
Miðvikudagskvöldið 23. maí hittust félagar í Rósaklúbbnum og hlúðu að rósunum í Rósasafninu í Höfðaskógi.
Hin árlega fuglaskoðunarferð félagsins í Höfðaskógi fór fram laugardaginn 2. júní í tengslum við Bæjarhátíðina „Bjarta daga“. Glókollar, krossnefir og svartþrestir sjást nú í skógum félagsins árið um kring en allt eru þetta nýlegir landnemar. Af sjaldgæfari tegundum sáust landsvölur í Höfðaksógi í maí og skógarsnípa í Gráhelluhrauni fyrir jólin.
Fimmtudagskvöldið 21. júní var gengið um landgræðsluskóginn í Seldal í blíðskaparveðri en þar hófst skógrækt á örfoka landi árið 1990.
Miðvikudagskvöldið 11. júlí var gengið um rósasafnið í Höfðaskógi í samstarfi við Garðyrkjufélag Íslands.
Laugardaginn 18. ágúst var svo hinn árlegi Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar haldinn hátíðlegur. Vatnshlíðarlundur var vígður formlega þennan dag en lundurinn er til minningar um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri, Guðbrandur Brynjúlfsson formaður Landgræðslusjóðs og Jónatan Garðarsson formaður félagsins fluttu ávörp. Helgistund var í umsjón séra Gunnþórs Ingasonar. Boðið var upp á skógargöngu, getraun og að fara á hestbak og leiki fyrir börnin í samstarfi við ÍTH og Íshesta. Heitt var í kolunum á hlaðinu við Selið þar sem Þórður Marteinsson lék ljúf lög á nikkuna. Minningarsjóður um hjóninn Hjálmar og Else í umsjón Landgræðslusjóðs styrkti myndarlega gerð Vatnshlíðarlunds og gerð varphólma í Hvaleyrarvatni.
Þann 29. september stóð félagið fyrir sjálfboðaliðadegi í Vatnshlíðarlundi. Um tuttugu harðduglegir sjálfboðaliðar mættu og gróðursettu alls kyns trjáplöntur sem auka eiga útivistargildi svæðisins og laða að fjölbreytt fuglalíf en Vatnshlíðarlundur er eins og áður sagði til minningar um Hjálmar og Else Bárðason.
Laugardagsmorguninn 6. október var efnt til göngu um bæinn með það að markmiði að leita uppi stærstu tré bæjarins. Félagið stóð fyrir samsvarandi göngum fyrir 10 árum síðan. Stærsta tré bæjarins reyndist vera sitkagreni að Brekkugötu 12. Hæð trésins mældist 20,6 m og ummál í brjósthæð 2,0 m. Tréið er að öllum líkindum gróðursett af Gunnlaugi heitnum Kristmundssyni sandgræðslustjóra sem þarna bjó en hann sat í fyrstu stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
Þriðjudagskvöldið 16. október stóð Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar fyrir göngu um Höfðaskóg. Anna Borg Harðardóttir forðmaður félagsins flutti ávarp, Jóhann Guðni skáld las upp frumsamið ljóð í tilefni dagsins, Steinar Björgvinsson sagði frá náttstað fuglanna í skóginum. Síðan var gengið upp í Vatnshlíðarlund þar sem Jónatan Garðarsson sagði frá hjónunum Hjálmari og Else og tilurð lundsins.
Jólatrjáa- og skreytingasala félagsins fór fram í desember eins og undanfarin ár í bækistöðvum félagsins við Kaldárselsveg. Boðið var upp á íslensk jólatré, greinar, köngla og ýmiskonar skreytingar úr skógarefni. Heitt súkkulaði var í boði ásamt meðlæti fyrir gesti og mæltist það vel fyrir. Jólasalan hefur líklega aldrei gengið eins vel og í ár. Vel á annað þúsund manns heimsótti félagið meðan á jólasölunni stóð. Fjöldi sjálfboðaliða kom að jólatrjáasölunni bæði undirbúningi og sölustörfum á hlaðinu og vill ég þakka þeim kærlega fyrir þeirra framlag.
Fjöldi gesta heimsótti félagið á árinu til að kynna sér starfsemi þess og Þallar og skóglendi félagsins.
Skógræktarnemar frá Reykjum heimsóttu félagið og Þöll í febrúar og nemar í garðyrkjuframleiðslu komu í mars. Skógfræðistúdentar frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri heimsóttu svo félagið í september og nóvember.
Í mars fékk hópur Oddfellowa leiðsögn um Höfðaskóg.
Kennara- og starfsmannafélag Breiðholtsskóla kom í heimsókn í júní.
Hópur frá félagi Eldri Borgara í Hafnarfirði kom í ágúst og kennarar í Setbergsskóla komu í skógarheimsókn í nóvember.
Nemendur og kennarar frá Landgræðsluskóla Sameinuðu Þjóðanna komu í heimsókn í september. Að þessu sinni voru nemarnir frá Ghana, Mongólíu, Namibíu, Uganda og Uzbekistan.
Félagar í SAMGUS, samtök garðyrkju og umhverfisstjóra sveitarfélaga, ásamt nokkrum kollegum sínum frá Færeyjum heimsóttu okkur í september.
Starfsfólk Setbergsskóla kom svo í lok nóvember til að ganga um skóginn og rabba saman.
Nemendur og kennarar úr Áslandsskóla, Engidalsskóla, Hraunvallaskóla, Setbergsskóla, Öldutúnskóla, Fjölgreinadeild Lækjarskóla og Leikskólanum Hvammi komu á árinu til að gróðursetja og hlúa að gróðri í sínum landnemaspildum eða bara til að fræðast og njóta skógarins en mikið hefur dregið úr gróðursetningum skólanna frá því sem var vegna niðurskurðar.
Leikskólinn Norðurberg hélt uppteknum hætti og kom með nemendur sína reglulega í skóginn allan veturinn og fengu afnot af aðstöðunni í Selinu til að elda og borða.
Starfsmenn Actavis , Batteríið Arkitektar, Hlaðbær-Colas komu á árinu og gróðursettu í landnemaspildur sínar. Gróðursetningardagur var hjá Hestamannafélaginu Sörla í lok apríl og var gróðursett í hlíðina fyrir ofan hesthúsin í Hlíðarþúfum.
Minnisvarði um Jónas Guðlaugsson rafveitustjóra og fyrrverandi formann Vinabæjarfélagsins Cuxhaven-Hafnarfjörður, var afhjúpaður í Vinalundi við Hvaleyrarvatn föstudaginn 6.júlí, að viðstöddum hópi vina Cuxhaven og gestum frá Cuxhaven.
Það voru þær Dóróthea Stefánsdóttir, ekkja Jónasar, og Erika Fischer, borgarfulltrúi í Cuxhaven, sem afhjúpuðu minnisvarðann, sem er grágrýtissteinn með áfestri plötu með nafni Jónasar. Einnig hefur verið settur upp hvíldarbekkur í lundinum til minningar um Jónas, en hvoru tveggja er gjöf frá Vinabæjarfélaginu í Cuxhaven.
Hópur frá Cuxhaven heimsótti svo félagið 1. desember í tengslum við tendrun á gjafa-jólatrénu frá Cuxhaven sem að venju var reist við Flensborgarhöfn.
Dagana 27. – 29. júlí stóð yfir svokölluð „Norræn Rósahelgi“ hérlendis í fyrsta sinn. Rósaklúbbur Garðyrkjufélagsins stóð að skipulagi viðburðarins sem haldinn er annað hvert ár í einhverju Norðurlandanna. Um 100 erlendir gestir sóttu Norrænu Rósahelgina hingað til lands í fyrra. Hópurinn, um 130 manns,heimsótti félagið og Þöll á föstudeginum í blíðskaparveðri og skoðuðu Rósasafnið í skóginum og rósaúrvalið í gróðrarstöðinni. Hinar svokölluðu Jóhannsrósir sem Þöll framleiðir vöktu mikla athygli og seldust eins og heitar lummur. Auðvitað bauð félagið upp á hressingu eins og venjulega þegar gesti ber að garði.
Starfsmenn félagsins sóttu nokkur námskeið og ráðstefnur á árinu eins og ráðstefnu á Reykjum um innflutning plantna og varnir gagnvart sjúkdómum og meindýrum, Fagráðstefnu Skógræktargeirans á Húsavík, ráðstefnu um sjálfbærni gróðurs í þéttbýli og þemadaga á Hótel Örk um fræmál.
Steinar kynnti BS-ritgerð sína um „afskornar trjágreinar sem skreytingaefni“ fyrir nemendum starfsmenntabrauta Landbúnaðarháskólans á Reykjum í byrjun árs. Árni kynnti starfsemi félagsins og skógrækt fyrir félögum í Rótarýklúbb Hafnarfjarðar í júlí í landnemaspildu klúbbsins í Klifsholti.
Landsvirkjun styrkti Skógræktarfélagið rausnarlega eins og mörg undanfarin ár með því að leggja félaginu til ungmenni á aldrinum 16 – 20 ára sem störfuðu hjá félaginu við ýmis störf í sumar. Flest voru þau 25 talsins frá Landsvirkjun í sumar. Hinrik Már Hreinsson var yfirmaður hópsins og stóð hann sig sérlega vel.
20 unglingar störfuðu hjá félaginu í sumar á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar.
Nokkur ungmenni með þroskafrávik ásamt leiðbeinendum sínum störfuðu einnig um tíma hjá félaginu í sumar.
Ég vil fyrir hönd félagsins þakka öllum þessum ungmennum alveg sérstaklega fyrir ánægjulega samvinnu og vel unnin störf.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er annað til þriðja fjölmennasta skógræktarfélag landsins. Af því erum við mjög stolt. Félagar okkar eru ekki einungis hér í Hafnarfirði heldur um allt land. Að fólk vilji taka þátt í starfi félagsins og styrkja starfsemi þess fyrir það erum við mjög þakklát.
Ljóst er að uppland bæjarins verður æ vinsælla til útivistar með hverju árinu sem líður. Fólk sækir í skóginn árið um kring. Aukinni umferð fólks fylgir aukin umhirða svæðanna. Hreinsun, grisjun og stígagerð eru nú stór hluti af starfi félagsins. Allt miðar þetta að því að viðhalda og auka útivistargildi og aðra vistkerfisþjónustu svæðisins. Útivist, kolefnisbinding, vatnsmiðlun, lofthreinsun, skjóláhrif, búsvæði lífvera, ber, sveppir og fleira eru mismunandi vistkerfisþjónustur skógarins. Sumt af því tökum við sem gefnu og leiðum ekki hugann sérstaklega að því. Ísland er skógfátækasta land Evrópu. Tæplega 1,5 % af flatarmáli landsins er vaxið kjarri eða skógi. Skógeyðing með tilheyrandi tapi á jarðvegi er eitt mesta vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir.
Ágætu fundarmenn þá er komið að þakkarræðu þar sem ég vil þakka af alhug samstarfsmönnum mínum þeim Steinari og Árna fyrir tillitssemina í gegnum árin. Svo og stjórn félagsins og endurskoðanda Rúnari Björnssyni fyrir ánægjulegt samstarf, bæjarstjórn í gegnum tíðina, bæjarstarfsmönnum, Vinnuskóla Hafnarfjarðar og Landsvirkjun fyrir áratuga samstarf, þá á ég aðallega við unga fólkið sem skiptir hundruðum.
Það hafa verið forréttindi og lærdómsríkt að vinna með öllu þessu frábæra unga fólki og öllum sjálfboðaliðunum vil ég færa kærar þakkir. Þeirra starf er ómetanlegt. Félagsstarf byggist að stórum hluta á duglegum og ósérhlífnum félagsmönnum. Þýðingarmesti þáttur í félagsstarfi er áhugi og eldmóður hins almenna félagsmanns. Ég vil einnig þakka öllum öðrum sem létta okkur starfið á einn eða annan hátt. Sérstakt þakklæti til Fjarðakaups. Ég hef hvarvetna mætt velvilja og skilningi í störfum mínum sem ég er þakklát fyrir. Í þessi 33 ár sem ég hef unnið hjá skógræktarfélaginu hafa vissulega skipts á skin og skúrir þó að sólskinsstundirnar séu þó margfallt fleiri.
Nú hef ég ákveðið að hætta sem framkvæmdastjóri skógræktarfélagsins og við starfinu tekur Steinar Björgvinsson sem búinn er að vinna með mér síðan 1996. Betri mann sem eftirmann get ég ekki hugsað mér. Eins og þið vitið öll er Steinar ræktunarstjóri Þallar en mun nú einnig gegna starfi framkvæmdastjóra skógræktarfélagsins.
Kæru félagar og vinir. Enn og aftur þakklæti til allra. Mig langar að ljúku þessu með því að fara með ljóð eftir Snorra Hjartarson, Inn á græna skóga.
Ég vil hverfa langt
Langt inn á græna skóga
Inn í launhelgar trjánna
Og gróa þar tré
Gleymdur sjálfum mér finna
Ró í djúpum
Rótum og þrótt
Í ungu ljósþyrstu laufi
Leyta svo aftur
Með visku trjánna
Á vit reikulla manna
Guð blessi ykkur öll.