Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, 27. mars 2014.
Fundarstjóri – Góðir félagar og gestir !
Samkvæmt venju vil ég byrja á að minnast látinna félaga. Frá síðasta aðalfundi félagsins sem haldinn var í mars á síðasta ári, hafa 4 félagsmenn fallið frá. Þessir ágætu félagar okkar hétu:
Kristján Bersi Ólafsson
Sigurður Arnórsson
Einar Jónsson
Margrét Flygering
Vil ég biðja ykkur um að rísa úr sætum og votta þessum ágætu félögum okkar virðingu.
Takk fyrir.
Ég ætla að fara yfir nokkra þætti sem snúa að stjórn félagsins, en Steinar Björgvinsson framkvæmdarstjóri félagsins mun fara ítarlegar ofan í helstu starfsþætti félagsins á liðnu ári.
Starfsemi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar
Starf Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var að mestu með hefðbundnum hætti árið 2013. Nokkrir starfsmenn voru í föstu starfi og stjórnuðu daglegum rekstri skógræktarfélagsins. Steinar Björgvinsson er að ljúka sínu fyrsta ári sem framkvæmdastjóri félagsins. Hann hefur starfað hjá okkur í fjölmörg ár, fyrst sem sumarstarfsmaður, en síðan sem heilsárs starfsmaður. Hann ber ábyrgð á Gróðrastöðinni Þöll og sinnir öllum þeim verkum sem heyra undir framkvæmdastjóra félagsins. Árni Þórólfsson skógarvörður félagsins hefur haft með höndum allt sem snýr að skógrækt, grisjun og verkstjórn þeirra unglinga sem koma til starfa hjá okkur á sumrin. Jökull Gunnarsson hefur starfað hjá okkur í rúmt ár og á síðasta ári var Ásta Steingerður Geirsdóttir í starfsnámi hjá félaginu. Einnig komu fleiri að starfinu, því við höfum verið svo heppin að njóta starfskrafta ungra og dugandi einstaklinga eins Rakelar Kristjánsdóttur sem hefur hlaupið í skarðið þegar á hefur þurft að halda og margra annarra.
Hólmfríður Finnbogadóttir sem lét af störfum framkvæmdastjóra á síðasta aðalfundi, var okkur innan handar á margvíslegan hátt á síðasta ári. Það hefur verið mjög mikilvægt að geta leitað til hennar með allskonar hluti, því hún hefur gríðarlega mikla reynslu og meiri yfirsýn og þekkingu á starfsemi félagsins en nokkur annar. Hólmfríður fær bestu þakkir fyrir allt sem hún hefur gert fyrir okkur og ég vil líka nota tækifærið og þakka Steinari, Árna, Jökli, Ástu Steingerði og Rakel fyrir þeirra mikla og góða starf.
Stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hittist á fundum eins og þurfa þótti, en fundir stjórnar eru jafnan haldnir í Selinu, starfsmanna aðstöðu félagsins í Höfðaskógi. Stjórnarmenn og starfsfólk sinnti einnig margskonar verkefnum utan stjórnarfunda. Formaður tók þátt í stefnumótunarfundum skógræktarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélaganna. Stjórnarfólk og starfsmenn mættu auk þess á fundi með þeim sem fara með skipulagsmál í Hafnarfirði vegna þessa, svo dæmi sé tekið.
Fundir og gestir
Snemma á síðasta ári tókum við á móti fulltrúum þýskrar ferðaskrifstofu sem vildi koma með hóp ferðamanna og láta fólkið gróðursetja tré í Vatnshlíð. Það hefur færst í aukana undanfarin ár að erlendir gestir sem koma til landsins vilja leggja sitt af mörkum til að klæða landið trjágróðri. Það komu allskonar hópar í heimsókn til okkar á síðasta ári, en Steinar gerir nánari grein fyrir þeim í ræðu sinni.
Fulltrúaráðsfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Hestamiðstöð Íshesta 6. Apríl 2013. Það kom í hlut okkar hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar að skipuleggja fundinn í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands og stjórna honum. Að fundi loknum var farið í gönguferð um Höfðaskóg og heppnaðist fundurinn vel í alla staði.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Garðabæ 23. til 25. ágúst og var ánægjulegt að sjá hvað nágrannar okkar í Garðarbæ hafa verið að gera í ræktunarmálum undanfarna áratugi.
Stjórn og starfsmenn sóttu nokkrar ráðstefnur um skógræktarmál, en það er mjög mikilvægt að fylgjast vel með því sem er að gerast á þessu sviði.
Helstu bakhjarlar
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar byggir að langmestu leyti á sjálfboðaliðavinnu. Þetta er félag sem rekið er á gamla mátann, þar sem fólk leggur sig fram um að sinna margvíslegum verkefnum í þágu samfélagsins. Samt sem áður er það svo að ekki er eingöngu hægt að treysta á sjálfboðaliðastarf og á sumrin er afar mikilvægt að fá til starfa dugmikla einstaklinga sem hjálpa okkur við að sinna ræktun, grisjun, stígagerð og viðhaldi þeirra svæða sem Skógræktarfélagið ber ábygrð á. Við búum svo vel að í mörg undanfarin ár hefur Vinnuskóli Hafnarfjarðar útvegað okkur hóp unglinga, sem hjálpa okkur við þessa vinnu. Á síðsta sumri fengu sumir unglingarnir eingöngu vinnu í nokkrar vikur en aðrir aðeins lengur, en starfsframlag þeirra skiptir okkur miklu máli. Það er hluti af hugsjónastarfinu að koma þekkingunni á mikilvægi þess að rækta og bæta landið til unga fólksins.
Nokkur undanfarin sumur höfum við verið svo heppin að fá til liðs við okkur unglingahóp á vegum Landsvirkjunar sem starfar undir kjörorðinu „Margar hendur vinna létt verk“. Þessi ungmenni hafa alltaf staðið sig með mikill prýði. Við getum ekki annað en verið stolt af því hversu efnilegt æskufólkið okkar er. Stuðningur Hafnarfjarðarbæjar og Landsvirkjunar við skógræktarstarfið er ómetanlegur og við sendum þessum aðilum bestu þakkir fyrir velviljann og ómældan stuðning við starf Skógræktarfélags Hafnarfjarðar á umliðnum árum.
Hreinsun upplandsins og vöktun
Starfsfólk Skógræktarfélagsins sér meðal annars um hreinsun á upplandi bæjarins samkvæmt sérstökum samningi við bæjarfélagið. Þessi vinna fer fram í hverri einustu viku ársins og mörgum sinnum í viku á sumrin. Reynslan sýnir að þetta er mjög mikilvægt verkefni þar sem ótilgreindur hópur fólks virðast ekki skilja það að það er hægt að skila rusli, húsgögnum, eldhúsinnréttingum, þvottavélum og öllu öðru í Sorpu. Það er með ólíkindum hvað þessu fólki dettur í hug að þvælast með alla leiðina upp aðHvaleyrarvatni eða Kaldárseli og skilja eftir á víðavangi. Þetta er ósiður sem þarf að uppræta.
Sérstök vöktun er allt árið um kring á svæðinu umhverfis Hvaleyrarvatn. Það verður að segjast eins og er að í vetur hefur verið ótrúlega erfitt að eiga við mótorkross fólk sem hefur notað ísilagt Hvaleyrarvatn sem leiksvæði, þó svo að það sé algjörlega bannað. Lögreglan hefur engan veginn sinnt sínu starfi, sem á að felast í því að koma þessu fólki í burtu af svæðinu. Hafnarfjarðarbær auglýsti í vetur að mótorhjóla umferð á vatninu væri bönnuð, en allt kom fyrir ekki. Þetta fólk hefur stórskemmt gróður við vatnsbakkana og þetta er algjörlega ólíðandi ástand.
Grisjun
Tveir starfsmenn félagsins, Árni og Jökull, fóru á námskeið í notkun og meðhöndlun keðjusaga sem haldið var á Garðyrkjuskólanum að Reykjum í Ölfusi í upphafi síðasta árs. Þegar námskeiðinu lauk, hófust þeir handa við að snyrta og grisja trjágróður meðfram vegum og stígum á öllu því svæði sem Skógræktarfélagið sér um. Töluvert var fellt af öspum við bakka Hvaleyrarvatns. Trén sem eftir standa voru snyrt og greinar sem stóðu út á veginn styttar eða skornar burt. Eitthvað var unnið að grisjun á síðasta sumri, en aftur var settur kraftur í grisjunina í nóvember. Þá var talsvert grisjað í Selhöfða, Seldal og víðar, en efnið sem féll til við þessa grisjun var m.a. notað til að skreyta Jólaþorpið í miðbæ Hafnarfjarðar. Einnig nýttist efni úr þessari grisjum á annan hátt. Hluti af þessu var notað sem skreytigreinar sem voru seldar í blómabúðir fyrir jólin og líka seldar eða gefnar þeim sem komu til að kaupa jólatré hjá félaginu, en venjus samkvæmt fór sú sala fram í desember, eins og undanfarin ár.
Gróðursetning
Á síðasta sumri ringdi miklu meira en undanfarin sumur þannig að hægt var að gróðursetja miklu meira af trjáplöntum en verið hefur undanfarin ár. Alls voru gróðursettar 57.525 plöntur á svæðum félagsins. Þar af voru plöntur úr fjölbakka bökkum 52.980 og pottaplöntur 4.545. Til samanburðar voru gróðursettar rúmlega 23 þúsund plöntur hjá félaginu allt árið 2012. Alls voru það 77 tegundir af trjám og runnum sem gróðursettar voru á síðasta ári. Lang mest var gróðursett af sitkagreni eða rúmlega 31 þúsund plöntur. Af alaskaösp voru gróðursettar tæplega 8 þúsund plöntur og af stafafuru rúmlega 4 þúsund plöntur.
Síðasta sumar var lokið við að gera rúmlega 800 metra langan göngustíg sem liggur við norðurbakka Hvaleyrarvatns. Í það verk fóru um 180 tonn eða 150 rúmmetrar af leirblandaðri möl. Meðfram stígnum öllum var einnig raðað grjóti í kantana, til að afmarka stíginn betur.
Í Seldal var unnið við lagningu á um 500 metra löngum stíg sem liggur í gegnum dalbotninn. Notaðir voru um 60 rúmmetrar af trjákurli í þetta verk. Auk þessa fór mikil vinna í almennt viðhald á stígum í Höfðaskógi, en það þurfti að hreinsa illgresi úr þeim öllum og slá kantana á þeim með sláttuorfum.
Svæði félagsins
Okkur sem sinnum stjórnarstörfum fyrir Skógræktarfélag Hafnarfjarðar finnst mjög mikilvægt að þeir sem vilja notfæra sér það sem skógræktarsvæðin hafa upp á að bjóða líði vel og gangi vel um skógana. Þessvegna gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að laða fólk að svæðunum.
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá fólki að mikill fjöldi merkilegra og sjaldgæfra fugla hafa sést í Höfðaskógi á undanförnum árum. Fuglaljósmyndarar eru þeir sem venja oftast komur sínar í Höfðaskóg til að freista þess að ná ljósmyndum af sjaldgæfum flækingum sem hafa sést hjá okkur. Þar á meðal er amerískur smáfugl sem heitir Brjóst tittlingur en Arnar Helgason sá þennan fugl fyrstur allra hér á landi fyrir jólin 2013.
Vinahópar, vinnustaðahópar, skólafólk, gönguhópar, hlauparar og margir aðrir koma reglulega í heimsókn í skógana í upplandi Hafnarfjarðar. Margir nota stígana sem lagðir hafa verið um allt til að liðka sig og njóta útiveru allt árið. Skógurinn veitir gott skjól í hvaða veðri sem er og þeir sem venja komur sínar í skógana vita að þar ríkir annnað andrúmsloft en utan þeirra. Gagnið sem hafa má af skógræktarsvæðum landsins er margvíslegt. Á vorin og haustin koma grunnskólahópar til okkar og á öllum tímum nota leikskólarnir í Norðurbergi og Hlíðarenda aðstöðuna í Höfðaskógi. Hlíðarendahópurinn heldur til í Skátaskálanum við Hvaleyrarvatn og börnin og leikskólakennararnir nota skóginn í Selhöfða og allt svæðið á mjög skemmtilegan hátt.
Fyrir nokkrum árum var gerð einföld útikennslustofa í Höfðaskógi, sem hjónin Ásthildur Ólafsdóttir og Hörður Zóphaníasson styrktu félagið til að láta útbúa. Við höfum unnið að því í þó nokkurn tíma að útbúa svipaða aðstöðu í Gráhelluhrauni og síðasta haust tókst að ljúka við gerð útikennslustofu, skammt frá Læjarbotnum. Pokasjóður styrkti félagið til að hægt væri að ráðast í þessa framkvæmd. Einar Óskarsson, skógarvörður í Haukadal var félaginu innan handar við að útbúa kennslustofuna og á fær hann þakkir fyrir aðstoðina.
Útikennslustofan er í skógarrjóðri og trén mynda þó nokkuð mikið skjól, en til að verjast vindum var ákveðið að klæða stofuna að hluta til með íslensku sitkagreni.
Þessi stofa hefur verið mjög vinsæl hjá leikskólabörnum í Hlíðarbergi og Hlíðarenda og líka hjá grunnskólanemum í Öldutúnsskóla, Áslandsskóla og Setbergsskóla. Útikennslustofan er fyrir alla sem þangað vilja sækja og það þarf ekkert sérstakt leyfi til að nota hana. Eina skilyrðið sem við setjum er að fólk gangi vel um stofuna og skóginn.
Þakkir til allra
Öllum velunnurum félagsins færi ég hugheilar þakkir fyrir velvilja í garð félagsins og þess starfs sem innt er af hendi á vegum þess. Þar má helst telja bæjarfulltrúa og starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar, alla Landnemana okkar, félaga í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands, stjórn og félagsmenn í Krabbameinsfélagi Hafnarfjarðar, starfsfólk og nemendur grunnskóla og leikskóla bæjarins, Landsvirkjun, Fjarðarkaup, Landgræðslusjóð, Ræktunarsjóð Hjálmar og Else Bárðarsonar, Skógræktarfélag Íslands, Skógrækt ríkisins og fjölmarga aðra sem hafa lagt okkur lið á liðnu ári og í gegnum tíðina.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 og verður 68 ára á þessu ári. Það er kannski ekki hár aldur, en félagið íslensk skógræktarfélög eru almenn ekki mjög gömul. Félagið okkar er eitt það fjölmennasta skógræktarfélags landsins og stuðningurinn sem almennir félagar sýna með því að vera í félaginu skilar sér í kröftugu starfi og bjartsýni á framtíðina.
Ég vil ljúka máli mínu á því að þakka ykkur öllum fyrir að hafa lagt ykkar að mörkum til þess að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er eitt það öflugasta á landinu. Án ykkar stuðnings og þátttöku væri félagið ekki mikils virði. Við þurfum á ykkur öllum að halda.
Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Skógræktarfélag Hafnarfjarðar vil ég þakka trygglyndið og traustið sem þið hafið sýnt stjórn og starfsmönnum félagsins í gegnum tíðina.
Takk fyrir.
Jónatan Garðarsson