Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, 21. mars 2013.
Fundarstjóri – Góðir félagar og gestir!
Samkvæmt venju vil ég byrja á að minnast látinna félaga. Frá síðasta aðalfundi félagsins sem haldinn var í mars á síðasta ári, hafa 9 félagsmenn fallið frá. Þessir ágætu félagar okkar hétu:
Amalía Svala Jónsdóttir,
Egill Strange,
Guðrún S. Pálsdóttir,
Haraldur Sigurðsson,
Jón Leósson,
Reynir Jóhannsson,
Sveinbjörg Ólafsdóttir
Tryggvi Sigurgeirsson
og Sigvaldi Ásgeirsson.
Vil ég biðja ykkur um að rísa úr sætum og votta þessum ágætu félögum okkar virðingu.
Takk fyrir.
Alþjóðadagur skóga
Það á vel við að á þessum degi 21. mars 2013, er haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn Alþjóðadagur skóga, samkvæmt samþykkt Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Þessi degi er ætlað að vekja athygli fólks um allan heim um mikilvægi allra gerða skóga og trjárækt. Það vill svo vel til að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar heldur aðalfund sinn á þessum degi.
Starfsemi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar
Starf Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var að mestu með hefðbundnum hætti árið 2012. Þrír fastráðnir starfsmenn sinntu helstu verkefnum á starfsárinu, eins og verið hefur. Hólmfríður Finnbogadóttir er framkvæmdastjóri félagsins, Steinar Björgvinsson er ræktunarstjóri og stjórnandi Gróðrastöðvarinnar Þallar og Árni Þórólfsson er skógarvörður félagsins og undir lok ársins bættist Jökull.í hópinn. Hólmfríður mun fjalla ítarlega um starfið á liðnu ári.
Reksturinn gekk ágætlega á liðnu ári og má þakka starfsfólki okkar fyrir það hversu vel hefur verið haldið á málum. Skipulagið hefur að mestu verið í þeirra höndum og stjórnin verið til ráðgjafar þegar á hefur þurft að halda.
Tveir hópar ungmenna komu til starfa hjá félaginu síðasta sumar eins og undanfarin ár. Annarsvegar voru það ungmenni frá Vinnuskóla Hafnarfjarðar og hinsvegar ungt og duglegt fólk á vegum verkefnisins Margar hendur vinna létt verk sem Landsvirkjun hefur staðir fyrir um nokkurra ára skeið. Eins og svo oft áður höfum við séð hversu dugandi unga fólkið okkar er og getum við verið stolt og ánægð yfir því að eiga svo kraftmiklu æskufólki á að skipa. Þau sinntu margvíslegum verkefnum síðasta sumar og áttu mörg handtökin við stígagerð, slátt, grisjun, gróðursetningu og sitthvað fleira sem þurfti að gera.
Stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hittist á fundum eins og þurfa þótti og fóru þeir fram í Selinu í Höfðaskógi. Nokkrir óformlegir vinnufundir voru líka haldnir með starfsfólki, einkum í kringum vinnu við þrjá fuglahólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni og Minningarlund um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else Sörensen Bárðarson sem gerður var í Vatnshlíðinni. Minningarundurinn er mjög vandaður og fallegur og var hann vígður með sérstakri athöfn á Skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar 18. ágúst 2012.
Skógræktarfélagið tók ekki þátt í Atvinnuátaksverkefni Skógræktarfélags Íslands á síðasta ári þar sem ekki tókust samningar við Hafnarfjarðarbæ um þetta verkefni, sem er miður. Ástæðan er fyrst og fremst sú að embættismenn og bæjarstjórnarfólk kaus að fara aðra leið í atvinnuátaks málum og við því var ekkert að gera.
Skógræktarfélagið annaðist hreinsun á upplandi bæjarins samkvæmt sérstökum samningi á síðasta ári og hafði einnig sérstaka vakt á svæðinu kringum Hvaleyrarvatn. Þetta var mjög nauðsynlegt enda hefur það færst mjög í vöxt að fólk sæki á þetta frábæra útivistarsvæði á góðviðris dögum, og þeir voru þó nokkuð margir síðasta sumar.
Stjórn og starfsfólk Skógræktarfélagsins ásamt fleiri fulltrúum sóttu aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var á Blönduósi í lok ágúst. Undirritaður var fundarstjóri á Aðalfundinum en stjórnamenn félagsins hafa oft verið beðnir um að sinna ýmsum embættisverkum á Aðalfundum Skógræktarfélags Íslands, sem er afar ánægjulegt.
Það sérstaklega fræðandi og gaman að sækja Austur-Húnvetninga heim og skoða uppgræðslu- og skógræktarsvæðin í héraðinu. Kom það mörgum á óvart hversu mikil skógrækt hefur átt sér stað í Húnaþingi, en þetta er eitt af stærri landbúnaðarhéruðum landsins, auk þess sem sýslan er fræg fyrir góðar veiðiár. Norðanstæðir vindar léku um fundargesti á meðan farið var í skoðunarferðir um austursýsluna og næddi um fólk á bersvæðum.
Svo merkilega vildi til að þegar komið var inn í skógarsvæðin var steikjandi hiti enda skýla skógar vel um leið og trén verða mannhæðar há. Það var ánægjulegt að upplifa þetta og það efast ekkkert okkar sem vorum í Húnavatnssýslu að áliðnu sumri um að skógrækt á framtíðina fyrir sér á þessum slóðum.
Það er venja að stjórnarfólk og aðrir sjálfboðaliðar úr röðum félagsmanna skipti með sér að standa vaktina fyrir jólin og selja íslensk jólatré á reitnum fyrir framan Seliðog þannig var það um þessi jól. Eins merkilegt og það virðist vera þá settum við enn eitt sölumetið og skreytingar sem Steinar Björgvinsson útbjó af miklu listfengi seldust sem aldrei fyrr.
Heimasíða Skógræktarfélagsins sem tekin var í notkun á síðasta aðalfundi hefur komið að góðum notum og þar höfum við sett inn alla helstu viðburði og kann fólk vel að meta það. Þar er nú þegar komið mikið af upplýsingum margvíslegum fróðleik frá fyrri tíð er haldið þar til haga.
Ræktunarstarfið
Á síðasta ári var mun minna gróðursett af trjáplöntum á skógræktarsvæðum skógræktarfélagsins en undanfarin ár. Venjulega hafa þetta verið á milli 40 og 60 þúsund trjáplöntur sem gróðursettar á hverju ári. Þennan samdrátt má rekja til mikilla þurrka á síðasta sumri, en þó fyrst og fremst til vandræða gróðrarstöðvar við að afhenda svokallaðar landgræðsluskógarplöntur.
Frá árinu 1990 hefur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar verið þátttakandi í verkefni sem kallast Landgræðsluskógar og hefur fengið ókeypis trjáplöntur í fjölpottabökkum til þess að gróðursetja í Seldal og nágrenni. Á árinu 2012 voru gróðursettar rúmlega 23 þúsund trjáplöntur hjá Skógræktarfélaginu. Plöntur úr fjölpottabökkum voru rúmlega 21 þúsund og stórar pottaplöntur rúmlega tvö þúsund. Lang mest var gróðursett af sitkagreni eða rúmlega tíu þúsund plöntur. Af reynivið voru gróðursettar 5.500 plöntur og af stafafuru 4.700. Eins og undanfarin ár þá var lögð áhersla á að gróðursetja sem flestar tegundir af trjám og runnum á skógræktarsvæðunum en alls voru það fimmtíu tegundir af trjám og runnum sem voru gróðursettar síðasta sumar.
Á liðnu sumri fór mikil vinna í viðhald göngustíga í Höfðaskógi. Sérstök áhersla var lögð á að gera stíga sem liggja um Rósagarðinn góða, en einnig stíga sem liggja að garðinum, auk stíga í trjásafninu. Slá þurfti gróður í köntunum með sláttuorfum nokkrum sinnum yfir sumarið auk þess sem stinga þurfti upp gróður sem farinn var að vaxa í stígunum. Í stóran hluta stíganna þurfti að bæta við möl.
Nokkrir nýir stígar voru lagðir á svæðinu á síðasta sumri. Þar ber helst að nefna nýjan göngustíg norðan við Hvaleyrarvatn, sem liggur við vatnsbakkann neðan við akveginn. Þessi stígur er rúmlega 800 metra langur. Í þessa stígagerð fóru um 250 tonn af leirblandaðri möl en öll vinnan við þessa stígagerð var unnin með handaflinu einu og allri mölinni ekið með hjólbörum. Auk þess að leggja þessa vönduðu malarbornu stíga þá hefur verið farið út í það á undanförnum árum að leggja einfaldari og grófgerðari stíga þar sem aðferðin felst í því að slá lúpínuna þegar hún er í mestum blóma í lok júní. Mesta grjótið hefur síðan verið losað og stígurinn gróf sléttaður. Þessir stígar eru auk þess hugsaðir sem eldvarnarhólf því ef eldur kemst í lúpínubreiðurnar þá ættu þessir stígar að koma í veg fyrir að eldurinn nái að berast lengra.
Flesta daga síðasta sumars voru einhverjir starfsmenn frá Skógræktarfélaginu að vinna við að klippa og reita lúpínu og gras frá rósunum í Rósagarðinum og frá trjám og runnum í trjásafninu, en vöxturinn í grasinu í lúpínubreiðunum í Höfðaskógi var mikill síðasta sumar þrátt fyrir allan þennan þurrk.
Í nóvember 2011 var mikið grisjað í Selhöfðanum og áfram var haldið með grisjun í Höfðaskógi í janúar og febrúar á síðasta ári þar sem töluvert var grisjað í og við trjásafnið. Við þessa grisjun féll til töluvert magn af trjábolum og greinum. Sverustu bolirnir voru fluttir úr skóginum og þeim staflað upp þar sem meiningin er að búta þá niður og kljúfa í eldivið síðar en skógræktarfélagið gerði tilraun með að selja eldivið í jólatrjáasölunni fyrir síðustu jól sem tókst það vel að stefnt er að því að fjárfesta í einföldum tækjabúnaði til þess að kljúfa eldivið. Eftir grisjunina í trjásafninu þurfti að koma miklu magni af greinum í burtu. Gámaþjónustan lánaði skógræktarfélaginu nokkra stóra gáma til þess að flytja þessar greinar í burtu en alls voru það um 120 rúmetrar sem fóru í þessa stóru gáma sem Gámaþjónustan flutti í og úr skóginum ókeypis fyrir félagið. Auk þess sendi Gámaþjónustan skógræktarfélaginu 30 rúmetra af moltu sem dreift var yfir trjábeð og uppeldisreiti í og við gróðrarstöina.
Á síðasta ári var lögð enn meiri áhersla á að ruslahreinsa öll svæði skógræktarfélagsins, einkum yfir sumarmánuðina við Hvaleyrarvatn. Þar voru rusladallar losaðir daglega og suma daga tvisvar á dag þegar aðsóknin að vatninu var hvað mest.
Allt þetta mikla starf hefði ekki verið unnið án fjölmenns og öflugs starfsliðs. Eins og undanfarin ár þá sendi Landsvirkjun skógræktarfélaginu öflugan vinnuflokk síðasta sumar. Þetta voru alls 25 ungmenni á aldrinum 16 til 21 árs sem unnu hjá félaginu í átta vikur.
Vinnuskólinn sendi 18 ungmenni sem unnu í þrjár til sex vikur en auk þess voru fimm fötluð ungenni að störfum í nokkrar vikur ásamt umsjónarmönnum.
Í nóvember var unnið að grisjun í Selhöfðanum. Hluti af því efni sem til féll við þá grisjun var notað til skreytinga á jólaþorpinu.
Þakkir til allra
Öllum velunnurum félagsins færi ég hugheilar þakkir fyrir velvilja í okkar garð. Þar má helst telja bæjarfulltrúa og starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar, alla Landnemana okkar, félaga í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands, stjórn og félagsmenn í Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, starfsfólk og nemendur grunnskóla og leikskóla bæjarins, Landsvirkjun, Fjarðarkaup, Samfélagssjóð Alcans, Landgræðslusjóð, Ræktunarsjóð Hjálmar og Else Bárðarsonar, Skógræktarfélag Íslands, Skógrækt ríkisins og fjölmarga aðra sem hafa lagt okkur lið á undanförnu ári og áratugum.
Starfsfólk félagsins og einkum hefur unnið þrekvirki og mun án efa halda áfram að lyfta grettistökum, sem komandi kynslóðir eiga eftir að njóta.
Framkvæmdastjóri hættir störfum
Hólmfríður Finnbogadóttir hefur verið hjartað og sálin í starfsemi Skógræktarfélags Hafnarfjaðar í háa herrans tíð og átti stærsta þáttinn í því hversu vel hefur tekist til við að skipuleggja alla aðstöðu félagsins í Höfðaskógi. Hún hóf störf hjá félaginu árið 1980 og vann þá mjög náið með Ólafi Vilhjálmssyni formanni Skógræktarfélagsins. Hún var kjörin í stjórn félagsins fyrir 30 árum, nánar tiltekið árið 1983 og tók við formennsku í félaginu árið 1989. Hólmfríður var fyrsta konan sem gegndi formennsku í félaginu og sinnti því embætti í áratug. Hún var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins árið 1998 hefur gengt því starfi alla tíð síðan. Þar hefur útsjónarsemi hennar og umhyggja fyrir umhverfinu skipað stóran sess. Hólmfríður hefur sinnt því framkvæmdastjóra starfinu af slíkri samviskusemi að það er ekki hægt annað en dást að atorkunni og hugsjónamennskunni, sem hefur skapað félaginu mikla sérstöðu á landsvísu.
Hólmfríður var fljót að átta sig á því að það þurfti að bæta aðstöðuna hér í Höfðaskógi og stækka nýræktunarreitina. Starfsfólkið hafði ekkert húsaskjól en lengi vel voru einu húsin sem félagið hafði yfir að ráða, verkfæraskúr í Gráhelluhrauni og lítill skúr á Beitarhúsahálsi. Að vísu hafði félagið líka jeppa til umráða sem Guðmundur Þórarinsson gaf félaginu á sínum tíma en þetta var allt og sumt.
Fyrir atbeina Hólmfríðar fékk félagið 40 fermetra timburhús vorið 1990, sem var komið fyrir nærri Húshöfða og fékk nafnið Höfði. Þetta ágæta hús leysti brýnan vanda og þar var loksins hægt að bjóða upp á salernisaðstöðu og sómasamlegt skjól þegar ekki var hægt að matast úti í guðsgrænni náttúrunni vegna veðurs. Ræktunarsvæðið hefur stækkað jafnt og þétt og þar hafa verið útbúin nokkur gróðurhús, fyrst lítil hús með plastyfirbreiðslu og síðan tvö stærri hús, og er annað þeirra hitað upp, en hin eru köld.
Smám saman hefur tekist að bæta aðstöðuna enn frekar og það munaði mikið um gamla kennslustofu sem félaginu áskotnaðist og fékk nafnið Selið. Það er í rauninni óskiljanlegt hvernig hægt var að vinna allt það mikla og merkilega starf sem unnið hefur verið í gegnum tíðna án þess að hafa almennilegt húsaskjól eða aðstöðu á svæðinu sjálfu. Gróðrastöðin Þöll ber einnig vitni um stórhug og glögga framtíðarsýn Hólmfríðar og þeirra sem hafa valist til starfa fyrir félagið, hvort sem það eru launaðir starfsmenn eða sjálfboðaliðar.
Hólmfríður hefur verið eins og móðir okkar allra – móðir náttúra, ef svo mætti segja. Húsmóðirin sem hefur ætíð séð um að það hefur verið nóg af kaffi og meðlæti og hún hefur tekið á móti gestum og gangandi og séð til þess að öllum sem hafa sótt Höfðaskóg heim hafi liðið vel. Hún hefur líka verið ólöt við að skamma okkur þegar svo hefur borið undir – hún hefur alltaf sagt það sem henni býr í brjósti og ekkert verið að fara með hlutina í felur. Það verður erfitt að feta í fótspor hennar en það er verkefni okkar að halda áfram að byggja upp til framtíðar.
Persónulega vil ég þakka Hólmfríði Finnbogadóttur fyrir allt sem hún hefur lagt félaginu til. Hún hefur verið einn besti uppalandinn hér í bæ og lagt sig alla fram við að gera veg Skógræktarfélags Hafnarfjaðar sem mestan. Steinar Björgvinsson sem tekur nú við starfi hennar með formlegum hætti mun eiga hauk í horni þegar á þarf að halda, því Hólmfríður mun örugglega fylgjast náið með öllum okkar störfum hér eftir sem hingað til. Steinari óska ég til hamingju með nýja starfsheitið.
Eins og staðan er núna þá er einn heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar og það er Svanur Pálsson sem var stjórnarmaður í félaginu áratugum saman og hefur verið einn kraftmesti félaginn. Hann er ætíð reiðubúinn þegar á starfskröftum hans þarf að halda.
Það er ekki annað hægt en að heiðra Hólmfríði með sama hætti. Ég veit að hún er lítið fyrir vegtyllur en hún sagði mér frá því hvernig hún varð að skipa Ólafi Vilhjálmssyni fyrir verkum, eftir að hún tók við sem var formaður félagsins. Og núna ætla ég að óhlýðnast Hólmfríði í fyrsta sinn á ævinni og biðja hana um að samþykkja þetta lítilræði, að taka við útnefningu sem heiðursfélagi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Samkvæmt lögum félagsins þarf að bera þessa tillögu upp á aðalfundi og fá samþykki fundarins fyrir því að viðkomandi félagsmaður verði gerður að Heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Þessvegna ætla ég að biðja þá sem eru samþykkir því að Hólmfríður Finnbogadóttir verði gerð að heiðursfélaga Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, um að rétta upp hönd.
Er einhver á móti þessari tillögu?
Og að lokum – Kærar þakkir fyrir stuðninginn við félagið. Við þurfum á ykkur að halda og kunnum svo sannarlega að meta trygglyndið við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.
Takk fyrir.
Jónatan Garðarsson