Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, 29. mars 2011.
Góðir félagar og gestir!
Samkvæmt venju vil ég byrja á að minnast látinna félaga. Á síðastliðnu ári létust þrír dyggir ræktunarmenn sem höfðu lengi verið í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar:
Það voru Birgir Guðmundsson, Björn Ingvarsson og Þórður Reykdal. Vil ég biðja ykkur að rísa úr sætum og votta þessum ágætu félögum virðingu.
Takk fyrir.
Þá er það skýrslan:
Starf Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var með venjubundnu sniði árið 2010. Þrír starfsmenn stjórna starfinu árið um kring, en það eru Hólmfríður Finnbogadóttir framkvæmdastjóri, Steinar Björgvinsson ræktunarstjóri og stjórnandi Gróðrastöðvarinnar Þallar og Árni Þórólfsson skógarvörður félagsins. Þau sjá jafnframt um allan rekstur, stjórna vinnuhópunum á sumrin og skipuleggja starfið í góðri samvinnu við stjórnina. Þetta er samhent þríeyki og þau eru þekkt innan skógræktarhreyfingarinnar fyrir gott og uppbyggilegt starf. Við njótum öll góðs af því hversu vel og rösklega þau ganga til allra verka.
Stjórn Skógræktarfélagsins hélt reglubundna stjórnarfundi sína í Selinu á liðnu ári en fundaði einnig með öðru skógræktarfólki á öðrum vettvangi. Stjórnin hefur þann háttinn á að skiptast á skoðunum með aðstoð tölvunnar en einnig hafa stjórnarmenn hist í smærri hópum til að ræða einstök mál þegar á hefur þurft að halda.
Stjórnarmenn áttu fundi með fulltrúum Hafnarfjarðarbæjar vegna ýmissa mála og félagið kom meðal annars að því að hjálpa til við að finna svæði fyrir hundaeigendur og sitthvað fleira. Félagið tók þátt í að skipuleggja Atvinnuátaksverkefni síðasta sumar í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands og starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar. Margt fleira var gert sem ég ætla ekki að tíunda hér, enda gerir framkvæmdastjóri nánari grein fyrir þeim málum.
Allir stjórnarmenn og fastir starfsmenn félagsins sóttu aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var á Selfossi í lok ágúst. Síðan var skundað á Þingvöll og þess minnst að 80 ár voru liðin frá því að Skógræktarfélag Íslands var stofnað á þessum merka stað í sögu lands og þjóðar.
En þá er það ræktunarstarfið sem skiptir langmestu máli.
Félagið fékk álíka margar trjáplöntur í fjölpottabökkum frá Landgræðslusjóði og á síðustu árum, en plöntur í tveggja lítra pottum voru um sjö þúsund fleiri en árið á undan. Fjöldi platna úr fjölpottabökkum sem plantað var út á liðnu ári voru 60.066, að verðmæti 7.210.000 krónum.
Að auki var plantað út 9.609 stærri pottaplöntum og er verðgildi þeirra metið á 11.530.000 krónur. Þetta er í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið undanfarin ár og miðar að því að fjölga verulega trjátegundum á ræktunarsvæðum okkar. Síðasta ár var fjöldi tegunda 157 talsins, sem er talsvert mikið meira en árið þar á undan, en þá voru tegundirnar 30 talsins.
Lang mest var gróðursett af sitkagreni, eða 28 þúsund plötur. Ennfremur voru gróðursettar um 9 þúsund Alaska aspir og birkiplöntur. Þetta eru algengustu tegundirnar sem notaðar eru í skógrækt hér á landi og því eðlilegt að þær séu meginstoðin í gróðursetningunni ár hvert.
Meðal fágætra tegunda sem gróðursettar voru má nefna 537 Gljásýrenur, 339 Fjallaþallir, 318 Ígulrósir, 256 Alpareyni tré og 226 Heggi. Þessi upptalning sýnir glögglega að fjölbreyttnin var í fyrirrúmi, enda er stefna félagsins að skapa sem mesta fjölbreytni í skógarreitunum.
Hluti af sumarstarfinu fer jafnan í uppgræðslu og áburðargjöf. Á síðasta sumri var verulegu magni af áburði og grasfræí dreift á blásið og gróðursnautt land. Auk þessa var áburður settur á trjáplöntur víðsvegar á ræktunarsvæðinu í Höfðalandi.
Stígagerð var haldið áfram eins og undanfarin ár og einnig voru eldri stígar lagfærðir. Lokið var við að leggja nýjan göngustíg efst í Húshöfðanum, en það verk hófst sumarið 2009. Stígurinn er um 200 metra langur og liggur í þó nokkuð miklum bratta. Þar af leiðandi varð að hlaða grjóti í kantana og aka miklu magni af leirblandaðri möl í stíginn. Þetta verk tók drjúgan tíma eins og gefur að skilja. Einnig var byrjað að leggja nýja stíga í Vatnshlíðinni og stefnt er að því að ljúka við þá næstkomandi sumar. Þar var ágætis flöt slegin og er ætlunin að útbúa þar áningarstað.
Síðstliðið vor varð umtalsverður bruni í Seldal og brunnu um 7 hektarar ræktaðs lands. Eldurinn fór hratt yfir og tjónið hefði sennilega orðið mun meira ef stígur á Seldalshálsi hefði ekki hægt á eldinum. Við höfum unnið markvisst að því í nokkur ár að rjúfa gróðurheildirnar með stígagerð og munum leggja enn ríkari áherslu á slíka vinnu næstu árin.
Farið var í mikla útplöntun á brunasvæðinu í sumar og þegar nokkuð var liðið á sumarið voru gerðir veglegir stígar í Seldal. Byrjað var á því að slá þriggja metra breiðar rásir í lúpínuna.
Rásirnar þvera dalinn frá vestri til austurs og frá norðri til suðurs og verða í framtíðinni göngustígar sem skipta dalnum í nokkra aðgreinda reiti. Stígarnir skipta dalnum í eldvarnarhólf og svona verður haldið áfram að vinna á fleiri stöðum næstu árin. Næsta sumar verður sett trjákurl í stígana til að koma í veg fyrir að lúpína og gras vaxi þar og nái að gróa yfir stígana á nýjan leik..
Einnig voru útbúnar þrjár leikjaflatir í Seldal, samkvæmt deiliskipulagi Þráins Haukssonar landslagsarkitekts. Hver um sig er um 100 til 200 fermetrar að flatarmáli og eiga eftir að koma að góðum notum til leikja og útivistar í framtíðinni. Lúpínan var slegin og sina hreinsuð af þessum flötum og síðan var farið með traktorsgröfu inn á svæðið til að slétta flatirnar og jafna þær. Grafan fór einnig yfir stígana og var unnið að þessu verki samfleytti í þrjá daga. Á haustdögum var svo farið í þó nokkra gróðursetningu umhverfis flatirnar. Voru rúmlega 1.100 pottaplöntur gróðursettar með kerfisbundum allt í kringum flatirnar með það í huga að þær veiti gott skjól fyrir veðri og vindum í framtíðinni.
Þegar skóga stækka og þéttast er nauðsynlegt að fara í umtalsverða grisjun, en sá þáttur fer að verða meira aðkallandi á ræktunarsvæðum okkar með árunum. Unnið var við grisjun á nokkrum stöðum síðasta sumar, en megin þunginn í grisjunarvinnunni var í nóvember mánuði.
Mest var grisjað í Selhöfða og hluti þeirra trjáa sem til féll var notaður í Jólaþorpið líkt og undanfarin ár. Einnig féll til mikið af stafafurugreinum sem klipptar voru og seldar í blómabúðir. Þá seldum við dágóðan hluta af greinum og jólatrjám síðustu vikurnar fyrir jól á athafnasvæði félagsins við Kaldárselsveginn.
Umtalsvert magn af stærri trjábolum og sverum greinum fellur jafnan til við grisjunina og hefur safnast upp góður slatti á undanförnum árum við göngustíga og annarsstaðar. Full ástæða þótti til að fjarlægja þessa lurka og var samið við Gámaþjónustuna, sem lét félaginu í té opna flutningagáma. Var trjábolum og greinum safnað í þessa gáma og alls náðist að fylla átta flutningagáma. Það er umtalsvert magn því hver gámur rúmar 18 til 20 rúmmetra, þannig að samtals voru þetta um 150 rúmmetrar.
Gámaþjónustan sótti síðan gámana og kurlaði allt saman til að nota í moltugerð og stígakurl. Skógræktarfélagið mun njóta góðs af þessu á sumri komanda því við fáum moltu frá Gámaþjónustunni og trjákurl sem verður notað í göngustígana í Seldalnum.
Nánast hvern einasta dag á liðnu sumri var unnið að því að slá með sláttuorfum meðfram göngustígum. Voru að jafnaði tvö til þrjú sláttuorf í notkun í einu. Venjan er sú að slá þarf meðfram göngustígunum tvisvar til þrisvar á sumri. Auk þess þarf jafnan að stinga upp illgresi og fjarlægja úr stígunum og aka nýrri möl í þá svo að þeir haldi sér almennilega.
Eitt af því sem starfsmenn félagsins gera árið um kring er að fara um upplandið og hreinsa rusl og allskyns úrgang sem fólk skilur eftir á víðavangi. Þessu starfi var sinnt af samviskusemi á síðasta ári, eins og verið hefur undanfarin ár. Nýlega undirrituðu formaður félagsins og bæjarstjórinn þjónustusamning vegna umsjónar með upplandinu og hreinsunarstarfsins sem fram fer núna í ár.
Nokkrir sjálfboðaliðar mæta til starfa á hverju einasta ári og veita félaginu ómælt lið með verkum sínum. Félagsandinn skiptir okkur miklu máli og framlag almennra félagsmanna, landnemanna og annarra sem taka þátt í ræktun, grisjun er okkur mikils virði.
Það má alls ekki gleyma því að leikskólabörn, grunnskólabörn, kennarar og liðsmenn í ólíkum félagasamtökum og fyrirtækjum í bænum hafa í gegnum tíðina lagt drjúga hönd á plóg við ræktun bæjarlandsins. Sama gildir um fjölmarga einstaklinga og fjölskyldur sem hafa sameinast um að rækta landið okkar og hlúa að gróðrinum. Svo er það vinnuhópurinn frá Landsvirkjun og ungmenninn úr Vinnuskólanum sem koma til liðs við okkur á hverju einasta sumri og það munar verulega mikið um þetta kraftmikla unga fólk í öllu okkar starfi. Það er með sannri ánægju sem ég færi öllu þessu góða fólki hugheilar þakkir Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fyrir árvekni, alúð og atorkuna sem hafa skilað okkur svo miklu.
Ég hef fulla trú á því að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar eigi bjarta og langa framtíð fyrir höndum. Á meðan svo margir taka þátt í starfinu og eru reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum til að halda ræktunarstarfinu áfram þarf engu að kvíða.
Kærar þakkir.
Jónatan Garðarsson