Fundarstjóri, heiðursfélagar og aðrir félagar.
Janúar var fremur snjóléttur og nýttist til grisjunarvinnu. Svo fór að snjóa og var snjóþungt í febrúar og fram eftir öllum mars.
Maí var einstaklega hlýr og tók allur gróður fljótt og vel við sér um vorið. Sumarið var svo fremur svalt og sólarlýtið en haustið langt og fremur hlýtt. T.d vorum við að gróðursetja og afhenda plöntur til gróðursetningar fram í nóvember. Svo snöggkólnaði í lok nóvember og við tók kaldur desember með mikilli snjókomu og ófærð laugardaginn 17. des.
Talsvert bar á asparglittu á víði og ösp síðsumars. Birkikemba og birkiþéla voru minna áberandi í fyrra en árin á undan. Trjávöxtur var almennt all góður en fræuppskera um haustið fremur rýr.
Við sluppum sem betur fer alveg við gróðurelda í fyrra enda maí ekki svo þurr eins og venjan er en mesta hættan á gróðureldum er að jafnaði í maímánuði
Við höfum átt í samstarfi við Landsvirkjun í 25 ár. Það var engin breyting þar á í fyrra en þá störfuðu um tuttugu ungmenni hjá okkur í júní og júlí kostuð af Landsvirkjun. Flokkstjórar Landsvirkjunarhópsins voru Sigurður Marteinn Lyngberg Sigurðsson og Lovísa Rut Tjörvadóttir. Sinnti Landsvirkjunarhópurinn aðallega stígagerð, viðhaldi göngustíga, hreinsun og gróðursetningu.
Einnig starfaði hjá okkur síðastliðið sumar hópur á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Flokkstjórar voru Guðrún Sunna, Svanhvít Ásta og Þórir.
Tveir ungir nemar frá Friends Academy á Long Island þeir Sam Schamroth og Brandon Polke unnu hjá okkur í sjálfboðavinnu eina viku í fyrravor. Til að útskrifast þurfa nemarnir að stunda einhverja sjálfboðavinnu heima eða heiman. Skólinn er óháður kvekara-skóli.
Ásdís Konráðsdóttir, Blóma Dísa lést í maí í fyrra. Dísa var skoðunarmaður reikninga hjá félaginu og hjálpaði oft til t.d. í kringum jólin.
Helstu skipulögðu viðburðir á vegum félagsins í fyrra voru eftirfarandi:
Hin árlega fuglaskoðun félagsins fór fram sumardaginn fyrsta 21. apríl í tengslum við bæjarhátíðina „Bjarta daga“. M.a. sáust flórgoðar á Hvaleyrarvatni.
Aðalfundur félagsins fór fram hér í Hafnarborg 28. apríl. Eftir venjulega aðalfundarstörf og kaffihlé flutti Þráinn Hauksson landslagsarkitekt erindi sem hann nefndi „Útivist í upplandi Hafnarfjarðar“.
Laugardaginn 25. júní var svo fjölskylduhátíðin „Líf í lundi“ haldin hátíðleg við bækistöð félagsins. Boðið upp á hoppukastala, andlitsmálningu, ratleik, skógargöngu og grillaðar pylsur. Listahópur Vinnuskóla Hafnarfjarðar og Larpið kíktu í heimsókn. David á Pallett setti upp „pop up“ kaffihús og Haffi Haff sá svo um tónlistina.
Sjálfboðaliða-gróðursetningardagurinn fór fram þann 10. september. Gróðursettar voru nokkur hundruð trjáplöntur í landfyllinguna á móts við módelflugvöllinn við Hvaleyrarsvatnsveg.
Þann 12. september bauð félagið upp á fræðslu um tínslu og verkun matsveppa með Helenu Mörtu Stefánsdóttur.
Snyrtileikinn 2022 fór fram í Þöll 15. september. Veitt voru verðlaun fyrir fallega garða, fyrirtækjalóðir og götur. Heiðursverðlaunin í fyrra hlaut Fríkirkjan í Hfj. Allir verðlaunahafar hlutu trjáplöntur að launum. Snyrtileikinn er viðburður á vegum Hafnarfjarðarbæjar sem hefur verið haldinn í bækistöðvum félagsins undanfarin ár. Undirbúningur hefur aðallega verið í höndum Berglindar Guðmundsdóttur hjá Umhverfis- og skipulagssviði Hfj.
Ljósaganga félagsins og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins fór fram að kvöldlagi þann 27. október. Gangan var í anda hrekkjavöku. Draugar, álfar og skrímsli höfðu komið sér fyrir í skóginum og skutu göngufólki skelk í bringu. Boðið var upp á kleinur og heitt súkkulaði að göngu lokinni. Undirbúningshópur hittist helgina áður í Þöll. Þar skárum við út grasker og sníddum til búninga ásamt því að leggja á ráðin varðandi skipulag göngunnar. Daníel lánaði okkur alls kyns leikmuni í anda hrekkjavöku sem slóu í gegn.
Jólatrjáa- og skreytingasala félagsins fór svo að venju fram í bækistöðvum félagsins alla daga í desember fram að jólum.
Þrjú ný skógræktar-skilti voru sett upp í fyrra. Eitt var sett upp í Seldal og annað við gatnamót Kaldárselsvegar og Gamla Kaldárselsvegar til að vekja athygli á starfi landnema. Þriðja skiltið var sett upp nyrst í Undirhlíðum. Skiltin eru að forskrift Skógræktarfélags Íslands og bjóða fólk velkomið í skóga félagsins. Magnús Helgason á allan heiður að gerð skiltanna en Magnús hefur unnið að gerð þeirra í sjálfboðavinnu.
Ýmsir aðilar heimsóttu félagið og Þöll á síðastliðnu ári. Þátttakendur á aðalfundi Samgus sem haldinn var í Hafnarfirði í apríl í fyrra komu í heimsókn til að kynna sér starfsemi félagsins. Nemi og leiðbeinandi frá „University College“, London heimsóttu okkur í júní í tengslum við verkefni sem snéri að áhrifum lífrænna varna í gróðurhúsaræktun. Þrír danskir áhugamenn um rósaræktun heimsóttu okkur ásamt Vilhjálmi Lúðvíkssyni í lok júlí og skoðuðu rósagarðinn í Höfðaskógi. Einn þeirra hann Erling Östergård heldur úti heimasíðu um ígulrósir og er með nokkur íslensk yrki í sínu safni í Danmörku.
Halldóra og Þórólfur komu í fyrrasumar ásamt fjölskyldu sinni og var af því tilefni gróðursett í Dórulund m.a. svartylli ´Amma Dóra´og ´Afa Tóta´
Nemendur í plöntunotkun ásamt Samson heimsóttu okkur í ágúst. Michael Richardson gróður-áhugamaður frá Kanada heimsótti okkur í fyrra ásamt Kristjáni Friðbertssyni.
Geir íþrótta- og tómstundafulltrúi bæjarins og Inigbjörg garðyrkjustjóri ásamt Birgi Ómarssyni formanni íslenska frisbígolfsambandsins hittu okkur í haust en mikill áhuga er hjá þeim að koma upp frisbígolfvelli í skóginum. Engin ákvörðun hefur verið tekin hvað það varðar en yfir 90 frisbígolfvellir eru á landinu og margir í skóglendi. Borið hefur á skemmdum á trjám vegna diskanna sem notaðir eru og þarf því að skoða það mjög vel hvar frisbígolfvellir eru settir upp. 18 holu frisbívellir spanna einhverja hektara eða um 2 km leið u.þ.b.
Eins og venjulega heimsóttu nokkrir leikskólar okkur í aðdraganda jóla og sóttu sér jólatré í skóginn og fengu kakó og piparkökur.
Vinir okkar frá Cuxhaven komu svo í bröns fyrstu helgina í aðventu eins og svo mörg undanfarin ár í tengslum við afhendingu á vinabæjartrénu frá Cuxhaven.
Sviðsfundur þjónustu- og þróunarsviðs bæjarins fór fram í Þöll í byrjun desember. Þátttakendur fóru m.a. í gönguferð um svæðið og kynntu sér starfsemi félagsins.
Leikskólinn Norðurberg hélt uppteknum hætti og kom nokkrum sinnum yfir vetrarmánuðina með nemendur og nýttu skóginn til útikennslu. Fengu þau svo að nota aðstöðuna hjá okkur til að matast og komast á salerni.
Píratar komu í maí og gróðursettu í Hamranesið. 8. bekkingar úr Öldutúnsskóla gróðursettu í sína landnemaspildu á Kjóadalshálsi síðastliðið vor. Nemendur í leikskólanum Hvammi gróðursettu tré í skóginum í fyrravor. Félagar í Lionsklúbbnum Ásbirni gróðursettu í sína landnemaspildu og einnig var gróðursett í spildu þá sem kennd er við Framboð Guðrúnar Yngvadóttur í Lions í Klifsholtum. Nemendur Nú gróðursetu í sína spildu við gamla Kaldárselsveginn. Áslandsskóli hélt uppteknum hætti og gróðursetti í grendarskóg við Ásfjall. Starfsmenn Colas komu í byrjun júní og gróðursettu í sína spildu við Fremsta Höfða. Starfsmenn Batterísins Arkitekta gróðursettu í sína spildu í júní. Félagar í Rótarýklúbbi Hfj gróðursettu einnig í sína spildu í Klifsholtum. Starfsmenn Skógræktarfélagsins komu að gerð stígs í gegnum reit Rótarýklúbbs Hfj en því verki er ekki alveg lokið. Sjálfboðaliðar frá Íslandsbanka, mest úr tölvudeild, gróðursettu í Hamranesið í fyrrahaust. Félagar í Njóta og Þjóta gróðursetta í sína spildu við Buga sem þau fengu í fyrra. Svo voru ýmsir einstaklingar sem eru með spildur til umráða duglegir við gróðursetningu og umhirðu.
Undirritaður flutti erindi um rósagarðinn í Höfðaskógi hjá Garðyrkjufélagi Íslands í febrúar ásamt því að flytja erindi um götutré á afmælisráðstefnu Samgus sem haldin var hér í Hafnarfirði í fyrra og erindi um jólatré og greinar hjá Landssamtökum skógareigenda á Suðurlandi í nóvember.
Landgræðslusjóður styrkti okkur í fyrra til grisjunar á skóginum í Selhöfða og fengum við Trjáprýði til að vinna verkið ásamt okkar fólki.
Félagið hlaut einnig rekstrarstyrk ásamt verkefnastyrk frá Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu í fyrra.
Skokkhópur Hauka sem tilheyrir Almenningsíþróttadeild Hauka kom við hjá okkur í haust og afhenti félaginu formlega styrk í þakklætisskyni fyrir að halda við stígunum sem notaðir eru í hinu vinsæla utanvegahlaupi Hauka um hvítasunnuna.
Vegna breytinga á Hnoðraholtslínu þurfti að fella eitthvað af trjám í Gráhelluhrauni. Fór félagið fram á bætur vegna trjánna sem Landsnet varð við.
Einnig hlaut félagið bætur frá bænum fyrir þau tré sem þurfti að fella vegna lagningar á græna stígnum.
Talsvert var fundað í fyrra vegna skógarins í Gráhelluhrauni. Búið er að kynna fyrir okkur og Sörla tilllögu að nýju deiliskipulagi Gráhelluhrauns sem m.a. felur í sér tvö mislæg gatnamót gangandi og ríðandi umferðar ásamt bílastæðum við norður og suðurenda skógarins. Deiliskipulag þetta hefur ekki farið í kynningu. Hollvinasamtök Gráhelluhraunsskógar hafa óskað eftir tímabundinni lausn svo að útivistarfólk sem ekki er á hesti geti komist klakklaust í skóginn. Felst það í sérmerktum bílastæðum við Hlíðarþúfur, gangbraut yfir Kaldárselsveg og göngustíg í gegnum hólana að skógarstígnum sem er í hrauninu. Er málið í ferli.
Fundað var rafrænt um gróðurelda þar sem þátt tóku viðbragðsaðilar, fulltrúar sveitarfélaga og skógræktarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Starfsfólk félagsins heimsóttu svo Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð síðastliðið vor. Fengum við kynningu á hvernig aðgerðarstjórn starfar í viðbragði. Kíktum á Björninn, stjórnstöðvarbíl Slysvarnarfélagsins Landsbjargar.
Fundað var um vatnsvernd í lok maí.
Atli og Svavar Þrastarsynir ásamt Erlendi Gunnari og Gunna hjálpuðu í mars í fyrra við að laga plastið á Höfðaborg. Svo rættist langþráður draumur þegar Gunni og félagar hjá ÁÞ-Verk ehf klæddu Höfðaborgina með polykarbónat-plötum í lok árs.
Árni og Gunnar sóttu fagráðstefnu skógræktarinnar á Hótel Geysi í lok mars. Yfirskrift ráðstefnunnar í fyrra var „Skógrækt 2030 – Græn ábyrg framtíð“. Flestir starfsmenn félagsins sóttu svo sérsniðið skyndihjálparnámskeið fyrir þá sem vinna með keðjusagir sem haldið var í Elliðavatnsbænum í fyrravor.
Haldið var áfram með lagningu græna stígsins í nóvember þegar malbikaður var sá hluti sem liggur frá Hvaleyrarvatnsvegi, fram hjá Þöll og áfram í suður austan við Mið- og Frestahöfða. Er þetta mikil samgöngubót fyrir göngu- og hjólreiðafólk en stígur þessi er 3 m breiður og eins og fyrr segir með bundnu slitlagi.
Fyrir jólin héldum við uppteknum hætti í anda Hólmfríðar og fórum með blóm og greinar til nunnanna í klaustrinu. Handverkskennarar fengu einnig hjá okkur efnið til smíðakennslu og þess háttar.
Umgengni um almenningssalerni sem gildisskátar byggðu við Skátalund og opnað var vorið 2021 hefur verið vonum framar. Þegar fór að frysta all hressilega í desember þá fraus í lögnum og er svo enn. Hreinsun salernanna er í okkar höndum.
Félagið sér um alla hreinsun í upplandinu það er að segja losa ruslatunnur, hreinsa grillin við vatnið og tína rusl meðfram vegum og við áningarstaði. Talsverð vinna felst í þessu sérstaklega þegar snjóa leysir og svo yfir sumartímann þegar mikið af fólki safnast saman við vatnið til að grilla, sigla á vatnin, leika sér og þess háttar. Alltaf fýkur eitthvað af baggaplasti frá hesthúsunum og festist í trjágreinum hér og þar. Svo stunda sumir það að kasta öllu út um bílglggann enn þann dag í dag. Sérstakur samningur er í gildi við bæinn um hreinsun upplandsins.
Ég vil minn á heimasíðu félagsins skoghf.is. Þar er t.d. komin inn dagskrá fyrir árið í ár. Erum einnig á facebook. Nú eru félagsskírteinin orðin rafræn. Allir gildir félagar fá tengil sendann til niðurhals í tölvupósti til að virkja félagsskírteinið. Það er svo geymt í veskis-smáforritinu. Nánari upplýsingar um virkjun félagsskírteina er inn á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands. Endilega nýtið ykkur afsláttinn sem félagsskírteinin veita hjá ýmsum fyrirtækjum í græna geiranum. Félagar í Skógræktarfélagi Hfj eru um þúsund talsins en það eru ekki allir í félagaskránni með virkt tölvupóstfang. Endilega sendið okkur upplýsingar á netfangið skoghf@simnet.is þið sem ekki hafið fengið sendann tengil til að virkja félagsskírteinið.
Ég vil í lokin þakka stjórn félagsins, endurskoðanda, skoðunarmönnum reikninga og starfsfólki fyrir gott samstarf á síðastliðnu ári. Kærar þakkir til Landsvirkjunar og Vinnuskólans fyrir þeirra framlag. Sérstakar þakkir til Fjarðarkaupa og Skógræktarfélags Íslands. Einnig þakkir til starfsmanna bæjarins sem hafa aðstoðað okkur. Síðast en ekki síst sérstakar þakkir til allra félaganna og sjálfboðaliðanna sem lagt hafa okkur lið. Ég vil sérstaklega nefna Magnús Helgason, Daníel Erlingsson, Vilhjálm Bjarnason, Gunna og Hadda Þórólfssyni, Körlu, Dóru og Tóta, Ella, Frikka, Línu og Svan, Önnu, Kella og Kalla, Atla og Svavar Þrastarsyni, Vigfús, Gyðu og aðra stjórnarliða sem tóku þátt í jólatrjáasölunni, Rúnar, Sölva og Björk, Hannesi Þór, Ásgeir, Bryndísi, Sigrúnu, Haffa Haff, David á Pallett, Larpið og alla hina.