Fyrstu mánuður ársins voru snjóléttir. Vorið var þurrt og fremur kallt. Sumarið var nokkuð hlýtt hér í þessum landshluta en skýjað. Hvaleyrarvatnið nánast hvarf í fyrrasumar en aðalástæðan er talin vera óvenjulítil úrkoma frá desember og fram á sumar. Ekki var mikið um trjáfræ um haustið fyrir utan fræ stafafuru. Talsvert var safnað af stafafuru-könglum en kvenblóm ársins 2020, sem var mikið blómgunar og fræár, þroskuðust síðastliðið haust.
Mikið var af asparglittu á viðju þegar leið á sumarið. Einnig bar talsvert á skemmdum á birki af völdum birkikembu og birkiþélu. Annars var skógurinn heilbrigður og trjávöxtur all góður.
Eldur kom upp í Langholtinu þann 11. maí í fyrra. Um 1 ha af 20 – 30 ára blandskógi brann. Ekki er vitað um eldsupptök. Mikil mildi var að nokkrir starfsmenn félagsins voru við vinnu skammt frá þeim stað þar sem eldurinn blossaði upp. Slökkvilið kom fljótlega á staðinn og náðist að ráða niðurlögum eldsins á tiltölulega skömmum tíma. Norðanátt var og stefndi eldurinn aðalega til suðurs en staðnæmdist við akveginn sem þarna liggur upp úr Seldalnum.
Eins og svo mörg undanfarin ár starfaði hópur ungmenna hjá okkur í júní og júlí sem kostuð eru af Landsvirkjun. Flokkstjórar Landsvirkjunarhópsins voru Heimir Marel og Sólveig Guðrún. Unnu þau við stígagerð og viðhald göngustíga, hreinsun, gróðursetningu og fleira.
Hópur frá Vinnuskóla Hafnarfjarðar starfaði einnig hjá okkur síðastliðið sumar. Flokkstjórar voru Svanhvít Ásta, Guðrún Sunna og Þórir.
Þar að auki starfaði 10 manna atvinnuátaks hópur fyrir námsmenn hjá okkur frá því í júní og fram í ágúst við stikun gönguleiða, grisjun, viðhald og fleira. Flokkstjóri var Enok. Atvinnuátaks-hópurinn hafði bækistöð í Bjarkarlundi en Landsvirkjunar- og Vinnuskólahópurinn í Þöll.
Helstu viðburðir á vegum félagsins á liðnu ári voru eftirfarandi:
Fuglaskoðun fór fram laugardaginn 24. apríl í tengslum við bæjarhátíðina Bjarta Daga.
Fjölskylduhátíðin „Líf í lundi“ fór fram laugardaginn 26. júní. Boðið var upp á skógargöngu, andlitsmálningu, grillaðar pylsur, hoppukastala og fleira. Yngsta kynslóðin fékk að fara á bak hjá Íshestum. Fjöldi manns mætti á viðburðinn enda veður gott.
Sjálfboðaliðadagurinn fór fram laugardaginn 18. september. Um tuttugu manns mættu. Gróðursettar voru rúmlega 700 trjáplöntur í brekkurnar á móts við Hamranesflugvöll.
Snyrtileikinn 2021 var haldinn á hlaðinu við Þöll 23. september. Veitt voru verðlaun fyrir fallega garða, fyrirtækjalóðir og götu. Heiðursverðlaun hlaut vinafélag Krýsuvíkurkirkju. Verðlaunahafar hlutu trjáplöntur að launum. Snyrtileikinn er viðburður á vegum Hafnarfjarðarbæjar en hefur verið haldinn í bækistöðvum félagsins undanfarin ár.
Aðalfundur félagsins fór fram fimmtudaginn 28. október hér í Hafnarborg. Að loknum aðalfundarstörfum flutti Halldór Sverrisson líffræðingur og fyrrum sérfræðingur hjá Skógræktinni erindi sem hann nefndi „alaskaösp – klónar og kynbætur.
Ljósaganga fór fram þriðjudagskvöldið 2. nóvember í samstarfi við Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins. Undirbúningshópur þar með talið nokkrir félagar úr Larpinu komu að undirbúningi göngunnar, klæddu sig upp í allra kvikinda líki og skutu göngufólki skelk í bringu. Haffi haff og fleiri komu einnig að undirbúningi göngunnar.
Í desember fór jólatrjáa- og skreytingasala félagsins fram í bækistöðvum félagins eins venjulega. Opið var alla daga í desember fram að jólum. Salan gekk vel. Fjöldi sjálfboðaliða kom að jólatrjáasölunni.
Í fyrra rættist langþráður draumur þegar ný 120 fermetra vélaskemma og verkstæði reis í byrjun árs. Erlendur Gunnarson var ráðinn byggingarstjóri en hann ásamt Gunnari Þórólfssyni önnuðust byggingu skemmunnar. Magnús Helgason sá um rafmagnið og Vilhjálmur Bjarnason um pípulagnir. Sextugsafmæli Árna okkar var svo haldið í skemmunni í júlí en fjölskylda Árna ákvað að koma honum á óvart og skipulagði veisluna og breytti skemmunni í veislusal.
Sett voru upp þrjú ný skógræktar-skilti í fyrra. Skipt var um gamla skiltið við Kaldárselsveg, sett var upp skilti við norðurenda Gráhelluhraunsskógar skammt frá Lækjarbotnum og þriðja skiltið var sett upp við Hvaleyrarvatnsveginn fyrir vestan Hvaleyrarvatn. Skiltin eru að forskrift Skógræktarfélags Íslands og bjóða fólk velkomið í skóga félagsins. Magnús Helgason á allan heiður að gerð skiltanna en Magnús hefur unnið að gerð þeirra í sjálfboðavinnu.
Ýmsir hópar heimsóttu félagið á síðastliðnu ári. Framkvæmdastjóri og starfsfólk Skógræktarfélags Reykjvíkur heimsótti okkur í febrúar. Gildisskátar kíktu í heimsókn í lok maí. Starfsfólk mennta- og frístundasviðs Hfj heimsóttu okkur í júní. Nemendur og kennarar leikskólans Hvamms heimsóttu okkur í júní. Nemendur og kennari í plöntugreiningaráfanga við LbhÍ heimsóttu okkur í ágúst og nemendur garðyrkjuskólans komu í vettvangsferð í október. Félagar í gönguhóp félags eldri borgara kíkti í kaffi í október. Nemendur í blómaskreytingum við Garðyrkjuskólann komu svo í heimsókn í byrjun nóvember.
Nemendur og kennarar leikskólans Norðurbergs héldu uppteknum hætti og komu nokkrum sinnum á árinu og nýttu skóginn til útikennslu og fengu að nýta aðstöðuna okkar í Höfðaskógi til að matast og komast á salerni.
Nemendur og kennarar frá leikskólunum Stekkjarási, Hlíðarbergi og Víðivöllum komu á aðventunni og sóttu sér jólatré í skóginn. Jökull brá sér í jólasveinabúning og skemmti börnunum og gerði heimsóknina enn eftirminnilegri.
Nokkrir vinir okkar frá Cuxhaven ásamt stjórn vinabæjarfélagsis Cuxhaven/Hafnarfjörður komu fyrstu helgina í aðventu og þáðu veitingar eins og svo mörg undanfarin ár í tengslum við afhendingu á vinabæjartrénu sem að þessu sinni var fallegur nordmannsþinur sem sett var upp á Thorsplani.
Í mars var fundur í bækistöð félagsins með Þránni Haukssyni landslagsarkitekt, Berglindi Guðmundsdóttur arkitekt hjá bænum, Gildisskátum ásamt hluta stjórnar og undirrituðum þar sem kynnt og rædd voru tillögur að deiliskipulagi fyrir Höfðaskóg og umferðarmál í upplandinu. „Starfshópur um stíga í upplandinu“ fundaði með hluta stjórnar og undirrituðum í Þjónustumiðstöð skömmu síðar um svipuð mál. Fjarfundur með sama hópi var einnig í lok ágúst. Skemmst er frá því að segja að tillögur Þráins Haukssonar að deiliskipulagi Gráhelluhrauns og nágrennis sem kynntar voru stjórn og framkvæmdastjóra snemma á þessu ári voru samþykktar af okkar hálfu og sér þar með loks fyrir endann á deilum hestamanna annars vegar og skógræktarfélagsins og útivistarfólks hins vegar um aðgengi og umferð um Gráhelluhraunsskóg. Til stendur svo að loka Hvaleyrarvatnsvegi fyrir akandi umferði í sumar og koma upp bílastæðum með bundnu slitlagi við vesturenda vatnsins og á Smalaholti ásamt því að gera göngustíg af holtinu.
60 nemar í Öldutúnsskóla komu síðastliðið vor og gróðursettu í landnemaspildu skólans á Kjóadalshálsi. Einnig komu nemendur Nú-Framsýn menntun og nemendur Víðistaðaskóla og gróðursettu í sínar landnemaspildur. Nemendur Áslandsskóla héldu uppteknum hætti og gróðursettu í grenndarskóg í nágrenni skólans.
Starfsmenn Hlaðbær-Colas komu í vor og gróðursettu í sína landnemaspildu við Fremsta-Höfða.
Starfsmenn Flensborgarskóla komu og gróðursettu í brunasvæðið í Langholti í maí ásamt því að styrkja félagið aðeins í leiðinni. Félagar í Lionsklúbbnum Ásbirni gróðursetti í sína landnemaspildu í Klifsholtum. Starfsfólk Teva áður Actavis gróðursettu í sína spildu í Klifsholtum. Einnig gróðursettu félagar í Fjallahjólaklúbbnum í sína spildu en þeir hlutu styrk úr „Vorvið“. Félagar í Borðtennisdeild Hfj gróðursettu í sína landnemaspildu við Gamla Kaldárselsveginn. Félagar í Lions gróðursettu í Guðrúnarlund, trjálundi alþjóðasamtaka Lions, í Klifsholtum í júní.
Nokkrir starfsmenn Íslandsbanka, mest úr tölvudeild, komu og gróðursettu í Hamranesi í september. 30 nemendur Skarðshlíðarskóla komu svo í byrjun nóvember og gróðursettu einnig í Hamranesi.
Nýtt almenningssalerni við Skátalund var formlega opnað í lok maí. Gildisskátar eiga allan heiður að byggingu salernisins en bærinn borgaði efnið. Félagið sér um eftirlit og þrif með salerninu en gaman er frá því að segja að umgengni hefur verið með besta móti.
Lionsklúbbur Hafnarfjarðar færði félaginu að gjöf tvo bekki síðastliðið vor í tilefni af 65 ára afmæli klúbbsins. Var bekkjunum komið fyrir við göngustíga í Höfðaskógi. Lionsklúbburinn Kaldá afhenti félaginu bekk í lok maí. Bekknum var komið fyrir í Bænalundi. Félagið þakkar kærlega þessar gjafir.
Félagið hlaut styrk úr svokölluðum Vorviðar-sjóði Skógræktarinnar í fyrra upp á kr. 450.000,-. Var styrknum varið til plöntukaupa á trjáplöntum sem gróðursettuar voru í Hamranesið í fyrrahaust. Almenningsíþróttadeild Hauka styrkti félagið um kr. 250.000,- í fyrra en skógræktarfélagið hefur séð um að halda við stígum sem nýttir eru í hinu vinsæla utanvegahlaupi Hauka um hvítasunnuna.
Unnið var að grisjun skógarteiga í Höfðaskógi, Seldal og víðar fyrra hluta ársins. Einnig var farið um upplandið trjágróður sagaður og klipptur meðfram vegum og stígum. Félagið fékk vilyrði fyrir styrk að upphæð kr. 750.000,- til grisjunar skógarins í Selhöfða. Var styrkurinn nýttur á þessu ári og grisjaðir um 3 ha af furuskógi í Selhöfða.
Í fyrra voru sett upp nokkrir tugir af nýjum trjámerkingar-skiltum í trjásafni félagsins í Höfðaskógi. Í þetta sinn eru skiltin ekki sett á staur sem grafin er í jörð heldur hengd upp með vír í tréin. Í trjásafni félagsins gefur að líta fleiri hundruð tegundir trjáa og runna en merkingarnar eru farnar að láta á sjá enda þær fyrstu frá árinu 1996 en það ár var trjásafnið formlega opnað á 50 ára afmæli félagsins.
Félagið skaffaði bænum efni til að binda á tvö stór hjörtu sem eru í Hellisgerði og við Strandgötu. Einnig skaffaði félagið handverkskennurum í bænum efnivið úr skóginum til smíða. Kvenfélag Fríkirkjunnar fékk gefins greinaefni til skreytingagerðar.
Samningur við bæinn um hreinsun upplandsins var endurnýjaður í byrjun árs. Samkvæmt honum sér félagið um losun á ruslaílátum á svæðinu, hreinsun á grillum, ruslatínslu meðfram vegum og við áningarstaði og þess háttar. Einnig hreinsun og eftirlit með salerni við Skátalund. Talsverð vinna fer í hreinsun á útivistarsvæðinum sérstaklega yfir sumartímann. Flestir ganga vel um en á því eru undantekningar og stundum þarf að kalla til lögreglu.
Ég vil í lokin þakka stjórn félagsins, endurskoðanda, skoðunarmönnum reikninga og starfsfólki fyrir gott samstarf á síðastliðnu ári. Kærar þakkir til Landsvirkjunar og Vinnuskólans fyrir þeirra framlag. Sérstakar þakkir til Fjarðarkaupa og Batterísins Arkitekta. Ekki má gleyma Skógræktarfélagi Íslands og starfsfólkinu þar. Síðast ekki síst sérstakar þakkir til allra félaganna og sjálfboðaliðinna sem lagt hafa dygga hönd á plóg. Ég vil sérstaklega nefna Magnús Helgason, Vilhjálm Bjarnason, Gunna og Hadda Þórólfssyni, Körlu, Ella, Frikka, Línu og Svan, Önnu, Kella og Kalla, Atla og Svavar Þrastarsyni, Sölva og Björk, Larpið, Haffa Haff, Hannes Þór og Bryndísi.