Fundarstjóri, heiðursfélagar, félagar og gestir.
Fyrstu mánuðir ársins í fyrra voru fremur snjóþungir. Það voraði vel og sumarið var með besta móti. Trjávöxtur var almennt góður. Árið í fyrra var sannkallað fræár. Sjaldan ef nokkru sinni hefur sést eins mikið af grenikönglum eins og í fyrrahaust. Mikið var einnig af birkifræi, reyniberjum og fleiru.
Asparglitta var áberandi seinni part sumars í viðju og ösp og talsvert bar á skemmdum af völdum birkikembu og birkiþélu.
Sem betur fer sluppum við alveg við gróðurelda í fyrra og er það fjórða árið í röð sem við sleppum við þennan vágest.
Um 20 manna hópur á vegum Landsvirkjunar starfaði hjá okkur í júní og júlí í fyrra eins og síðastliðna tvo áratugi. Flokkstjórar voru Heimir Marel og Sólveig Guðrún. Vann Landsvirkjunar-hópurinn við gróðursetningu, stígagerð, slátt, hreinsun og fleira.
Hópur frá Vinnuskóla Hafnarfjarðar starfaði einnig hjá félaginu í fyrra sumar. Flokkstjórar voru Svanhvít Ásta, Guðrún Sunna og Þórir.
Þar að auki starfaði 14 manna atvinnuátaks hópur fyrir námsmenn hjá félaginu frá júní og fram í ágúst við margvísleg störf eins og lagfæringu stíga, tröppugerð, smíðar á útigögnum og grisjun skógarins. Höfðu þau bækistöð í Bjarkarlundi en Landsvirkjunar- og Vinnuskólahóparnir í Þöll.
Vegna heimsfaraldurs var minna um viðburði á vegum félagsins en í meðalári. Laugardaginn 20. júní var fjölskyldudagurinn „Líf í lundi“ haldinn hátíðlegur í blíðskaparveðri. Fjöldi manns mætti. Boðið var upp á hoppukastala, andlitsmálningu, ratleik, skógargöngu, hestbak hjá Íshestum, grillaðar pylsur og fleira. Larpið kíkti einnig í heimsókn.
Helena Marta Stefánsdóttir náttúrufræðingur var með fræðslu um matsveppi, söfnun þeirra, verkun og geymslu í byrjun september fyrir vestan Hvaleyrarvatn. Þátttaka var góð.
Hin árlegi sjálfboðaliðadagur var haldinn sunnudaginn 20. september. Þrátt fyrir afleitt veður var þáttaka góð. Gróðursettar voru 650 trjáplöntur 2 – 4 ára af ýmsum tegundum í brekkurnar í Hamranesi á móts við Flugmódelvöllinn við Hvaleyrarvatnsveg.
Aðalfundur félagins fór svo fram 1. október hér í Hafnarborg. Að loknum aðalfundarstörfum og kaffihléi flutti Sóley Þráinsdóttir vöruhönnuður fróðlegt erindi um hreinlætisvörur úr íslenskum hráefnum en hún hefur m.a. verið að þróa bursta úr íslenskri furu og hrosshárum
Jólatrjáasala félagsins fór að venju fram í desember. Fjöldi sjálfboðaliða hjálpaði til við að gera þetta gerlegt en allt fór vel og salan var með allra besta móti. Blaðamaður frá Morgunblaðinu heimsótti okkur á aðventunni og birti umfjöllun um jólatrjáasölu félagsins. Sveinn Sigurjónsson kom og lék jólalög á harmonikkuna.
Gróðrarstöðin Þöll opnaði í byrjun maí. Var plöntusala í fyrra meiri en nokkru sinni áður.
Snyrtileikinn 2020 fór fram í bækistöðvum félagsins í byrjun september. Snyrtileikinn er viðburður á vegum bæjarins. Þar eru garðar, götur, fyrirtæki og félög verðlaunuð fyrir snyrtimennsku, góðan frágang og þess háttar.
Félagar í Lionsklúbbnum Ásbirni gróðursettu í sína spildu í Klifsholtum í fyrravor. Sama gerðu félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar. Starfsmenn Batterísins Arkitekta gróðursettu í sína spildu suður af Seldal í byrjun júní. Framboð Guðrúnar Yngvadóttur í Lions fékk spildu í fyrra í Klifsholtum og komu fulltrúar Lions hvaðanæva að úr heiminum og gróðursettu í júní.
Nemendur leikskólans Norðurbergs nýttu sér skóginn til útikennslu og fengu svo að matast og komast á salerni í bækistöð félagsins í byrjun árs. Nemendur í 4. bekk Öldutúnsskóla heimsóttu félagið í febrúar ásamt foreldrum og bekkjartenglum. Nemendur og kennarar leikskólans Hvamms og leikskólans Norðurbergs heimsóttu félagið í júní og gróðursettu tré í leiðinni. Nemendur 8. bekks í Öldutúnsskóla komu í maí og gróðursettu Yrkjuplöntur í landnemaspildu sína á Kjóadalshálsi. Nemendur í Áslandsskóla gróðursettu í sinn grendarskóg í byrjun júní.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri heimsótti félagið í fyrrasumar og fór með undirrituðum um Höfðaskóg til að kynnast starfsemi félagsins. Hópur nemenda í skógfræði og landslagsarkitektur heimsótti félagið í ágúst. Nemendur og kennarar sérgreinadeildar, Hraunvallaskóla heimsóttu félagið í september. Einnig heimsóttu félagar í St. Georgsgildinu okkur heim um haustið.
Nemendur leikskólans Hlíðarbergs komu og sóttu sér jólatré í byrjun desember.
Félagið sótti um að fá að loka Hvaleyrarvatnsveginum á nýársnótt og í kringum þrettándann og var það samþykkt í umhverfis- og framkvæmdaráði bæjarins en undanfarin ár hefur það færst í vöxt að fólk komi að Hvaleyrarvatni með skotelda og skjóti þar upp með tilheyrandi sóðaskap og hávaðamengun. Hafði lokunin tilætlaðan árangur.
Árni og Jökull sóttu frumnámskeið hjá Vinnueftirlitinu í byrjun árs.
Reynt var að brjótast inn í bækistöðvar félagsins að nóttu í fyrra haust. Fyrir snarræði skógarvarðarins Jökuls tókst að komast fyrir verulegt tjón en Jökull náði einn að yfirbuga innbrotsþjófinn og halda honum þangað til viðbragðsaðilar komu á staðinn.
Lagður var grunnur að byggingu nýrrar 120 m2 vélaskemmu síðla árs. Batteríið Arkitektar lögðu til hönnun byggingarinnar. Sölvi Steinarr lagði til alla jarðvinnu. Sökkull var steyptur í nóvember. Erlendur Gunnarsson var ráðinn byggingarstjóri. En hann ásamt Gunnari Þórólfssyni hafa annast byggingu skemmunnar sem hófst svo af fullum krafti strax í janúar á þessu ári.
Snemma árs hittum við Árni Úrskurðarnefnd byggingar- og skipulagsmála ásamt fulltrúum bæjarins og Hestamannafélagsins Sörla í kjölfar kæru Sörla á deiliskipulag Gráhelluhrauns. Gekk hópurinn í gegnum skóginn eftir göngustígnum sem liggur þar í gegn. Lagði Sörli til að göngustígurinn yrði lokaður í suðurendann en árið 2019 óskaði Sörli eftir því að gönugstígur um Gráhelluhraun yrði gerður að reiðstíg en skipulags- og byggingaráð hafnaði erindinu enda gert ráð fyrir göngustíg þarna samkvæmt aðal- og deiliskipulagi. Um haustið uppgötvaðist að búið var að grafa í sundur göngustíginn syðst í Gráhelluhrauni. Félagið lagði fram kæru en ekkert kom út úr því. Seint um haustið var ný tenging til suðurs fyrir gangandi umferð lögð út í Gráhelluhrauni. Starfsmenn skógræktarfélagsins hjúkku í burt tré í vegstæðinu. Með þessum stíg verður aðeins ein þverun á þessum kafla á reiðgötu. Í lok nóvember átti hluti stjórnar ásamt framkvæmdastjóra fund með stjórn og framkvæmdastjóra Hestamannfélagsins Sörla. Lýsti stjórn skógræktarfélagsins yfir megnri óánægju með þá töf sem orðið hefði á tengingu göngustígs til suðurs milli Gráhelluhrauns og Höfðaskógar en Hestamannafélagið dró kæruna til baka eftir fundinn. Ekki sér þó enn fyrir endann á þessu máli og ekki bólar á tengingunni.
Félagið sinnti áfram ruðningi á snjó á helstu gönguleiðum á svæðinu fyrstu mánuði ársins samkvæmt samningi við bæinn frá árinu á undan. Sá samningur var svo ekki endurnýjaður enda reyndist veturinn 2020/2021 óvenju snjóléttur.
Sumir skógarstígar voru breikkaðir í fyrra en Avant liðléttingurinn kom þar í góðar þarfir. Breiðari og sléttari stígar bæta útivistaraðstöðuna, bæta aðgengi hvað varðar alla skógarumhirðu og eru nauðsynlegir til að tryggja eldvarnir. Ennfremur var gróður snyrtur meðfram göngustígum, akvegum og reiðgötum í upplandinu í fyrra. T.d. var talsvert grisjað og uppkvistað í Gráhelluhrauni m.a. til að tryggja öryggi þeirra sem fara þar um á hestum.
Unnið var að grisjun skógarins í Selhöfða í byrjun árs í fyrra. Fékk félagið liðsstyrk til verksins en Orri Finnbogason hjá Trjáprýði og Hákon Aðalsteinsson unnu hjá okkur við grisjun í nokkra daga í fyrravetur. Var gott að fá þá og kynnast þeirra faglegu vinnubrögðum. Timbrið sem var mest fura var svo klofið í eldivið og kurlað en talsvert af efni féll til við grisjunina. Annika og Skúli Hansen hjálpuðu okkur einnig mikið við grisjun á árinu.
Í fyrra hlaut félagið samtals kr. 1.000.000,- styrk frá Landgræðslusjóði til grisjunar í Selhöfða og til kaupa á trjáplöntum sem gróðursettur voru á sjálfboðaliðadaginn í Hamranesi. Almenningsíþróttadeild Hauka styrkti félagið um kr. 250.000,- en hið árlega utanvegahlaup Hauka fer fram á umsjónarsvæði félagsins og hafa starfsmenn félagsins lagfært og haldið við stígum sem notaðir eru þegar hið vinsæla Hvítasunnuhlaup fer fram.
Félagið festi kaup á afkastamiklum eldiviðarkljúf í fyrra. Einnig kurlara sem ekki reyndist þó nógu öflugur og seldur.
Félagið skaffaði bænum greinaefni til að binda á stór hjörtu sem standa annars vegar við bókasafnið, Strandgötu og hins vegar í Hellisgerði. Kvenfélag Fríkirkjunnar í Hafnarfirðir fékk greinar hjá okkur til að nota við leiðisgreinagerð. Einnig gaf félagið Meðferðarheimilinu í Krýsuvík og Barnaspítalanum sitt hvort jólatréið. Þar að auki skaffaði félagið handverkskennurum í bænum greinar og viðarbúta.
Heimasíða félagsins var mikið uppfærð og skipt yfir í annað kerfi í fyrra.
Ég get fullyrt að aldrei nokkurn tíman hafi upplandið notið eins mikilla vinsælda og í fyrra. Suma daga var hreinlega umferðaröngþveiti á Hvaleyrarvatnsveginum. Heimsfaraldurinn á þar stóran hlut að máli. Líkamsræktarstöðvar og sundstaðir lokaðir. Margir sinntu vinnu heima við. Og svo eru skógarnir okkar víðfeðmir og hægt að dreifa sér um svæðið. Þetta þýddi aukna vinnu við hreinsun og eftirlit en félagið sér t.d. um losun á öllum ruslaílátum á svæðinu frá Kaldárseli, í Gráhelluhrauni, Vatnshlíð, við vatnið og við sparkvöllinn, Hamranesi. Bærinn leigir kamrana sem eru staðsettir í Sandvíkinni á sumrin. Bent var á skort á bílastæðum og símsambandi við Hvaleyravatn í Fjarðarfréttum í fyrrasumar. Tek ég undir það.
Sá ánægjulegi atburður gerðist um síðustu áramót að fjöldi félaga náði 1000 manns.
Ég vil nefna nokkra aðila sem styrktu okkur á árinu: Fjarðarkaup, Kjötkompaníið, Batteríið Arkitektar. Kærar þakkir.
Einnig vil ég þakka Skógræktarfélagi Íslands fyrir samstarfið. Þakkir til Landsvirkjunar, Vinnuskóla bæjarins og starfsmanna bæjarins sem aðstoðuðu okkur á árinu. Ekki má gleyma almenningsíþróttadeild Hauka.
Ég vil þakka sérstaklega Magnúsi Helgasyni, Línu og Svan, Þorkatli, Önnu og Kalla, Anniku og Skúla , Stefáni, Halldóru, Þórólfi og Þórólfsbörnum, Sveini Sigurjóns, Villa pípara, Ella, Arnari Helgasyni, Björk og Sölva, Hannesi Þór, Helenu Mörtu, Sóleyju Þráins., Katrínu Helenu, Bryndísi, Báru, Vigfúsi, Guðna Gíslasyni og öllum hinum sem hjálpuðu okkur eða styrktu á einn eða annan hátt.
Í lokin við ég þakka stjórn, samstarfsmönnum, endurskoðanda, skoðunarmönnum reikninga fyrir samstarfið á síðastliðnu ári.