Fundarstjóri, heiðursfélagar, kæru félagar og gestir.
Tíð var almennt góð síðast liðið ár. Veturinn var óvenju hlýr og ekkert frost í jörðu og var t.d. hægt að taka upp og gróðursetja meira og minna allan veturinn. Gróður kom almennt vel undan vetri og ekki gerði nein sérstök vorhret. Mikið bar á skemmdum á greni á árinu sökum sitkalúsar sérstaklega inn í þéttbýli. Skemmdir af völdum birkikembu voru áberandi í júní og á sérstaklega viðju af völdum asparglyttu síðsumars.
Almennt var ekki mikið af könglum á barrtrjám um haustið og ekki sérstaklega mikið fræ á birki heldur. Talsvert var þó af reyniberjum og nóg af fræi á sitkaelri og fleiri runnum.
Annað árið í röð vorum við svo heppin að engir eldar brutust út í skóglendum félagsins.
Fjöldi ungmenna starfaði hjá félaginu í fyrra sumar. 20 manna vinnuhópur frá Landsvirkjun starfaði hjá félaginu í júní og júlí. Yfirmaður hópsins í fyrra var Ríkharður Már Ellertsson.
Um 20 unglingar auk flokkstjóra störfuðu hjá félaginu á vegum Vinnuskóla Hfj. Störfuðu þau flest í um 4 vikur en flokkstjórarnir lengur. Flokkstjóri Vinnuskólans var Ísak Steingrímsson og aðstoðarflokkstjórar Anna Soffía, Breki, Guðrún Sunna, Sóley Dúfa og Aidarus.
Vinnuframlag ungmenna á vegum Landsvirkjunar og Vinnuskólans skiptir sköpum fyrir alla starfsemi félagsins og án þess væri ekki hægt að sinna öllum þeim verkefnum sem fylgja því að sinna stóru og vinsælu útivistarsvæði hér í upplandi bæjarins.
Aðalfundur félagsins var haldinn 30. mars hér í Hafnarborg. Eftir aðalfundarstörf flutti Hannes Þór Hafsteinsson erindi um sígrænar plöntur.
Laugardaginn 22. apríl stóð félagið fyrir göngu um Gráhelluhraun í tengslum við bæjarhátíðina „Bjarta dagar“.
Hin árlega fuglaskoðun félagsins fór fram laugardaginn 27. maí. Þess má geta að þann dag voru 70 ár liðin frá því fyrsta tréið var gróðursett í nafni félagsins í Gráhelluhrauni árið 1947.
Viðarvinir sem er hópur handverksfólks héldu sýningu í Þöll um vorið á renndum, tálguðum og útskornum munum úr tré undir yfirskriftinni „Nýtt og gamalt“.
Árni og undirritaður voru leiðsögumenn í göngu um Höfðaskóg, Kjóadalsháls, Seldal og víðar í byrjun september. Ferðafélag Íslands hafði frumkvæði að göngunni í tilefni af 90 ára afmæli FÍ. Um 100 manns mættu í þessa u.þ.b. 5 km göngu.
14. september bauð félagið upp á sveppafræðslu með Helenu Mörtu Stefánsdóttur. Sagði hún frá verkun og geymslu sveppa. Síðan var leitað að sveppum í skóginum í Selhöfða.
Laugardagsmorguninn 7. otkóber var svo efnt til gróðursetningar í Vatnshlíðarlund. 27 sjálfboðaliðar mættu og voru gróðursettar rúmlega eitt þúsund trjáplöntur, 3-4 ára af ýmsum tegundum. Charlie kom þar að auki með eitthvað af plöntum heiman frá sér. Boðið var upp á heita súpu í bækistöðvum félagsins að gróðursetningu lokinni.
Ljósaganga Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar og Skógræktarfélagsins fór fram þriðjudagskvöldið 24. október. Undirbúningsnefnd með Þóru Sverrisdóttur í broddi fylkingar hafði undirbúið kvöldið, skorið út grasker og komið sér fyrir í skóginum í allra kvikinda líki til að hrella mannskapinn í anda hrekkjavöku. Fjöldi manns tók þátt í göngunni og þótti viðburðurinn heppnast einstaklega vel. Krabbameinsfélagið bauð svo upp á heitt súkkulaði og kleinur í Þöll að göngu lokinni.
Jólatrjáa- og skreytingasala félagsins fór fram eins og vera ber í desember. Mest áhersla var lögð á helgarnar 9. og 10. og síðan 16. og 17. desember. Sveinn Sigurjónsson var óþreytandi við að skemmta gestum með harmonikkuleik. Marteinn Sindri Jónsson kom og flutti nokkur hugljúf jólalög. Allir fengu heitt súkkulaði og kex í boði Fjarðarkaupa. Fjöldi sjálfboðaliða kom að jólatrjáasölunni og er það ómetanlegt.
Starfsmenn félagsins sóttu fagráðstefnu Skógræktargeirans sem haldinn var í Hörpu dagana 23. og 24. mars. Þema ráðstefnunnar var rannsóknir.
Undirritaður kynnti starfsemi félagsins og fjallaði um uppgræðslu á fundi hjá Rótarýklúbbi Hfj og Lionsklúbbi Hfj síðastliðið vor.
Um miðjan maí tókum við á móti hópi eldri skáta í tengslum við Landsþing þeirra og gengum með þá um skóginn.
Guðrún Ástvaldsdóttir garðyrkjufræðingur stofnaði hóp á árinu sem hún nefndi Paradísarheimt. Markmið verkefnisins er vinna að skógrækt og uppgræðsu sem lið í bataferli þeirra sem glímt hafa við andleg veikindi. Paradísarheimt fékk landnemapildu við gamla Kaldárselsveginn til að sinna þessu verkefni. Einnig fékk félagsskapurinn aðstöðu til að funda í bækistöðvum félagsins.
Undirritaður sat nokkra fundi Yrkisnefndar á árinu.
Starfsmenn félagsins sóttu málþing um ræktun berjarunna sem haldið var á Hótel Sögu í mars.
Jökull sótti tveggja daga námskeið í húsgagnagerð úr skógarefni sem haldið var á Snæfoksstöðum í mars og námskeið í grjóthleðslu í apríl.
Leikskólinn Norðurberg kom með nemendur sína í skóginn til útikennslu nokkrum sinnum á árinu og fengu þau að nota aðstöðu félagsins til að matast. Nemendur í leikskólanum Hvammi komu í heimsókn í júní og gróðursettu eitt tré í skóginum.
Íþróttabandalag Hafnarfjarðar hélt lokafund sinn og efndi síðan til grillveislu í bækustöðvum Skógræktarfélagsins í apríl.
4. bekkur Áslandsskóla heimsótti félagið í maí til að fræðast um plöntuuppeldi og skógrækt. 7. bekkur úr Víðistaðaskóla kom í lok maí í sömu erindagjörðum og fengu að grilla á hlaðinu við Þöll.
8. bekkur úr Öldutúnsskóla kom í byrjun júní og gróðursettu nemendur Yrkju-plöntur í landnemaspildu skólans á Kjóadalshálsi.
NÚ, grunnskóli fyrir 8. – 10. bekkinga, fékk úthlutað landnemaspildu á árinu og komu um 30 nemendur og gróðursettu fyrstu trjáplönturnar í vor.
Félagar í hinum nýstofnaða „Sígræna klúbb“ Garðyrkjufélags Íslands heimsóttu félagið í júní.
Nemendur ásamt kennara frá Landbúnaðarháskólanum á Reykjum, Ölfusi heimsóttu félagið og Þöll í lok október.
Eins og svo mörg undanfarin ár kom sendinefnd frá Cuxhaven, vinarbæ Hfj, í heimsókn fyrstu helgina í aðventu í tengslum við afhendinga á jólatré sem stendur við Óseyrarbryggju. Vel var tekið á móti þeim í Þöll, ræður fluttar, skipst á gjöfum og bauð félagið upp á veitingar.
Nemendur úr leikskólunum Stekkjarási, Víðvöllum, Hlíðarbergi og Hvammi komu fyrir jólin og sóttu sér jólatré í skóginn. Félagið bauð svo krökkunum upp á heitt kakó á eftir og allir tóku lagið.
Félagið gaf Fjölgreinadeild Lækjarskóla og Meðferðaheimilinu Krýsuvík sitt hvort jólatréið.
Actavis styrkti félagið á árinu með því skilyrði að plantað yrði í landnemaspildu fyrirtækisins í Klifsholtum sem var gert um sumarið.
Starfsmenn Hlaðbær-Colas komu á árinu og gróðursettu í landnemaspildu sína við Fremsta Höfða. Það sama gerðu starfsmenn Batterísins Arkitekta.
10 sjálfboðaliðar frá Íslandsbanka komu og hjálpuðu til um miðjan júní.
Í lok júlí komu samtals 180 ungir skátar í sjálfboðavinnu hjá félaginu. Hver starfaði í um 3 klst. Vera þeirra hér var í tengslum við „World Scout Moot“ heimsmót róverskáta.
Hjónin Halldóra Halldórsdóttir og Þórólfur gáfu félaginu nýtt sexhjól með aukabúnaði síðastliðið sumar. Hefur hjólið nýst félaginu sérlega vel í alls konar flutninga og snúninga. Ég vil færa þeim heiðurshjónum sérstakar þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf.
Lionsklúbbur Hafnarfjarðar afhenti félaginu þrjá glæsilega áningarbekki síðastliðið sumar sem komið var fyrir við Hvaleyrarvatn. Bekkirnir voru færðir félaginu í tilefni 100 ára afmælis Lionshreyfingarinnar. Hafa bekkir þessir komið sér vel fyrir alla þá sem hafa unun af því að ganga í kringum vatnið.
Tré ársins var útnefnt af Skógræktarfélagi Íslands síðasta laugardaginn í júlí. Var það fallegt beykitré í Helligerði sem var þess heiðurs aðnjótandi.
Guðríður Helgadóttir kom ásamt tökuliði frá Rúv og tók upp efni fyrir þáttinn „Í garðinum með Gurrý“ í ágúst.
Afhending fegrunarviðurkenninga Hafnarfjarðar, Snyrtileikinn 2017, fóru fram við bækistöðvar félagsins í byrjun september.
Aðalfundur SÍ fór fram 25. – 27. ágúst að Stóru-Tjörnum í S-Þingeyjarsýslu.
Stjórn og starfsmenn félagsins fóru saman til Krýsuvíkur ásamt Birni Guðbrandi í byrjun nóvember til að skoða uppgræðslu Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs.
Félagið leigði færanlega salernisaðstöðu af Gámaþjónustinni í júní og júlí sem komið var fyrir á svokölluðu „Værðarplani“ en aðeins eitt salerni er í bækistöðvum félagsins.
Starfsmenn félagsins felldu talsvert af trjám um vorið að beiðni bæjarins vegna nýs göngu- og hjólreiðstígs sem lagður var í fyrra frá Hlíðarþúfum og að Hvaleyrarvatnsvegi. Samið var um bætur við bæjaryfirvöld og greiðslu vegna trjáfellingarinnar.
Talsverð vinna var lögð í grisjun og snyrtingu skógarins í Gráhelluhrauni síðastliðið ár. Félagið fékk styrk úr Landgræðslusjóði til verksins.
Göngustígar í Höfðaskógi voru lagfærðir á árinu. Illgresi var fjarlægt og bætt í þá efni.
Unnið var að endurbótum á stígnum í kringum vatnið en hluti hans var undir vatni fram á vor. Var hann hækkaður á köflum. Mikið af grjóti var hlaðið undir hann og leirblönduð möl síðan sett ofan á. Þar af leiðandi hefur þessi vinsæla gönguleið ekkert farið undir vatn í vetur.
Lagður var stígur frá Skátalundi og niður af vatni að ósk Gildisskáta. Einnig var byrjað á stíg sem liggur frá hliðinu að Skátalundi og niður í gegnum skóginn hjá Gildisskátum.
Stígur sem liggur frá Seldalsvegi og niður í botn Seldals var kláraður á árinu.
500 tonnum af leirblandaðri möl var keyrt í stíga í fyrra. Þar kom sexhjólið í góðar þarfir en annars er öll möl flutt með hjólbörum.
Tæplega 50.000 trjáplöntur voru gróðursettar í Seldal, Vatnshlíð og víðar um upplandið af starfsmönnum félagsins og sjálfboðaliðum síðastliðið ár. Mest var gróðursett af sitkagreni, alaskaösp, reynivið, birki og gulvíði.
Mikil vinna fór í hreinsun. Sérstakur samningur milli bæjarins og félagsins er gerður um hreinsun upplandsins í byrjun hvers árs. Rusl er tínt meðfram vegum, við áningarstaði og meðfram göngustígum. Grillin eru hreinsuð reglulega yfir sumartímann og ruslaílát við Hvaleyrarvatn og í Gráhelluhrauni losuð reglulega. Jafnvel þarf að losa ruslaílátin við vatnið tvisvar á dag á góðviðrisdögum yfir sumarið þvílíkur er mannfjöldinn. Skýrslu er skilað til starfsmanna „Umhverfis og skipulagsþjónustu bæjarins“ hálfs mánaðarlega yfir sumartímann og mánaðarlega að vetri til varðandi umhverfisvaktina.
Varp flórgoða var staðfest í fyrsta skipti á Hvaleyrarvatni svo vitað sé. Um var að ræða 2 pör. Einhverjir ungar komust á legg. Mikið bar á krossnef í skóginum í fyrra og virðist hann vera búin að festa sig í sessi sem árviss varpfugl á svæðinu.
Nú ég þarf ekki að tíunda við ykkur ágæti skóga. Eyðing skóga er talin vera ein helsta umhverfisváin í dag. Skógar binda koltvísýring sem er ein helsta gróðurhúsalofttegundin, þeir framleiða súrefni, draga úr hættu á skriðuföllum, miðla vatni og næringarefnum, binda svifryk, skapa skjól, skapa efnisleg verðmæti og standa fyrir enn fleiri vistkerfisþjónustum.
Viðburðadagatal félagsins er nokkurn vegin tilbúið fyrir árið í ár. Það verður ýmislegt í boði svo fylgist með á heimasíðu félagsins eða fésbókarsíðu. Einnig sendum við alltaf fréttatilkynningar á bæjarblöðin ef eitthvað sérstakt er um að vera. Ég get nefnt að 21. apríl verður fuglaskoðun í tengslum við bæjarhátíðina „Bjarta daga“. Skógarhátíðin „Líf í lundi“ verður haldin hátíðleg um land allt seinni part júní og svo framvegis. Svo fylgist með.
Ég vil þakka sérstaklega Marselínu Pálsson, Svani, Önnu Margréti Carteciano, Þorkatli, Friðriki Bergsveinssyni, Halldóri og Gunnari Þórólfssonum, Isabellu, Sveinn Sigurjónsson, Sigurjóni Ingvarssyni, Einari Óskarssyni, Sölva Steinarri og Björk, Vilhjálmi Bjarnasyni, Magnúsi Helgasyni, Skúla Hanssen og Anniku sem m.a. gáfu félaginu uppþvottavél á árinu, Þóru Sverridóttur, Arnari Helgasyni, Charlie, Halldóru og Þórólfi.
Ég vil þakka stjórninni fyrir samstarfið, endurskoðanda félagsins, skoðunarmönnum reikninga og samstarfsmönnum mínum. Ég vil þakka starfsmönnum bæjarins sem hafa reynst okkur hjálplegir á árinu. Sérstakar þakkir til Ragnhildar Freysteinsdóttur hjá Skógræktarfélagi Íslands og til Fjarðarkaupa fyrir stuðninginn. Og svo auðvitað þakkir til ykkar kæru félagar. ÉG færi ykkur mínar bestu þakkir fyrir hönd Skógræktarfélags Hfj og Þallar fyrir óeigingjarnt starf og stuðning við félagið.