Fundarstjóri, heiðursfélagar, kæru félagar og gestir.
Árið var að flestu leyti hefðbundið hvað varðar starfsemi félagsins.
Veðrið var aftur á móti all sérstakt. Það meira og minna rigndi allan maí, júní og júlí mánuð. Ágúst var klárlega besti sumarmánuðurinn hér suðvestanlands. Haustið var frekar millt þó að fyrsta frostið kæmi strax í lok ágúst hjá okkur í Þöll þannig að vaxtartíminn var því stuttur því ekki voraði heldur sérstaklega snemma.
Þriðja árið í röð vorum við svo heppin að engir gróðureldar brutust út. Á tíðin stóran þátt í því.
Nóvember og desember voru einstaklega mildir og því auðvelt með alla útivinnu og undirbúning fyrir jólavertíðina. Það er einnig orðið þannig að gróðursetningartíminn og þar að leiðandi plöntusala í Þöll rennur orðið saman við undirbúning jólatrjáasölunnar.
Um 20 manna vinnuhópur frá Landsvirkjun starfaði hjá okkur í júní og júlí eins og svo mörg undanfarin ár. Flokkstjóri var Ríkharður Már Ellertsson.
Einnig störfuðu um 15 ungmenni hjá okkur í sumar á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Flokkstjóri var Svanhvít Ásta Jónsdóttir.
Hópur á vegum „Seeds“ sjálfboðaliða-samtakanna starfaði hjá okkur í tvo daga í júlí. Var þetta um 10 manna hópur frá Bandaríkjunum. Þetta voru dugnaðarforkar sem m.a. unnu við stígagerð og gróðursetningu.
Aðalfundur félagsins var haldinn hér í Hafnarborg þann 22. mars. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum kynnti Björn Guðbrandur Jónsson starfsemi samtakanna „Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs“ og síðan flutti Helena Marta Stefánsdóttir erindi sem hún nefndi „Matsveppirnir í skóginum“.
Hin árlega fuglaskoðun félagsins fór fram laugardaginn 21. apríl í tengslum við bæjarhátíðina „Bjarta daga“. Hannes Þór Hafsteinsson og undirritaður voru leiðsögumenn. M.a. sáust flórgoðar á Hvaleyrarvatni og verptu þeir í víðikjarri við vatnsbakkann annað árið í röð.
Viðarvinir, hópur handverksfólks með Sigurjón Ingvarsson í broddi fylkingar hélt sýningu á ýmsum fallegum munum unnum úr trjáviði í bækistöðvum félagsins í byrjun júní.
Fjölskylduhátíðin „Líf í lundi“ fór svo fram laugardaginn 23. júní. Dagurinn var skipulagður af Skógræktarfélagi Íslands og tóku skógræktarfélög og fleiri aðilar um land allt þátt. Við buðum upp á ratleik fyrir yngstu kynslóðina og Árni var leiðsögumaður í skógargöngu. Íshestar buðu krökkum á hestbak í bækistöð sinni við Sörlaskeið. Félagið bauð upp á veitingar í Þöll. Tókst dagurinn einstaklega vel og var mæting góð. Svona fjölskyldudagar í skógum aðildarfélaga Skógræktarfélags Íslands eru að mínu viti mikilvægir til að vekja athygli á starfsemi skógræktarfélaganna hringinn í kringum landið. Undirritaður sat í undirbúningsnefnd vegna „Lífs í lundi“ og sat því fundi í tengslum við undirbúnings dagsins. Jón Ásgeir Jónsson hjá Skógræktarfélagi Íslands hélt utan um undirbúning „Lífs í lundi“. Dagurinn var sérstaklega kynntur á skógargáttinni, skogargatt.is. Arion banki styrkti verkefnið.
Sjálfboðaliðadagur félagsins fór fram laugardagsmorguninn 15. September. Gróðursettar voru …..2-4 ára birki-, aspar- og gráelriplöntur í Hamranesi nánar tiltekið í stóra jarðvegstippinn þar sem öskuhaugar bæjarins voru áður staðsettir. Um 20 hressir sjálfboðaliðar mættu og bauð félagið svo upp á heita súpu í Þöll að gróðursetningu lokinni.
Þriðjudagskvöldið 30. október stóð félagið fyrir kvöldgöngu í anda hrekkjavöku í samstarfi við Krabbameinsfélag Höfuðborgarsvæðisins. Nokkrir vinir skógræktarfélagsins höfðu staðið fyrir undirbúningi þessa kvölds. Þegar komið var að göngunni þetta umrædda kvöld komu viðkomandi aðilar sér fyrir í skóginum í líki alls kyns furðuvera og skutu göngufólki skelk í bringu. Um 100 manns mættu í gönguna og gengu í gegnum skóginn með leiðsögn Dracula greifa. Að göngu lokinni bauð Krabbameinsfélagið upp á heitt súkkulaði og kleinur í Þöll. Þótti viðburður þessi takast einstaklega vel.
Í desember stóð svo félagið fyrir jólatrjáa- og skreytingasölu eins og endranær. Sveinn Sigurjónsson kom og lék á harmonikku og Marteinn Sindri Jónsson flutti nokkur hugljúf lög í anda aðventunnar. Boðið var upp á heitt súkkulaði og kex í boði Fjarðarkaupa. Fjöldi sjálfboðaliða kom að jólatrjáasölunni.
Fjöldi aðila heimsótti félagið á árinu. Stjórn Landgræðslusjóðs heimsótti okkur um miðjan janúar og skoðuðu m.a. góðan árangur skógræktar í Vatnshlíðarlundi en Landgræðslusjóður hefur styrkt það verkefni rausnarlega síðastliðin ár.
Nokkrir háskólastúdentar fengu að nota bækistöðina okkar í mars-mánuði við atferlisrannsóknir á fuglum á fóðurbrettinu við Þöll.
Nokkrir fyrrverandi tæknimenn hjá Ísal fengu að nota aðstöðuna okkar í maí og fengu fræðslu um starfsemi félagsins í leiðinni.
Starfsmenn Verslunarskóla Íslands heimsóttu okkur í maílok og fengu kynningu á starfsemi félagsins og leiðsögn um skóginn.
4. bekkur í Áslandsskóla heimsótti félagið í byrjun júní í tengslum við nám þeirra í náttúrufræði.
Nemendur frá Leikskólunum Hvammi og Víðvöllum heimsóttu okkur síðastliðið sumar og gróðursettu m.a. nokkur tré í Höfðaskógi. Leikskólinn Norðurberg hélt uppteknum hætti og kom með nemendur í skóginn nokkrum sinnum allan veturinn og fengu krakkarnir svo að nærast í bækistöð félagsins.
Hópur sérfræðinga sem kallar sig „Nordic Arboretum Comittee“ heimsótti okkur um verslunarmannahelgina. Fyrir hönd Íslands eru í hópnum Samson B. Harðarson og Steinunn hjá Yndisgörðum og L.b.hÍ. Hjörtur hjá Grasagarði Reykjavíkur mætti einnig. Gengið var um Þöll og skóga félagsins og þátttakendur fræddir um starfsmeni Skógræktarfélagsins.
Í byrjun ágúst heimsótti hópur kvenna frá Garðyrkjufélagi Skagafjarðar okkur.
Hópur nemenda við Landbúnaðarháskóla Íslands kom í námsferð í lok ágúst til að fræðast um tré og skógrækt.
Rick Durand frá Gróðrarstöðinni Bylands í Kanada kom við hjá okkur í byrjun september ásamt Vilhjálmi Lúðvíkssyn og Þorsteini Tómassyni. Durand var hér í boði Garðyrkjufélags Íslands og flutti erindi varðandi trjákynbætur hjá Garðyrkjufélaginu.
Hópur nemenda á útivistarnámskeiði í Háskóla Íslands kom við hjá okkur í lok september og fékk fræðslu um útivistarskógrækt.
Nemendur í Flensborg komu í heimsókn síðastliðið haust ásamt fulltrúa samtakanna „Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs“ og fengu fræðslu um skógrækt.
Árni sótti námskeið í viðburðastjórnun fyrir skógræktarfólk á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands í lok mars.
Fagráðstefna Skógræktar-geirans fór fram á Akureyri dagana 10. til 12. apríl. Yfirskrift ráðstefnunnar var „fræöflun og trjákynbætur“. Árni fór norður og tók þátt fyrir hönd okkar félags.
Við Árni sóttum undirbúningsfund vegna jólatrjáa-vertíðarinnar sem Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir og haldinn var að Elliðavatni.
Styrkir: fengum rekstrarstyrk upp á kr. 200.000,- frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Almenningsíþróttadeild Hauka styrkti félagið með kr. 200.000,- framlagi til uppbyggingar á stígum sem nýtast í hinu árlega utanvegahlaupi Hauka um Hvítasunnuna. Isavia veitti félaginu styrk upp á kr. 250.000,- til skógræktar í Hamranesi. Við Gyða fórum saman í júní og tókum á móti styrknum út í Leifsstöð. Landgræðslusjóður styrkti félagið um kr. 200.000,- og var styrkurin notaður til gróðursetningar í hlíðarnar þar sem sorphaugar bæjarins voru staðsettir hér áður fyrr, skammt fyrir sunnan Hamranes. Ennfremur fékk félagið styrk úr Minningarsjóði Hjálmars og Else Bárðarson upp á kr. 300.000. Var styrkurinn notaður til gróðursetningar í Vatnshlíðarlundi. Einnig fengum við styrk á árinu úr Landgræðslusjóði til að útbúa skilti til merkingar á trjám í Trjásafni félagsins. Búið er að útbúa um 200 skilti sem á svo eftir að koma fyrir.
Félagið sótti um að loka Hvaleyrarvatnsvegi yfir áramótin vegna óspekta og sóðaskapur sem hefur aukist við vatnið síðastliðin ár í kringum áramót. Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkti erindið með 3 atkvæðum gegn 2 að loka veginum yfir nýarsnótt og nóttina eftir þrettándann. Gaf það góða raun.
Félagið sótti um að fá að rækta upp gamla malarnámu við Bláfjallaveginn í Undirhlíðum. Erindinu var hafnað af Umhverfis- og framkvæmdaráði á grundvelli umsagnir Heilbrigðiseftirlitsins sem taldi ótímabært að verða við erindinu fyrr en niðurstöður úr rannsóknum liggja fyrir hvað varðar öryggi vatnsbóla á svæðinu.
Félagið færði Elínu Harðardóttur blómaskreytingu og inneign í Þöll á 60 ára afmæli hennar í mars en foreldrar hennar þau Hörður og Ásthildur voru dyggir félagar í Skógræktarfélagi Hfj og færðu því á sínum tíma peningagjöf sem notuð var til að byggja upp útikennslustofu í Höfðaskógi. Þau ræktuðu upp fallega landnemaspildu við gamla Kaldárselsveginn. Einnig var Hörður gjarnan fundarstjóri á aðalfundum félagsins auk þess sem þau hjón fluttu stundum ljóð og kvæði á samkomum félagsins.
Í lok mars lánaði Skógræktarfélagið Félagi eldri borgara nokkrar plöntuskreytingar og ók þeim niður í Haukahús þar sem aðalfundur Félags eldri borgara fór fram.
Félagið gaf Meðferðarheimilinu Krýsuvík veglegt jólatré á aðventu.
Fegrunarverðlaun Hafnarfjarðar, Snyrtileikinn 2018, voru afhent við hátíðlegt tækifæri í Þöll í lok ágúst. Starfsmenn bæjarins sjá alfarið um val verðlaunahafa og framkvæmd alla í tengslum við „Snyrtileikann“. Við lánum aðeins aðstöðuna og auðvitað fengu allir plöntur í verðlaun.
Baháar fengu landnemaspildu við gamla Kaldárselsveginn í fyrra og gróðursettu talsvert í kjölfarið. Starfsmenn VSB-verkfræðistofu komu og gróðursettu í sína landnemaspildu upp í Klifsholtum. Nemendur, „NÚ – framsýn menntun“ grunnskóli fyrir 8. – 10. bekkinga, komu og gróðursettu í sína landnemaspildu í fyrra. Áslandsskóli fékk plöntur í gegnum Yrkjusjóð og gróðursetti í grenndarskóg í nágrenni skólans. 7. bekkur í Víðistaðaskóla kom og gróðursetti m.a. yrkjuplöntur í sína landnemaspildu við Kjóadalsháls. Nemendur Sérgreinadeildarinnar í Lækjarskóla kom einnig og gróðursettu í sína landnemaspildu skammt sunnan af Kjóadal. Starfsmenn „Batterísins Arkitekta“ komu og gróðursettu í sína landnemaspildu. Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar kom og gróðursettu félagar í sína spildu í Klifsholtum. Starfsmenn malbikunarstöðvarinnar „Hlaðbær – Colas“ komu og góðursettu í sína landnemaspildu við Fremsta Höfða.
Um miðjan ágúst hittust afkomendur Halldóru Halldórsdóttur og Þórólfs Þorgrímssonar í Þöll. Síðan var gróðursett í „Dórulund“ í Höfðaskógi og grillað á eftir. Halldóra og Þórólfur gáfu félaginu árið 2017 forláta sexhjól ásamt aukabúnaði og hefur hjólið nýst félaginu sérstaklega vel í allt mögulegt eins og plöntuflutninga, snjóruðning og margt fleira. Afkomendur Halldóru og Þórólfs hafa látið útbúa bekk með áletrun sem koma á fyrir í „Dórulundi“ í vor.
Ég vil í lokin þakka nokkrum aðilum sérstaklega Marselínu Pálsson, Svani, Önnu Margréti Carteciano, Þorkatli eldri og yngri, Friðriki Bergsveinssyni, Halldóri, Gunnari og Snorra Þórólfssonum, Sveini Sigurjónssyni, Sigurjóni Ingvarssyni, Einari Óskarssyni, Sölva Steinarri og Björk, Vilhjálmi Bjarnasyni, Magnúsi Helgasyni, Arnari Helgasyni, Skúla Hanssen, Anniku, Ásgeiri, Ylfu, Raven, Hannesi Þór og svo auðvitað Halldóru og Þórólfi.
Ég þakka stjórninni fyrir samstarfið á árinu, endurskoðanda félagsins, skoðunarmönnum reikninga og samstarfsmönnum. Sérstakar þakkir til Landsvirkjunar, Vinnuskólans og Seeds fyrir samstarfið. Ég við þakka starfsmönnum bæjarins sem hafa reynst okkur hjálplegir. Sérstakar þakkir til Ragnhildar Freysteinsdóttur hjá Skógræktarfélagi Íslands. Sérstakar þakkir til Fjarðarkaupa fyrir stuðninginn. Svo sérstakar þakkir til ykkar kæru félagar. Ég færi ykkur mínar bestu þakkir fyrir hönd Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar fyrir óeigingjarnt starf og stuðning við félagið.