Fundarstjóri, skógræktarstjóri, heiðursfélagi, kæru félagar og gestir.
Veðurfar var talsvert rysjótt síðastliðið ár. Hvert óveðrið á fætur öðru gekk yfir landið sérstaklega seinni part vetrar. Um miðjan mars fauk plastdúkurinn af stóra gróðurhúsinu okkar, Höfðaborg, nánast í heilu lagi. Nokkuð var um að birki, viðja og annar víðir brotnaði eða legðist á hliðina í þessum stormum.
Það voraði óvenju seint. Maí var kaldur og þurr og einkenndist af langvarandi norðanáttum. Skógurinn fór ekki að grænka að ráði fyrr en komið var vel fram í júní. Af þeim sökum fór plöntusala í Þöll seint af stað. Á móti kom að plöntusala var góð langt fram á haust og með besta móti í það heila þegar upp var staðið. Seinni hluti sumars var tiltölulega hlýr og sólríkur og var trjávöxtur nokkuð góður. Frekar lítið var af trjáfræi um haustið og er þetta annað árið í röð þar sem lítið er af birkifræi.
Tvisvar braust út eldur í skóglendum félagsins í fyrra-vor. Þann 5. maí kveiknaði í gróðri í vestanverðum Selhöfða og brann rúmlega 500 m2 svæði þar sem nýlega höfðu verið settar niður alls kyns furutegundir. Litlu munaði að eldurinn bærist í „gamla“ stafafuruskóginn sem klæðir vestur og norðurhlíðar Selhöfða. Þann 3. júní kveiknaði svo í skógi í landnemapildu Kiwanisklúbbsins Eldborgar í Klifsholtum. Þar brann talsvert af stálpuðum trjágróðri m.a. um 30 ára furu- og grenitré. Er þetta mjög tilfinnanlegt trjón fyrir þá Eldborgarfélaga. Undirritaður hélt erindi um skógræt hjá klúbbnum um haustið þar sem Skógræktarfélagið bauðst til að saga niður skemmd tré í Eldborgar-reitnum. Það var svo framkvæmt nýlega. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom og slökkti eldinn í Selhöfðanum og í Klifsholtum en í báðum tilvikum hefði getað farið miklu ver. Eiga þeir miklar þakkir skyldar hjá slökkviliðinu fyrir skjót viðbrögð og fagmannleg vinnubrögð. Um íkveikju var að ræða í báðum tilvikum en ekkert er um það vitað hverjir voru þarna að verki.
Meindýr og sjúkdómar voru með minnsta móti í skóginum á síðast liðnu ári. Minna bar á asparglyttu, birkikembu og ertuyglu samanborið við undanfarin ár. Ekki er ósennilegt að kalt vor ráði þar einhverju um.
Talsvert var unnið við grisjun á árinu sérstaklega í norðanverðum Undirhlíðum (Kúadalsgirðingu) þar sem nokkrir hektarar skóglendis frá sjöunda áratug síðustu aldar voru grisjaðir m.a. fyrir styrk úr Landgræðslusjóði. Þar sem búið er að loka akleiðinni yfir Kaldánna inn með hlíðunum enda um vatnsverndarsvæði að ræða var haft samband við bæjaryfirvöld sem opnuðu leiðina tímabundið. Einnig var skógurinn í norður- og vesturhlíðum Selhöfða talsvert grisjaður.
Fjöldi ungmenna starfaði hjá félaginu síðastliðið sumar. Landsvirkjun lagði félaginu til um 20 manna hóp á aldrinum 16 – 20 ára sem starfaði hjá félaginu í 8 vikur þ.e.a.s. í júní og júlí. Yfirskrift þessa samfélagsverkefnis Landsvirkjunar er „margar hendur vinna létt verk“. Félagið hefur notið samsvarandi vinnuframlags af hálfu Landsvirkjunar í yfir 15 ár. Yfirmaður hópsins í fyrra var Sunna.
16 unglingar auk flokkstjóra störfuðu hjá félaginu í sumar á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Elstu unglingarnir þ.e.a.s þau á 16. ári störfuðu í 4 vikur en þau yngri skemur. Erna Aradóttir, Rannveig Tera Þorfinnsdóttir og Sævar Már Gústavsson voru flokkstjórar unglingavinnuhópsins og störfuðu þau hvert og eitt í rúmar 6 vikur hjá félaginu. Verkherinn var einnig hjá okkur nokkra daga í sumar en Verkherinn er vinnuhópur á vegum bæjarins fyrir fötluð ungmenni.
Þetta vinnuframlag Landsvirkjunar, Vinnuskólans og Verkhersins skiptir sköpum fyrir alla starfsemi félagsins yfir sumarmánuðina. Ég vil nota tækifærið og þakka Landsvirkjun, Vinnuskóla Hafnarfjarðar og Verkhernum fyrir þeirra framlag og öllum þeim ungmennum sem störfuðu hjá félaginu fyrir þeirra störf.
Sjálfboðaliðastarf hefur alltaf skipað stóran sess í starfsemi félagsins. Fjöldi sjálfboðaliða kemur að jólatrjáasölu félagsins og undirbúningi hennar. Auk stjórnarliða vil ég nefna bræðurna Gunnar og Halldór Þórólfssyni, Arnar Helgason, Rúnar Björnsson, Isabellu Praher, Pétur Sigurðsson,Svan Pálsson, Marselínu Pálsson, Margréti Sigríði Þórisdóttur, Rakel Kristjánsdóttur og Vilhjálm Bjarnason. Sigurjón Ingvarsson hjálpaði okkur eins og venjulega að koma vatni á gróðrarstöðina um vorið og taka það svo af um haustið. Þorkell Þorkelsson safnaði talsverðu trjáfræi og færði félaginu eins og hann hefur gert svo margoft áður. Friðrik Bergsveinsson hefur verið okkur innan handar með hvers konar viðhald á fasteignum félagsins. Einar Óskarsson hefur aðstoðað okkur við að koma upp og halda við útikennslustofunum í Höfðaskógi og Gráhelluhrauni. Ragnar Jónsson og félagar hans hjá Vatnsveitunni voru einnig hjálplegir. Kaj Skúli Hansen hefur einnig lagt okkur lið auk margra annarra.
Tveir sjálfboðaliðar frá Íslandsbanka í Hafnarfirði þær Guðbjörg Líndal Jónsdóttir og Kristjana Jakobsdóttir komu og unnu með okkur einn dag í lok maí. Sólveig Þórstína Runólfsdóttir starfaði hjá okkur nokkrar vikur í lok ársins í gegnum Starfsendurhæfingu Hfj og hélt svo áfram á nýju ári. Ég vil þakka öllum sjálfboðaliðum sem lagt hafa félaginu lið á einn eða annan hátt kærlega fyrir þeirra framlag.
Gústaf Jarl Viðarsson starfsmaður Skógræktarfélags Rvk kom til okkar í október á dráttarvél SR með öflugum kurlara ásamt tveimur dönskum skógfræðistúdentum. Kurluðu þeir heilmikið efni í Selhöfðanum sem fallið hafði til fyrr á árinu við grisjun. Kurlið verður svo notað í stíga. Hugmyndin er að SR fái plöntur hjá okkur í staðin.
Síðastliðið ár var boðið upp á nokkra auglýsta viðburði á vegum félagsins beint eða óbeint auk annarra viðburða á svæðinu.
Aðalfundur var haldinn hér í Hafnarborg 26.mars. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum voru sýndar gamlar og nýjar ljósmyndir úr starfi félagsins og af skóglendum þess í gegnum tíðina. Gjarnan voru bornar saman eldri og yngri myndir af sömu svæðum svo betur mætti átta sig á þeirri breytingu sem orðið hefur.
Við Jökull gróðursettum nokkur ávaxtatré og rósir í Hellisgerði sem var um leið sýnikennsla fyrir og að beiðni „Hollvina Hellisgerðis“ á sumardaginnn fyrsta.
Vorganga var laugardagin 25. apríl. Gengið var um skóginn í Gráhelluhrauni í köldu veðri. Gangan var hluti af bæjarhátíðinni „Bjartir dagar“ sem fram fóru 23. – 25. apríl.
Hið árlega Hvítasunnuhlaup Hauka fór fram annan í Hvítasunnu en hlaup þetta er mjög vinsælt og var kosið annað besta utanvega-hlaup landsins í fyrra. Hlaupið er frá Ásvöllum og eftir hinum svokallaða Gunnarsstíg yfir hæðirnar að Hvaleyrarvatni og um Höfðaskóg og til baka.
Hin árlega fuglaskoðun félagsins fór fram laugadaginn 30. maí. Minnna sást af fuglum en oft áður og sást t.d. enginn glókollur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að lokka hann fram með því að spila hljóð hans úr síma.
Handverkshópurinn „Viðarvinir“ voru með handverkssýningu á tálguðum og renndum munum úr tré í bækistöðvum félagsins þann 6. júní. Er þetta sjötta árið í röð sem Viðarvinir sýna hjá okkur. Eins og venjulega var mikið af fallegum munum til sýnis enda ekki við öðru að búast af þessum flinka hóp.
Laugardaginn 27. júní voru gróðursett nokkur birkitré í svokallaðan Vigdísarlund á Víðistaðatúni í tilefni þess að 35 ár voru liðin frá því að frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti. Skógræktarfélag Íslands skipulagði samskonar gróðursetningar víða um land. Skógræktarfélag Hfj kom að viðburðinum hér í Hfj ásamt garðyrkjustjóra.
Fimmtudagskvöldið 2. júlí var ganga um Hellisgerði þar sem undirritaður var leiðsögumaður. Gangan var ein af mörgum svokölluðum menningargöngum sem skiplagðar voru af Hafnarborg yfir sumarið og eru samstarfsverkefni nokkurra aðila.
Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar var haldinn laugardaginn 25. júlí. Séra Kjartan Jónsson flutti hugvekju í upphafi dagskrár. Síðan gekk Jónatan Garðarsson formaður félagsins með gesti um Höfðaskóg og nágrenni. Íshestar buðu yngstu kynslóðinni á hestbak í gerðinu við bækistöðvar sínar. Þórður Marteinsson lék á harmonikku, ÍTH stóð fyrir leikjum fyrir börnin og félagið stóð fyrir skógargetraun. Svo var auðvitað heitt á könnunni og í kolunum við bækistöðvar félagsins og Þallar við Kaldárselsveg.
Sjálfboðaliða-gróðursetningardagurinn var sunnudagsmorguninn 27. september. Gróðursettar voru um 1.700 trjáplöntur, 3 – 4 ára úr pottum af 34 mismunandi tegundum í Vatnshlíðarlund til minningar um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson. Framtak þetta er styrkt af ræktunarsjóði Hjálmars og Else sem er í vörslu Landgræðslusjóðs. Um 30 sjálfboðaliðar á öllum aldri mættu þennan sunnudagsmorgun. Verkið tók um 2 klukkustundir. Að því loknu bauð félagið upp á súpu í bækistöðvum sínum. Er þetta 5. árið í röð sem gróðursett er í Vatnshlíðarlund á sjálfboðaliðadaginn. Svona sjálfboðaliðadagar eru nú orðnir af föstum lið í starfsemi félagsins og setja skemmtilegan svip á starfsemi félagsins og eflir sannarlega félagsandann.
Þriðjudagskvöldið 6. október stóð félagið ásamt Krabbameinsfélagi Hafnarfjarðar fyrir svokallaðri ljósagöngu um Höfðaskóg. Fjöldi manns mætti þrátt fyrir rigningu. Anna Borg Harðardóttir formaður Krabbameinsfélags Hfj flutti ávarp við upphaf göngu. Gengið var um skóginn í myrkrinu en mælst er til þess að þátttakendur mæti með vasaljós eða önnur ljósfæri í þessa göngu sem er orðinn fastur liður í dagskrá félagsins. Leiðsögumaður var Steinar Björgvinsson en Jökull Gunnarsson skemmti börnunum. Að göngu lokinni bauð Krabbameinsfélagið upp á heitt súkkulaði og kleinur í Þöll.
Laugardagsmorguninn 24. október var ganga um íbúðahverfið og skóginn í Áslandi. Kíkt var í eftirtalda garða með fengnu leyfi eigenda: Lóuás 15 hjá Aðalheiði Sigurðardóttur og Bárði Jóni Grímssyni, Lóuás 32 hjá Guðrúnu Jónsdóttur og Hilmari Gunnarssyni og Lóuási 2 hjá Rósu Sigurbergsdóttur og Jónatani Garðarssyni. Annars var látið nægja að kíkja yfir limgerði og veggi og sjá hvað leyndist fyrir innan. Göngur sem þessi um hverfi bæjarins hafa gjarnan verið farnar á haustin í gegnum tíðina. Tilgangur þeirra er að kanna hvað leynist af gróðri í görðum bæjarbúa og vekja athygli á þeim verðmætum sem í honum fellst. Einnig hefur verið leitað að stærstu trjám bæjarins í þessum haustgöngum og þau mæld hátt og lágt.
Jólatrjáa- og skreytingasala félagsins fór fram í desember fram að jólum eins og lög gera ráð fyrir. Sú venja hefur skapast að leggja aðal áherslu á helgarnar 3 fyrir jól. Allir viðskiptavinir fengu heitt súkkulaði og kexkökur en eins og svo oft áður styrkti Fjarðarkaup félagið með veitingar fyrir jólin. Sjálfboðaliðar hjálpa til bæði inni og utandyra við söluna, súkkulaðigerð og fleira. Fyrir marga er það ómissandi hluti af undirbúningi jólanna að koma í skóginn og velja sér tré, hlýja sér við varðeldinn úti á hlaði og fá heitt súkkulaði inni í bækistöðvum félagsins. Rithöfundarnir Óli Gunnar Gunnarsson og Bryndís Björgvinsdóttir komu eina helgina fyrir jól og lásu úr nýútkominni bók sinni. Sveinn Sigurjónsson kom og spilaði jólalög á harmonikkuna fyrir gesti. Síðustu helgina fyrir jól kom svo hún Lína okkar Pálsson og sló upp veislu fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk.
Árni og undirritaður sóttur fagráðstefnu skógargeirans sem haldin var í Borgarnesi í mars í fyrra og stóð í tvo daga. Þema fagráðstefnunnar var „Aukin framleiðni skóga á jaðarsvæðum með trjákynbótum“. Við sóttum einnig málþing um trjágróður í þéttbýli sem haldið var í húsakynnum Garðyrkjufélags Íslands Síðumúla ásamt námskeiði um ræktun fjölærra matjurta með hinum norsk-breska Stephen Barstow. Undirritaður sat fundi „stýrihóps um yndisgróður“ en vinna hópsins snýst öðrum þræði um skilgreiningu og lýsingar á íslenskum úrvalsyrkjum trjágróðurs.
Í fyrra runnu allir samningar um landnemaspildur í upplandi bæjarins út. Byrjað var að úthluta landnemaspildum í upplandi bæjarins á ári trésins árið 1980. Á annað hundrað aðilar hafa gert samning við Skógræktarfélagið um landnemaspildur. Ýmist er um að ræða félög, fyrirtæki, skóla eða einstaklinga. Mikil vinna fór í það að hafa upp á öllum spilduhöfum og kanna hvort áhugi væri á því að endurnýja samninginn eður ei. Sumir reyndust ekki lengur í félaginu en það er skilyrði ef um einstaklinga er að ræða að spilduhafi sé skráður í Skógræktarfélagi Hfj. Sumir óskuðu ekki eftir því að endurnýja sína samninga af einhverjum ástæðum. Sumar þær spildur sem þá urðu samningslausar eru það vel grónar að þeim verður ekki úthlutað áfram heldur verða í umsjón félagsins. Nýju samningarnir gilda til ársins 2030. Í seinni tíð hefur félagið fyrst og fremst úthlutað landnemaspildum til félaga og fyrirtækja en lítið hefur verið um lausar spildur þó einhverjar hafi losnað í fyrra eins á undan greinir.
Leikskólinn Norðurberg hélt uppteknum hætti og kom með elstu nemendurna í skóginn tvisvar í mánuði allan veturinn. Þau fá svo afnot af bækistöðvum félagsins til að fá sér bita í hádeginu. Líffræðistúdentar frá Háskóla Íslands fengu að nota aðstöðu félagsins við atferlisrannsóknir á fuglum á fóðurbrettinu framan við bækistöðvar félagsins snemma árs. Nemendur Frístundaheimilis Hauka heimsótti okkur í lok mars. Starfsmannfélag Lækjarskóla kíkti við í maí. Meðlimir karlakórs Grafavogs komu í heimsókn um miðjan maí. Fyrrverandi verslunarskólanemar komu í heimsókn í lok maí. Nemendur í umhverfisskipulagi við Landbúnaðarháskóla Íslands komu í heimsókn ásamt kennara sínum í ágúst. Starfsfólk leikskólans Norðurbergs komu í heimsókn í nóvember. Hópur þjóðverja frá Cuxhaven þ.e.a.s. bæjarstjórn og fylgdarlið ásamt stjórn Cuxhaven-Hafnarfjörður vinabæjarfélagsins og fleiri komu í heimsókn fyrstu helgina í aðventu eins og þau hafa gert mörg undanfarin ár. Þeim var að sjálfsögðu boðið upp á hressingu í bækistöðvum félagsins í anda Hólmfríðar. Þýski hópurinn var hér til að afhenda bænum jóltré sem var tendrað seinna um dagin við hátíðlega athöfn við Flensborgarhöfn.
Nemendur Fjölgreinadeildar Lækjarskóla komu og gróðursettu í landnemaspildu sína síðastliðið vor. Nemendur í 8. bekk Öldutúnsskóla gróðursettu í sína spildu í júníbyrjun. Nemendur í 7. bekk Víðistaðaskóla kíktu í heimsókn í byrjun júní. 5. bekkingar í Hraunvallaskóla komu í heimsókn í september til að kynnast plöntuuppeldi og skógrækt. Nemendur í Áslands- og Setbergsskóla gróðursettu Yrkjuplöntur í grenndarskóga við skólana en þessir skólar ásamt Hraunvallaskóla endurnýjuðu ekki samninga sína um landnemaspildur í upplandinu.
Félagar í Rótarýklúbb Hfj grisjuðu og gróðursettu í landnemaspildu sína í Klifsholtum um vorið. Starfsfólk Actavis kom og gróðursetti ásamt því að bera á eldri gróðursetningar.
Nemendur úr leikskólunum Stekkjarás, Víðivellir, Hlíðarberg og Hvammur komu í skóginn fyrir jólin og sóttu sér jólatré. Sveinki kom með krökkunum og lék á alls oddi. Ekki nóg með það heldur ók hann rútunni einnig. Og auðvitað fengu allir heitt kakó og að launum sungu börnin ásamt sveinka fyrir starfsfólk félagsins.
Nemendur úr leikskólunum Fálkaborg og Arnarborg í Breiðholti komu einnig í skóginn til að sækja sér jólatré og er það nýlunda að leikskólar úr öðrum sveitarfélögum komi til okkar fyrir jólin.
Skógræktarfélagið gaf Fjölgreinadeild Lækjarskóla jólatré og einnig meðferðarheimilinu Krýsuvík.
Rósasafnið í Höfðaskógi sem einnig hefur gengið undir heitinu Rósagarðurinn var 10 ára í fyrra. Vel á annað hundrað tegundir og yrki af rósum hafa verið gróðursettar í safnið. Flest hefur lifað. Starfsmenn félagsins hafa annast safnið eins og kostur er. Rósaklúbburinn var ekki með vinnudag í safninu í fyrra eins og venjulega. Kann það að stafa af því að nú er klúbburinn kominn með talsvert rósasafn í Laugardal í rvk sem tekur sinn toll. Voru margar rósirnar í Rósasafninu í Höfðaskógi með al besta móti í sumar og talsverð blómgun. Gefur safn þetta mynd af því hvaða rósir hægt er að rækta í villigörðum og útivistarskógum þar sem er takmörkuð umhirða og talsverð samkeppni af grasi og öðrum villigróðri.
Þess var minnst á árinu að Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson heitin hefði orðið 100 ára þann 17. desember síðastiðin. Óli Villa tók þátt í stofnun Skógræktarfélags Hfj og tók sæti í varastjórn félagsins á stofnfundinum árið 1946. Hann var kjörinn í aðalstjórn félagsins 1949 og sat þar óslitið til 1991. Ólafur varð formaður félagsins 1965 og gengdi því embætti í 24 ár eða til ársins 1989. Hann var útnefndur heiðursfélagi á 45 ára afmæli félagsins árið 1991. Ólafur átti jafnframt sæti í stjórn Skógræktarfélags Íslands frá 1973 – 1988. Rétt er að benda á grein um Ólaf inn á heimasíðu félagsins sem Jónatan setti saman.
Sérstakur verksamningur er á milli félagsins og bæjarins um hreinsun upplandsins sem gildir í eitt ár í senn. Félagið sér um að losa ruslatunnur við Hvaleyrarvatn, í Gráhelluhrauni og við Kaldá. Einnig sjáum við um að hreinsa grillin við vatnið. Mikil vinna fer í hreinsun á rusli sérstaklega yfir sumarmánuðina. Þegar veður er gott á sumrin þarf að fara minnst einu sinni á dag og losa ruslatunnur við vatnið ekki hvað síst um helgar. Talsvert rusl kemur alltaf í ljós um leið og snjóa leysir í mars/apríl. Reglulega er farið um umsjónarsvæði félagsins og hreinsað meðfram vegum og við áningarstaði. Yfir sumarmánuðina skilum við hálfsmánaðarlega inn skýrslu v umhverfisvaktar félagsins til „umhverfi og framkvæmdir“ annars mánaðarlega.
Eins og ég nefndi í upphafi var tvisvar kveikt í hjá okkur í vor. Einnig komst upp um plöntustuld í Þöll. Fór ég því upp eftir flest öll kvöld í maí og júní í eftirlitsferðir. Um sumarið kom það til tals hvort að Jökull Gunnarsson starfsmaður félagsins og Þallar gæti hugsað sér að búa í Höfða húsi félagsins í Höfðaskógi. Varð það úr og gegnir hann því hlutverki skógarvarðar nú og fylgist með svæðinu utan venjulegs vinnutíma. Auk þessa aukna eftirlits voru settar upp eftirlitsmyndavélar við bækistöðvar félagsins og Þallar.
Nú á 70 ára afmæli félagsins langar okkur að gera átak í því að merkja betur skógana okkar með skiltum og kortum þar sem hægt verður að átta sig á gönguleiðum og þess háttar sem liggja um skóga félagsins. Þar er mikið verk óunnið. Grillin við vatnið eru að hruni komin og þarfnast endurnýjunar. Við höfum nú þegar fengið loforð fyrir því frá „umhverfi og framkvæmdum“ að af því verði. Bæta þarf merkingar í Trjásafni félagsins sem fagnar 20 ára afmæli í ár.
Fjöldi fólks sem sækir skóginn heim virðist aukast frá ári til árs. T.d. virðast nýbúar frá austur Evrópu mikið sækja í skóginn til að grilla og njóta samvista með fjölskyldu. Skokkarar, hjólreiðafólk er einnig algeng sjón ekki bara yfir sumarmánuðina. Fólk viðrar hunda sína daglega á svæðinu og svo mætti lengi telja. Tækifæri félagsins eru mörg. Erlendir ferðamenn sækja í auknu mæli eftir því að gróðursetja tré hérlendis og þannig skilja eitthvað jákvætt eftir sig og kolefnisjafna ferðalagið og höfum við tekið þátt í þannig verkefnum.
Nú í ár fagnar félagið 70 ára afmæli sínu en það er stofnað 25. október árið 1946. Af því tilefni er ýmislegt á döfinni hjá félaginu. Mig langar að segja frá því helsta: Vorganga verður laugardaginn 23. apríl um Undirhlíðar, fuglaskoðun laugardaginn 28. maí, Listalundur – list í Höfðaskógi verður megin viðburður ársins.Um 30 listamenn og handverskfólk hafa nú þegar skráð sig til þátttöku. Þau munu skapa verk í skóginum hvert og eitt eða í hópum. Verkin munu hafa skírskotun á einn eða annan hátt til skógarins. Formleg opnun á „Listalundi – list í Höfðaskógi“ verður laugardaginn 25. júní. Verkin munu svo standa áfram fram eftir sumri í skóginum og verður að minnsta kosti boðið upp á eina göngu í júlí til að kynna verkin. Sjálfboðaliða-gróðursetningardagurinn verður svo 24. september. Í haust verður svo boðið upp á ljósagöngu í skóginum í samstarfi við Krabbameinsfélag Hfj og svo afmælis-kaffisamsæti að öllum líkindum. Jólatrjáa- og skreytingsala félagsins verður svo í desember eins og lög gera ráð fyrir. Afmælistímarit félagsins, Þöll, mun koma út í vor undir ritstjórn Ingvars Viktorssonar. Viðburðayfirlit er á heimasíðu félagsins skoghf.is undir flipanum dagskrá. Einnig eru viðburðir jafnan kynntir með fréttatilkynningu í Fjarðarpóstinum. Svo fylgist með.
Mig langar í lokin að þakka öllu því fólki sem lagt hefur félaginu lið á einn eða annan hátt. Sérstakar þakkir vil ég færa sjálfboðaliðum, styrktaraðilum, bæjaryfirvöldum, starfsmönnum bæjarins sem hafa aðstoðað okkur, samstarfsfólki mínu hjá félaginu og Þöll, stjórn félagsins, stjórn Þallar, endurskoðanda, skoðunarmönnum og starfsfólki Skógræktarfélags Íslands og Skógræktar ríkisins. Ég vil færa ykkur mínar bestu þakkir fyrir hönd félagsins og Þallar fyrir óeigingjarnt starf og stuðning við félagið í gegnum tíðina.
Takk fyrir.