Fundarstjóri, kæru félagar og gestir.
Það sem helst einkenndi veðurfarið fyrstu mánuði ársins í fyrra var langvarandi klakabrynju sem lá yfir öllu. Vorum við á mannbroddum svo vikum skipti við störf í skóginum og gróðrarstöðinni. Ennfremur var úrkoma með minsta móti í byrjun árs. Þegar voraði kom í ljós að sumar tegundir trjágróðurs komu óvenju illa undan vetri. Sérstaklega átti þetta við um rauðgreni, fjallaþin og ungar furur. Einnig bar á skemmdum á sumum tegundum reynis, rósum, hegg og fleiru. Ekki var óalgengt að ung tré allt að 10 – 15 ára gömul dræpust. Þetta sáum við sjálf í skógunum okkar og heyrðum margar frásagnir af svipuðum toga frá viðskiptavinum Þallar og fleirum. Ekki er alveg ljóst hvað olli þessi tjóni. Sumir vilja kenna um þrálátum þurrum norðan- og austanáttum um veturinn. Ef til vill hefur klakabrynjan kæft rætur trjánna í einhverjum tilvikum. Sumir telja að ónógur þroski trjágróðurs um haustið hafi átt hlut að máli en sums staðar fraus strax í ágúst eftir votviðrasamt sumar. Saltákoma af hafi getur einnig spilað inn í. Ekki er ósennilegt að um samspil fleiri þátta sé að ræða.
Langvarandi rigningar einkenndu sumarið framan af líkt og árið á undan. Ágúst var þó þurrari og sólríkari en júní og júlí. Þurrkar stóðu því gróðursetningu ekki fyrir þrifum. Trjávöxtur var prýðilegur hjá flestum tegundum trjáa. Blómgun var aftur á móti takmörkuð og þar af leiðandi lítið um fræ hér SV-lands hið minnsta. T.d. var sama sem ekkert fræ á birki síðastliðið haust.
Plöntusala í gróðrarstöðinni Þöll sem er í eigu félagsins fór hægt af stað en á móti kom að óvenju mikil plöntusala var um haustið og fram eftir vetri.
Meindýr og sjúkdómar voru ekki til teljandi vandræða í skógum félagsins á árinu. Mest bar á asparglyttu og birkikembu. Skordýr þessi eru hvoru tveggja tiltölulega nýjir landnemar hérlendis. Mest ber á skemmdum af völdum birkikembu á birki fyrri hluta sumars. Aftur á móti ber mest á skemmdum af völdum asparglyttu síðsumars en asparglyttan leggst á aspir og ýmsar víðitegundir sérstaklega viðju. Lítið bar á ertuyglu en henni hafði fjölgað talsvert eftir að sumrin tóku að hlýna en virðist hafa fækkað aftur. Nokkuð var um lirfur mófeta síðsumars en hann sækir t.d. í blóm rósa og fleiri plantna.
Eins og venjulega starfaði fjöldi ungmenna hjá félaginu í sumar. Landsvirkjun lagði félaginu til um 20 manna hóp sem starfaði hjá félaginu í 8 vikur. Þau voru á aldrinum 16 – 20 ára. Yfirmaður hópsins var Sverrir Tómas Bjarnason.
12 unglingar auk flokkstjóra voru hjá félaginu í sumar á vegum Vinnuskóla bæjarins. Þau elstu voru í 4 vikur en þau yngri skemur. Erna Aradóttir var flokkstjóri unglingavinnuhópsins. Rannveig Tera Þorfinnsdóttir og Guðný Þóra Guðrúnardóttir aðstoðar-flokkstjórar. Flokkstjórarnir störfuðu í 2 mánuði hjá félaginu.
Einn finnskur piltur, Ville Leppänen, starfaði hjá félaginu í tvo mánuði í sumar í gegnum Nordjob.
Nokkur fötluð ungmenni eða hinn svokallaði „Verkher“ sem rekinn er af bænum starfaði einnig hjá félaginu hluta af sumri.
Það er ómetanlegt fyrir félagið að njóta þessa vinnuframlags af hálfu Landsvirkjunar, Vinnuskólans og Verkhersins og fyrir það vil ég þakka sérstaklega. Þess ber að geta að Landsvirkjun skaffar sínu fólki öll vinnuföt og ekur því til vinnu og heim. Landsvirkjun sér einnig til þess að sitt fólk fari allt á skyndihjálpar- og hópefli-námskeið.
Fjöldi sjálfboðaliða kom einnig að starfsemi félagsins eins og svo oft í gegnum tíðina. Sérstaklega gildir það um jólatrjáasöluna og því sem henni tengist. Þar komu og tóku til hendinni stjórnarliðar félagsins og fleiri. Ásta Steingerður Geirsdóttir var hjá okkur í sjálfboðavinnu í all nokkrar vikur í upphafi árs en hún hafði áður lokið bóknámi í skógtækni við LbhÍ en kláraði verknámið síðan hjá okkur í fyrra . Þorkell Þorkelsson var mjög hjálplegur við fræsöfnun og fræverkun en hann og Árni fóru austur á Hallormsstað í haust og söfnuðu miklu magni af fræi sérstaklega af lindifuru. Sigurjón Ingvarsson hálpaði okkur með vatnið eins og venjulega. Ragnar Jónsson og félagar hjá Vatnsveitunni voru einnig hjálplegir. Francisko Borja Alcober skógarverkfræðingur ættaður frá Spáni var hjá okkur í sjálfboðavinnu í haust og var svo ráðinn í 6 vikur í jólatrjáahögg og greinasöfnun seinni part október og í nóvember. Hann var síðann svo heppinn af fá vinnu hjá Héraðs og Austurlandsskógum og býr nú austur á Egilsstöðum. Vil ég nota tækifæri og þakka öllum þessum vinnufúsu sjálfboðaliðum kærlega fyrir allt þeirra framlag.
Mun ég nú skýra frá helstu viðburðum í starfsemi félagsins á síðstliðnu ári:
Aðalfundur félagsins var haldinn hér í Hafnarborg þann 27. mars. Að loknum aðalfundarstörfum flutti Björn Traustason sérfræðingur í landfræðilegum upplýsingakerfum hjá Rannsóknarstöð skógræktarinnar á Mógilsá áhugavert erindi sem hann nefndi „Skóglendi í umdæmi Hafnarfjarðar – núverandi staða og möguleg framtíðarsýn“. Þar komust við m.a. að því að Hafnarfjörður er það sveitarfélag á landinu sem hefur hlutfallslega mesta skógarþekju. Helgast það af víðáttumiklu birkikjarrlendi í Almenningum auk ræktaðra skóga ásamt smæð sveitarfélagsins.
Þann 26. apríl var ganga á vegum félagsins í Höfðaskógi. Gengið var yfir í skóginn í Selhöfða þar sem mikið grisjunarstarf hefur verið unnið. Gangan var hluti af dagskrá bæjarhátíðarinnar „Bjartra daga“.
Fuglaskoðun félagsins fór fram þann 31. maí. Sást m.am ein bæjarsvala.
Laugardaginn 7. júní héldu svo „Viðarvinir“ sýningu á á tálguðum, renndum og útskornum munum úr tré. „Viðarvinir“ er hópur handverksfólks með Sigurjón Ingvarsson í broddi fylkingar.
12. júní var vinnudagur í Rósagarðinum í Höfðaskógi.
Fimmtudagskvöldið 17. júlí var ganga á vegum félagsins um skóginn í Undirhlíðum. Gengið var frá Kaldárseli og inn í Skólalund og til baka.
Sunnudaginn 27. júlí var hinn árlegi skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar haldinn hátíðlegur. Hófst dagskrá kl. 14.00 með því að séra Jón Helgi Þórarinsson flutti hugvekju. Í leiðinni var stúlkubarn borið til skírnar en það var Gyða Hauksdóttur stjórnarkona í félaginu og amma stúlkunnar sem hélt þeirri litlu undir skírn. Hlaut hún nafnið Björk Elizabet Mikaelsdóttir. Boðið var upp á göngu, börn fengu að fara á hestbak hjá Íshestum, starfsfólk Íþrótta- og tómstundaráðs skipulagði leiki fyrir börnin, boðið var upp á getraun og Þórður Marteinsson lék á harmonikka á hlaðinu við Þöll þar sem fólk gat fengið sér kaffi og skellt pulsum á grillið.
Laugardagsmorguninn 13. september var haldinn svokallaður „sjálfboðaliðadagur“ eins og all nokkur undanfarin ár. Haldið var áfram að gróðursetja í Vatnshlíðarlund til minningar um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S Bárðarson. Milli 30-40 sjálfboðaliðar á öllum aldri mættu. Gróðursettar voru hátt í 1.900 trjáplöntur, 3-4 ára gamlar, af 14 mismunandi tegundum. Þar sem um all bratta hlíð er að ræða var mikil hjálp í því að Vilhjálmur Bjarnason mætti með fjórhjólið sitt sem gagnaðist vel í plöntuflutningum. Verkefni þetta er styrkt af ræktunarsjóði Hjálmars og Else sem er í vörslu Landgræðslusjóðs.
Þriðjudagskvöldið 23. september var ganga um Höfðaskóg í samstarfi við Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar. Anna Borg Harðardóttir formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar flutti ávarp í upphafi. Séra Jón Helgi Þórarinsson flutti hugvekju á leiðinni og Jóhann Guðni Reynisson fór með frumort ljóð í tilefni göngunnar. Þar sem gangan hófst kl. 19.00 var ekki eins dimmt og til stóð en göngur sem þessi hafa stundum verið kallaðar ljósagöngur þar sem þátttakendur eru hvattir til að mæta með vasaljós og upplifa skóginn í myrkri.
Laugardagsmorguninn 18. október stóð félagið fyrir göngu um Setbergshverfið. Kíkt var í nokkra garða og leytað að hæsta tré hverfisins. Það reyndist vera alaskaösp í garðinum við Glitberg 5 hjá Höllu Thoroddsen og Kjartani Pálmasyni. Mældist öspin tæpir 19 m á hæð. Hæsta sitkagreni hverfisins mældist aftur í móti við Skálaberg hjá Ann Mari Hansen en það reyndist vera um 16 m á hæð.
Jólatrjáa- og skreytingasala félagsins fór svo fram í desember eins og vera ber. Aðaláherslan var lögð á þrjár síðustu helgarnar fyrir jól. Gunnar og Halldór Þórólfssynir og hjálpuðu okkur að laga til brágðabirgða plastið á stóra gróðurhúsinu fyrir jólin svo við gætum haft þar jólatrjáasölu undir þaki.
Fyrir marga er það ómissandi hluti af jólaundirbúningnum að skreppa upp í skógrækt og velja sér jólatré í fallegu umhverfi skógarins og þyggja síðan heitt súkkulaði. Fjöldi sjálfboðaliða kom að jólatrjáasölunni eins og áður hefur komið fram. Bryddað var upp á þeirri nýbreytni að fá ungan rithöfund til að lesa úr nýútkominni bók sinni hana Bryndísi Björgvinsdóttur og Birgir Ingvarsson kom og tók lagið og lék undir á gítar. Mæðgurnar Margrét Sigríður og Rakel sáu um súkkulaðið ásamt Gyðu en Fjarðarkaup styrkti félagið um allar þær veitingar sem viðskiptavinum og starfsfólki var boðið upp á fyrir jólin. Síðasta opinbera söludaginn kom svo hún Lína okkar Pálsson og sló upp veislu fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk.
Árni, Þorkell og undirritaður sóttu fagráðstefnu skógræktargeirans sem haldin var á Selfossi í mars. Þema fagráðstefnunnar að þessu sinni var skógar og skipulag. Starfsfólk félagsins sótti ennfremur málþing á vegum SNÚ, samtaka um náttúru- og útiskóla ásamt ráðstefnu um kynbætur á yndisplöntum. Einnig sóttum við námskeiðaröð (þrjú skipti) um jólatrjáaræktun sem haldið var af Else Möller og Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Einnig tóku nokkrir fulltrúar félagsins þátt í hugfarflugsfundi um framtíð jarðarinnar Úlfljótsvatns í eigu Skógræktarfélags Íslands. Félagið sendi svo Jökul á tveggja daga námskeið í húsgagnagerð úr skógar-efnivið sem haldið var á Snæfoksstöðum í Grímsnesi.
Nemendur og kennarar úr Setbergs-, Lækjar-, Víðistaða-, Öldutúns- og Hraunvallaskóla ásamt nemendum í Fjölgreinadeild komu til að gróðursetja og hlúa að gróðri í sínum landnemaspildum í fyrravor. Gjarnan var það Yrkjusjóður sem kostaði þær plöntur sem skólabörnin gróðursettu.
Nemendur og kennarar úr leikskólanum Norðurbergi héldu uppteknum hætti og komu í skóginn nokkrum sinnum yfir veturinn. Dvelja börnin mestan hluta dagsins úti í skógi við leik og störf. Nemendur úr leikskólanum Hvammi kíktu í heimsókn í vor og svo aftur um sumarið.
Starfsfólk félagsins tók þátt og aðstoðaði Farfugla við gróðursetningu í Valabóli í lok ágúst. Voru trjáplöntur og verkfæri keyrð á hjólbörum alla leið frá Kaldárseli.
Starfsfólk Gámaþjónustunnar, Batterísins arkitekta, Brother and sister og afkomendur Guðrúnar Ásbjörnsdóttur og fleiri komu á árinu til að sinna landnemaspildum sínum með gróðursetningu, áburðargjöf eða annarri umhirðu. Sama má segja um félaga í Lionsklúbbnum Ásbirni. Félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar komu saman í haust og grisjuðu í sinni spildu í Klifsholtum. Svanur Pálsson hefur verið duglegur að grisja í sínum spildum við Sléttuhlíðarveg og meira segja skaffað félaginu jólatré til sölu.
Félagar í Trjáræktarklúbbnum heimsóttu félagið og Þöll á vormánuðum. 20 manna hópur starfsfólks Landspítalans kom í júní og fékk leiðsögn um skóginn. Nemendur Landgræðsluskóla Sameinuðu Þjóðanna heimsóttu félagið og Þöll í september en nemar þessir eru frá ýmsum þjóðlöndum aðallega í Afríku. Ennfremur komu skógfræði- og umhverfisskipulagsnemar við Landbúnaðarháskóla Íslands í heimsókn um haustið. Félagar í Félagi garðplöntuframleiðenda kom í heimsókn í október og stjórn og starfsfólk Skógræktarfélags Íslands kom í opinbera heimsókn í nóvember. Í lok nóvember kom svo hópur þjóðverja frá Cuxhaven ásamt stjórn Cuxhaven/Hafnarfjörður vinabæjarfélagsins í heimsókn eins og tíðkast hefur all lengi í tengslum við tendrum vinabæjar-trésins frá Cuxhaven við Flensborgarhöfn.
Fyrir jólin komu svo nemendur og kennarar úr leikskólunum Hvammi, Hlíðarbergi, Stekkjaási og Víðivöllum og sóttu sér jólatré í skógin og þáðu kakó og kex í bækistöðvum félagsins. Jólasveinninn kíkti svo við og allir tóku lagið. Fulltrúar frá Öldutúnsskóla komu einnig fyrir jólin og sóttu sér tré. Einnig komu nemendur og kennarar fjölgreinadeildarinnar í heimsókn og var þeim fært jólatré að gjöf frá félaginu. Einnig gaf félagið meðferðarheimilinu í Krýsuvík jólatré.
Sigrún Nikulásdóttir hjá New Moments hafði samband við okkur snemma á árinu með ákveðna hugmynd. New Moments sérhæfir sig í því að skipuleggja ævintýraferðir um Ísland. Úr varð að starfsfólk skógræktarfélagsins mætti í Perluna kvöld eitt í mars-mánuði með skógarplöntur, mold og potta. Sett voru upp borð í andyri Perlunnar og síðan komu erlendu gestirnir um 300 manns og settu niður eina furuplöntu í pott áður en þeir settust til kvöldverðar. Plönturnar voru svo fluttar aftur upp í Þöll þar sem þær voru aldar upp um sumarið og síðan gróðursettar í nýja landnemaspildu New Moments austur af Sléttuhlíð um haustið. Sigrún mætti á staðinn og festi á filmu gróðursetninguna til að staðfesta það við sína erlendu viðskipðavini að litlu furunar sem þau handfjötluðu í Perlunni væru komnar niður í íslenska mold. Þannig að það eru ýmis tækifæri sem felast í skógrækt t.d. í tengslum við ferðamennsku.
Átak var gert í umhirðu skógarins í norðanverðum Selhöfða. Var grisjað og uppkvistað til að bæta útivistarmöguleika skógarins og til að bæta almennt heilbrigði hans. Skógræktarfélag Reykjavíkur lánaði svo félaginu kurlara aftan í dráttarvél ásamt manni í þrjá daga. Var því stór hluti efnisins sem til féll í Selhöfðanum kurlaður á staðnum og borinn í stíga í nágrenninu.
Talsverð vinna felst í hreinsun á svæðum félagsins sérstaklega yfir sumarmánuðina. Á veturna eru ruslatunnur við Hvaleyrarvatn losaðar eða alla vega athugað hvort þess þurfi einu sinni í viku. Ruslatunna við Kaldá er athuguð hálfs mánaðarlega að jafnaði. Þegar veður er gott yfir sumarmánuðina þarf gjarnan að losa tunnur við vatnið tvisvar á dag sama hvaða dag vikunnar er um að ræða enda getur fjöldi fólks við vatnið hlaupið á hundruðum á góðum dögum. Einnig sjáum við um að hirða rusl í vegköntum í upplandinu og í kringum áningarstaði. Sérstakur samningur um svokallaða „umhverfisvakt“ félagsins var gerður í upphafi árs milli Hafnarfjarðarbæjar og félagsin eins og tíðkast hefur í nokkur ár. Fær því félagið sérstaka fjárveitingu í hreinsun upplandsins ár hvert. Félagið sendir svo skýrslur einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina og hálfs mánaðarlega yfir sumarið til garðyrkjusktjóra og á skrifstofu „umhverfis og framkvæmda“ með samantekt vegna umhverfisvaktar félagsins.
Talsverð vinna var lögð í umhirðu á trjásafni félagsins í Höfðaskógi og í rósagasafninu. Hátt í 400 mismunandi tegundir, yrki og kvæmi trjágróðurs eru í trjásafninu og vel á annað hundrað rósayrki í rósasafninu. Rósasafnið í Höfðaskógi er samstarfsverkefni Skógræktarfélagsins og Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands.
Hinn frægi brjósttittlingur einnig nefndur seylutittlingur sem fyrst sást við bækistöðvar félagsins fyrir jólin 2013 af Arnari Helgasyni sem svo lengi hefur hjálpað okkur í jólatrjáasölunni hélt áfram að koma í æti og sýna sig á fóðurbrettinu fram að páskum. Fjöldi fólks kom gagngert upp eftir til að berja fuglinn augum. Ekki voru það síður útlendingar sem komu og sumir í skipulögðum hópum. Var þetta fyrsti fugl sinnar tegundir sem sást í Evrópu ef Azor-eyjar eru undanskildar. Brjósttittlingur er annars ættaður frá N-Ameríku.
Félagið festi í fyrra kaup á Hilux pall-bifreið sem félagið hafði áður verið með í rekstrarleigu. Svo illa vildi til að önnur framhurðin fauk upp í nóvember með þeim afleiðingum að bæði hurð og bretti skekktust. Skipt var um bæði hurð og bretti en bifreiðin er kaskótryggð þannig að félagið greiddi einungis svokallaða eigináhættu.
Nú í ár renna allir samningar um svokallaðar landnemaspildur út. Fyrstu landnemaspildunum var úthlutað á ári trésins árið 1980. Landnemaspildurnar eru ýmist í umsjón einstaklinga, félaga, fyrirækja eða skóla. Þeir sem áhuga hafa geta endurnýjað sína samninga til næstu fimmtán ára. Verið er að vinna í því þessar dagana að hafa samband við alla spilduhafa og kanna hug þeirra.
Fjöldi félaga í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar er nú tæplega 800 manns sem gerir félagið annað til þriðja fjölmennasta skógræktarfélag landsins. Það er okkur mikils virði að svo margir vilji styðja starf félagsins. Næsta ár fagnar félagið 70 ára afmæli sínu. Ljóst er að bryddað verður upp á einhverju skemmtilegu á afmælisárinu og eru allar hugmyndir vel þegnar.
Aðal-hlutverk Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er að byggja upp og viðhalda góðu og öruggu útivistarsvæði í upplandi bæjarins. Það bendir ekkert til annars en að ásókn fólks í útivistarsvæði nálægt byggð eigi eftir að aukast. Þó það hafi ekki varið rannsakað sérstaklega þá sjáum við að fjöldi gesta sem sækir skóginn og Hvaleyrarvatns-svæðið heim hefur margfaldast ef við horfum bara 15-20 ár aftur í tímann. Það er óumdeilt að útivist í náttúrunni hefur góð áhrif á líkama og sál. Skógurinn veitir okkur margháttaða þjónustu. Hann skapar okkur útivistarmöguleika í skjóli árið um kring. Hann framleiðir súrefni, fangar svifryk og bindur kolefni. Skógurinn bindur jarðveg og dregur úr öllu rofi og flóðum. Skógurinn hýsir alls kyns lífverur. Skógurinn skapar rými. Megin verkefnin eru því áfram umhirða skógarins, stígagerð og viðhald stíga, hreinsun og þess háttar. Einnig er orðið aðkallandi að koma upp upplýsingaskiltum og gefa út kort með gönguleiðum á svæðinu.
Ég vil minna á heimasíðu félagsins skoghf.is. Þar eru allir viðburðir á vegum félagsins auglýstir. Einnig er félagið með fésbókarsíðu. Það sama á við um Þöll. Nú þegar er búið að setja saman dagskrá fyrir árið í ár. Alltaf má búast við að það bætist við einhverjir nýir dagskrárliðir. Næsti viðburður á vegum félagsins er t.d. vorganga um skóginn í Gráhelluhrauni 25. apríl næstkomandi.
Mig langar í lokin að þakka öllum sjálfboðaliðum sem lagt hafa félaginu lið á árinu, styrktaraðilum, bæjaryfirvöldum og starfsmönnum bæjarins sem hafa aðstoðað okkur, samstarfsfólki og stjórn félagsins, endurskoðanda, skoðunarmönnum, starfsfólki Skógræktarfélagi Íslands og landnemum. Öllum þessum og fleirum til vil ég færa mínar bestu þakkir fyrir óeigingjarnt starf og stuðning við félagið í gegnum tíðina.
Takk fyrir.