Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar
23.mars 2023
Fundastjóri og ágæta samferðafólk.
Það lyftist ávallt á manni brúnin þegar vorjafndægri er náð – farfuglarnir að byrja að mæta, svartþrösturinn farinn að láta heyra í sér í garðinum heima og það styttist í að gróðurinn taki við sér. Eftir langan frostakafla er aðeins að hlýna og eigum við ekki að segja að vorið sé á næsta leiti.
Eftirfarandi annáll ársins er að venju smíðaður með dyggri aðstoð Árna Þórólfssonar.
Síðasta ár hófst með óveðrum og umhleypingum þannig að ekkert var hægt að vinna úti við í skóginum fyrr en eftir miðjan janúar. Um leið og veðrið batnaði var farið í grisjunarvinnu. Fyrsta verkefnið var að fella tré vegna fyrirhugaðra framkvæmda við lagningu nýs göngu- og hjólastígs frá Hvaleyrarvatnsvegi að Fremstahöfða en þessi stígur er hluti af Græna stígnum sem liggja á frá Kaldárseli að Mógilsá við rætur Esju. Þessi stígur var síðan byggður og malbikaður af verktökum á vegum bæjarins og við eigum nú tilbúna þessa frábæru viðbót við stígunn upp að Hvaleyrarvatnsvegi – en nýr malbikaður stígur tengist nú gamla Kaldárselsveginum skammt norðan við Gjárnar.
Við héldum áfram við grisjun í Selhöfðanum þar sem unnið hefur verið að grisjun undanfarna vetur. Við þessa grisjunarvinnu unnu tveir til fjórir starfsmenn skógræktarfélagsins en auk þess komu að verkefninu tveir til fjórir starfsmenn „Orra arborista“ eins og hann er kallaður í okkar hópi, hjá fyrirtækinu Trjáprýði en þeir unnu að þessum grisjunarverkefnum í fjóra daga en alls var unnið við grisjun í 15 daga. Sverustu trjábolirnir voru klofnir í eldivið en grennri stofnar kurlaðir. Á meðan veður og færð leyfði voru trjábolirnir fluttir í starfstöð skógræktarfélagsins þar sem efnið var klofið í eldivið.
Í byrjun febrúar fór að snjóa mikið þannig að starfsmennirnir okkar þeir Jökull og Natan voru uppteknir við snjóruðning flesta daga mánaðarins en skógræktarfélagið er með samning við Hafnarfjarðarbæ um vinnu við snjóruðning á helstu gögustígum á svæðinu. Það hélt áfram að snjóa og stundum voru veður það slæm að ekki var hægt að komast til vinnu í skóginum. Af þeim sökum hófst söfnun og klipping græðlingaefnis fyrr en ella.
Í byrjun mars skullu á nokkur óveður og í einu þeirra rifnaði stórt gat á stóra gróðurhúsið þannig að gera þurfti við til bráðabirgða með stórri bót sem síðan rifnaði af í næsta óveðri þannig að laga þurfti skemmdina með enn stærri bót sem þá hélt í næstu óveðrum. Ákvörðun hafði verið tekin um að gera við þetta varanlega og fengum við Gunnar Þórólfsson í verkið fyrir okkur.
Upp úr miðjum mars hófst hefðbundin gróðurhúsavinna þar sem græðlingum var stungið í bakka og potta og komið fyrir ýmist inni í stóra gróðurhúsinu eða úti á plani. Frost og klaki gerði þessa vinnu erfiðari en ella þar sem illa gékk að fá gróðurmold til að setja í pottana.
Strax í upphafi apríl fór að hlýna verulega þannig að hægt var að stinga upp hnausplöntur bæði úti í skógi og í gróðrarstöðinni. Gróðrarstöðin var opnuð í byrjun maí og strax fyrstu dagana var mikil sala sem segja má að hafi staðið yfir fram á vetur.
Fyrstu sumarstarfsmennirnir mættu til vinnu í lok maí en það voru flokkstjórar frá Vinnuskólanum. Aðrir sumarstarfsmenn hófu störf í byrjun júní en það voru eins og undanfarin ár um 20 starfsmenn frá Landsvirkjun og um 10 til 15 frá Vinnuskólanum. Eins og áður var unnið við að slá gras og lúpínu meðfram göngustígum og vegum. Eldri göngustígum var viðhaldið með því að kantskera og stinga upp illgresi. Haldið var áfram að aka möl í tvo nýja stíga í Selhöfðanum en vegna vandamála við að fá afgreidda möl úr malarnámunni tókst ekki að ljúka því verki.
Vegna vandræða við að fá trjáplöntur úr gróðrarstöðvum fékk skógræktarfélagið úthlutað mun færri trjáplöntur frá Landgræðsluskógum en til stóð þannig að einungis tókst að gróðursetja 4.000 plöntur úr bökkum en auk þess voru gróðursettar 3.500 plöntur úr pottum sem fengnar voru úr gróðrarstöðinni. Vonandi verður þessi nýja gróðurhúsatækni Sólskóga sem sýnt var frá í fréttum í gær til að bæta ástandið.
Um sumarið voru sett upp þrjú skilti til að merkja skógræktarsvæði félagsins en þessi skilti voru smíðuð af Magnúsi Helgasyni rafvirkjameistara. Skiltunum var komið fyrir við veginn inn í Seldal, við gamla Kaldárselsveginn og í Undirhlíðum sunnan við Kaldársel. Við færum Magnúsi innilegar þakkir fyrir dásamlegt starf.
Í september og október tók við fræsöfnun, haustsáning og frágangur gróðrarstöðvarinnar fyrir veturinn.
Stjórnin tók ákvörðun um að byggja fleiri gróðurhús og var á síðasta ári byrjað að grafa fyrir tveimur nýjum 165 m² húsum.
Undirbúningur hófst fyrir jólatrjáasöluna og tré söguð niður fyrir jólaþorpið og verslanir í bænum. Skreytingarefni fyrir jólaskreytingar var safnað í skóginum og m.a. farin árleg söfnunarferð í Skólalund.
Jólatrjáasalan hófst í byrjun desember. Fyrri hluta mánaðarins var snjólaust en síðan snjóaði mikið en sem betur fer hafði það ekki teljandi áhrif á söluna. Alls seldust 700 jólatré af 7 tegundum sem komu frá 9 ræktendum. Aukin sala var á skreytingum og eldivið.
Skógræktarfélag Íslands hélt 87. aðalfund sinn í Hlégarði í Mosfellsbæ dagana 2. – 4. September 2022. Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er öflugt félag og var utanumhald fundarins með miklum ágætum og skoðunarferðirnar í skógræktarreiti þeirra sýnda hvað félagið er virkt. Fulltrúar okkar félags fjölmenntu á fundinn að vanda og tóku virkan þátt.
Eins og sést í reikningum félagsins sem lagðir verða fram hér á eftir er rekstur félagsins öflugur og í góðum höndum. Við í stjórninni erum mjög stolt af stöðunni og viljum nota góða afkomu til að efla enn frekar framleiðslu á trjám með byggingu gróðurhúsa – ekki veitir af þegar lítið fæst úr gróðrarstöðvunum sem ætlað er að skaffa félögunum plöntur, eins og ég gat hér um að framan.
Við í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar viljum og ætlum að vera áfram í fararbroddi í skógrækt.
Góðar stundir
SE