Hólmfríður Finnbogadóttir sem starfað hefur hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar í 33 ár, þar af sem framkvæmdastjóri í 15 ár, lét formlega af störfum á aðalfundi félagsins sem haldinn var 21. mars 2013 á alþjóðadegi skóga. Hólmfríður hefur haldið um stjórnartaumana lengur í 24 ár því hún varð formaður félagsins árið 1989. Hún var fyrsta konan sem gegndi formennsku í félaginu og fyrsti framkvæmdastjóri þess í fullu starfi. Segja má að Hólmfríður hafi lyft grettistaki því öll aðstaða í Höfðaskógi hefur tekið stakkaskiptum í stjórnartíð hennar, en félagið var eingöngu með tvo litla verkfæraskúra áður en hún tók við. Nú býr félagið svo vel að hafa tvö hús til umráða Höfða og Selið. Hólmfríði var þakkað fyrir langt og farsælt starf á aðalfundinum og var hún sæmd merki félagsins og gerð að heiðursfélaga þess.
Steinar Björgvinsson sem hefur verið ræktunarstjóri félagsins um árabil tekur nú við starfi framkvæmdastjóra. Hann byrjaði ungur að vinna hjá félaginu, fyrst á sumrin en síðustu árin hefur hann verið í fullu starfi. Steinar hefur hefur unnið náið með Hólmfríði um árabil og tekur við góðu búi úr höndum hennar. Steinari er óskað til hamingju með nýja starfið og velfarnaðar á nýjum vettvangi. Hann er menntaður skógfræðingur og garðyrkjufræðingur og öllum hnútum kunnugur á ræktunarsvæðum félagsins.