Helgina 27. til 29. júlí 2012 hittust rúmlega 100 rósaræktendur frá Norðurlöndunum á Íslandi þegar haldin var Norræn rósahelgi. Slíkar samkomur eru haldnar annað hvert ár í einu af Norðurlöndunum og var þetta í fyrsta sinn sem slík helgi var haldin á Íslandi. Ástæðan var sú að Vilhjálmur Lúðvíksson formaður Garðyrkjufélags Íslands er núverandi formaður Norrænu samtakanna og er venjan að halda Rósahelgina í heimalandi viðkomandi formanns. Félagið hefur verið starfrækt í 49 ár og fagnar því 50 ára afmæli á næsta ári.
Á fyrsta degi Rósahelginnar mættu allir fulltrúarnir í Höfðaskóg til þess að líta á Rósagarðinn í Húshöfða, en 7 ár eru liðin síðan fjölbreyttar tegundir af rósum voru gróðursettar í Húshöfða. Svo merkilega vill til að þær dafna flestar afar vel á þessum slóðum þrátt fyrir að standa nokkuð ofarlega í höfðanum svo til óvarðar fyrir veðrum og vindum. Sumarið hefur verið óvenju hlýtt og þar af leiðandi var blómgunartími flestra rósanna yfirstaðinn þegar gestirnir komu í Höfðaskóg, en nokkrar þeirra eru enn í blóma svo að fulltrúarnir gátu séð hvernig rósirnar spjara sig á þessum norðlægu slóðum.
Félagar í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands efndu til Rósagarðsins á sínum tíma í samvinnu við félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar. Ákveðið var að planta út rósum ofarlega í suðurhlíð Húshöfða með það í huga að kanna hvaða tegundir spjöruðu sig í þessu erfiða umhverfi þar sem áður var eingöngu grýttur og uppblásinn jarðvegur sem var að mestu samsettur af lífsnauðum ísaldarleir. Svæðið var ekki talið kjörið til ræktunar og var því gripið til þess ráðs að sá þar Alaska lúpínu fyrir nokkrum áratugum. Lúpínan hefur unnið mikilvægt undirbúningsstarf og skapað ákjósanlegar aðstæður fyrir annan gróður til að dafna. Fyrir tilstuðlan lúpínunnar sköpuðust kjöraðstæður til að gróðursetja rósir af öllum gerðum í sunnanverðum Húshöfað, en þegar verkefnið hófst var allsendis óvíst um það hvort rósrinar gætu spjarað sig við þessar aðstæður. Á daginn hefur komið að þetta landsvæði er ekki síður fallið til ræktunar en heimagarðar og sumarbústaðalóðir þar sem búið er að skipta um jarðveg og útbúa gróðursæla reit með gróðurmold og skjólgirðingum.
Rósagarðurinn er merkilegur tilraunareitur þar sem langflestar rósategundirnar hafa náð að skapa sér ákjósanleg skilyrði og vaxa og dafna af slíkum krafti að undrun sætir. Þetta staðfestu Norrænu fulltrúarnir sem voru þarna á ferð og létu margir þau orð falla að Rósagarðurinn hefði komið þeim verulega á óvart. Nánast allar þekktar tegundir af rósum sem vaxa utanhúss á Íslandi eru í Rósagarðinum og hefur þessi tilraun sannað að sumarbústaðaeigendur, garðræktendur og aðrir sem vilja prófa ræktun ólíkra rósa tegunda á nærsvæðum sínum geta lært af þessari tilraun. Öllum er velkomið að mæta í Rósagarðinn og skoða hvernig til hefur tekist, hvaða tegundir standa sig best og hvað þarf til að koma upp fallegum rósareitum nánanst hvar sem er á landinu.
Öllum þátttakendum Norrænu Rósahelgarinnar var boðið í kaffisamsæti í Selinu, höfuðstöðvum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, að fræðsluferð um svæðið lokinni. Veðrið var eins gott og hægt er að búast við hér á landi og sat fólk utandyra og naut sólarinnar og skjólsins af skóginum um leið og það drakk kaffið og maulaði á afmæliskringlu og öðru góðgæti.
Margir úr hópi norrænu fulltrúanna tjáðu starfsfólki Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hversu hrifnir þeir voru af því hvernig til hefur tekist við ræktun rósa á þessum norðlægu slóðum. Gerðu margir þeirra sér far um kaupa rósir sem hafa sannað ágæti sitt í Rósagarðinum í þeim tilgangi að taka þær með til síns heima og gróðursetja þær þar. Þetta voru fyrst og fremst rósir sem Jóhann Pálsson fyrrum garðyrkjustjóri Reykjavíkur hefur lagt sig fram um að rækta, en Gróðrastöðin Þöll er sú eina á landinu sem hefur sinnt því að fjölga þessum rósayrkjum og selja þau. Eitt af meginverkefnum þessarar rósahelgar er að leita að gömlum og harðgerðum rósayrkjum á Norðurlöndunum og efla framgang þeirra þannig að Rósagarðurinn í Hafnarfirði fellur fullkomlega að þessu verkefni.