Annað árið í röð mættu nemendur sem hafa stundað hálfs árs nám í Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi í heimsókn í Höfðaskóg og kynntu sér ræktunarstarfið sem unnið er á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nemendurnir 10 voru í fylgd Hafdísar Hönnu Ægisdóttur leiðbeinanda hópsins miðvikudaginn 26. september, en Hafdís var sumarstarfsmaður Skógræktarfélagsins fyrir um tveimur áratugum síðan. Starfsmenn og formaður félagsins tóku á móti þessum góða hópi og fór með nemendurna í kynningarferð um Höfðaskóg. Nemendurnir eru frá eftirfarandi löndum: 2 frá Úganda, 3 frá Mongólíu, 1 frá Úsbekistan, 2 frá Namibíu og 2 frá Ghana. Þessir nemendur hafa nær lokið námi sínu að þessu sinni og munu útskrifast 4. október og fara síðan til síns heima.
Það var ánægjulegt að taka á móti þessum nemendum sem koma frá svo fjarlægum löndum og svara fyrirspurnum þeirra. Þær snerust m.a. um söfnum fræja, hvernig við berum okkur að, hvernig ræktunarskilyrðin eru hér á landi og sitthvað fleira sem var ofarlega í huga þeirra. Fannst þeim sérstaklega áhugavert að skoða gróðurhúsin og trjásýnireitinn í Höfðaskógi og létu vel að því sem fyrir augu bar. Fram kom í máli nemendanna frá Mongólíu að ræktunarskilyrði þar í landi eru mun erfiðari en hér á landi enda kuldar meiri á veturna og þurrkar geta verið afar miklir á sumrin, og veðurfarið þar í landi er með allt öðrum hætti en við eigum að venjast.
Að lokinni skoðunarferð var öllum boðið upp á hressingu í Selinu áður haldið var til baka til að halda áfram að vinna að lokaverkefnunum áður en kemur að útskrift í næstu viku.