Þessa dagana er mikið úrval af jólatrjám í mörgum stærðum í boði hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar og úr nógu að velja. Það færist í vöxt að fólk kaupi jólatré sem ræktuð eru hér á landi, enda er það hagkvæmt fyrir alla auk þess sem hvert tré sem keypt er af skógræktarfélögunum leiðir til þess að hægt er að planta út fleiri trjám í skógarreitum félaganna og þannig stuðlar hver og einn sem kaupir íslenskt jólatré að áframhaldandi ræktunarstarfi.
Gott og fjölbreytt úrval er einnig í boði af hurðakrönsum, inniskreytingum, leiðisskreytingum og útiskreytingum í pottum sem eru sérstaklega fallegar og tilvalið að stilla upp fyrir framan útidyr, við hellulögð bílaplön eða úti á svölum. Þá er hægt að kaupa greinar og köngla til að skreyta með fyrir jólin.
Opið er helgina frá kl. 10.00 til 18.00 helgina 8. og 9. desember og einnig helgina 15. og 16. desember. Það er heitt kaffi á könnunni fyrir alla sem koma í heimsókn og rjúkandi heitt súkkulaði og smákökur fyrir þá sem vilja koma sér í ekta jólaskap. Síðasti söludagurinn verður laugardaginn 22. desember en einnig er hægt að líta við í miðri viku að deginum til á meðan starfsmenn félagsins eru að störfum í Höfðaskógi.