Ungmenni á aldrinum 16 til 20 ára hafa nokkur undanfarin ár komið til starfa hjá Skógræktarfélaginu á sumrin fyrir tilstuðlan samfélagsverkefnisins „Margar hendur vinna létt verk“ sem Landsvirkjun hefur haldið úti um árabil. Þessi ungmenni hafa jafnan reynst vandanum vaxin og sýnt dugnað og áreiðanleika í öllum verkefnum sem þeim hafa verið falin. Störfin sem ungmennin hafa innt af hendi eru fjölbreytileg, en mest ber á gróðursetningu á uppgræðslusvæðum félagsins, stígagerð og viðhaldi stíga og eldri gróðurreita.
Unga fólkið sem skipar sumarvinnuhópinn hverju sinni er skólafólk sem kýs að starfa að náttúrutengdum verkefnum sem Landsvirkjun styrkir árlega af mikilli rausn. Sérlega ánægjulegt hefur verið að fylgjast með þessum frísku og vinnufúsu ungmennum og það munar verulega um vinnuframlag þeirra. Algengt er að sömu ungmennin komi til starfa ár eftir ár og skapast hefur traustur og ómetanlegur vinskapur milli þeirra og starfsmanna félagsins í gegnum tíðina. Þessi stuðningur Landsvirkjunar við Skógræktarfélagið hefur skipt sköpum í starfseminni undanfarin ár og gert það að verkum að hægt hefur verið að framkvæma mun meira en annars hefði verið.