1. gr. Félagið heitir Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og er héraðsskógræktarfélag innan vébanda Skógræktarfélags Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Hafnarfirði.
2. gr. Tilgangur félagsins er að vinna að landgræðslu og gróðurvernd, fjölbreyttri trjárækt og skógrækt, bættu aðgengi að bæjarlandi Hafnarfjarðar til heilsueflingar og útivistar og að auka skilning og áhuga á þessum málum.
3. gr. Félagið vill ná tilgangi sínum meðal annars með því:
a) að leggja stund á skógrækt, landbætur, gróðurvernd og þar með kolefnisjöfnun.
b) að styðja við skógrækt einstaklinga, félaga, fyrirtækja, stofnana og skóla og úthluta þeim tímabundnum ræktunarreitum sem skilgreindir eru til slíkra nota.
c) að veita félagsmönnum fræðslu um skógrækt, trjárækt, landgræðslu, gróðurvernd og gildi skóga í náttúru landsins með fyrirlestrum, myndasýningum, leiðsögn og öðrum aðferðum eftir því sem kostur er.
d) að vinna að verndun og umhirðu skógarsvæða í bæjarlandinu og rækta ný svæði m.a. til yndisauka og útiveru í samráði við Hafnarfjarðarbæ og landeigendur.
e) að sinna plöntu uppeldi og standa að rekstri gróðrastöðvar sem sjálfstæðrar einingar og sjá til þess að starfsemin falli að lögum og reglum.
4. gr. Félagið aflar fjár til starfseminnar með innheimtu félagsgjalda og fjárhagslegum stuðningi bæjaryfirvalda, einstaklinga, félaga, fyrirtækja og stofnana.
5. gr. Félagar teljast þeir sem greiða félagsgjald. Aðalfundur ákveður félagsgjaldið.
6. gr. Stjórn félagsins skipa sjö menn. Skulu þeir kosnir á aðalfundi og skiptir stjórnin með sér verkum. Sé einn formaður, annar ritari, þriðji féhirðir, fjórði varaformaður og þrír meðstjórnendur. Kjörtími er þrjú ár og ganga tveir úr stjórn í senn tvö árin, en þrír hið þriðja. Þá kýs fundurinn tvo skoðunarmenn og varamenn þeirra.
Kjósi stjórnarmaður að segja sig úr stjórninni eða ef stjórnarmaður fellur frá áður en kjörtímabili hans lýkur skal kjósa annan í hans stað á næsta aðalfundi. Situr sá stjórnarmaður út kjörtímabilið, hafi því ekki lokið á aðalfundinum.
7. gr. Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í apríl ár hvert. Stjórn félagsins ákveður fundarstað og stund og boðar til fundarins með viku fyrirvara. Auglýsa skal aðalfundinn í fjölmiðlum eða senda fundarboð til skráðra félagsmanna.
Aukaaðalfund skal halda, ef stjórn félagsins þykir ástæða til eða 50 félagsmenn óska þess.
Dagskrá aðalfundar:
- Skýrsla um störf félagsins undanfarið ár.
- Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
- Lagabreytingar.
- Kosningar samkvæmt 6. grein félagslaga.
- Önnur mál, sem fram eru borin.
Aðalfundur kýs heiðursfélaga eftir tillögu stjórnarinnar.
Á aðalfundi hafa skuldlausir félagar atkvæðisrétt. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi í öðrum málum en um getur í 8. og 9. grein.
8. gr. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda, tekur ákvarðanir um málefni félagsins, gætir að hag félagsins og ræður framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn þess. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og sér um að bókhald sé fært í samræmi við endurskoðunarlög og venjur. Framkvæmdastjóri framfylgir þeirri stefnu sem aðalfundur markar og skal bera viðamikil mál undir stjórn félagsins áður en ákvarðanir eru teknar.
9. Félagið hættir störfum, ef það er samþykkt á tveimur lögmætum aðalfundum í röð með 3/4 greiddra atkvæða á hvorum fundinum og ráðstafar sá síðari eignum félagsins.
10. Lögum þessum verður eigi breytt nema á lögmætum aðalfundi með ¾ greiddra atkvæða. Tillögur frá félagsmönnum að lagabreytingum skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund.
Samþykkt á aðalfundi félagsins 7. mars 2012