Nýverið fór hluti stjórnar og starfsmanna félagsins ásamt fleirum í vettvangsferð í skóginn í Undirhlíðum. Gengið var um Kúadal og upp Kýrskarð og yfir í Skólalund (Litli-skógarhvammur). Skógurinn í Undirhlíðum hefur vaxið mikið og er víða þörf á grisjun. Skógræktarfélag Hfj. hefur fengið vilyrði um styrk af hálfu Landgræðslusjóðs til grisjunar í Undirhlíðaskógi. Skógrækt hófst í Undirhlíðum í Skólalundi í kringum 1930 fyrir tilstuðlan Ingvars Gunnarssonar kennara. Um og upp úr 1960 hófst skógrækt af fullum krafti í Undirhlíðum. Trúlega hefði ekki verið hægt að taka myndarlega á því verkefni ef ekki hefði komið til ómetanlegt framlag fjölda unglingspilta úr Hafnarfirði sem störfuðu í Vinnuskóla bæjarins í Krísuvík. Sjálfsáning trjágróðurs er í dag talsverð ekki hvað síst hjá stafafuru. Ljósmynd: Jónatan Garðarsson.
Flokkur: Fréttir 2014