Kvöldganga Krabbameinsfélags Höfuðborgarsvæðisins um skógarstíga Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, þriðjudaginn 30. október kl. 19:30.
Krabbameinsfélag Höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu nk. þriðjudag, 30. október, kl. 19:30. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldárselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Við upphaf göngunnar flytur Anna Borg stutt ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson, skógfræðingur, vera með leiðsögn um skóginn. Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar. Krabbameinsfélag Höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn. Göngufólk er beðið að taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.
Nánari upplýsingar gefur Magnús Gunnarsson í síma 665 8910.
Að gefnu tilefni bendum við á bílastæði í Værð. Þá er ekið framhjá Þöll nokkra metra og svo til hægri. Einnig má leggja niður við Hvaleyrarvatn og ganga upp í Þöll. Einnig er hægt að aka í gegnum gróðrarstöðina og upp að starfsmannahúsinu sem er skammt fyrir sunnan Þöll.