Að morgni sunnudagsins 27. september mættu rúmlega 30 sjálfboðaliðar í Vatnshlíðina, skammt frá lundinum sem helgaður er minningu hjónanna Hjálmars R. Bárðarsonar og Else Sörensen Bárðarson, til árlegrar gróðursetningar. Búið var að flytja rúmlega 1.300 skógarplöntur á staðinn og voru þær gróðursettar á tveimur tímum. Siðustu árin hafa sjálfboðaliðar úr röðum félagsmanna og fleira fólk mætt til að taka þátt í þessari skemmtilegu venju, sem hefur skapast undanfarin ár. Veðrið leit ágætlega út um morguninn, en þegar gróðursetning hófst brast á með mikilli rigningu sem breyttist von bráðar í haglél. Sjálfboðaliðarnir létu veðrið ekki slá sig út af laginu og héldu sínu striki, enda gekk verkið mjög vel. Þegar leið á morguninn braust sólin fram og geislar hennar voru fljótir ylja fólki. Dagurinn heppnaðist mjög vel í alla staði og að verki loknu söfnuðust allir saman í Selinu, höfuðstöðvum félagsins, en þar var framreidd íslensk kjötsúpa ásamt öðru góðgæti.
Halldór Þórólfsson kom í vatnsheldum sjóstakk, tilbúinn að takast á við rigninguna.