Sala jólatrjáa hefst um helgina 5. og 6. desember hjá Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Einnig er hægt að kaupa skreytingar á leiði, hurðakransa, greinar, eldivið og sitthvað fleira. Öllum sem kaupa jólatré hjá félaginu boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti. Félagsmenn annast söluna í sjálfboðavinnu eins og undanfarin ár.
Af þessu tilefni er áhugavert að rifja upp frétt sem birtist í hafnfirsku bæjarblaði fyrir jólin 1958.
Þann 17. desember 1958 afhenti Skógræktarfélag Hafnarfjarðar Barnaskólanum veglegt jólatré að gjöf, en það á allmerkilega sögu. Það voru skólabörn úr Barnaskóla Hafnarfjarðar, sem gróðursettu allmikið af plöntum í þriggja hektara reit í Undirhlíðum 1937-1939. Séra Garðar Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, afhenti Þorgeiri Ibsen, skólastjóra, jólatréð. Trén sem skólabörnin gróðursettu döfnuðu vel og voru orðin 2-4 metra há 1958 og einstaka tré náðu upp í 5 metra hæð.
Alls voru 10 tré felld fyrir jólin 1958 og eitt þeirra afhent Barnaskólanum, en báðar kirkjur bæjarins fengu tré og líka kirkjan á Bessastöðum og trjánum komið fyrir utan við kirkjurnar. Einnig var eitt tré sett upp á skyggnið fyrir ofan aðalinngan Ráðhússins. Reiturinn í Undirhlíðum var settur í umsjá Skógræktarfélagsins þegar það var stofnað 1946 og síðan hefur hann verið stækkaður allmikið. Þorgeir Ibsen skólastjóri Barnaskólans lagði til þegar tréð var afhent að skólinn stæði einum mánuði lengur fram á vor og yrði þá þessum mánuði varið til skógræktar.