Sala á jólatrjám hefst hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar fyrsta sunnudag í aðventu, 2. desember næstkomandi. Starfsmenn félagsins eru á fullu þessa dagana að velja tré og greinar úr skóginum, fella þau og og flytja allt saman heim á hlað við Selið í Höfðaskógi. Þetta er nokkuð viðamikið starf enda tekur drjúgan tíma að ganga um skógarsvæðin, velja trén og merkja þau áður en þau eru felld. Síðan þarf að koma þeim út úr skóginum og upp á bílpall og aka með þau í höfuðstöðvar félagsins við Kaldárselsveg. Þar verður trjánum stillt upp til sölu þegar þar að kemur.
Hluti trjánna sem verða til sölu koma úr skógræktarreitunum umhverfis Hvaleyrarvatn og víðar, en þó nokkur hluti kemur austan af Héraði og jafnvel frá öðrum skógarsvæðum. Mestur hluti trjánna sem koma af ræktunarsvæði félagsins fara á ákveðna staði í bænum en það er nóg til af trjám fyrir alla. Aðaláherslan er lögð á stafafuru eins og verið hefur en einnig er boðið upp á rauðgreni og blágreni og jafnvel fleiri tegundir ef þess verður óskað. Hægt verður að kaupa rótartré enda eru alltaf nokkrir sem vilja hafa lifandi tré sem hægt er að gróðursetja úti í garði þegar fer að vora. Eins undanfarin ár verður einnig hægt að kaupa stakar greinar, greinabúnt, köngla, leiðisskreytingar, borðskreytingar, hurðakransa, jólavendi og sitthvað fleira, allt unnið úr efnivið íslenskra skóga.
Árni Þórólfsson, Steinar Björgvinsson og Jökull Gunnarsson starfsmenn félagsins bera ábyrgð á því að nóg verði til af fallegum jólatrjám, en þeim til halds og trausts eru tveir af öflugustu sjálfboðaliðum félagsins, Svanur Pálsson og Þorkell Þorkelsson. Þeir hafa jafnan verið til taks þegar á hefur þurft að halda. Þeir hafa lagt félaginu til ómældar vinnustundir í sjálfboðavinnu í gegnum tíðina. Fleiri félagar koma að þessu starfi líkt og undanfarin ár og má þar til dæmis nefna Arnar Helgason, Gunnar Þórólfsson, Halldór Þórólfsson, Ásdísi Konráðsdóttur, Önnu Kristínu Jóhannsdóttur og marga fleiri, auk þess sem það fólk sem skipar stjórn Skógræktarfélagsins hverju sinni tekur fullan þátt í sölunni og sinnir auk þess öðrum verkum sem til falla hverju sinni.
Margir eru farnir að hlakka til jólanna, ekki síst smáfólkið. Fjölmargar fjölskyldur byrja jólaundirbúninginn á því að kaupa jólatré hjá Skógræktarfélaginu í desember og það er fastur liður á aðventunni að líta inn í Selið og fá sér heitt súkkulaði og piparkökur eða aðrar smákökur þegar búið er að skoða trén. Jólasalan er fyrir alla og um að gera að bregða sér rétt út fyrir byggðina til að njóta þess sem skógurinn hefur upp á að bjóða.
Helstu söludagarnir verða eftirfarandi helgar kl. 10:00 til 18:00, en einnig er hægt að koma í heimsókn í miðri viku:
Sunnudag 2. desember
Laugardag 8. desember
Sunnudag 9. desember
Laugardag 15. desember
Sunnudag 16. desember
Laugardag 22. desember